Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 04:49:00 (2294)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að staða Uruguay-viðræðna í GATT er ekki á dagskrá á þessum þingfundi. Þar fyrir utan er hægt að vísa til þess að á borðum þingmanna liggur ítarleg skýrsla, bæði um stöðu þeirra viðræðna almennt og sérstaklega að því er varðar landbúnaðarmál. Þá er þess að geta að í þessum viðræðum hefur ekkert það gerst sem gefur tilefni til sérstakrar umræðu á þessu stigi málsins. Ég vil leyfa mér að vísa hv. þm. á þessar skýrslur þar sem eru veittar þær upplýsingar sem málið varða, stöðu þess nú.

    Að því er varðar spurningu sem hefur verið beint til mín og hæstv. landbrh. um svokallað erindi Japans, Kanada, Kóreu og tveggja annarra þjóða, þá er þetta að segja: Af hálfu Íslands var ekki talin ástæða til að slást í þann hóp af mjög einfaldri ástæðu. Hún er sú að ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt að það tilboð sem lagt var fram af Íslands hálfu í nóvember sl. í þessum viðræðum væri í fullu gildi. Í því tilboði var áskilinn réttur til þess að viðhalda magntakmörkunum. Því var jafnframt yfir lýst af hálfu Finnlands fyrir hönd Norðurlanda fyrir tveimur dögum að öll Norðurlöndin hefðu í tilboðum sínum áskilið sér þann rétt, þannig að hann hefur verið áréttaður. Að öðru leyti var ekki ástæða til að taka tillit til þessa erindrekstrar Kanada. Það er ekki ástæða til að ætla að um þetta sé nokkur ágreiningur því að þetta tilboð sem lagt var fram af Íslands hálfu í nóvember sl. naut stuðnings þriggja stjórnarflokka þá, þ.e. Framsfl., Alþb. og Alþfl. og nú hefur núv. ríkisstjórn áréttað að það tilboð sé í fullu gildi. Væntanlega er því um það full samstaða.