Heilbrigðisþjónusta

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 22:58:00 (2270)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Það fer ekki á milli mála að til heilbrigðisþjónustu verjum við Íslendingar meira fjármagni en til nokkurs annars. Það er þó nokkurt umhugsunarefni að hér skuli það gerast að ríkasta sveitarfélag landsins hefur þau tök á Alþingi Íslendinga að vilji það ekki framkvæma ákveðna hluti þá er þeim frestað. Það er ekki spurt um fjárhaginn hjá þessum fátæku sveitarfélögum þegar tilskipanirnar koma og sagt er að það eigi að gera þetta og hitt. Þá er ekki spurt um hver fjárhagurinn sé. Þetta leiðir náttúrlega hugann að því að það er orðinn slíkur styrkleikamunur á sveitarfélögum í landinu að ekki er hægt að una því að löggjöfin skuli vera á þann veg að í þessu mesta útgjaldamáli þjóðarinnar skuli stærsta sveitarfélagið geta haft þá stöðu að ýta út af borðinu þeim verkefnum sem aðrir sitja nauðugir uppi með.
    Forvarnastarf í heilsugæslu er af öllum viðurkenndur sem langmikilvægasti og ódýrasti þátturinn til að ná niður heildarkostnaði við þennan málaflokk. Þegar stjórn heilsugæslumála og sjúkrahússmála er komin á það stig að hæstv. heilbrrh. stillir mönnum upp eins og ónefnd hreyfing þar sem mönnum eru gerð tilboð sem þeir geta ekki hafnað fer maður að hugsa til hvers þessi þjóð sé að kaupa dýra ráðgjöf sérfræðinga. Það er umhugsunarefni ef skoðuð er skýrsla sem afhent hefur verið þingmönnum til lestrar þar sem fjallað er um aðra starfsemi á bls. 25 og vikið er að sjúkrahúsmálum, þá telur sérfræðingurinn, sem þetta vinnur, með leyfi forseta: ,,Ákvarðanir skyldu ekki teknar hærra í stjórnkerfinu en brýn nauðsyn krefur. Skynsamlegt gæti verið að gera breytingar stjórnkerfinu í því skyni: Breyta mætti stjórnarnefndinni úr framkvæmdastjórn í stefnumarkandi stjórn; það þýðir að stjórnarnefndin ætti að veita forstjóranum meiri völd.
    Forstjórinn veiti sviðsstjórum meiri völd.
    Sviðsstjórar veita deildarstjórum meiri völd til ákvarðana.
    Aðstoðarfólki við stjórnun verði dreift á deildir til að styrkja stjórnun þar á lægsta mögulega stigi. Þessir starfsmenn heyri þá undir sinn faglega yfirmann, þ.e. framkvæmdastjóra stjórnunarsviðs.``
    Ég ætla ekki að lesa meira en ég vil vekja athygli á því að grundvallaratriði í plagginu er að færa völdin niður. En hvað er að gerast í landinu? Heilbrrh. virðist vera að draga til sín alla tauma stjórnunar spítalanna inn í ráðuneytið. Það er verið að vinna algjörlega öfugt við það sem talið er að eigi að vera stefnumarkandi. Ég verð bara að segja eins og er að ef þetta er ekki miðstýring valdsins þegar maður hlustar á fréttir eins og í kvöld þar sem boðað er að af umhyggju fyrir starfsfólki sé útlit fyrir það að nunnurnar muni samþykkja það sem lagt verði til svo að menn verði ekki allir reknir, það er ekki hægt að skilja það á annan veg, að þá er verið að tala um það að þetta sé ekki miðstýringarstjórn sem er yfir landinu. Ég hef aldrei vitað hvað miðstýring er ef þetta er ekki sú mesta miðstýring sem mönnum dettur í hug að koma með. Auðvitað hlýtur það að vera þá sama sem maður spyr sjálfan sig að. Við drögum úr forvörnunum, við frestum því að koma upp heilsugæslustöðvum en við aukum miðstýringuna á yfirstjórn spítalanna á þann hátt að þeir sem þingið hefur þó ætlast til þess að stjórni þessu eru gerðir óvirkir og hæstv. heilbrrh. er látinn hafa þetta eins og spurningu með skafmiða eða getraunaútfyllingu á kvöldstund, hvernig eigi að ráðskast með þessa hluti og tilboðin eru send út.
    Ég verð að segja eins og er að mér finnst ekki skrýtið þó að hv. 14. þm. Reykv. spyrji hvert við stefnum í þessum efnum. Engan skyldi undra þó að þingmenn Reykvíkinga telji sig þurfa að ræða þau mál þegar slíkur vopnaburður er við hafður.
    Ég verð líka að taka undir það sem kemur fram í skýrslunni, sem ætla ekki að þreyta þingheim með að lesa, að þó að ákveðnir prófessorar hafi kennsluskyldu við Háskólann og séu vafalaust miklir fræðimenn og hæfir til þess að stjórna sinni kennslu þá er það mikil spurning hvort þeir henta jafnframt sem stjórnendur á spítalanum. Allt leiðir þetta að sömu niðurstöðu: Stefnubreyting í heilbrigðismálum verður að eiga sér stað þar sem valdið er fært niður og það gengur ekki að hæstv. heilbrrh. hagi sér í þeim efnum eins og hann sé einn í heiminum.