Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 04:04:00 (2293)

     Jón Helgason :
     Hæstv. forseti. Hv. frsm. minni hluta efh.- og viðskn. gerði ítarlega grein fyrir afstöðu minnihlutaflokkanna til þessa frv. og rakti einstök atriði þess. Ætla ég ekki að fara í slíka yfirferð. Ég ætla aðeins að minnast á tvö atriði. Hið fyrra snertir landbúnaðinn og vildi ég því mælast til þess að hæstv. landbrh. og reyndar einnig hæstv. utanrrh. gætu verið hér þar sem mig langaði að bera fram spurningar til þeirra. ( Forseti: Hæstv. landbrh. er kominn.) Já, ég vonast þá til þess að hæstv. utanrrh. komi síðar.
    Ég ætlaði að fjalla um 34. gr. frv. þar sem kveðið er á um skerðingu á framlagi ríkisins til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins á árinu 1992. Við 1. umr. málsins rakti ég nokkuð aðdragandann að stofnun þessa sjóðs og hvernig það var gert með víðtæku samkomulagi. Eins og hv. frsm. minni hlutans benti á er það mat forráðamanna Stéttarsambands bænda að nú sé í fyrsta skipti framið alvarlegt brot á samkomulagi sem byggt hefur á lögunum um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvöru. En eins og hér hefur verið drepið á af síðustu ræðumönnum, er þörfin fyrir þennan sjóð mjög mikil nú vegna hins nýja samnings sem gerður var á sl. vetri við sauðfjárframleiðendur um gríðarmikinn samdrátt á bústofni og þar af leiðandi tekjurýrnun. Því er aldrei brýnna en nú að einhver stuðningur komi til þess að byggja upp nýjar atvinnugreinar og atvinnu í stað þeirrar sem þarna hverfur.
    Til viðbótar því sem áður hefur verið rakið um þetta mál, vildi ég víkja að einu nýju atriði. Samningaumræður hafa staðið yfir nú, reyndar síðustu árin, en með nýrri lotu á síðari hluta þessa árs í svonefndum GATT-viðræðum. Eftir að þær viðræður höfðu siglt í strand fyrir um það bil ári hófust þær að nýju á sl. sumri og tóku þá nokkuð aðra stefnu en gengið hafði verið út frá a.m.k. af Íslands hálfu á sl. ári. Þessar viðræður þróuðust þannig að í byrjun þessa mánaðar voru aðalatriði þeirra hugmynda sem þá lágu fyrir dregin saman af Stéttarsambandi bænda eftir þeim upplýsingum sem það hafði þá bestar. Þetta er aðeins ein blaðsíða og ég vildi lesa hana hér, með leyfi hæstv. forseta:
  ,,1. Aðildarlöndin verða að sanna á vísindalegum grunni að innflutningur vöru geti haft smithættu í för með sér. Þetta kann að draga úr möguleikum Íslendinga til þess að beita heilbrigðisreglum til þess að takmarka innflutning og hugsanlega yrðu það einungis ferskar og frystar kjötvörur og egg sem hægt væri að beita slíkum takmörkunum gegn.
    2. Gert er ráð fyrir að meginreglan verði sú að innflutningur búvara verði frjáls en heimilt að leggja á tolla sem nemi mismun á cif-verði innfluttrar vöru og verði innlendrar vöru. Vakin er athygli á að viðmiðunin er cif-verð þannig að fjarlægðarverndin hverfur að því er varðar flestar vörur.
    3. Gert er ráð fyrir að tollar lækki um u.þ.b. 30% að meðaltali á 5 árum.
    4. Auk hinnar almennu reglu um að innflutningur búvara verði frjáls er gert ráð fyrir að samið verði um lágmarksmarkaðsaðgang 3--5% af hverri vörutegund auk þess sem ríkjandi markaðsaðgangur haldist miðað við viðmiðunarár. Gert er ráð fyrir að tollar af þessum innflutningi verði lágir eða jafnvel engir. Þetta ákvæði snertir einkum vörur sem ekki hefur verið leyfður innflutningur á til Íslands svo sem mjólk, mjólkurvörur og ýmsar kjötvörur. Nefna má smjör, osta, jógúrt og soðnar kjötvörur.
    5. Varðandi ríkjandi markaðsaðgang má gera ráð fyrir að um hann gildi svipaðar reglur og lágmarksaðgang og þær tollareglur sem um hana hafa gilt eigi að gilda áfram. Þetta þýðir að óheimilt yrði að auka tollaálögur á innflutta pítsu og pastarétti frá því sem nú er a.m.k. á það magn sem flutt var inn á því ári sem tekið var til viðmiðunar.
    6. Gert er ráð fyrir að aðildarlöndin skuldbindi sig til niðurskurðar á stuðningi við landbúnað innan lands um u.þ.b. 30% á fimm árum. Markaðstruflandi stuðningur er kallaður gular greiðslur í þessum viðræðum. Innlendan stuðning á að reikna samkvæmt AMS-reglum, þ.e. sá stuðningur sem fólginn er í markaðsvernd og sá stuðningur sem veittur er innan lands með greiðslum af fjárlögum.
    7. Innanlandsstuðningur sem ekki hefur bein áhrif á verðmyndun búvara verður áfram heimill en reglur um hann mjög þrengdar frá fyrstu hugmyndum. Það er nefnt grænn stuðningur. Slíkur stuðningur er

bundinn greiðslum af fjárlögum ríkisins og má ekki fela í sér verðstuðning. Stuðninginn má ekki tengja beint framleiðslu tiltekinnar vöru eða bústofni. Veita má almennan stuðning, svo sem til rannsókna og leiðbeininga, afkomutryggingu vegna náttúruhamfara og stuðning til aðila sem hætta búskap eða taka land úr ræktun. Veita má stuðning sem tengist umhverfisvernd og veita má byggðastuðning að því marki sem framleiðslukostnaður á hverju svæði er hærri en þar sem hagkvæmast er að framleiða í viðkomandi landi.
    8. Gert er ráð fyrir að dregið verði úr stuðningi við útflutning, annaðhvort með magntakmörkunum eða með minni fjárframlögum. Rætt er um 30% samdrátt á aðlögunartímanum.
    9. Rætt er um að GATT-samningur taki gildi 1. janúar 1993 og aðlögunartími verði fimm ár.``
    Eins og ég sagði áður þá er hér um mikla breytingu á hugmyndum að ræða frá því að upp úr slitnaði á sl. ári þegar íslenska ríkisstjórnin hafði gert tilboð um lágmarksinnflutning á ákveðnum vörutegundum til þess að koma til móts við þessa kröfu. Þar var um að ræða um 3% að hámarki en það sem skipti mestu máli var að þá var gengið út frá því að leggja mætti á jöfnunargjöld til þess að vega upp lægra verð á innfluttri vöru og á innlendri framleiðslu. Með tilliti til þess hvað við teljum íslenskar landbúnaðarvörur góðar að öllu leyti, bæði hvað bragð snertir og ekki síður hollustu, þar sem hér er ómenguð náttúra og mjög lítið notað af hvers konar lyfjum, þá væntum við þess að íslenskir neytendur mundu ekki hugsa sig um og kjósa heldur hina innlendu framleiðslu ef verðið væri hið sama.
    En nú gerist það að hér er komið allt annað upp á teningnum með ískyggilegum horfum fyrir margar þjóðir. Stéttarsamband bænda setti því niður á blað nokkur atriði sem það taldi alveg nauðsynlegt að leggja mikla áherslu á fyrir Íslands hönd í þeim samningaviðræðum sem voru komnar á lokastig að ætlað var nú fjórða þessa mánaðar. Þau atriði, sem þarna eru nefnd, eru eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta: Að heimilt verði að beita magntakmörkunum á innflutning vegna öryggissjónarmiða, þ.e. að innlendur hluti matvælaþarfa þjóðarinnar verði ávallt yfir tilteknum mörkum. Að sérstakt tillit verði tekið til þess samdráttar í útflutningsbótum, sem þegar hefur verið samið um hér á landi. Að þjóðirnar geti valið viðmiðunarár innan vissra marka á bilinu 1986--1988. Að heimilt verði að taka tillit til og leiðrétta vegna verðbólguþróunar frá viðmiðunarárum þegar reiknuð eru tollaígildi. Að leggja megi tolla á allan innflutning matvæla umfram tilskilinn lágmarksinnflutning, þ.e. að heimilt verði að taka upp tolla á núverandi innflutning, m.a. á tilbúnum réttum. Að þjóðirnar fái sem frjálsastar hendur um fyrirkomulag grænna greiðslna sem viðurkennt er að ekki séu markaðstruflandi. Að heilbrigðisreglur, kröfur einstakra landa, gildi gagnvart innfluttri vöru þannig að hægt sé að hindra innflutning á vörum sem framleiddar eru við lakari heilbrigðisskilyrði en innlend vara og vörum sem framleiddar eru með aðstoð hjálparefna sem óheimilt er að nota hér á landi. Heimilt verði að beita mun víðtækari innflutningshömlum þar sem þjóðir eru að aðlaga framleiðslu að innanlandsmarkaði, kvótakerfi, með það að markmiði að draga úr útflutningsbótum. Að íslenskum landbúnaði sé á aðlögunartímanum sköpuð sem líkust rekstrarskilyrði og landbúnaður í nálægum löndum hefur, svo sem varðandi hvers konar skattlagningu, aðstöðugjald og verðáfanga.
    Þetta eru þau atriði sem Stéttarsamband bænda kom á framfæri við landbrn. og vænti að landbrn. mundi leggja áherslu á að koma á framfæri við íslensku samninganefndina og koma þeim áfram inn í viðræðurnar. Að sumu leyti var þess að vænta að þarna mundi nást verulegur árangur vegna þess að um sama leyti, það var nú í byrjun mánaðarins, kom bréf frá fulltrúum Kanada þar sem þeir vekja athygli á því að nauðsynlegt sé að gera ítarlegri og nákvæmari þau atriði samningsins, þ.e. hina svokölluðu 11. gr. samningsdraganna sem ég hef nú ekki séð því að þetta virðist fara allt heldur leynt. Efni þessarar greinar er að það sé heimilt og rétt að takmarka innflutning í þeim löndum og á þeim vörum þar sem framleiðslutakmörkunum er beitt. Þær fréttir komu að fleiri þjóðir legðu mikla áherlsu á þetta svo sem Svisslendingar, Japanar og Suður-Kóreumenn. Kanadamenn fylgdu þessu eftir með því að leggja fram bókun eða skilaboð þar sem lögð var áhersla á þetta atriði. Þetta mun hafa verið á fundum nefndarinnar um miðjan þennan mánuð.
    Þá gerist það undarlega að Íslendingar vilja ekki standa að þessari tillögu. Eða eins og segir í fréttaskeyti sem kom frá Helgu Guðrúnu Jónasdóttur, forstöðumanni upplýsingaþjónustu landbúnaðarins, sem fór til Genfar til þess að reyna að fylgjast með þessum umræðum og tókst að verða sér úti um ýmsar upplýsingar þó að, eins og ég sagði áður, viðræðurnar væru mjög lokaðar. En hún segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Hvað snertir áframhaldandi innflutningsvernd á grundvelli 11. gr. þá kom á daginn í gær að aðeins fimm þjóðir studdu tillögu eða skilaboð Kanadamanna beint. Mér skilst að Ísland hafi ekki verið þar á meðal.``
    Nú vil ég spyrja hæstv. landbrh. og hæstv. utanrrh.: Af hverju studdu Íslendingar, sem hafa sett upp mjög strangt kvótakerfi í tveimur stærstu búgreinum íslensks landbúnaðar, ekki þessa bókun? Mér er það algerlega óskiljanlegt. Það var reyndar nágrönnum okkar Norðmönnum líka því að framkvæmdastjóri norsku bændasamtakanna hringdi til starfsbræðra hér á landi og spurði hverju það sætti að Ísland vildi ekki

standa þarna með Norðmönnum og gæta þannig hagsmuna okkar Íslendinga á þennan hátt.
    Norðurlandaþjóðirnar hafa haft mjög náið samstarf í þessum viðræðum og um það var samið að fulltrúi Finna væri talsmaður þessa hóps. En þrátt fyrir það hafa Norðmenn talið það sjálfsagt að standa að þessari tillögu Kanadamanna því að það kom fram í blaðaviðtölum í lok síðasta mánaðar að Norðmenn töldu að ef þær hugmyndir gengju fram, sem þá voru efstar á blaði, væri ekki lengur að tala um norska landbúnaðarstefnu og þróun norsks landbúnaðar á þann hátt sem þar hefur verið talið nauðsynlegt. Að mínu viti er það því algerlega óskiljanlegt að íslensk stjórnvöld, sem eiga að gæta þessa, ég vil segja, fjöreggs þjóðarinnar sem íslenskur landbúnaður er, skuli algerlega sofa á verðinum og ekki sinna því að fylgja þeim þjóðum sem eru þó að reyna að berjast fyrir sömu hagsmunum og við eigum þarna svo mikið í húfi að verði gætt.
    Það er verið að tala um það nú og mjög haldið á lofti af ríkisstjórninni að þjóðartekjur, þjóðarframleiðsla muni dragast mikið saman og þess vegna sé voðinn vís eða mjög svartar horfur fyrir íslenskt þjóðfélag. Þeim mun óskiljanlegra er það að sömu ráðherrar og sama ríkisstjórn skuli ekki telja að það sé sitt hlutverk að gæta hagsmuna íslensks landbúnaðar, íslenskrar framleiðslu og fylgja þar þeim þjóðum, nágrönnum okkar og fleirum, sem telja sér það bráðnauðsynlegt. En í minnispunktum sem komu frá norsku bændasamtökunum um þessar viðræður fyrir skömmu segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Möguleikar fyrir sérhvert land að gera fyrirvara gegn eða neita að samþykkja einhvern áfanga í GATT-viðræðunum eru fólgnir í tvennu. Í fyrsta lagi að gera fyrirvara eða setja skilyrði, í öðru lagi að leggja fram greinargerð um einstaka liði. Fyrirvari verður að koma fram áður en viðræðurnar eru afstaðnar. Það hefði í för með sér að gerður væri afdráttarlaus fyrirvari gegn því að þurfa að samþykkja einstök atriði samningsins.`` Og svo síðar: ,,Pólitískt séð væri það óverjandi og ómögulegt að gera afdráttarlausa fyrirvara í lokaviðræðum án þess að hafa gert grein fyrir þeim í undirhópum viðræðunefndarinnar áður.`` En því legg ég áherslu á þetta nú að samkvæmt upplýsingum sem ég fékk frá forstöðumanni upplýsingaþjónustu landbúnaðarins nú í kvöld eða gærkvöldi, má orðið segja um þetta leyti nætur, þá sagði hún að síðasta tækifæri til þess að gera skriflegan fyrirvara við þessi drög að samningi, sem nú liggur fyrir, hefði runnið út í gærkvöldi og því geri ég þetta nú sérstaklega að umræðuefni hér. Einnig vegna þess að fyrir nærri hálfum mánuði fór ég fram á það við hæstv. landbrh. að hann flytti munnlega skýrslu um þessar viðræður hér á Alþingi til þess að við gætu fengið sem gleggstar hugmyndir um það hvernig staðan væri og hvert væri viðhorf íslensku ríkisstjórnarinnar. Hæstv. ráðherra tók vel í að athuga það en síðan gerðist það að hann, hæstv. landbrh., taldi að það væri frekar á verksviði hæstv. utanrrh. að gefa slíkt yfirlit eða skýrslu og hann mundi gera það. Svo kom svar frá hæstv. utanrrh. um að hann ætlaði að gefa skriflega skýrslu og sennilega hefur hann talið sig vera að uppfylla það fyrirheit með plaggi sem útdeilt var hér til þingmnna í dag.
    Í fyrsta lagi er það ekki þingskjal þannig að það mun ekki vera skýrsla í eiginlegri merkingu sem þingmenn geti krafist umræðu um. En það sem er þó enn þá verra er að ég tel efni þessa plaggs vera móðgun við hv. alþm., að senda þetta plagg á þessari stundu þegar frestur til að skila skriflegum athugasemdum er að renna út, plagg sem aðeins inniheldur sagnfræði mest frá liðnum tíma og gögn sem við höfðum fengið í hendur þegar í byrjun þessa mánaðar. Í engu er þar vikið að vinnubrögðum og afstöðu ríkisstjórnarinnar á síðustu dögum sem geta orðið okkur örlagaríkir.
    Ég vil því einnig spyrja hæstv. ráðherra landbúnaðar og utanríkismála: Af hverju var ekki gerður skriflegur fyrirvari vegna þessa mikilvæga máls þegar aðstæður eru svo gerbreyttar eða hugmyndir, eins og ég reyndi að rekja í stuttu máli, um það hvernig samningurinn á að vera frá því sem var á sl. ári þegar þáv. hæstv. ríkisstjórn sendi sínar hugmyndir?
    Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta. Ég tel þetta vera mikilvægustu atriðin í sambandi við þessar samningaviðræður og gæti orðið ákaflega örlagaríkt fyrir okkur hvernig þarna tekst til.
    Ef ég vík aftur að Framleiðnisjóðnum hefur það gerst síðan 1. umr. þessa máls fór fram að lagt var fram frv. um skattlagningu fjárfestingarlánasjóða og þar er upp talinn Framleiðnisjóður landbúnaðarins. Það kæmi því til viðbótar við þá skerðingu, sem ætlað er að sjóðurinn verði fyrir á næsta ári, að farið verði að skattleggja framlagið frá ríkissjóði sem eftir stendur og reyna þannig að ná til baka inn í ríkissjóð kannski nærri helmingnum af því.
    Ég ætla þá að láta lokið máli mínu um landbúnaðinn en vil aðeins víkja að öðru atriði. Þá vil ég gjarnan að hér séu staddir hæstv. dómsmrh. og hæstv. félmrh. ásamt frsm. meiri hluta og starfandi formanni efh.- og viðskn. Ég ætlaði ekki að tala langt mál en mér er tjáð að hv. formaður sé ekki í húsinu og mér er heldur illa við að tala um þetta að henni fjarstaddri. (Gripið fram í.) Ég held að það sé ekki hægt að ná í hana en ég verð þá að beina máli mínu til hæstv. félmrh. og hæstv. dómsmrh. og spyrja: Eru þá allir fulltrúar meiri hlutans í efh.- og viðskn. farnir á braut? (Gripið fram í.) En er hæstv. dómsmrh. ekki í húsinu? ( Forseti: Það skal upplýst að hæstv. dómsmrh. er ekki í húsinu.) Þá neyðist ég til þess að ræða

þessi mál að þeim fjarstöddum og vænti þess að flokksbræður þeirra muni flytja orð mín. Það sem ég ætlaði að víkja að er brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn. sem á að verða 50. gr. þessa frv. Það er hið svonefnda löggugjald sem minnst var á af fyrri ræðumönnum.
    Það sem ég ætlaði að spyrja frsm. meiri hlutans að var það hvort hún og meiri hlutinn, sem flytur þessa tillögu, gerði sér virkilega grein fyrir því hvaða tillögu þau eru að flytja. Ég get ekki trúað því að þau geri það, að þeirra samviska sé svo svæfð að þau flytji svona tillögu. Ég skal reyna að skýra þetta með einföldu dæmi.
    Á fund okkar þingmanna Suðurl. kom í gær oddviti míns sveitarfélags og skýrði frá því hvernig væri hér verið að vinna. Hér er gert ráð fyrir því að leggja 2.850 kr. á hvern íbúa í þessu sveitarfélagi. Við vorum svo óheppin í þessu tilviki að fyrir rúmu ári síðan voru fimm sveitarfélög sameinuð og gerð að einu. Þessi fimm sveitarfélög voru áður með öll innan við 300 íbúa. Þau hefðu því fengið lægra gjaldið, ekki þessar 2.850 kr. heldur aðeins 1.700. Hér er því verið að refsa þeim sem í góðri trú töldu að það væri ávinningur á flestan hátt eða jafnvel allan að sameinast í eina heild. Vissulega hefur reynslan af því verið góð þangað til nú allt í einu að ríkisstjórnin eða meiri hluti efh.- og viðskn. kemur með þessa tillögu.
    Það má geta þess að í þessu sveitarfélagi eru 20% íbúanna ellilífeyrisþegar. Á þá er líka lagt þetta gjald eins og alla aðra. En það sem er kannski aðalatriðið er að til viðbótar þeim tæpu 2 millj. kr., sem þetta sveitarfélag á að greiða beint í ríkissjóð, munu tekjur þess til viðbótar lækka um 5--6 millj. vegna þessarar brtt. Það er af ástæðu sem hæstv. félmrh. skýrði í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi þar sem hæstv. ráðherra sagði að vegna þess að stóru sveitarfélögin í Reykjaneskjördæmi, fyrst og fremst, væru knúin af þessari tillögu til að hækka sitt útsvarshlutfall svo að þau fengju framlag úr Jöfnunarsjóði, þá þyrfti Jöfnunarsjóðurinn að hækka úr 500 millj. í 750 millj. ef það ætti ekki að koma fram sem skerðing á þau sveitarfélög sem hingað til hafa notið framlagsins. Þetta þýðir að Jöfnunarsjóðsframlag míns sveitarfélags lækkar um 5--6 millj. Samtals munu þetta verða um 7 millj. kr. sem þetta strjálbýla sveitarfélag verður að gjalda fyrir þessa tillögu. Það mun þurfa að gjalda fjórfalt meira en Reykjavík. Einnig verður að borga fyrir Hafnarfjörð. Ég vil ekki ætla hv. formanni efh.- og viðskn. að hún hafi verið að standa að þessari tillögu af því að hún sá að stóru sveitarfélögin í sínu kjördæmi láta minni sveitarfélögin borga brúsann fyrir sig því að, eins og hæstv. félmrh. sagði, er skatturinn á Hafnarfirði, lögguskatturinn, mig minnir 43 eða 45 millj. Hins vegar mun Hafnarfjörður fá milli 40 og 50 millj. úr Jöfnunarsjóði sem minni sveitarfélögin eiga að gjalda fyrir. Ég trúi því ekki að hv. þm. séu að leggja svona fram til þess að verja sína. Ég held að það sé af því að fólkið veit ekki hvað það er að gera.
    Því má svo bæta við að í þessu sveitarfélagi, sem ég tala um, mínu sveitarfélagi, lifa langflestir íbúar á sauðfjárrækt. Við sáum við 2. umr. fjárlaga tillögu þar sem lagt er til að umsamið kaup, sem ríkið hefur tekið að sér að greiða sauðfjárbændum, skuli skert um einn sjötta hluta, þ.e. meginþorri íbúa á þessu svæði á ekki að fá laun tvo síðustu mánuði ársins. Það sem ég vildi segja með þessu er að ég trúi ekki að þeir sem að þessu standa telji að þetta sé réttlæti. Það er svo fjarri mínum hugmyndum um skattlagningu. Ég ætlaði að að skora á starfandi formann efh.- og viðskn. að taka þetta frv. eða tillögu til athugunar og sýna í verki að svona vinnubrögð eru ekki ásetningur. Ég vonaðist til þess að hún yrði hér og gæti lýst því yfir þegar við þessa umræðu þannig að hægt væri að eyða öllum vafa.
    Hér var vitnað til orða núv. ríkisstjórnar að hún vildi gera sáttargjörð um sanngjörn kjör. Er hennar sanngirni svona að níðast á þeim sem lakasta hafa aðstöðuna, eins og á við um íbúa í strjálbýlum héruðum fjarri öllum hafnarstöðum, með einhæfan atvinnuveg?
    Við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum heyrt það í nótt, eins og reyndar áður, að lítið mark ætti að taka á orðum okkar. Þrátt fyrir það get ég ekki annað en lagt áherslu á þetta atriði. Ég get ekki annað næstu daga og ef með þarf vikur en gert það sem í mínu valdi stendur til að berjast gegn svona ranglæti. Ég gæti ekki varið það, hvorki fyrir sjálfum mér né þeim sem hafa falið mér að vera hér á hv. Alþingi, að gefast upp fyrir hrokafullum hótunum oddvita stjórnarliðsins og leggja árar í bát. Ég vil því vonast til þess að þeir fáu fulltrúar stjórnarliðsins sem hér eru staddir taki þetta til athugunar, færi þetta efni til efh.- og viðskn. og sýni að þeirra réttlæti er ekki svona.