Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 02:27:00 (2286)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að fara örfáum orðum um ræðu hv. 8. þm. Reykv. hér áðan. Ég ætla ekki að hafa hana langa en ég ætla í örfáum orðum að lýsa fyrir honum vinnu hv. efh.- og viðskn. í dag og biðja hann að skoða hana í ljósi sinna ummæla fyrr í kvöld um að það sé óþolandi að minni hluti tefji fyrir málum með því að draga að skila áliti.
    Við byrjuðum hér kl. níu í morgun að vinna á fyrstu törn. Við gerðum að vísu hlé meðan þingflokksfundir voru frá kl. tíu. Síðan gerist það að við erum kölluð fyrirvaralaust á fund á miðjum degi vegna þess að meiri hlutanum var þóknanlegt að ganga frá áliti efh.- og viðskn. um tekjuþátt fjárlagafrv. á u.þ.b. hálftíma fundi úti í Þórshamri seinni partinn. Þar fórst fundarboðun fyrir þannig að við fulltrúar Framsfl., sem mættum kl. þrjú, vorum gerðir afturreka þar sem meiri hluti hv. nefndar var þar sestur á fund með hæstv. fjmrh. og nokkrum starfsmönnum fjmrn. Okkur var sagt að fundur ætti að vera kl. fjögur sem er reglulegur fundartími þingflokksfunda og er fáheyrt að slíkt sé gert. Aðrir nefndarmenn létu sig hafa að sitja þann fund þar, aðrir en sá sem hér stendur sem kaus frekar að sitja þingflokksfund í sínum flokki á reglulegum þingflokksfundartíma.
    Þessum fundi lauk síðan klukkan hálfsjö, ef ég man rétt. Þá settumst við niður fulltrúar minni hlutans og sátum við það til klukkan hálfátta að ganga frá nál. um það mál sem hér er nú til umræðu í nótt til að hægt væri að taka það til umræðu hér í kvöld. Við sátum við það fram undir klukkan átta. Strax að því loknu, virðulegi þingmaður, hófst vinna okkar við það að ganga frá nál. um tekjuhlið fjárlaga. Í það verk fór hv. 1. þm. Austurl. Við samþykktum klukkan ellefu umyrðalaust að þá yrði hafin umræða um bandorminn þrátt fyrir að þeirri vinnu væri ekki lokið. Við vorum að því að ganga frá því nál. samhliða því að taka hér þátt í umræðum þangað til fyrir rúmum hálftíma síðan. Þetta er, virðulegi þingmaður, gangur þessa máls og þetta --- og það ítrekaði ég --- er það tilefni sem hv. þm. fann sér til þess að segja hér úr þessum stól að minni hluti nefndar væri að tefja fyrir framgangi mála hér í jólavikunni, ( GHH: Ég sagði það nú ekki reyndar.) með því að draga framlagningu nál. Þetta er svo yfirgengilegt, virðulegi forseti, að ég veit ekki hver okkar viðbrögð eiga að vera við þessu. Ég get ekkert gert annað en að fara fram á það við hv. 8. þm. Reykv. að hann komi hér upp. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Nú verð ég að segja það að ég átta mig ekki á því hvað það var sem varð þess valdandi að forseti barði í bjölluna af þessum krafti. ( Forseti: Tíminn er útrunninn.) Tíminn er útrunninn, já. Þá skal ég ljúka mínu máli og það er orð að sönnu: Tíminn er að renna út. Það er eitt sem víst er.
    Ég vil þá að lokum, virðulegi forseti, fara þess á leit við 8. þm. Reykv. að hann komi hér upp og segi álit sitt á því hvort það hafi virkilega verið svo að minni hluti hv. efh.- og viðskn. hafi verið að tefja hér framgang mála.