Framhald 3. umr. fjárlaga

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 14:20:00 (2315)

     Finnur Ingólfsson :
     Virðulegi forseti. Ég bið um orðið um gæslu þingskapa vegna orða hv. þm. Geirs H. Haarde áðan vegna þeirra ummæla að stjórnarandstaðan í heilbr.- og trn. hafi staðið hér fyrir málþófi í gærkvöldi. Ég tel að við höfum, eða a.m.k. ég, gert mjög rækilega grein fyrir því í upphafi míns máls hver væri ástæðan fyrir því að ég bað um orðið við 3. umr. við afgreiðslu þessa máls. Það var vegna þess að komið höfðu fram nýjar upplýsingar á borð þingmanna frá því er 1. og 2. umr. um þetta mál fóru fram. Það fólst í því að tillögur höfðu komið frá nefnd sem átti að hafa það hlutverk að sameina Landakot og Borgarspítalann. Þar er beinlínis gert ráð fyrir því að einni heilsugæslustöð hér í borginni, sem hefur með heilsuverndarstarfið í borginni að gera og skiptir því gríðarlega miklu máli þegar menn eru að ræða um heilsuverndarstarf, verði lokað. Á sama tíma leggur meiri hluti fjárln. til að út úr fjárlagafrv. sé tekið 6. gr. ákvæðið sem nýtt hefur verið til uppbyggingar heilsugæslustöðva í Reykjavík. Það eru 13 þús. Reykvíkingar sem ekki hafa heilsugæslulækni í dag eða möguleika á að komast inn á heilsugæslustöð. Með þessu á að fjölga þeim, það á að loka einni stöð. Það var þetta sem ég var í mínu máli í gær að gera grein fyrir. Þess vegna mótmæli ég því, sem kom fram í máli hv. þm. Geirs H. Haarde, að um málþóf hafi verið að ræða.
    En það er dálítið merkilegt ef þessi þingmaður Reykv. telur að ef þingmenn Reykv. taka hér til máls um brýn hagsmunamál Reykvíkinga, og það vill svo til að í minni hluta í heilbr.- og trn. eru flestir þingmenn Reykvíkinga, að þá sé um málþóf að ræða. Fyrir nokkrum dögum síðan þegar var verið að ganga frá atkvæðagreiðslu um fjárlagafrv. við 2. umr. þá rifust hér tveir stjórnarþingmenn eins og hundur og köttur um mál í Austurlandskjördæmi út af hagsmunum Hornfirðinga. Það er merkilegt ef þessi þingmaður Reykv., Geir H. Haarde, telur að ef rætt er um brýn hagsmunamál Reykvíkinga á Alþingi, sé verið að fara illa með tímann og þetta eru merkilegar upplýsingar fyrir Reykv. að heyra þetta úr munni þessa þingmanns.