Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 01:57:00 (2276)

     Valgerður Sverrisdóttir (um þingsköp) :
     Hæstv. forseti. Það er ekki þetta sem hv. 9. þm. Reykv. benti á, sem ég ætlaði að ræða hér undir liðnum þingsköp, heldur staðan í GATT-málinu. Hvernig tengist hún þingsköpum? Jú, á þann hátt að fyrir u.þ.b. hálfum mánuði síðan óskaði þingflokkur Framsfl. eftir umræðu um stöðuna í GATT-málinu, sérstaklega það sem snertir landbúnaðinn. Hæstv. landbrh. óskaði eftir því að það færi frekar fram á þann veg að hann gæfi þinginu skýrslu heldur en að utandagskrárumræða færi fram. Nokkru síðar vísaði hæstv. landbrh. málinu frá sér til hæstv. utanrrh. þar sem málið heyrði undir hann. Síðan segir utanrrh. að hann sé að vinna að skýrslu um þetta mál sem muni verða dreift hér í þinginu. Í dag er henni dreift án þess að vera þingskjal, þannig að ekki er hægt að óska eftir því að hún komi á dagskrá. Það er greinilegt að hæstv. ráðherrar þora ekki að ræða þetta mál hér í þinginu.
    Síðan gerðist það kl. 11 í gærkvöldi að frestur rann út til þess að gera athugasemdir við GATT-samninginn. Þess vegna kveð ég mér hér hljóðs vegna þessa máls, undir liðnum þingsköp, að þingheimur fékk ekki tækifæri til þess að tala um það áður en frestur rann út til þess að gera athugasemdir.
    Ég býst við að ég í hlutverki formanns þingflokks Framsfl. hafi kannski ekki verið nægilega hörð á því að krefjast þess að utandagskrárumræða færi fram um þetta mál. En það er nú svona. Maður vill ekki láta bera það upp á sig að maður sé hér með endalausar kröfur. Þess vegna hef ég ekki gert kröfur um það heldur hafði trú á því --- ekki síst vegna þess að formaður þingflokks Alþfl. flutti þau skilaboð frá hæstv. utanrrh. að það væri ekkert sérstakt að gerast í þessum málum og engin ný stefna. Samt sem áður vitum við að Kanadamenn leituðu eftir stuðningi annarra þjóða við þá tillögu sína að þær þjóðir sem eru með kvótakerfi heima fyrir og eru að reyna að miðað framleiðslu sína við innanlandsmarkað fengju að beita kvóta líka á innflutning. Svo vildi til að Íslendingar treystu sér ekki til þess að styðja þá kröfu Kanadamanna. Það gerðu t.d. Norðmenn og þeir gerðu athugasemdir við það, höfðu samband við íslensku bændasamtökin hvernig á því stæði að Íslendingar styddu ekki slíkar óskir. En hæstv. ríkisstjórn treysti sér ekki til þess.
    Ég kveð mér hér hljóðs, hæstv. forseti, undir liðnum þingsköp vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í þessu máli.