Heilbrigðisþjónusta

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 21:20:02 (2266)

     Finnur Ingólfsson :
     Virðulegi forseti. Frv. það sem hér er til umfjöllunar er flutt af heilbr.- og trn. þingsins. Um þetta mál var samkomulag í nefndinni en ástæðan fyrir því að ég tek til máls við 3. umr. frv., eftir að málið hafði farið í gegnum 1. og 2. umr. án mikillar umræðu, er að nú hafa komið fram nýjar upplýsingar inn í þingið í skýrslu sem dreift var á borð okkar þingmanna í dag og fjallar um sameiningu Borgarspítala og Landakotsspítala og þær tillögur sem þar hafa verið lagðar fram.
    Í þessari skýrslu segir, með leyfi forseta, að gert sé ,,ráð fyrir að hinn sameinaði spítali hafi til afnota það húsnæði sem Heilsugæslustöðin í Fossvogi hefur nú.`` Nái þessi tillaga skýrsluhöfunda fram að ganga þá er alveg ljóst að heilsuverndar- og heilsugæslustarf í höfuðborginni er sett í mikið uppnám. Því er útilokað annað við 3. umr. þessa máls en að gera nokkuð rækilega grein fyrir því hvaða áhrif þessi tillaga, sem þarna er lögð fram, getur haft á allt heilsuverndarstarf í Reykjavík og starfsemi heilsugæslustöðvanna. Ekki síst þegar það er haft í huga --- og sem ég hef heyrt --- að fjárln. hafi ekki gert tillögu um að breyta fjárlagafrv. í þá veru að taka inn í 6. gr. fjárlaganna það heimildarákvæði sem nú er búið að setja út en verið hefur í fjárlögum undanfarin ár. Ákvæði sem gerir ráð fyrir því í 6. gr. fjárlaga að fjmrh. hafi heimild til þess að kaupa eða taka á leigu

húsnæði fyrir heilsugæslustöðvar í Reykjavík.
    U.þ.b. 13.000 Reykvíkingar njóta ekki heilsugæsluþjónustu eða þjónustu heimilislækna. Það er því alveg útilokað að geta látið það fara fram hjá sér í þessari umræðu að slík tillaga berist inn á borð þingmanna að loka eigi einni heilsugæslustöð og einni þeirri fjölmennustu sem hér er starfandi í borginni án þess að segja neitt um málið. Það þýðir auðvitað ekki að ég sé að hlaupa frá stuðningi mínum við þetta frv. sem hæstv. heilbr.- og trn. lagði inn í þingið og formaður hennar mælti fyrir, síður en svo. Ég ætla að styðja það og vonast til að það komist hér hratt og fljótt í gegn. Ég ætla þó að segja nokkur orð um heilsuverndarstarfið í borginni og starfsemi heilsugæslustöðvanna sem ég tel vera óhjákvæmilegt.
    1. gr. frv. er tvískipt. Þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að heilsuverndarstarf í Reykjavík samkvæmt lögum nr. 44/1955 skuli haldast óbreytt til ársloka 1992 en þá skuli heilsugæslustöðvar hafa verið skipulagðar til þess að annast það. Þetta ákvæði gildir einvörðungu fyrir Reykjavík en sú hefð hefur skapast í gegnum árin að allt heilsuverndarstarf í landinu hefur notið þess, þ.e. það hefur ekki verið tekið gjald fyrir þá þjónustu sem heilsugæslustöðvarnar veita víða um land og byggt á þessu ákvæði heilsuverndarlaganna þrátt fyrir að það nái ekki nema til Reykjavíkur.
    Hinn hlutinn er sá --- og það er seinni hluti þessarar lagagreinar --- að þar er gert ráð fyrir því að sérstök þriggja manna stjórn verði skipuð af heilbr.- og trmrh. og hún starfi í umboði hans og annist rekstur Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og vinni að endanlegri gerð áætlunar um framtíðarhlutverk stöðvarinnar. Það er gert ráð fyrir því í lagagreininni að í stjórninni skuli eiga sæti einn fulltrúi ráðherra, og sá skuli jafnframt vera formaður, einn skuli skipaður samkvæmt tilnefningu Reykjavíkurborgar og einn skipaður samkvæmt tilnefningu tryggingaráðs. Hlutverk þessarar stjórnar er að koma í framkvæmd þeim tillögum sem nefnd sú sem nú hefur skilað af sér til heilbr.- og trmrh. Þær tillögur snerta framtíðarhlutverk Heilsuverndarstöðvarinnar og það stjórnarfyrirkomulag sem þar á að vera.
    Árið 1946 skipaði bæjarstjórn Reykjavíkur fimm manna nefnd til að gera tillögur um stærð og fyrirkomulag Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur. Í þá nefnd voru kjörnir á þeim tíma Jóhann Hafstein bæjarráðsmaður, Jóhann Sæmundsson prófessor, Katrín Thoroddsen læknir, Sigríður Eiríksdóttir hjúkrunarkona og Sigurður Sigurðsson berklayfirlæknir, síðar landlæknir. Hann var formaður þessarar nefndar.
     Nefnd þessi vann fljótt og vel og skilaði tillögum að mjög skömmum tíma liðnum. Tillögur nefndarinnar fólust í því að starfssvið Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur skiptist í 15 meginsvið. Það er í fyrsta lagi heilbrigðiseftirlit, í öðru lagi mæðravernd, ungbarnavernd, smábarnavernd og heilsuvernd í skólum. Það eru þessi fjögur síðasttöldu sem eru í auknum mæli að færast inn á starfsemi og inn á svið heilsugæslustöðvanna. Alls staðar um land hafa heilsuverndarstöðvar verið lagðar niður og við starfsemi þeirra hafa tekið heilsugæslustöðvar.
    Það er stefnt að því markvisst að draga úr þessari miðstýrðu þjónustu sem Heilsuverndarstöðin veitir hér í borginni og færa hana smátt og smátt á heilsugæslustöðvarnar í næsta nágrenni við fólkið sem býr í borgarhverfunum þar sem heilsugæslustöðvarnar hafa verið að rísa á undanförnum árum. Þó vantar mikið á að þeirri þörf sé enn fullnægt sem fyrir heilsugæslu og uppbyggingu heilsugæslustöðva í Reykjavík er.
    Það er hins vegar svo að Sjálfstfl. hefur staðið í vegi fyrir því að þessi uppbygging geti átt sér stað. Þegar ég segi Sjálfstfl. á ég við borgarstjórnaríhald Sjálfstfl. hér í Reykjavík með þáv. borgarstjóra og núv. hæstv. forsrh. í broddi fylkingar. Ekki alls fyrir löngu, ég held það sé rétt munað hjá mér að það hafi verið 5. des. sl., samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur tillögu frá einum varaborgarfulltrúa Sjálfstfl. sem gerði ráð fyrir því

að þessu miðstýrða fyrirkomulagi skyldi enn haldið áfram. En þó --- á þessum fundi var einnig samþykkt að stuðla að því og skora á ríkisstjórnina að koma inn í 6. gr. fjárlaga heimild sem væri hægt að byggja á til að byggja upp heilsugæslustöðvar í Reykjavík sem er hlutverk ríkisins í dag.
    Einnig var gert ráð fyrir því í þessum upphaflegu tillögum að verksvið Heilsuverndarstöðvarinnar yrði eftirlit með íþróttamönnum, berklavarnir, sóttvarnir, þrifadeild, vinnuvernd, manneldisrannsóknir, geðvernd, tannvernd, ljósaböð og ýmiss konar fræðslustarfsemi. Einnig var gert ráð fyrir því að borgarlæknir eða héraðslæknirinn í Reykjavík, sem svo heitir nú, hefði aðsetur í Heilsuverndarstöðinni. Það er dálítið merkilegt að flestallt af því sem þarna var lagt til árið 1946 er við lýði enn í dag og Heilsuverndarstöðin sinnir þessum verkefnum að stórum hluta þrátt fyrir að hún hafi ekki tekið til starfa fyrr en nokkuð mörgum árum seinna eða árið 1957 og var formlega vígð það ár.
    Eins og ég sagði áðan hefur þessari þjónustu í Reykjavík enn ekki verið komið út á heilsugæslustöðvarnar til fólksins. Aftur á móti hafa Reykvíkingar þurft að sækja þessa þjónustu á einn stað sem í sjálfu sér er kannski viðunandi ef menn gera ekki meiri kröfur en þær að upp á þjónustuna sé boðið. Það hefur, eins og ég sagði áðan, fyrst og fremst staðið á sjálfstæðismeirihlutanum í Reykjavík að leita eftir fjárveitingum til uppbyggingar heilsugæslustöðva og hann hefur viljað halda hér í tvö kerfi, þ.e. annars vegar kerfi sjálfstætt starfandi heimilislækna, sem veita mjög takmarkaða þjónustu, og hins vegar kerfi heilsugæslustöðva. Það er náttúrlega öfugnefni að kalla sjálfstætt starfandi heimilslækna ,,sjálfstætt starfandi`` af þeirri ástæðu að þeir fá hverja einustu krónu, sem fer í rekstur læknastofa þeirra sem þeir reka, greidda frá ríkinu. Þeir fá launagreiðslur beint frá ríkinu, líkt og heilsugæslulæknar, sem eru á föstum launum hjá heilsugæslustöðvunum eða hjá ríkinu, þeir fá greitt fyrir hvert verk sem þeir vinna, líkt og heilsugæslulæknar sem starfandi eru á heilsugæslustöðvunum. Ríkið ber nú allan rekstrarkostnað heilsugæslustöðvanna, Tryggingastofnun ríkisins greiðir allan rekstrarkostnað þeirra stofa, sem sjálfstætt starfandi heimilislæknar reka, með svokallaðri c-liðar greiðslu. Þessu til viðbótar fá þeir einnig greidd ein mánaðarlaun fyrir ritara sem starfandi er á þessum læknastofum hjá þeim. Þannig er í raun og veru enginn munur á þessu fyrirkomulagi, þessu tvöfalda fyrirkomulagi, sem rekið er hér í Reykjavík að öðru leyti en því að sjálfstætt starfandi heimilislæknar veita takmarkaðri þjónustu en heilsugæslustöðvarnar bjóða upp á. Af því að þetta tvöfalda kerfi hefur verið rekið hér í borginni hefur ekki verið hægt að leggja af það heilsuverndarstarf sem er á Heilsuverndarstöðinni og er þaðan miðstýrt.
    Það er hins vegar svo að nefndinni, sem ég minntist á fyrr að gert væri ráð fyrir að skipuð yrði, ef þetta frv. til laga um heilbrigðisþjónustu fer í gegn, er ætlað að hrinda í framkvæmd þeim tillögum sem nefnd sú sem nú er að láta af störfum hefur lagt fyrir heilbrrh. Ég gerði reyndar athugasemd við það strax í nefndarstarfi heilbr.- og trn., án þess að ég vildi vera að gera ágreining í nefndinni, að mér fyndist óeðlilegt að það þyrfti að endurskipa þessa nefnd sem hefur farið þetta ár með stjórn Heilsuverndarstöðvarinnar og séð um tillögugerðina. Ég skil í raun og veru ekki alveg hver er ástæðan fyrir því en það mun auðvitað koma í ljós þegar fram líða stundir hvort hæstv. heilbrrh. kemur til með að endurskipa nefndina eða ekki og þá hvaða ástæður þar hafa legið að baki. Ég tel að í þessari nefnd hafi verið prýðisfólk og starfað af miklum heilindum, enda sýni tillögurnar það. En það er rétt að taka það fram að þeir sem nefndina skipuðu voru Guðjón Magnússon, skrifstofustjóri í heilbr.- og trmrn., sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Guðrún Guðmundsdóttir, sem tilnefnd var af tryggingaráði og er læknir, og Ólafur F. Magnússon, sérstakur ráðgjafi og hugmyndafræðingur Sjálfstfl. í Reykjavík í heilbrigðismálum og var hann tilnefndur af borgarstjórn.

    Ég ætla að gera hér lítillega grein fyrir þeim tillögum sem þessi stjórn hefur lagt fyrir heilbrrh. því ég tel, eins og ég hef sagt áður, að þær séu býsna merkilegar. Ég tel það mikið framfaraspor ef ríkisstjórninni og hæstv. heilbrrh. tekst að hrinda þeim í framkvæmd, því ber að fagna auðvitað sérstaklega. Með þessum tilllögum er gert ráð fyrir því að draga úr miðstýringu þjónustunnar, sem nú er veitt á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur, en að færa þeirri stofnun víðtækara og í raun miklu merkilegra hlutverk heldur en hún hefur í dag og hefur haft og er það þó ærið merkilegt sem sú stofnun hefur verið að gera á undanförnum árum. Ég held ég verði, með leyfi forseta, þetta er ekki langt, að fá hér að vitna í tillögur nefndarinnar, en þar segir:
    ,,Samstaða er um í stjórninni að leggja til að áfram verði starfrækt heilsuvernd í húsnæði Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur. Leggur stjórnin til að hafist verði handa um að gera áætlun um að flytja sjúkradeild úr húsinu og að því verði lokið fyrir árslok 1993. Að árið 1992 verði eins konar millibilsár þar sem unnið verði að nauðsynlegum breytingum og flutningi en að frá ársbyrjun 1993 haldi rekstur Heilsuverndarstöðvarinnar áfram með nýju og víðtækara hlutverki.``
    Síðan er því lýst. Í fyrsta lagi heilsuverndarþjónusta samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Þar er beinlínis gert ráð fyrir því að úr verkefnum þeim, sem Heilsuverndarstöðin hefur haft og sérstaklega snúa að Reykjavík, verði dregið og þau heilsuverndarverkefni flutt út á heilsugæslustöðvarnar en hún fái yfirumsjónarhlutverk, samræmingar- og skipulagshlutverk, í allri heilsuverndarstarfsemi í landinu.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir yfirstjórn með heilsuverndarstarfi í landinu og samræmingu þeirra verkefna og þróun heilsuverndarstarfs á heilsugæslustövunum. Rannsóknir og kennsla heilbrigðisstétta á sviði heilsuverndar verði aukin og það verði hlutverk þessarar stofnunar.
    Síðan er gert ráð fyrir því að verksvið einstakra starfsþátta, sem þarna verða framkvæmdir verði inni á Heilsuverndarstöðinni. Í upphafi er gert ráð fyrir því að þarna verði barna- og unglingadeild, mæðradeild, skólaheilsugæsludeild, vímuefnadeild, kynfræðsludeild og heimahjúkrunardeild til að byrja með sem sérstaklega sinni verkefnum Reykjavíkur. Þegar heilsugæslustöðvarnar hafa risið mun það verða eitt af þeirra hlutverkum að sinna heimahjúkrunarstarfinu. Atvinnu- og umhverfisdeild, tóbaksvarna- og lungnadeild, slysavarna- og íþróttadeild, manneldisdeild, Cindy-verkefnið, tannverndardeild, fræðslu- og námsefnisdeild, bókasafn, almenn skrifstofa og upplýsingaþjónusta.
    Þarna er í raun og veru verið að flytja mjög mikið af þeim verkefnum sem núna eru í heilbr.- og trmrn. út til þessarar stofnunar. Þarna er verið að leggja til að byggð verði upp í landinu raunveruleg forvarnastofnun. Þau verkefni, sem flytjast út, eru manneldismálin, sem hafa verið til skamms tíma sérstök deild í ráðuneytinu, Cindy-verkefnið, sem er sérstakt alþjóðlegt verkefni á sviði slysavarna, tannverndardeild, sem sérstaklega er starfandi í heilbr.- og trmrn. nú, fræðslu- og námsefnisdeild og það bókasafn, sá litli vísir að bókasafni sem er til í heilbrrn. flyst yfir á þá forvarnastofnun sem þarna er gert ráð fyrir.
    Í tillögum nefndarinnar er gert ráð fyrir því að starfsemin skiptist í tvö meginsvið. Annars vegar fjölskyldusvið, þar sem verða fjölskylduheilsuverndin, og hins vegar samfélagssvið, sem sé hin samfélagslega heilsuvernd. Síðan skiptir stjórn Heilsuverndarstöðvarinnar þessum verkþáttum upp í þessi svið. Þá falla undir fjölskyldu- og heilsuverndarsviðið barna- og unglingadeild, mæðradeild, vímuefnadeild, skólaheilsugæsludeild, kynfræðsludeild og heimahjúkrunardeildin á meðan hún er starfandi.
    Á samfélagssviðinu verða atvinnu- og umhverfisdeild, tóbaksvarna- og lungnadeild, slysavarna- og íþróttadeild, manneldisdeild, tannverndardeild, Cindy-verkefnið og síðan eru

auðvitað sameiginleg verkefni sem undir forstjóra heyra.
    Ég vil ekki, virðulegi forseti, tefja umræðuna með því að gera nákvæma grein fyrir því hvað hvoru sviði um sig er ætlað að gera og hverri deild innan sviðsins er samkvæmt þessum tillögum ætlað sem hlutverk. Ég legg áherslu á það að með þessum tillögum sem þarna hafa verið mótaðar er verið að breyta nokkuð því hlutverki sem Heilsuverndarstöð Reykjavíkur hefur haft og fá henni, eins og ég sagði áðan, merkilegra og mikilvægara hlutverk en hún hefur þó haft.
    Þá kunna menn auðvitað að spyrja: Af hverju að taka þetta upp við þessar aðstæður þegar menn þurfa að hraða sínum störfum og þá undir þessum lið um frv. til laga um heilbrigðisþjónustu? Ástæðan er sú að ég er að leggja áherslu á að það er verið að breyta hlutverki Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur. Ástæðan fyrir því að ég tek þetta hér til umræðu er sú að tillaga þeirrar nefndar, sem fjallaði um sameiningu Borgarspítala og Landakotsspítala, gerir ráð fyrir því að loka einni heilsugæslustöðinni í Reykjavík á næsta ári. Ég er að sýna fram á að það er útilokað að ætlast til þess af Heilsuverndarstöðinni að hún taki við þeim verkefnum sem þessi heilsugæslustöð, sem gert er ráð fyrir að loka, eigi að hafa með höndum. Þar að auki er beinlínis ekki gert ráð fyrir því í 6. gr. heimildinni á fjárlögum að hægt sé að taka á leigu eða kaupa húsnæði undir heilsugæslustöðvar í Reykjavík. Með þessu eru menn því miður, ef þær tillögur sameiningarnefndar þessara tveggja sjúkrahúsa ná fram að ganga, að setja heilsugæslumálin í Reykjavík í enn erfiðari aðstöðu en þau eru þó í í dag. Enn vantar 13.000 Reykvíkinga að komast inn hjá heimilis- og heilsugæslulæknum í borginni.
    Í júlí á þessu ári óskaði hæstv. heilbr.- og trmrh., Sighvatur Björgvinsson, eftir því við samstarfsráð heilsugæslustöðvanna í Reykjavík að það gerði tillögur um það með hvaða hætti og hvernig skuli staðið að því að byggja upp heilsugæsluna í Reykjavík. Samstarfsráð þetta er nokkuð umdeilt og íhaldið í borgarstjórn Reykjavíkur hefur sérstaklega horn í síðu þessa samstarfsráðs af því hvernig það er skipað, ekki af því hvaða hlutverk það hefur, heldur af því hvernig það er skipað. --- ( Gripið fram í: Er það ekki ágætlega skipað?) Það er ákaflega vel skipað. Það er skipað einvala framsóknarmönnum eftir því sem ég best veit, a.m.k. voru þeir það allir þegar ég síðast vissi, að frátöldum héraðslækninum í Reykjavík sem er ef ég man rétt formaður Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur. Hann á reyndar stutt eftir, vonast ég til, yfir á réttan kjöl í réttan flokk, og svo formanni Heilsuverndarstöðvarinnar sem ég ætla ekki að gerast svo djarfur að staðsetja nákvæmlega í stjórnmálaflokki hér, en hann er skrifstofustjóri í heilbr.- og trmrn.
    Þetta er einmitt meginverkefni þessa samstarfsráðs heilsugæslustöðva í Reykjavík, að vera samráðs- og samstarfsvettvangur heilsugæsluumdæmanna sem nú eru orðin fjögur. Það var því ærið verkefni sem hæstv. heilbrrh. fól þessu ágæta samstarfsráði. Þann 25. okt. skilaði samstarfsráðið af sér þeim tillögum sem það hafði í samvinnu við stjórnir allra umdæmanna komist að samkomulagi um að væri eðlileg uppbygging á heilsugæslustöðvum í Reykjavík.
    Nú verð ég, með leyfi forseta, að gera örlitla grein fyrir því hvernig þetta samstarfsráð í samvinnu við stjórnir heilsugæsluumdæmanna komst að því að eðlilegast væri að standa að þessari uppbyggingu. Í lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, er í fyrsta skipti gert ráð fyrir því að í Reykjavík séu starfrækt fjögur heilsugæsluumdæmi. Með þessum lögum og reyndar nokkru áður, með þeirri breytingu sem gerð var á lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga var öll heilsugæslan í landinu færð yfir á ábyrgð og umsjón ríkisvaldsins frá sveitarfélögunum. Það má endalaust deila um það hvort þarna hafi verið rétt að verki staðið. Ég er sannfærður um það að þarna var rétt spor stigið. Ég er sannfærður um að svo sé þegar ég sé í hvaða farveg heilsugæslumálin í höfuðborginni hafa

farið eftir að losað var um kverkatak íhaldsins á þeim málaflokki hér í Reykjavík.
    Á meðan Sjálfstfl. réð heilsugæslumálunum í Reykjavík voru fáar heilsugæslustöðvar starfandi. Yfir þeim var ein stjórn sem hét heilbrigðismálaráð Reykjavíkur. Þetta heilbrigðismálaráð gat í raun og veru engar ákvarðanir tekið einfaldlega vegna þess að allar þær ákvarðanir þess varð að bera undir borgarstjórann í Reykjavík og borgarráð áður en þær tóku gildi. Ég held að þeir sem þekkja hvernig þetta var upp byggt sjái hversu ofboðsleg miðstýring fólst í þessu. En sú breyting sem gerð var á verkaskiptalögunum, heilsugæslan færð yfir til ríkisins, og síðan þeim breytingum sem gerðar voru á heilbrigðisþjónustulögunum árið 1990, þar sem borginni var skipt upp í fjögur heilsugæsluumdæmi, varð einnig til þess að völd og verkefni, sem áður voru inni í heilbrrn. og inni á borði borgarstjórans í Reykjavík, voru nú á einu bretti færð út til stjórna sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðva. Ákvarðanir um mannaráðningar, sem áður voru í heilbrigðismálaráðinu og öðluðust ekki gildi fyrr en borgarstjórinn fyrrverandi, hæstv. núv. forsrh. Davíð Oddsson, hafði lagt stimpil sinn á hvern einasta ráðningarsamning. Nú er þetta hjá stjórn viðkomandi stöðva. Ákvarðanir um öll tækjakaup, hversu smá eða stór þau voru, gátu ekki farið fram fyrr en borgarstjórinn hafði veitt samþykki sitt með því að stimpla fundargerðina frá heilbrigðismálaráðinu og þannig mætti lengi telja.
    Þarna verður sem sagt veruleg breyting á. Þessi fjögur umdæmi sem borginni var skipt upp í um heilsugæsluna bera nú ekki sérstaklega falleg nöfn og segja kannski ákaflega lítið um það hvar þau eru starfandi, en ég vil þó nefna að þessi umdæmi heita: Vesturbæjarumdæmi, Miðbæjarumdæmi og síðan er hins vegar Austurbæjarumdæmi skipt í tvo svæði, Austurbæjarumdæmi nyrðra og syðra. Í Vesturbæjarumdæmi eru starfandi tvær heilsugæslustöðvar, Heilsugæslustöð Miðbæjar að Vesturgötu 7. Á því svæði eru íbúar 13.000 og rúmlega það. Það er tiltölulega ný stöð og að henni er mjög vel búið. Í Vesturbæjarumdæmi er einnig starfandi Heilsugæslustöð Hlíðasvæðis í Drápuhlíð 14. Á því svæði eru 9.822 íbúar. Sú stöð er í algjörlega óviðunandi húsnæði. Húsnæði sem borgin á og var algjörlega til bráðabirgða fyrir starfsemina enda hefur héraðslæknirinn í Reykjavík gefið út vottorð um að húsnæði stöðvarinnar sé heilsuspillandi og því ekki forsvaranlegt að flytja ungbarnaeftirlitið og mæðraskoðunina frá Heilsuverndarstöðinni inn í þetta húsnæði. Þarna er ljóst að nauðsynlegt er að flytja starfsemina. Það er merkilegt að þetta er kannski það umdæmi borgarinnar sem best er að búið, þrátt fyrir að önnur stöðin á svæðinu sé í heilsuspillandi húsnæði.
    Í Miðbæjarumdæmi eru nú tvær heilsugæslustöðvar, Heilsugæslustöðin í Fossvogi, sem er í 300 fermetra húsnæði og nefnd sú sem heilbrrh. skipaði, um sameiningu sjúkrahúsa, leggur til að verði rekin þaðan út. Á þessu svæði eru rúmlega 11.000 íbúar. Heilsugæslustöðin býr við algjörlega óviðunandi húsakost og það liggur beint við að flytja þarf stöðina út úr þessu húsnæði. En það verða þá auðvitað að vera til úrræði í lögum til þess að hægt sé að koma stöðinni fyrir annars staðar. Og þessi ríkisstjórn og fjárln., ef ég veit rétt og hef þær upplýsingar sem ég treysti, gerir ekki ráð fyrir því í 6. gr. að opna fyrir þann möguleika að hægt sé að taka á leigu eða kaupa húsnæði undir þessa starfsemi. Er þá í raun verið að reka stöðina út án þess að möguleiki sé á að koma henni inn annars staðar.
    Heilsugæslustöðin í Laugarnesi er staðsett í Álftamýri 5. Hún er alveg ný og tók til starfa um síðustu áramót og er að því leyti merkileg --- og sýnir að þeir sem þurft hafa á undanförnum árum að starfa í því kerfi sem Reykjavíkurborg hefur viljað hafa í heilsugæslumálum, þessu kerfi sjálfstætt starfandi heimilislækna, eru uppgefnir á að starfa í þessu þjónustusnauða heilsuverndarkerfi sem sjálfstætt starfandi heimilislæknar hafa þurft að starfa í. Vegna þess að þetta hét áður Heilsugæslan í Álftamýri. Um leið og þeir losnuðu úr þeirri

pressu sem því fylgdi að starfa undir þeim járnaga og því þunga aðhaldi sem heilbrigðisráð Reykjavíkur veitti óskuðu þeir sjálfir eftir því að þeirri starfsemi, sem þeir ráku og flokkuðu sig undir sjálfstætt starfandi heimilislækna, yrði breytt í heilsugæslustöð. Og það var gert um síðustu áramót. Það sem er merkilegt við það er að með þeirri breytingu og þeim samningi sem þar var gerður var algjörlega farið inn á nýjar brautir og tilraun gerð með nýtt rekstrarfyrirkomulag í heilsugæslunni í Reykjavík. Ríkið gerði sérstakan samning við starfsfólk þessarar stöðvar um kaup á tækjum og búnaði og því húsnæði sem stöðin var starfandi í. Og síðan gerði ríkið sérstakan þjónustusamning sem gerði ráð fyrir því að þeir aðilar, sem starfa á stöðinni, tækju að sér að veita þjónustu á sviði heilsuverndar og heilsugæslu og fengju fyrir það ákveðna krónutölu á ári hverju. Með þessu er verið að reyna nýtt rekstrarfyrirkomulag og eftir því sem ég best veit þá hefur það tekist mjög vel.
    Þriðja heilsugæsluumdæmið hér í borginni er Austurbæjarumdæmi syðra. Þar er gert ráð fyrir að starfandi séu tvær heilsugæslustöðvar. Heilsugæslustöðin í Efra-Breiðholti, sem er í alveg nýju húsnæði og á því svæði eru rúmlega 10.500 íbúar, og Heilsugæslustöðin í Mjódd sem tók til starfa um mitt þetta ár. Þar gildir það sama og með Heilsugæsluna í Álftamýri að þeir læknar sem starfandi voru uppi Mjódd voru guðs lifandi fegnir að losna úr því kverkataki sem íhaldið hefur haft á heilsugæslunni í Reykjavík. Þeir komu einnig og óskuðu eftir því að þeirra starfsemi yrði breytt í heilsuverndar- og heilsugæslustarfsemi. Það var gert með sérstökum samningi og um leið var 6. gr. ákvæðið nýtt, sem þá hafði verið undanfarin tvö ár inni í fjárlögum, og keypt var húsnæði undir þá starfsemi sem þar á að verða í framtíðinni.
    Eftir því sem ég veit best er gert ráð fyrir því að í fjárlagafrv. fyrir árið 1992 og kom hér fram við 2. umr., séu 50 millj. kr. áætlaðar á fjárfestingarlið í heilsugæslu- og læknisbústöðum frv. til þess að innrétta og koma af stað starfsemi í þessu húsi. Og því ber auðvitað að fagna alveg sérstaklega.
    En þetta sýnir, svo ekki verður um villst, að þegar óskirnar koma frá fólkinu sem starfandi er við þessa starfsemi hefur verið búið að þrengja hér verulega að.
    Síðan er það Austurbæjarumdæmi nyrðra en þar eiga að vera starfandi tvær heilsugæslustöðvar. Það umdæmi er langverst sett af öllum umdæmunum í borginni. Ein heilsugæslustöð er í Árbæ í 600 fermetra húsnæði á tveimur hæðum og íbúafjöldi í Árbæ eru 8.000. Stöðin hefur reynt að þjóna Grafarvogi en þar eru íbúar orðnir um 5.000. Núna hefur orðið að loka fyrir nýskráningar inn á heilsugæslustöðina af því hversu illa er að búið á þessu svæði. Gert er ráð fyrir því að starfandi verði heilsugæslustöð í Grafarvogi. Hins vegar er það svo að síðan í júní hefur legið fyrir ósk frá samstarfsráðinu og stjórn heilsugæsluumdæmisins um að fá að taka á leigu húsnæði fyrir heilsugæslustöð í Grafarvogi. Núna fyrst fyrir tveimur dögum, þegar stjórn þess umdæmis átti fund með hæstv. heilbr.- og trmrh., fékkst úr því skorið að fyrir áramót --- og ég vonast til að það verði fyrir áramót --- verði tekið á leigu húsnæði sem í boði hefur verið og þannig verði vonandi hægt að sinna þörfum Grafarvogsbúa á næsta ári hvað þetta snertir.
    En þá kem ég að tillögunum sem samstarfsráðið lagði fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. 25. okt. Það kemur mér því mjög á óvart að ekki skuli hafa komið inn við 2. umr. fjárlaga þetta ákvæði í 6. gr. að haldið skyldi áfram samkvæmt því að byggja upp heilsugæsluna í höfuðborginni. En tillögurnar hljóðuðu þannig:
    Í fyrsta lagi er lögð á það áhersla að strax verði heimilað að taka á leigu húsnæði til bráðabirgða að Hverafold 1 undir rekstur heilsugæslustöðvar í Grafarvogi þannig að hægt sé að hefja starfsemi þar í janúar 1992. Áhersla er lögð á að erindi um þetta sé í athugun í heilbr.- og trmrn.
    Í öðru lagi að kannaðir verði möguleikar á staðsetningu heilsugæslustöðvar á efri hæð verslanahússins Grímsbæjar við Bústaðaveg sem gæti tekið til starfa í upphafi árs 1993.
    Í þriðja lagi að hafinn verði undirbúningur að því að flytja heilsugæsluna, sem nú er til húsa í Drápuhlíð 14, í nýtt húsnæði. Til greina kemur að fá á leigu eða til kaups húsnæði að Háteigsvegi 1. Ég gerði grein fyrir því hér áðan að heilsugæslustöðin í Drápuhlíð 14 er í heilsuspillandi húsnæði og vottorð um það hefur héraðslæknirinn í Reykjavík gefið út.
    Í fjórða lagi er lögð áhersla á að gengið verði til samninga um uppbyggingu á nýrri heilsugæslustöð fyrir Árbæjar- og Selás- og Ártúnsholtshverfi. Lóð er til staðar en það sem skiptir þó mestu er að húsnæði það sem heilsugæslan er nú í er í algjörlega ófullnægjandi húsnæði.
    Í fimmta lagi er gert ráð fyrir því í þessum tillögum að hafinn verði undirbúningur að hönnun nýrrar heilsugæslustöðvar fyrir Grafarvogs- og Borgarholtshverfi sem gæti tekið til starfa eftir því sem hverfin byggjast upp í Grafarvogi. En það er nú svo merkilegt að nú þegar er orðin í kringum 5.000 manna

byggð í Grafarvogi. Og engin heilsugæslustöð er þar starfandi og engin áform eru uppi um að byggja þar upp nokkurn skapaðan hlut --- nema þá að þessi leigusamningur fáist, staðfestur af fjmrn., sem ég vitnaði í áðan og fyrirheit eru um af hálfu hæstv. heilbr.- og trmrh. að komi til framkvæmda.
    Í sjötta og síðasta lagi er lögð áhersla á að hafinn verði undirbúningur að hönnun heilsugæslustöðvar fyrir Voga- og Heimahverfi sem tæki til starfa árið 2000. Þannig eru þessar tillögur samstarfsráðsins tímasettar. Þeim er raðað upp í forgangsröð og geta ekki verið skýrari fyrir ríkisstjórn og hæstv. heilbr.- og trmrh. Og það sem meira er er að um þessar tillögur er algjör samstaða. Ekki er aðeins samstaða í þessu pólitískt skipaða samstarfsráði, eins og íhaldsmeirihlutinn í Reykjavík lætur liggja að, heldur líka í stjórnum allra heilsugæslustöðvanna, þar sem borgarstjórn Reykjavíkur á meiri hluta af öllum stjórnarmönnum. Þrír af hverjum fimm stjórnarmönnum í stjórnum heilsugæslustöðvanna eru tilnefndir af borgarstjórn Reykjavíkur.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú í 3. umr. um heilbrigðisþjónustu gert ítarlega grein fyrir þeirri áherslu sem lögð er á í uppbyggingu heilsugæslu hér í borginni. Eins og ég sagði áðan er ástæðan fyrir því að ég vel að gera þetta hér og nú sú að þessi tillaga, sem hér er gerð af þeirri nefnd sem á að hafa það hlutverk að sameina sjúkrahúsin í Reykjavík um að reka Borgarspítala eða Heilsugæslustöðina í Fossvogi út úr Borgarspítalanum, mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir heilsugæslustarfið í Reykjavík. Nú kann vel að vera að mönnum finnist ástæðulaust að fjalla sérstaklega um heilsugæslu og heilsuverndarstarf í Reykjavík. Ég þykist viss um að það hefur ekki tíðkast eða viðgengist í umræðu á undanförnum árum að þingmaður eða þingmenn Reykvíkinga standi hér upp og tali sérstaklega fyrir uppbyggingu heilsugæslunnar í Reykjavík. En ég tel þó nauðsynlegt að taka þann tíma sem ég hef gert í þessa umræðu og ég tel það ekki minna virði fyrir þingið og þá sem hér sitja að vita að það eru ýmsir erfiðleikar í heilbrigðismálum í Reykjavík. Það eru 13.000 Reykvíkingar sem ekki komast inn eða geta skráð sig hjá heimilislæknum eða komist inn á heilsugæslustöðvar. Það eru 260--300 Reykvíkingar sem bíða eftir því að komast inn á hjúkrunarheimili í borginni. Þetta er lengsti biðlisti í nokkru kjördæmi. Í þessu fjárlagafrv. bólar ekki á neinum tillögum um úrlausn fyrir þennan hóp. Og ég vonast til þess, hæstv. forseti, að hér sé ekki verr farið með tíma þingsins í umræðum um vandamál Reykvíkinga og það af stjórnarandstöðuþingmanni, en bara af hv. stjórnarþingmönnum. (Grip ið fram í: Hvar er ráðherrann?) Ég hef ekki hugmynd um hvar ráðherrann er enda skiptir það engu máli. Hv. þm. er með allar þessar tillögur í höndunum og ef vilji er fyrir hendi á hann að geta framkvæmt þær. Og ég trúi því að það sé vilji af hálfu hæstv. heilbr.- og trmrh. að ýta þessu í framkvæmd. Ég veit hins vegar að hann er í samstarfi við þannig flokk og er auðvitað beygður af íhaldinu í þessu máli og treystir sér þess vegna ekki til að leggja það til að í 6. gr. fjárlaga komi heimild til þess að byggja upp hér í Reykjavík. En ég vonast til, hæstv. forseti, eins og ég sagði, að þessum dýrmæta tíma sem við höfum nú hér fram til jóla, sé ekki verr varið í umræður um vandamál Reykjavíkur en vandamál þau sem blasa við austur á Höfn í Hornafirði og stjórnarliðar innbyrðis tóku sér drjúgan tíma í að rífast um hvernig ætti að meðhöndla brtt. við fjárlagafrv. frá hv. þm. Agli Jónssyni. Ég vonast þannig til þess, virðulegi forseti, að ekki verði litið svo á að hér sé um eitthvert málþóf af hálfu stjórnarandstöðunnar að ræða, þó svo að þingmaður Reykvíkinga standi hér upp við 3. umr. og geri örlítið grein fyrir vandamálum Reykjavíkur.