Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 02:42:00 (2289)

     Kristín Ástgeirsdóttir (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég vil taka undir ummæli síðasta ræðumanns. Ég er hér næst á mælendaskrá og það fara auðvitað að renna á mann tvær grímur ef því er lýst hér yfir að nál. minni hluta skipti engu máli, þá hlýtur náttúrlega sama að gilda hér um ræður þingmanna. Hér eru náttúrlega að gerast mjög alvarlegir hlutir. Þetta er mjög einkennileg umræða sem hér á sér stað þar sem slíkar yfirlýsingar koma frá meiri hlutanum. Ég veit ekki hvað hv. 8. þm. Reykv. er eiginlega að kalla yfir sig og sinn meiri hluta. Ég vil taka undir það með hv. þm. Jóni Kristjánssyni að menn setjist niður, ekki núna heldur í fyrramálið, og reyni að átta sig á því hvernig framgangur mála á að vera hér. Það styttist óðum til jóla og auðvitað reynir á það á næstu dögum hvað gerist, hverju tekst að koma hér í gegn. Ég tek undir það að mér finnst eiginlega nóg komið. Mér er nóg boðið. Ég legg til að þessum fundi sé frestað.