Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 02:44:00 (2290)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Ég tel það alveg rétt metið hjá forseta að við höldum áfram og að þeir sextán sem eru á mælendaskrá og þeir sem bætast við eftir að þeir sextán hafa talað, fái að gera grein fyrir máli sínu. Það er nefnilega svo að þegar þeir verða búnir að tala og næstu sextán þar á eftir þá er hugsanlegt að formaður þingflokks Sjálfstfl. átti sig þó á því að það er líka minni hluti á þingi hvort sem hann hefur eitthvað að segja eða ekki. Hér vilja menn hafa viss viðbrögð og það er sjálfsagður hlutur að tefla þetta tafl áfram og tefla það af þeirri festu að mönnum sé ljóst að það gengur ekki að hafa hér frv. um ríkisfjármál, eins og verið er að ræða í kvöld, sem er með allt annað innihald en nafnið ber með sér. Þess vegna er nauðsyn að umræðan haldi áfram og ég mun ekki láta nokkurn mann semja það málfrelsi af mér að gera menntmrh. grein fyrir því hvað hann er að gera með þeim hugmyndum sem hann er með í þessum bandormi.