Framhald 3. umr. fjárlaga

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 14:09:00 (2312)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Ég held að forseti Alþingis standi frammi fyrir miklu og erfiðu vandamáli þar sem er hin flókna pólitíska staða sem er í kringum núv. ríkisstjórn. Ég held að það sé mikil einföldun á hlutunum að setja dæmið þannig upp að aðeins einn hópur hér í salnum hafi rangt fyrir sér. Hv. þm. Geir Haarde hélt þannig ræðu áðan að í raun og veru væri allt fullkomið í fari stjórnarliðsins, ríkisstjórnarinnar og forsetaembættisins. Hann flutti ekki vísuna ,,Ég er gull og gersemi`` eftir Sölva Helgason. En það skein út úr ræðunni að í rauninni væri það þannig að ríkisstjórnin og meiri hlutinn og formenn þingflokka stjórnarliðsins og forsetadæmið væri í raun ævinlega með hina fullkomnu, endanlega réttu niðurstöðu í öllum málum.
    Hv. þm. gagnrýndi t.d. stjórnarandstöðuna fyrir umræður um þingsköp. Er það ekki hugsanlegt að það sé að einhverju leyti því að kenna hvernig haldið er á stjórn mála? Er útilokað að það sé eitthvað til í ranni hans heilagleika Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., sem hafi haft það í för með sér að menn hafi talið sig knúna til þess af réttlætanlegum og sanngjörnum ástæðum að krefjast umræðna um þingsköp? Er það algerlega óhugsandi að það sé kusk á þessum kraga eða hvað? Er það þannig að ástæða sé til að ráðast á stjórnarandstöðuna af heift fyrir að hún leyfir sér að ræða um heilbrigðismál í Reykjavík? Ég veit að þau standa mjög illa. Ég veit að það er mjög viðkvæmt mál fyrir Sjálfstfl. En að gera það að sérstöku árásarefni á stjórnarandstöðuna í heild, eins og hv. þm. Geir Haarde gerði áðan, er einkar athyglisvert og bendir reyndar til þess að hann telji að allt sem frá stjórnarandstöðunni kemur sé af hinu illa en stjórnarliðið hafi sprota fullkomnunarinnar í hendi sér. Þegar menn eru uppfullir af valdhroka af þessu tagi leysa þeir engin mál og þá hrekkur skammt að segja héðan úr stólnum: Ég vil setjast niður þegar niðurstaðan er sú, þegar menn setjast niður, að það birtist enginn, enginn samkomulagsvilji.
    Ég held að vandi þingsins sé ekki síst sá núna, virðulegi forseti, að menn eru oft að blanda saman gömlum og nýjum þingsköpum. Hv. þm. Pálmi Jónsson talar hér ævinlega eins og gömlu þingsköpin séu enn í gildi. Það er eins og ekkert hafi gerst þegar Alþingi sjálfu var breytt í eina málstofu, þegar samþykkt voru samhljóða ný þingsköp sl. vor, það er eins og ekkert hafi gerst. Hv. þm. Pálmi Jónsson er greinilega að vinna eftir gömlu

þingsköpunum sem voru felld úr gildi með lögum og breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands fyrir löngu. Þegar hv. þm. Pálmi Jónsson segir, sem réttlætingu fyrir sínum vinnubrögðum, að ekki sé skylt að taka fyrir álit minni hlutans, þá er hann auðvitað að segja að hann hafi ekki skilið þann lýðræðislega og þingræðislega anda sem nýju þingsköpin byggjast á og aftur og aftur var undirstrikaður í ræðum manna þegar nýju þingsköpin voru rædd, m.a. í ræðum núv. hæstv. menntmrh. Það er greinilega einn meginvandi þingsins, fyrir utan ríkisstjórnina, að hér eru þingmenn sem lifa enn þá í þingsköpum sem er fyrir löngu búið að fella úr gildi og það er slæmt. En hitt er þó sýnu verra ef forsetaembættið ætlar að lifa í gömlum þingsköpum og að túlka nýju þingsköpin á grundvelli hefða sem sköpuðust í anda gömlu þingskapanna. Það sýnist mér að sé að gerast aftur og aftur af hálfu forsetaembættisins að menn túlka nýju þingsköpin á grundvelli hefða sem sköpuðust á grundvelli allt annarra laga en þeirra sem gilda í dag. Það er alvarlegt umhugsunarefni og ég skora á forsetann, formenn þingflokkanna og ríkisstjórnina að velta því fyrir sér eitt augnablik: Getur það ekki verið að þessum aðilum hafi einhvers staðar, einhvern tíma verið mislagðar hendur?