Framhald 3. umr. fjárlaga

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 14:35:00 (2320)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Það er eðlilegt að spurt sé: Af hverju er talað um þingsköp? Það er talað um þingsköp vegna þess að okkur finnst mörgum að ekki sé starfað hér á Alþingi um þessar mundir í anda þingskapa og það er talað um þingsköp vegna þess að meiri hluti Alþingis sýnir minni hlutanum afar litla virðingu svo að ekki sé nú meira sagt og gefur lítið fyrir það sem frá honum kemur og gefur lítið fyrir það að fara í nokkru eftir því sem hann biður um og bendir á, meira að segja að því er varðar þingsköpin.
    Í nótt þegar ég stóð upp fullyrti ég ekkert um að það mætti alls ekki taka fjárlögin fyrir í dag. Ég benti hins vegar á að ég hefði verið að dreifa áliti minni hluta efh.- og viðskn. kl. 2.10 og það væri ekki hægt að skila nál. fjárln. fyrr en það væri komið og ég benti á að það nál. væri ekki komið, enda var það ekki komið. Þá stendur hv. 8. þm. Reykv. upp og segir að það væri nú skrýtið. Orðrétt sagði hann: Minni hluti í nefnd getur ekki sett meiri hluta þingsins eða meiri hluta í annarri nefnd stólinn fyrir dyrnar með því einu að draga útbýtingu eða framlagningu á áliti. Hann sagði að vísu síðar að hann teldi að við hefðum ekki verið að gera það en hann gaf sterklega til kynna að það skipti ekki máli þótt þetta nál. væri að koma fram kl. 2.10 um nóttina. Síðan kemur hv. þm. Pálmi Jónsson hér og segir að sjálfsögðu allt rangt sem sagt er, allt rangt. Það er það sem menn venjast hér. En hvað segir í þingsköpunum? Það segir: ,,Álit og tillögur nefndanna skal prenta sem fylgiskjöl með nál. fjárln. eða meiri hluta hennar.`` Og það segir líka: ,,Nefndirnar skila fjárln. áliti og tillögum svo tímanlega fyrir 2. umr. fjárlaga sem fjárln. ákveður.``
    Ég lít svo á að fjárln. geti sett frest í máli sem þessu. Fjárln. gerði það ekki. Nú koma fulltrúar fjárln. og segja með vandlætingu: Við gátum ekkert átt von á því að það kæmi neitt álit frá þessum mönnum. Við reiknuðum ekkert frekar með því. Leituðu þeir upplýsinga um það? Gæti ekki verið að fundurinn í efh.- og viðskn. hafi í reynd verið formsatriði til þess að uppfylla skilyrði þingskapanna í þrengstu merkingu, enda haldinn í

miklum flýti. Er nema eðlilegt að menn tali um gæslu þingskapa þegar slíkur hroki kemur fram hjá meiri hlutanum að ekkert er viðurkennt? En ég vil þá benda á að ég kynnti mér þessi mál í morgun og fékk það staðfest að það er ekki fordæmislaust að mál séu tekin fyrir daginn eftir að álitum er útbýtt seint á nóttu, en það er alveg á mörkunum. Kl. 4 eða 5 að nóttu er hjá sumum kallaður morgunn. Ég get fallist á að það er ekki fordæmislaust, en ég tel hins vegar að andi nýju þingskapanna segi annað og þessu eigi að breyta. Það er mín skoðun og þess vegna tel ég að það eigi að leita afbrigða. En það ber að sjálfsögðu að viðurkenna það sem rétt er, að þetta mun ekki vera fordæmislaust.
    Ég heyri að hæstv. forsrh. ætlar ekki að svara okkur um samkomulag stjórnarflokkanna eða ráðherrarnir almennt. Þeir eru í öðrum störfum. Gott og vel. Ég fer a.m.k. fram á það að okkur sé svarað á vettvangi efh.- og viðskn. Ég get út af fyrir sig fallist á að það sé gert en það er lágmark að það sé gert.