Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 02:21:00 (2284)

     Halldór Ásgrímsson (um þingsköp) :
     Virðulegur forseti. Ég er mjög undrandi á þessari umræðu og ummælum hv. 8. þm. Reykv. Ég var einfaldlega að gera grein fyrir því hver staða þessa máls væri. Hann kemur hér upp og spyr: Er það nú eðlilegt að einhver minni hluti á Alþingi geti sett meiri hlutanum stólinn fyrir dyrnar? --- Hver var að tala um það, hv. þm.? Hann ítrekaði það og skýrði þingheimi frá því að meiri hlutinn væri ekki skyldugur að fara eftir einhverjum minni hluta. Við höfum orðið vör við það, hv. 8. þm. Reykv., í vetur hvernig meiri hluti Alþingis lítur á minni hlutann. Það hefur komið mjög skýrt fram. Mjög skýrt hefur komið fram að meiri hlutinn á Alþingi telur að minni hlutinn hafi ekki mikið að segja. Það sé hægt að tala við hann með þeim hætti sem hv. þm. gerði og láta menn vita af því að minni hlutinn setji ekki meiri hlutanum stólinn fyrir dyrnar.
    Menn hafa verið að tala hér um hótanir. Ekki veit ég almennilega hvað þeir eiga við með því. Mér finnst þetta óþarfa tal í þingflokksformönnum og forsætisnefndarmönnum sem eiga að gæta þess að þinghald fari fram með sem eðlilegustum hætti.
    Ég vil hins vegar ítreka við hv. 8. þm. Reykv. að það stendur í þingsköpunum: ,,Álit og tillögur nefndanna skal prenta sem fylgiskjöl með nál. fjárln.`` Ég lít svo á að hér sé átt við álit bæði meiri hluta og minni hluta. Ef menn líta svo á að álit minni hluta á Alþingi skipti engu máli, það séu bara svona málamyndaplögg, þá það. En auðvitað ber mönnum skylda til þess að skila álitum og ég vil ítreka það að við höfum gætt þess að vinna að þessu áliti sem mest má vera í dag og við höfum unnið að málum á þingflokksfundartímum. Það er algjör óþarfi af hv. 8. þm. Reykv. að koma hér upp með þessum hætti og einu sinni enn að tala með þessum vandlætingartón til minni hlutans hér á Alþingi.