Framhald 3. umr. fjárlaga

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 13:39:00 (2304)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Í nótt varð nokkur umræða um gæslu þingskapa eins og það heitir þar sem við gerðum athugasemdir við þau vinnubrögð sem voru viðhöfð og töldum þau ekki samrýmast anda þingskapanna. Ég hélt því ekki beinlínis fram að það væri fordæmislaust að taka frv. á dagskrá daginn eftir eða sama dag, eftir að þingmenn hefðu farið heim að sofa, og nál. hefði verið útbýtt. En ég gerði hins vegar athugasemdir við vinnubrögð og er þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að taka fjárlög hér á dagskrá til 3. umr. nema með afbrigðum. Hins vegar tel ég sjálfsagt að veita þau afbrigði.
    Ég vil benda á að í 25. gr. þingskapa stendur að efh.- og viðskn. skuli gera grein fyrir áhrifum skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs fyrir 3. umr., álit og tillögur nefndanna skal prenta sem fskj. með nál. fjárln. eða meiri hluta hennar. Þessu nál., sem skylt er að útbýta, var útbýtt hér á Alþingi í nótt milli kl. 4 og 5 eftir að þingskapaumræða hafði farið fram. Ég geri ekki athugasemdir við það en ég geri athugasemdir við að fjárln. tók þetta álit ekki fyrir á formlegum fundi og það er ekki andi þingskapanna að þetta skuli aðeins vera eitthvert formsatriði. Andi þingskapanna er sá að efh.- og viðskn. skuli fjalla um tekjuhlið fjárlaga og síðan skuli fjárln. taka það mál fyrir á formlegum fundi og

síðan skila sínu áliti. Þessara atriða hefur ekki verið gætt.
    Ég tel jafnframt, virðulegur forseti, að það ákvæði 29. gr. þingskapalaga að ein nótt skuli líða frá því að nál. er útbýtt þar til taka má málið til umræðu eigi að túlka þannig að nótt skuli líða. Það er rétt að það mun ekki vera fordæmislaust að slíkt hafi gerst, ég hef gengið úr skugga um það. Það verður hins vegar að hafa það í huga að við erum að starfa hér samkvæmt nýjum þingsköpum, nýrri skipan mála þar sem andi þingskapanna er sá að þingmenn hafi meira svigrúm til að fara í gegnum mál. Það er þessi andi þingskapanna sem ber að virða og það ber að skoða þau í því ljósi. Og það ber jafnframt að skoða þau í því ljósi að í þessu tilviki var fjárln. skylt að skila nál. en áður, samkvæmt gömlum þingsköpum, var fjárln. ekki skylt að skila nál. til 3. umr. Það eru þessi atriði, virðulegi forseti, sem ég geri athugasemdir við og tel að andi þingskapanna hafi alls ekki verið virtur við meðhöndlun þessa máls sem ég tel mjög alvarlegt.
    Að öðru leyti vil ég taka fram að efh.- og viðskn. hefur fjallað mjög um skattamál á undanförnum dögum og virðist eiga mjög mikið starf eftir. Það liggur ekkert fyrir um að hvar þetta samkomulag stjórnarflokkanna er, a.m.k. á þeim vettvangi og væri nú mjög fróðlegt að fá það frá hæstv. forsrh. hvar samkomulag stjórnarflokkanna í sambandi við tekjuskatt og eignarskatt er því að hver einasta grein þess frv. er með þeim hætti að ómögulegt er að samþykkja frv. eins og það er. Því er harðlega mótmælt af atvinnulífinu í landinu.
    Ef hæstv. forsrh. vill greiða hér fyrir þingstörfum, þá væri lágmark að nefndarmenn í efh.- og viðskn. fengju samkomulag stjórnarflokkanna um skattamál í sínar hendur. Ég tek eftir því að eitthvað hlýtur að hafa gerst í málinu því að Alþýðublaðið lýsir því yfir í morgun að hér sé um hörmuleg mistök að ræða og endar sinn leiðara með þeim hætti: að verði hið nýja frv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að lögum hefur VSÍ rétt fyrir sér, það yrðu hörmuleg mistök. Ber að skilja þessa yfirlýsingu Alþýðublaðsins þannig, hæstv. forsrh., að þetta frv. hafi hér með verið dregið til baka? Það tel ég rétta niðurstöðu.