Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 02:03:00 (2278)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það getur vel verið að hæstv. umhvrh. sé sérstaklega góður að horfa á klukkuna. Þó ég sé farinn að sjá heldur illa frá mér þá sé ég alla leið á þessa klukku enda er það kannski ekki úrslitapunktur í málinu. Hinn formlegi punktur í málinu er auðvitað sú stund þegar forseti tilkynnir að þingskjölum hafi verið útbýtt vegna þess að ekki er skráð tímasetning á dreifingu þingskjala. Það verður kannski að taka það upp vegna núv. ríkisstjórnar en það hefur aldrei verið gert.
    Skjölunum var dreift upp úr klukkan tólf, að mínu mati, og ég skráði það vandlega hjá mér og las það upp hér af stólnum áðan. Jafnframt er það þannig að forseti tilkynnti útbýtingu ekki fyrr en klukkan var tíu mínútur fyrir tvö, forseti tilkynnti útbýtingu á þessum skjölum tíu múnútum fyrir tvö. Forseti gat auðvitað vel, ef hann hefði viljað, beðið hv. 4. þm. Norðurl. e. um að gera hlé á ræðu sinni meðan hann tilkynnti útbýtinguna en það gerði forseti ekki, þannig að það er ljóst.
    Í öðru lagi er það þannig, virðulegi forseti, að þegar mál hafa komið upp með hliðstæðum hætti á Alþingi hefur verið samkomulag um meðferð mála sem er ekki núna. ( Gripið fram í: Ekki einu sinni samkomulag um klukkuna.) Meira að segja deila menn um þetta fræga tæki, klukkuna. Það er augljóst að hér standa hlutirnir þannig. Þeir gera það a.m.k. af minni hálfu, og ég tel sem þingreyndur maður og hafandi verið hér lengi, að ef það á að knýja fram 3. umr. fjárlaga á morgun þá verði að ganga um það atkvæðagreiðsla um afbrigði. Nú er ég ekkert að útiloka að það geti tekist að ná um það einhverju samkomulagi. Mér finnst það satt að segja hart að hv. 8. þm. Reykv. skuli strax byrja á því að hafa í hótunum í þessu máli, byrja á því að hafa í hótunum, í raun og veru áður en nokkur efnisleg ástæða er til þess. Auðvitað er það í góðu samræmi við hans vinnubrögð hér að undanförnu að hann skuli hafa í hótunum án þess að nokkurt tilefni hafi gefist til slíks. Ég hélt að það væri hlutverk þingflokksformanna stjórnarflokkanna að reyna að ná samtöðu um málin, að reyna að greiða fyrir því að lending næðist. Það er bersýnilega enginn vilji er til þess. Það kemur mér ekki á óvart. En það er athyglisvert að menn skuli reyna að hnýta enn að þessu máli eins og hv. þm. Geir Haarde gerði hér áðan. Ég tel að það sé alveg hafið yfir allan vafa að ef 3. umr. á að hefjast á þessum sólarhring verður að leita til þess afbrigða. Ætli forsetadæmið og formenn þingflokkanna að gera það öðruvísi eru þeir að mínu mati að brjóta þau lög sem þingsköpin hvíla á. Aðrir þingmenn ráða því auðvitað hvort þeir taka undir þessa skoðun mína en það er algjörlega ljóst að hér er um að ræða brot á þeim lögum sem Alþingi setti samhljóða í vor. Ég skora á forsetadæmið að sýna þingsköpunum þá lágmarksvirðingu að fara vandlega yfir þessi mál og reyna að leita sátta fremur en að hafa í heitingum og hótunum um illindi, eins og hv. 8. þm. Reykv. gerði áðan.