Heilbrigðisþjónusta

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 22:10:00 (2267)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Herra forseti. Mig langar til að byrja á því að taka hér undir síðustu orð hv. 11. þm. Reykv., Finns Ingólfssonar. Hann sagði að ekki væri minna virði og ekki síður mikilvægt að ræða hér á Alþingi um ástand mála í Reykjavík, ekki síst í heilbrigðismálum, en ýmislegt sem varðar landsbyggðina. Þó ég ætli ekki að draga úr mikilvægi þess að ræða þá hluti sem lansbyggðina varðar, er ekki síður mikilvægt að ræða ýmislegt sem Reykjavík varðar. Af því að ég hef setið í borgarstjórn Reykjavíkur verð ég að segja að mér fannst stundum meðan ég var þar eins og Reykjavík ætti afskaplega fáa þingmenn. Þingmenn Reykjavíkur væru eiginlega eins og landskjörnir þingmenn og aðrir þingmenn væru kjördæmaþingmenn. Því miður finnst manni eins og málefni sem brenna sérstaklega á Reykvíkingum fái oft og tíðum lítinn tíma á Alþingi. Ég veit að ég er ekki ein með þá skoðun af því fólki sem setið hefur í borgarstjórn Reykjavíkur. Ég man ekki betur en hæstv. forsrh. hafi einhvern tímann látið eitthvað svipað sér um munn fara.
    Það frv. sem er hér til 3. umr. er árviss atburður. Það er líklega álíka árvisst og það að það koma jól og áramót og páskar, því að þetta gerist alltaf á Alþingi rétt fyrir jól og hefur líklega gerst allt frá árinu 1983 að lagt er fram frv. um að fresta tilteknum ákvæðum í lögum um heilbrigðisþjónustu hvað Reykjavík varðar. Að þessu sinni stendur öll heilbr.- og trn. að þessu frv. og á jafnt við um stjórnar- sem stjórnarandstöðuþingmenn og þar af leiðandi stend ég að því líka. Ástæðan er auðvitað sú að við verðum að taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti. Reykjavík er ekki í stakk búin til þess að starfa af fullum krafti eftir lögum um heilbrigðisþjónustu eins og þau eru. En þótt maður verði að taka þessu eins og hverju öðru

hundsbiti er engin ástæða til þess að gera það umyrðalaust. Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að nota tækifærið til þess að vekja athygli á því hvernig mál standa í Reykjavík.
    Lögin um heilbrigðisþjónustu, sem er verið að fresta gildistöku á að hluta til í Reykjavík, eru að stofni til frá 1983 og hafa aldrei tekið að fullu gildi í höfuðborginni. Með þessu móti hefur réttur Reykvíkinga verið skertur. Hann hefur verið skertur og þar er við ýmsa að sakast, ekki neinn einn einstakan. Ríkisvaldið hefur verið afskaplega spart í fjárveitingum sínum til uppbyggingar heilsugæslustöðva í Reykjavík. En líka er við hringlandahátt í heilbrigðisráði Reykjavíkurborgar að sakast og ekki síst hringlandahátt í borgarstjórn Reykjavíkur en meiri hlutinn þar hefur aldrei vitað í hvorn fótinn hann ætti að stíga í heilsugæslumálum og hafi hann sett aðra löppina fram þá hefur hann dregið hina. Þar af leiðandi hefur aldrei verið beitt fullum þunga af hálfu borgarstjórnar Reykjavíkur við ráðuneytið og við heilbrrh. Margar nefndir hafa verið settar í málin í Reykjavík sem áttu að skoða önnur rekstrarform, aðra valkosti, aðrar leiðir. Nefndirnar hafa í rauninni engu skilað nema frestun á málinu og frestunin hefur komið verst niður á Reykvíkingum sjálfum. Þar af leiðandi hlýt ég að segja að meiri hlutinn í borgarstjórn hefur ekki gætt hagsmuna Reykvíkinga í þessu máli. Nú þykir mér auðvitað miður að hæstv. forsrh. og fyrrv. borgarstjóri í Reykjavík skuli ekki vera hér til þess að verja hendur sínar því það er ekki síst á hans ábyrgð að svona hefur farið þar.
    Ástæðan fyrir því að þeir vildu setja nefndir til að kanna aðrar leiðir og önnur rekstrarform er sú að þeir hafa trúað mjög stíft á samkeppni í heilbrigðismálum eins og öðru og það væri mikilvægt að geta borið saman ólíkar rekstrarleiðir. Það var, eins og Finnur Ingólfsson drap á, reynt að setja á stofn heilsugæslu í Álftamýri með sjálfstætt starfandi læknum sem gerðu sérstakan rekstrarsamning við borgina en nú hafa þessir læknar sem sagt kosið að fara inn í það kerfi sem viðgengst annars staðar, þ.e. að gerast heilsugæslulæknar á heilsugæslustöð.
    Af því að ég er að tala um samkeppni í þessum málum þá rakst ég á athyglisverða grein í Morgunblaðinu í gær eftir Sigurbjörn Sveinsson sem er formaður Félags íslenskra heimilislækna. Þar er hann einmitt að fjalla um samkeppnina og fjölbreytnina og bendir réttilega á, og mig langar til að lesa örlítinn kafla úr grein hans, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sagt hefur verið að fjölbreytnin sé dyggð. Þetta á vel við í heilsugæslunni. Heilsugæslustöðvunum er sett sama mark í lögum. Þær standa á sama grunni faglega. Hins vegar hefur starfsfólk hverrar og einnar heilsugæslustöðvar fullt frelsi til að þróa þjónustuna eins og þeim þykir henta til að mæta þörfum skjólstæðinga sinna. Starfsfólk heilsugæslustöðvanna ber mjög saman bækur sínar og skiptist á skoðunum um fagleg efni. Það er ljóst að nú þegar ríkir umtalsverð samkeppni milli stöðvanna, sem rís á heilbrigðum, faglegum metnaði. Fellur það vel að þeim hugmyndum um opinberan rekstur, sem nú ráða í þjóðfélaginu. Þetta mun vonandi skila borgurunum betri þjónustu þegar til lengri tíma er litið.``
    Með öðrum orðum er verið að segja þarna að það er hægt að koma upp heilbrigðri, faglegri samkeppni í heilbrigðisþjónustunni án þess að verið sé sífellt að hringla með rekstrarform eða án einhverrar ofurtrúar á mátt einkavæðingar og einkareksturs.
    En eins og ég sagði hefur hringlandaháttur ríkt í þessum málum í Reykjavík og orðið er mjög brýnt að taka í taumana. Ég vona svo sannarlega að nýr heilbrrh. gerist eins kraftmikill í þeim málum og hann hefur verið á ýmsum öðrum vígstöðvum og þó þar hafi hann stundum farið, eins og ég hef áður sagt, eins og um væri að ræða fíl í glervöruverslun, þá vona ég að hann fari með mildari hætti í heilsugæslumálunum.
    Við erum að fresta því að ákveðin ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu taki gildi. Þetta eru lög sem Alþingi hefur samþykkt og hefur mótað stefnu í þessum málum. Framkvæmdarvaldinu ber að framfylgja þeirri stefnu og þess vegna ber því að flýta uppbyggingu heilsugæslu í Reykjavíkurborg. Það er ekki hægt að kenna því um núna að sveitarfélag og ríkisvald hendi málinu á milli sín því að nú er þetta mál á einni hendi, þ.e. það er á hendi ríkisvaldsins og það ætti auðvitað að einfalda framkvæmdina til mikilla muna. Sá þingmaður sem talaði á undan mér vék lítillega að ástandi mála í Reykjavík. Ég ætla að fylgja í kjölfar hans og ræða aðeins um þau mál vegna þess að ég held að það skipti miklu að gera sér grein fyrir því hvernig staðan er í Reykjavík í heilsugæslumálum.
    Í Reykjavík eru reknar átta heilsugæslustöðvar og það hefur því nokkuð þokast þó að mikið vanti á enn þá. Einungis tvær af þessum átta heilsugæslustöðvum geta sinnt þeim íbúafjölda sem þeim ber, þ.e. hafa aðstöðu og læknafjölda til þess að sinna því svæði sem undir stöðina heyrir og þetta eru heilsugæslan í Hraunbergi og heilsugæslan á Seltjarnarnesi sem er rekin í samstarfi við Seltjarnarnesbæ. Í öðrum heilsugæslustövðum er ástandið mun lakara. Þar er fyrst til að taka heilsugæslustöðina í Mjódd sem er í afskaplega lélegu bráðabirgðahúsnæði og hún á bæði að þjóna Breiðholti I og II. Ég sá mér til ánægju að það á gera bragarbót þarna á í fjárlögum og eru áætlaðar 50,5 millj. kr. í þessa heilsugæslustöð þannig að þess má vænta að eitthvað vænkist hagur hennar.

    Þá er það heilsugæslustöðin í Fossvogi. Miðað við aðstöðu og læknafjölda getur hún í hæsta lagi þjónað 400--500 manns en á starfssvæði stöðvarinnar búa um 12.000 manns. Ef heilbrrh. hefði verið hér hefði verið gaman fyrir hann að gera sér grein fyrir því að þrengslin þar inni eru svo mikil að varla verður hægt að koma fyrir peningakassa til að innheimta það 600 kr. gjald sem nú á að leggja á í heilsugæslustöðvum. Það mun a.m.k. verða erfitt að finna skot fyrir kassann.
    Þá er það heilsugæslustöðin í Drápuhlíð. Hún var hönnuð og ætluð fyrir 3.400 manna hverfi og getur þjónað þeim fjölda, en síðar var bætt við hana um 5.000 manns og þess vegna getur hún alls ekki sinnt öllum þeim verkefnum sem henni ber. Þar er ekki síst að nefna barnaverndina sem heilsugæslustöðin í Drápuhlíð á afskaplega erfitt með að sinna.
    Í vesturbænum er ný stöð í Garðastræti. Hún var upphaflega hönnuð fyrir 6.000 manns og átti að þjóna gamla vesturbænum, en var sameinuð heilsugæslustöðinni sem var í miðbænum, sem einnig var ætluð fyrir 6.000 manns, og á stöðin nú að þjóna 12.000 manna svæði sem nær frá Snorrabraut og vestur að sjó.
    Þetta eru bara nokkur dæmi um það hvernig búið er að þessum stöðvum, hversu mun fleiri íbúum þær eiga nú að þjóna heldur en gert var ráð fyrir í upphafi. Það hefur gert það að verkum að miklum erfiðleikum er bundið að sinna heilsuvernd í þessu stöðvum, ekki síst mæðraskoðun og ungbarnaeftirliti. Á þessu sviði gegnir Heilsuverndarstöð Reykjavíkur lykilhlutverki í dag og þess vegna skiptir miklu máli að gera sér grein fyrir því hver verður framtíð þeirrar stöðvar og gefa henni einhvern formlegan status inni í heilbrigðiskerfinu. Ég held að miðað við þær aðstæður sem eru í dag sé alls ekki hægt að leggja þá starfsemi af sem þar fer fram, ekki síst í heilsuvernd.
    En það eru ekki allir sem komast inn í heilsugæslustöð. Í dag þjóna um 33 læknar á heilsugæslustöðvum og undir þá heyra um 49.000 manns, þ.e. þeir sem eru skráðir á heilsugæslustöð. Þar fyrir utan er annað kerfi sem er svokallað númeralæknakerfi og þar starfa 30 læknar og þjóna um 39.000 manns hér í Reykjavík. Fyrir utan þetta eru svo um 9.000 einstaklingar sem eru alveg án heimilislæknis. Þetta þýðir með öðrum orðum að það eru mörg kerfi í gangi í Reykjavík. Það er heilsugæslustöðvakerfi, það er númeralæknakerfi og það er kerfi þar sem fólk hefur engan formlegan aðgang að lækni og síðan tilvísanakerfið var lagt af er margt af þessu fólki sem sækir sér beint þjónustu sérfræðinga sem er mjög dýr, bæði dýrari fyrir viðkomandi aðila og dýrari fyrir samfélagið. Þess vegna er þetta mjög óskynsamleg meðferð á fjármunum sem endurspeglast í skipulagi heilsugæslunnar í Reykjavík.
    Á undanförnum árum hefur um 10% af heildarfjárframlögum til heilsugæslu farið til Reykjavíkur. Það segir sig náttúrlega sjálft að þetta er lítill hlutur miðað við þann íbúafjölda sem í borginni er. Stór hverfi hafa enn enga heilsugæslustöð og ekki er sjáanlegt að það breytist alveg á næstunni. Þar má t.d. nefna Voga- og Heimahverfi en ástæða þess að ég nefni það fremur en t.d. Grafarvoginn er sú að þar býr mikill fjöldi aldraðra og það er einmitt sá hópur sem þarf helst að hafa heilsugæslustöð nærri sér og á erfiðara með að sækja til læknis um langan veg.
    Það að heilsugæslustöðvar skuli vanta í hverfum eins og Voga- og Heimahverfi er líka mjög bagalegt ef litið er á þjónustu við aldraða vegna þess að það hefur reynst mjög erfitt að skipuleggja og samhæfa heimaþjónustu við aldraða af þessum sökum.
    Í máli Finns Ingólfssonar kom fram að um 200--300 Reykvíkingar væru í raun á neyðarlista eftir hjúkrunarplássi, þ.e. hefðu sótt um hjúkrunarpláss og væru mjög þurfandi og í mikilli neyð. Þetta er eitt af þeim málum sem er hvað alvarlegast og til hvað mestrar hneisu í heilbrigðisþjónustu í Reykjavík. Allir sem kynnst hafa þessum málaflokki, t.d. hjá Reykjavíkurborg í gegnum Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, vita hvað neyð þessa fólks og ættingja þeirra er mikil. Þá eru stórir hópar af öldruðum sem eru á biðlista eftir vistheimilisplássi. Ég hef þá tölu ekki handbæra en það er allstór hópur sem er á biðlista eftir vistheimilisplássi. Hugsanlega mætti þjóna nokkuð stórum hluta þessa fólks ef góð og samhæfð heimaþjónusta væri í Reykjavík. Tilraunir hafa verið gerðar til þess að skipuleggja hana og koma sæmilegri þjónustu við aldraða á koppinn í hverfum borgarinnar, en það hefur gengið verr en úti á landi vegna þess að heilsugæslustöðvar vantar þar sem hægt væri m.a. að staðsetja heimahjúkrun í hverfunum sem væri þá í starfrænum tengslum við heimilishjálp. Úr þessu þarf að bæta hið fyrsta.
    Á Alþingi og í fjölmiðlum hafa að undanförnu orðið miklar umræður um skipulag sjúkrahúsaþjónustu í Reykjavík og almennt um útgjöld í heilbrigðismálum, þó sérstaklega með tilliti til sjúkrahúsanna. Sú umræða er vissulega mikilvæg en í skuggann fellur hins vegar umræða sem er kannski enn brýnni og það er umræða um heilsuvernd. Ef við viljum ná niður kostnaði í heilbrigðisþjónustunni til langframa verður það gert með bestum og virkustum hætti með því að byggja upp öfluga heilsuvernd í landinu öllu. Það er hin eina sanna sparnaðarleið í heilbrigðisþjónustunni. Þess vegna þarf að móta heilbrigðisstefnu ekki síður en sjúkraþjónustustefnu.
    Borgarlæknirinn í Reykjavík hefur skrifað talsvert um þessi mál og er óþreytandi við að benda á

þetta. Mig langar aðeins til þess að vitna í grein sem hann skrifaði sem heitir Ný viðhorf í heilbrigðismálum, og var birt í Morgunblaðinu fyrir allnokkrum árum, en það skiptir ekki máli, hún heldur fyllilega gildi sínu. Þar segir hann m.a. að ,,frá því að um miðja þessa öld hafi sjúkraþjónustustefnan orðið meira áberandi en heilbrigðisstefnan samfara byltingum á sviði lækna- og líffræðivísinda og hinn mikli vöxtur í heilbrigðismálum landsmanna frá þessum tíma hefur að mestu leyti átt sér stað undir merkjum sjúkraþjónustustefnunnar. Heilbrigðisstefnan fór halloka gagnvart tæknibyltingu sjúkraþjónustustefnunnar og eina fræðigreinin innan læknisfræðinnar, heilbrigðisfræðin, sem telja mátti fulltrúa heilbrigðisstefnunnar varð stöðnun að bráð. Örlög heilbrigðisfræðinnar í læknadeild Háskóla Íslands og í skipan heilbrigðismála hér á landi er fróðlegt athugunarefni í ljósi þeirrar þróunar heilsufarsmála sem lýst er í grein þessari.`` --- Þetta eru lokaorð í alllangri grein um þessi mál.
    Hann bendir réttilega á að sjúkraþjónustustefnan fækkar ekki þeim sem verða sjúkir, enda er það ekki markmið hennar. Verkefni hennar hefst ekki fyrr en sjúkdómurinn er staðreynd og einkennin komin fram. Það sem skiptir auðvitað máli er að reyna að koma í veg fyrir sjúkdóma og koma í veg fyrir sjúkdómseinkenni. Þannig má spara umtalsvert fé í heilbrigðiskerfinu og í því sambandi þjóna heilsugæslustöðvar lykilhlutverki.
    Í þessari grein, sem er skrifuð 1986, nefnir Skúli Johnsen m.a. tölur um kostnað af heilbrigðisþjónustu sem Reykvíkingar fengu, og tekur hann áratuginn 1970--1980. Þegar þær tölur eru skoðaðar kemur í ljós að kostnaður við sjúkrahúsaþjónustu óx á þessu árabili um 163% en kostnaður við heilsuvernd stóð í stað.
    Síðan getur vel verið að heilsuverndin hafi eitthvað aukið hlut sinn en þó dreg ég það stórlega í efa. Ég dreg það stórlega í efa að hún hafi aukið hlut sinn ef miðað er við sjúkrahúsaþjónustuna og framlagið til hennar.
    En eins og ég segi er mikilvægt að hraða málum í heilsugæslumálum í Reykjavík og reyna að vinda bráðan bug að því að gera þá þjónustu sem best úr garði þannig að við þurfum ekki að samþykkja frv. eins og þetta eina ferðina enn á Alþingi.