Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 01:49:00 (2274)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Kl. 12.06 í nótt var dreift á borð þingmanna brtt. á þskj. 300, brtt. við frv. til fjárlaga fyrir árið 1992. Kl. 12.04 var dreift þskj. 294, brtt. við frv. til fjárlaga fyrir árið 1992. Og kl. 12.02 var dreift brtt. á þskj. 295 við frv. til fjárlaga fyrir árið 1992.
    Í 29. gr. þingskapa segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Eigi má taka málið til umræðu fyrr en a.m.k. einni nóttu síðar en áliti nefndar eða meiri hluta

hennar var útbýtt.``
    Síðar í þingsköpunum, í 51. gr. segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Brtt. við lagafrv. og þáltill. skulu prentaðar og þeim útbýtt ekki síðar en einni nóttu áður en þær koma til umræðu.``
    Með öðrum orðum er það ljóst að eigi 3. umr. fjárlaga að fara fram á þeim degi sem nú er nýlega hafinn þá gerist það ekki öðruvísi en að Alþingi samþykki það með afbrigðilegum hætti, þ.e. með tveimur þriðju hlutum. Þetta er nauðsynlegt að sé skýrt nú þegar, virðulegi forseti, með hliðsjón af þeim umræðum sem eiga eftir að fara fram hér í dag eða nótt um það mál sem er á dagskrá. Það er sem sé ljóst að útilokað er að hefja 3. umr. fjárlaga öðruvísi en að um það takist víðtækt samkomulag tveggja þriðju hlutum þingsins. Það samkomulag liggur ekki fyrir eins og sakir standa, virðulegi forseti. Það hefur ekkert samkomulag verið gert um það. Þessu vildi ég slá föstu á þessari stundu, herra forseti og bæta því við að tilkynningin um útbýtingu þessara mála var ekki lesin af forsetastóli fyrr en núna, kl. 1.50 eða svo. Það er því augljóst mál að það verður að leita afbrigða, það verður að ná samstöðu stjórnar og stjórnarandstöðu ef 3. umr. fjárlaganna á að hefjast á þessum sólarhring á annað borð.