Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 02:37:00 (2288)

     Jón Kristjánsson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Það hafa svo sannarlega orðið umskipti hér í Alþingi. Við vorum fyrir tæpu ári síðan að samþykkja breytingar á stjórnarskránni og breyta Alþingi þannig að það yrði í einni deild. Við vorum mjög bjartsýn á að þetta mundi verða þinginu til framdráttar, þetta mundi verða gott þing núna og þetta var allt gert í góðu samkomulagi. Síðan voru samþykkt ný þingsköp í vor og enn þá var allt í góðu samkomulagi og fór vel af stað. Nú er orðin breyting á og vinnubrögðin núna síðustu dagana satt að segja alveg ólýsanleg. Ástæðan er sú sem ég heyrði þegar ég kom hér upp stigann því að ég var að semja nál. til að koma áfram þingstörfum því auðvitað verðum við að nota nóttina til þess. Þá er verið að tala um að það minni hlutinn hafi ekkert að segja hér í þinginu og nál. frá minni hlutanum séu einskis virði. Það eru tíðindi að heyra þetta. Ég var í góðri trú að semja kafla í minnihlutaálit fjárln. og ég sé að vinna mín síðan um miðnætti er einskis virði og það ætlar enginn að líta á hana. Ég held það sé eins gott fyrir mig að fara heim að sofa því að formaður þingflokks Sjálfstfl. hefur verið að tala um að minni hlutinn sé einskis virði í þinginu þegar búið er að berja saman meiri hlutann. Það getur vel verið að nú sé búið loksins að berja saman stjórnarmeirihlutann og þá sé kominn sá tímapunktur að minni hlutinn sé einskis virði og hægt að valtra yfir menn, eins og menn hafa verið að hér undanfarna daga. Hér hefur hvert málið á fætur öðru verið rifið út úr nefndum og ekki einu sinni beðið eftir því að líta á álit minni hlutans. Það var ekki spurt eftir því úti í fjárln. í kvöld þegar álit meiri hluta efnahagsnefndar um tekjuhlið fjárlaga var komið. Það var talið ærið nóg. Það var ekki einu sinni spurt eftir því hvort álit minni hlutans væri á leiðinni, áður en málið var tekið út.
    Ég held að þessar hefðir sem eru að skapast hér á þessu fyrsta þingi okkar séu mjög alvarlegt umhugsunarefni og ég ætla að enda á því að beina því til hæstv. forseta að hann fresti þessum fundi og menn fari heim og komi síðan hingað í fyrramálið og haldi hér almennilega samráðsfundi þar sem verður komið einhverju skikk á þessi þingstörf. Þessi yfirgangur meiri hlutans er þinginu til skammar. Það er mál til komið að koma hér á skikk og ég vil skora á hæstv. forseta að gera ráðstafanir til þess að ríkisstjórn, formenn þingflokka og forsætisnefnd hafi samráð og reyni að koma hér skikk á þinghaldið.