Heilbrigðisþjónusta

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 22:31:00 (2268)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Það er vissulega tímabært að ræða dálítið um heilbrigðisþjónustuna í Reykjavík. Staðreyndin er sú að á undanförnum tveimur áratugum hefur hún verið dálítið olnbogabarn í þróun heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Til þess liggja fyrst og fremst pólitískar ástæður. Meðan sveitarfélög annars staðar á landinu lögðu gífurlegt kapp á að byggja upp heilsugæslu og heilsugæslustöðvar bæði í nýju húsnæði og í eldra húsnæði þráaðist Reykjavíkurborg við. Staðan var vissulega orðin þannig að almenn heilsugæsla var lakari í Reykjavík en víðast hvar annars staðar á landinu. Til þessa lágu þær pólitísku ástæður sem hafa verið raktar prýðilega af hv. 10. og 11. þm. Reykv. hér á undan mér. Sjálfstfl. réð hér ríkjum og kaus að hanga á hinni gömlu heimilislæknaþjónustu, hinu gamla númeralæknakerfi, eins og hundur á roði löngu eftir að þessi þróun var farin af stað í öðrum byggðarlögum. Fyrir vikið sitjum við Reykvíkingar uppi með það núna að staða heilbrigðismálanna almennt er að mörgu leyti mikið lakari hér en víðast hvar annar staðar. Vil ég færa fyrir því nokkur rök og byrja á að spyrja mig: Hver er sú heilbrigðisþjónusta sem við viljum keppa að að sé til? Það er það sem ég kalla samfelld félags- og heilbrigðisþjónusta. Heilbrigðisþjónusta, þar sem skipulagið tekur mið af félagslegri þjónustu, þar sem maður getur rakið sig frá hinni félagslegu þjónustu, heimilisþjónustu, til heilsugæslu og hjúkrunarheimila aldraðra og loks til sjúkrahúsa. Þvert á þetta liggur síðan endurhæfing af margvíslegu tagi. Staðreyndin er hins vegar sú að borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík hefur vanrækt þessa þætti í raun og veru alla. Á sama tíma t.d. og byggð hafa verið upp heimili fyrir aldraðra úti um landið, þó þau vanti mjög tilfinnanlega víða eins og t.d. á Höfn í Hornafirði, er staðreyndin engu að síður sú að pláss fyrir aldraða úti á landi er mikið meira, yfirleitt um tvisvar sinnum meira miðað við mannfjölda, en er í Reykjavík. Við stöndum núna frammi fyrir því, eftir ítarlega faglega úttekt tveggja öldrunarlækna sem starfa hér í Reykjavík, að á eins konar neyðarbiðlistum eru á milli 260 og 270 aldraðir Reykvíkingar. Það er ekki fólk sem væri hægt að sinna í heimilisþjónustu, það er allt fólk sem þarf á samfelldri stofnanaþjónustu að halda eins og heilsufari þess er háttað. Menn geta velt því fyrir sér hvort það er líklegt að Reykjavíkurborg ráðist í framkvæmdir af þessu tagi. Hún hefur neitað því á undanförnum árum, þó að hún hafi haft nóga peninga, vegna þess að menn hafa verið að byggja ráðhús úti í Tjörninni og veitingahús uppi á hitaveitutönkunum. Núna hins vegar blasir það við að Reykjavík verður á næsta ári, samkvæmt tillögum hæstv. forsrh., að greiða sennilega um 400 millj. kr. í aukaskatta til ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, um 400 millj. kr. Það er augljóst að það verður notað til þess að neita sálfsagðri uppbyggingu þjónustu við aldraða hér í þessum bæ.
    Staðreyndin er auðvitað sú, virðulegur forseti, að eftir að núv. ríkisstjórn tók við þá kastaði fyrst

tólfunum í heilbrigðismálum Reykvíkinga. Heilbrrh. óð hér um akurinn, sérstaklega spítalana, eins og fíll í glervöruverslun og niðurstaðan er sú að sjúkrahúsin í Reykjavík, sjúkrahúsaþjónustan, starfslið sjúkrahúsanna, þetta er allt í uppnámi. Hver eru rökin fyrir þessari atlögu að sjúkrahúsunum í Reykjavík sem hæstv. heilbrrh. og núv. ríkisstjórn hafa beitt sér fyrir? Að spara. Það eru rökin. Rökin eru þau að það eigi að spara og það náist sparnaður með því að sameina Borgarspítalann og Landakotsspítalann. Samt liggur það fyrir, eins og ég rakti hér í ræðu við 1. umr. fjárlaganna, í skýrslu frá Ernst og Young sem unnin var fyrir Ríkisspítalana að sameining Borgarspítalans og Landakotsspítalans er dýrasta aðferð sem hugsast getur. Skynsamlegasta samvinnan væri á milli Borgarspítalans og Landsspítalans. Í þessari skýrslu Ernst og Young, sem hv. 14. þm. Reykv. lét dreifa hér í þinginu í dag, þar kemur t.d. fram, með leyfi forseta: ,,Borgarspítali og Landakotsspítali munu sameiginlega hafa 40--60% markaðshlutdeild í mörgum sérgreinum. Kostnaður mun hækka (sóun verður í hámarki) og gæði munu minnka.`` Kostnaður hækkar, sóun verður í hámarki og gæði munu minnka. Þannig að það liggur fyrir frá þessu erlenda ráðgjafarfyrirtæki að þetta er tóm vitleysa frá fjárhagslegu sjónarmiði séð.
    Hæstv. heilbrrh. skipaði svo nefnd til að skoða þetta sérstaka mál í október sl. Í henn voru Árni Sigfússon, formaður stjórnar Borgarspítalans, sem mér er ekki kunnugt um að sé aðili að stjórnarandstöðuflokkunum, Jóhannes Pálmason, framkvæmdastjóri Borgarspítalans, Jóhannes M. Gunnarsson yfirlæknir, Sigríður Snæbjörnsdóttir hjúkrunarforstjóri, Logi Guðbrandsson framkvæmdastjóri og Ólafur Örn Arnarson yfirlæknir, sem lengi hefur verið formaður heilbrigðismálanefndar Sjálfstfl., Rakel Valdimarsdóttir hjúkrunarforstjóri, Höskuldur Ólafsson, formaður St. Jósefsspítalans. Svo kemur þarna Haraldur Ólafsson, sem mun vera framsóknarmaður, Svanhvít Jakobsdóttir deildarstjóri og Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, þannig að nefndin var undir forustu ráðherrans í raun og veru. Hver er niðurstaða þessarar nefndar? Jafnvel hún kemst að niðurstöðu sem segir: Þetta brölt er of dýrt. Jafnvel þessi nefnd kemst að þeirri niðurstöðu. Hvað segir þessi nefnd, sem er í raun og veru handvalin af ráðherranum, hvað segir hún? Hún segir að rekstur eftir breytingar á hinu sameinaða sjúkrahúsi mundi kosta 3,5 millj. kr. sem kosti í dag 3,7 millj. kr., sparnaðurinn sé 0,2--0,3 millj. kr. af öllu þessu brölti þó án þess að tekið sé tillit til lífeyrisskuldbindinga opinberra starfsmanna Borgarspítalans. Þegar þær eru komnar inn er það augljóst að það sparast ekki króna við þetta brölt, ekki króna.
    Það er út af fyrir sig ekki furðulegt þó að einum þingmanni vestan af fjörðum, hæstv. heilbrrh., detti í hug að fara að grauta svona í spítölunum í þessu kjördæmi. En það er furðulegt að í ríkisstjórninni skuli þingmenn Reykvíkinga í hrönnum, eins og hæstv. félmrh., flokkssystir hæstv. heilbrh., ekki stoppa þessa vitleysu sem augljóslega gat ekki skilað einu sinni þeim kostnaði sem lagt hefur verið í við að standa í þessum athugunum. Öllum þessum skýrslum, nefndum, ráðum og veseni og pappírshaugum sem þessu máli fylgja. Til viðbótar við þennan rekstrarkostnað, virðulegur forseti, kemur hitt að kostnaðurinn við breytingar á stofnunum er upp á 1.000 millj. kr. að mati þessarar nefndar sem heilbrrh. sjálfur skipaði. Það þarf að byrja á að henda út 1.000 millj. kr. til að geta sparað 0 kr. í besta falli á sameiningu Borgarspítalans og Landakotsspítalans. Þetta er satt að segja svo vitlaust, virðulegi forseti, og að það skuli einn ráðherra enn, mér liggur við að segja komast upp með að halda fram endileysu af þessu tagi í fjölmiðlum daginn inn og daginn út og hér í þinginu líka. Það liggur þegar fyrir að bæði ráðgjafarfyrirtækið og nefnd, sem ráðherrann valdi fólkið í, segja að ekki sparist túkall með gati af þessu brölti öllu saman. Það kostar auk þess 1 milljarð í stofnkostnað í breytingum á Borgarspítalanum og Landakotsspítalanum að komast inn í þennan sparnað sem er ekki neitt.
    Ég hélt satt að segja, virðulegi forseti, að það væri nóg fyrir Reykvíkinga í heilbrigðismálum að þurfa að þola yfirstjórn Sjálfstfl., eins og hún hefur verið vitlaus á undanförnum árum í þessum málum. En þá tók nú steininn úr þegar hæstv. núv. heilbrrh. tók við og fór að sprella með spítalana í Reykjavík, ákveðinn í að leggja þá niður, þessa spítala reyndar sem Sjálfstfl. þóttist vilja verja. Sjálfstfl. þóttist vilja verja þessar stofnanir. Formaður heilbrigðisnefndar Sjálfstfl., Ólafur Örn Arnarson læknir þóttist vilja verja Landakotsspítalann. Formaður vinafélags Borgarspítalans, núv. seðlabankastjóri Birgir Ísl. Gunnarsson, sagðist vilja verja Borgarspítalann. En hver er niðurstaðan? Hún er sú að það er ekki orð að marka sem þessir menn hafa verið að segja á undanförnum árum við starfsmenn spítalanna, Borgarspítalans og Landakotsspítalans og Reykvíkinga yfirleitt. Ekki orð að marka það. Auðvitað er sama, virðulegur forseti, hvar er drepið niður í málefnum ef maður skoðar orð og ákvarðanir og ummæli Sjálfstfl. um einstök mál hvort sem það er í skattamálum, heilbrigðismálum eða menntamálum eða hvað það nú er á undanförnum árum. Sjálfstfl. hefur snúið við blaðinu á öllum sviðum. Það stendur ekki steinn yfir steini og sérstaklega ekki í heilbrigðismálum. Það er kannski einna alvarlegast í heilbrigðismálum að menn skuli haga sér með þeim hætti sem Sjálfstfl. hefur gert.
    Vissulega má segja að Sjálfstfl. hafi ekki einungis á þessu sviði sýnt fádæma tilþrif í aulaskap og afturhaldsstefnu. Það er hægt að viðurkenn að hann hafi sýnt ámóta afturhaldstilþrif á öðrum sviðum líka,

sérstaklega í menntamálum. Sem kunnugt er eru framhaldsskólarnir í Reykjavík sprungnir allir og enginn áhugi á því af hálfu borgarstjórnaríhaldsins í Reykjavík að gera neitt í því máli heldur. Borgarstjórnaríhaldið í Reykjavík hefur í raun og veru verið þröskuldur í vegi framfara hvort sem er í menntamálum, menningarmálum eða heilbrigðismálum í þessari borg. Vissulega er nauðsynlegt þess vegna, virðulegur forseti, að ræða þessi mál rækilega hér, þannig að Alþingi Íslendinga geri sér grein fyrir því að vandinn sem blasir við Reykvíkingum er verulegur. Er það ekki þannig að á milli 10--15 þús. Reykvíkingar eru utan við þjónustu heilsugæslustöðva? Ég hygg að það þætti undur og stórmerki ef það gerðist t.d. einn daginn að öllum Akureyringum væri vísað á númerakerfið. Það er ámóta fjöldi, eitt stykki Akureyri, sem hefur ekki aðgang að heilsugæslustöð í Reykjavík. Ég held að það væri æskilegt að menn gerðu sér grein fyrir því hvernig hefur verið búið að þessu og hver það er sem ber ábyrgðina. Það er Sjálfstfl.
    Ég held að vegna þess hvernig á þessum málum hefur verið haldið þá geti það hafa verið til góðs að flytja þau yfir til ríkisins að einhverju eða öllu leyti eins og var gert á síðasta kjörtímabili. Þó er það líka vandmeðfarið mál, það er ekkert einfalt mál, hvorki fyrir Reykvíkinga eða aðra að þessir hlutir séu í raun allir á forræði ríkisins. Ég dreg það mjög í efa. Staðreyndin var auðvitað sú að sveitarfélögin vildu endilega koma þessu af sér, troða þessu upp á ríkið vegna þess að þetta var orðið svo erfitt fyrir sveitarfélögin. Þá sagði ríkið við sveitarfélögin: Þið verðið að taka eitthvað annað í staðinn. Og sveitarfélögin ákváðu að taka barnaheimili og tónlistarskóla í staðinn sem var auðvitað vitleysa eins og að þessu var staðið. Þetta voru ófagleg hrossakaup sem áttu sér stað þarna á milli ríkisins og sveitarfélaganna.
    Ég gæti margt fleira um það sagt enda sé ég ekki betur en að menn séu að súpa seyðið af þessari reglustikupólitík í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þessa dagana og séu meira að segja farnir að tala um að versla með lögguna. Jafnvel var einhver að tala um það hér í ræðustól í fyrradag að fara að versla með prestana. Best væri að koma prestunum yfir á sveitarfélögin sem mér finnst út af fyrir sig athugandi hugmynd og athyglisverð þó að ég hafi ekki flokkslegt umboð til að segja það hér. Ég viðurkenni það en það er mín persónulega skoðun. Gæti verið sniðugt að hafa prestana hjá sveitarfélögunum. Tala ég nú trútt úr þeim garði vegna þess að ég sé að ýmsir þingmenn eru að renna til mín tortryggnisauga. Ég tek það fram að ég er fullmektugur fulltrúi flokks míns í samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar þannig að ég hef velt þessum málum verulega fyrir mér.
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er flutt af heilbr.- og trmn. er varnarleikur. Varnarleikur hjá okkur þingmönnum Reykv. sem að þessu stöndum og erum í heilbrn. Alþingis, varnarleikur til að verja heilsuverndina í Reykjavík fyrir þeirri stefnu sem nú er fylgt af núv. hæstv. heilbrrh. Þess vegna fögnum við þessu frv. og erum þakklát meiri hlutanum í nefndinni fyrir að hafa staðið með okkur í þessu máli. Þakklát formanni nefndarinnar fyrir það hvernig hann hefur haldið á því og stuðlað að samkomulagi í málinu. En það breytir ekki því, niðurstaðan liggur fyrir. Vandi Reykvíkinga í heilbrigðismálum er meiri en annarra landsmanna að mörgu leyti sem stafar af því að við höfum haft hér misvitra pólitíska forustu. Á grundvelli þess hvað við höfum haft misvitra pólitíska forustu í Reykjavík er það alveg lífsnauðsyn að Alþingi samþykki þetta frv. sem hér liggur fyrir. Ég veit að vísu að t.d. hv. þm. Sjálfstfl., einn og einn, kunna að samþykkja þetta frv. kannski af einhverjum öðrum ástæðum. En ég lít svo á að þeir séu með stuðningi sínum við frv. í raun að hjálpa okkur stjórnarandstæðingum í höfuðborginni við að viðurkenna það í verki að við þurfum betri heilbrigðisþjónustu í þessum bæ. Ég kann þeim sjálfstæðismönnum sem kunna þannig að styðja okkur hin þakkir fyrir þann góða stuðning sem þegar liggur fyrir.