Framhald 3. umr. fjárlaga

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 13:47:00 (2306)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Það hefur komið fram að undanförnu í umræðum um gæslu þingskapa að vinnubrögð sem viðgengist hafa séu ekki til sóma fyrir Alþingi. Forseti getur heils hugar tekið undir að þau vinnubrögð, sem viðgengist hafa á mestu annatímum þingsins, eru ekki alltaf til sérstaks sóma fyrir Alþingi eða eftirbreytni og engan veginn til að auðvelda störf forseta. Forseti hefur þess vegna mikinn hug á að skapa samstöðu meðal þingmanna um að breyta þeim vinnubrögðum sem allt of mikið hafa sett svip sinn á störf Alþingis síðustu daga. Það gerist hins vegar ekki án samstöðu allra hv. þm. Forseti telur það skyldu sína að sjá til þess að í þessum önnum og flýti séu ekki brotnar þær starfsvenjur og hefðir sem hér ríkja bæði skráðar og óskráðar. Forseti hefur lagt sig fram um að starfa eftir þingsköpum og þeim siðum og starfsvenjum sem hafa verið viðhafðar á hv. Alþingi.
    Í nýju þingsköpunum er í sumum tilvikum um nýmæli að ræða en í öðrum voru ekki gerðar breytingar frá fyrri þingsköpum. Þetta á t.d. við um útbýtingarfrestinn á brtt. og nefndarálitum skv. 29. og 51. gr. þingskapalaganna. Vel má vera að ástæða hefði verið til að breyta þessum ákvæðum, lengja frestinn og skilgreina ákvæðin betur. En það var ekki gert. Forseti telur því eðlilegt að þessi ákvæði ásamt fleiri atriðum þingskapalaganna verði tekin til endurskoðunar og er tilbúinn að beita sér fyrir því.