Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 23:10:00 (2272)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 285 um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum árið 1992 og jafnframt fyrir brtt. á þskj. 286 um ráðstafanir í ríkisfjármálum frá meiri hl. efh.- og viðskn.
    Við upphaf umfjöllunar um þetta frv., sem felur í sér breytingu á allmörgum lögum sem eru á forræði ýmissa ráðuneyta, var ákveðið að vísa einstökum hlutum þess til umsagnar annarra fastanefnda þingsins ef þau vörðuðu málefnasvið þeirra. Þannig fóru viðkomandi þættir til umsagnar menntmn., landbn., sjútvn., allshn., félmn., heilbr.- og trn. og iðnn. Einnig var óskað umsagnar samgöngunefndar um tillögur, er síðar komu fram, um breytingar á ákvæðum hafnalaga og laga um fjáröflun til vegagerðar. Þær umsagnir, sem efnahags- og viðskiptanefnd bárust, eru birtar sem fylgiskjöl með þessu nál. Ég mun ekki fara yfir þau fskj. en vísa til þeirra um afstöðu nefndanna. Meiri hluti efh.- og viðskn. hefur tekið upp í brtt. sínar þær tillögur sem allshn. og heilbr.- og trn. lögðu til við nefndina að gerðar yrðu á frv.
    Á fund efh.- og viðskn. komu Indriði H. Þorláksson og Snorri Olsen frá fjmrn., Ásmundur Stefánsson og Lára V. Júlíusdóttir frá Alþýðusambandi Íslands, Þórarinn V. Þórarinsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þórður Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jón Gunnar Ottósson frá umhvrn., Arnór Sigfússon frá embætti veiðistjóra, Svend Richter, Jón Ásgeir Sigurðsson og Börkur Thoroddsen frá Tannlæknafélagi Íslands, Hannes Valdimarsson frá Hafnasambandi sveitarfélaga, Ari Edwald frá dómsmrn., Helgi Hallgrímsson frá Vegagerð ríkisins, Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri og Haukur Halldórsson frá Stéttarsambandi bænda.
    Meiri hluti efh.- og viðskn. gerir eftirfarandi tillögur til breytinga á frv.:
    1. Felldir eru niður tveir stafliðir í 1. gr. frv. Þeir varða annars vegar grunnskólaráð og hins vegar ráðningu aðstoðarskólastjóra. Í frv. var lögð til frestun á að þau ákvæði kæmu til framkvæmda en ákvæðum laganna að því er þessi tvö atriði varðar verður því ekki frestað.
    2. Síðasti málsliður 2. gr. fellur brott þar sem ákvæðið er óþarft. Síðasti málsliður 2. gr. er: ,,Um kostnað við tæki og búnað, svo og rekstur, fer samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.``
    3. Ákvæði 6.--8. gr., um breytingu á kosningalögum, falli brott þar sem allsherjarnefnd telur ekki brýnt að lögfesta þessi ákvæði nú en lýsir sig reiðubúna til að athuga málið í tengslum við endurskoðun á kosningalögum.
    4. Lagt er til að við frv. bætist ný grein sem heimilar félmrh. að ákveða með reglugerð hvaða vinnulaunakröfur og hversu háar njóti ábyrgðar hins nýja ábyrgðasjóðs launa vegna gjaldþrota sem gerð er tillaga um í 9. og 10. gr. frv. Í 2. mgr. hinnar nýju greinar, er verður 8. gr., eru sett meginefnisatriði reglugerðar að því er varðar lágmarksrétt launþega við gjaldþrot. Í 3. mgr. greinarinnar eru ákvæði um hvernig bregðast eigi við ef sjóðinn skortir fé til að standa við skuldbindingar sínar. Ábyrgðasjóði launa vegna gjaldþrota er ætlað að leysa af hólmi beina ríkisábyrgð á launum frá og með 1. mars 1992. Er ákvæðum 9. og 10. gr. frv., ásamt greininni sem gerð er tillaga um í 4. tölul. brtt., ætlað að koma í stað þessara greina. 5.--15. gr. laga nr. 88/1990, um ríkisábyrgð á launum, munu standa að efni óbreyttar, en frá 1. mars 1992 kemur ábyrgðasjóður í stað ríkissjóðs þar sem við á í lögunum og jafnframt verður fyrirsögn laganna breytt.
    5. Samkvæmt tillögum heilbr.- og trn. er lagt til að heilbr.- og trmrh. geti ákveðið að gjald sem sjúklingar greiða fyrir almenna læknishjálp utan sjúkrahúsa, við komu til sérfræðings, vegna lyfjakostnaðar og röntgengreiningar skuli vera hlutfallsgjald. Einnig það nýmæli að tiltaka megi hámark þess gjalds sem sjúklingi ber að greiða. Hámarkið getur hvort sem er tekið til einstakra læknisverka eða lyfjaafgreiðslna eða til heildargreiðslna yfir tiltekið tímabil. Er heimildin sameinuð í brtt., en í frv. er kveðið á um hana varðandi hvern einstakan þátt.
    6. Lagt er til að 17. gr. verði breytt til samræmis við tillögu heilbr.- og trn. Sjúkratryggingar munu samkvæmt tillögunni að fullu greiða skoðun og fyrirbyggjandi tannlækningar barna og unglinga, en greiða 85% í öðrum almennum tannlækningum þessa hóps. Heilbr.- og trmrh. er ætlað að setja gjaldskrá fyrir skólatannlækningar sem miðuð verði við raunverulegan kostnað við þær. Lögð er til efnisbreyting á því ákvæði frv. að ekki skuli greiddur tannlæknakostnaður barna og unglinga hjá öðrum en skólatannlæknum þegar slík þjónusta stendur til boða. Þetta ákvæði á samkvæmt brtt. einungis við skoðun og fyrirbyggjandi aðgerðir. Aftur á móti er nú annar almennur tannlæknakostnaður endurgreiddur enda þótt leitað sé til annarra tannlækna en skólatannlækna. Í þeim tilvikum skal þó einungis endurgreitt samkvæmt ámóta gjaldskrá og gildir um skólatannlækningar.
    7. Samkvæmt tillögu heilbr.- og trn. er lagt til að heilbr.- og trmrh. hafi samráð við þær stofnanir sem hlut eiga að máli þegar ákveðin eru daggjöld sjúkrahúsa sem ekki eru á föstum fjárlögum.
    8. Vegna þeirra breytinga sem lagt er til að verði á 17. gr. frv. á 2. efnismálslið 19. gr. þess ekki lengur við og því er lagt til að hann falli brott. Það eru samningar um tiltekna þjónustu í framhaldi af útboði.
    9. Samkvæmt 9. tölul. brtt. er lagt til að tekið verði svokallað sérstakt vörugjald og skal það renna í sérstaka deild við Hafnabótasjóð. Skal gjaldið vera sem sem svarar 25% álagi á vörugjöld, önnur en aflagjald. Þessu fé á að verja til að standa straum af framkvæmdum við almennar hafnargerðir.
  10. Lagt er til að nýrri grein verði bætt við lög nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka. Samkvæmt greininni þurfa sveitarfélögin að senda sundurliðað reiknisyfirlit um kostnað við veiðar fyrir septemberlok sama ár og veiðarnar fara fram. Eins og nú háttar er sveitarfélögunum gert að skila skýrslum og reikningum um veiðarnar fyrir lok janúar ár hvert vegna veiða næsta árs á undan. Eftir þá breytingu á 13. gr. laga um eyðingu refa og minka, sem hér er lögð til, verður ljóst í upphafi árs hvaða fjármunir eru til ráðstöfunar í endurgreiðslu á hlut ríkissjóðs í kostnaði við minkaveiðar, grenjaleit og grenjavinnslu. Endurgreiðsla á að berast sveitarfélögum sama ár og veiðarnar fara fram. Veiðistjóra er ætlað að úrskurða reikninga í stað sýslumanna, en gera má ráð fyrir að hann sé betur í stakk búinn en sýslumenn til að meta reikningana heildstætt. Kostnaðarhlutur ríkissjóðs lækkar úr þremur fjórðu hlutum í helming af kostnaði við veiðarnar. Jafnframt er gert ráð fyrir að skipulagi veiðanna verði breytt þannig að þær verði markvissari og kostnaðarminni fyrir sveitarfélögin. Þó er ljóst að þessi breyting á hlut ríkissjóðs í kostnaði við refa- og minkaveiðar mun hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir þau sveitarfélög þar sem ekki verður breyting á skipulagi veiðanna. Þessi aukakostnaður er áætlaður um 4 millj. kr. samanlagður og mun líklega leggjast á um 30 sveitarfélög. Þótt greiðsla berist fyrr en áður þykir rétt að ríkissjóður greiði hærra hlutfall af kostnaði við veiðarnar í þessum tilfellum sbr. síðasta málslið greinarinnar.
  11. Í 44. gr. frv. er gert ráð fyrir að lögbundið framlag ríkisjóðs til skipulagsmála verði með öllu skert en hér er lagt til að framlagið verði 4.500 þús. kr.
  12. Gerð er tillaga um að þrjár nýjar greinar bætist við II. kafla frumvarpsins.
    a. Lagt er til að 265 millj. kr. af innheimtuðum mörkuðum tekjum, sbr. 2. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, renni í ríkissjóð á næsta ári en verði ekki varið til vegagerðar samkvæmt vegáætlun.
    b. Tjón af völdum refa og minka er mismikið eftir svæðum. Því er talið heppilegra að draga úr útgjöldum til þessa viðfangsefnis með því að heimila umhverfisráðherra, í samráði við veiðistjóra, að taka ekki þátt í kostnaði við eyðingu þeirra á svæðum þar sem þeir valda minnstum usla, fremur en að lækka hlutfall endurgreiðslu umfram það sem gert er ráð fyrir í næstsíðasta málslið nýrrar greinar í frv. þessu. Meðal þeirra svæða, þar sem til greina kemur að hætta grenjaleit eru miðhálendið, þjóðgarðar og friðlönd. Rétt þykir að létta af sveitarstjórnum og stjórnum upprekstrarfélaga kvöð um grenja- og minkaleitir á þeim svæðum þar sem ríkissjóður tekur ekki þátt í kostnaði við veiðarnar.
    c. Gerð er tillaga um að sveitarfélög greiði hluta kostnaðar við löggæslu á árinu 1992 þannig að sveitarfélög með 300 íbúa eða fleiri greiði 2.850 kr. á hvern íbúa en minni sveitarfélög greiði 1.700 kr. á hvern íbúa.
  13. Gerð er grein fyrir þessum brtt. þar sem fjallað er um 4. lið þeirra hér að framan.
  14. Að tillögu heilbr.- og trn. er lagt til að c-, d-, og e-liðir 1. tölul. 17. gr. frv. taki ekki gildi fyrr en 1. mars 1992. Ráðherra er þó heimilt að fresta gildistökunni til 1. sept. 1992.
  15. Tillagan varðar skil eldri laga og yngri um meðferð krafna sem til álita koma gagnvart ábyrgð á launum vegna gjaldþrots.
    Ég hefði viljað lesa yfir þessar tvær síðustu tillögur, númer 14 og 15, vegna þess að ég tel að ekki sé ástæða til fyrir mig að fylgja brtt. frekar úr hlaði en ég geri með því að fara yfir þetta nál. þar sem þeim er gerð mjög ítarlega skil. En 14. tillagan á þskj. 286 hljóðar svo:

    ,,Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, I, er orðist svo:
    Þrátt fyrir 51. gr. laga þessara öðlast c-, d- og e-liður 1. tölul. 17. gr. gildi 1. mars 1992. Fram til 1. mars 1992 skal hlutdeild sjúkratrygginga miðast við gildandi gjaldskrá tannlækna. Ráðherra er þó heimilt að fresta gildistöku c-, d- og e-liða 17. gr. fram til 1. sept. 1992.``
    15. tillagan hljóðar svo:
    ,,Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, IV, er orðist svo:
    Ákvæði 8. gr. laga þessara gilda um kröfur sem hlotið hafa umsögn skiptaráðanda 1. mars 1992 eða síðar.``
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan. Ingi Björn Albertsson undirritar nál. með fyrirvara.
    Þeir sem undirrita álitið eru Rannveig Guðmundsdóttir, Sólveig Pétursdóttir, Vilhjálmur Egilsson, Guðjón A. Kristjánsson og eins og fyrr segir, Ingi Björn Albertsson, með fyrirvara.