Bókhald

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 15:43:00 (2327)

     Halldór Ásgrímsson (frh.) :
     Herra forseti. Ég hafði gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls í nokkrum orðum. Ég tel að um verulega bót sé að ræða að koma upp slíku reikningsskilaráði sem hér er gert ráð fyrir. Ég hafði gert athugasemdir við skipan ráðsins og taldi að það hefði mátt koma því betur fyrir og óæskilegt væri að ráðherra skipaði mann í slíka nefnd, m.a. vegna þess að ekki væri æskilegt að ríkisvaldið tæki of mikla ábyrgð á slíkum úrskurðum. Hér er um það að ræða að kveða upp um hvað sé góð reikningsskilavenja á hverjum tíma. Góð reikningsskilavenja kemur að sjálfsögðu fram í lögum um bókhald, hlutafélög, samvinnufélög og í ýmsum venjum sem hafa viðgengist í gegnum tíðina og ýmsum úrskurðum sem hafa verið settir fram af ýmsum samtökum eins og t.d Samtökum endurskoðenda. Síðast en ekki síst verður að telja að góð reikningsskilavenja sé framgangsmáti sem kunnáttumenn á sviði reikningshalds halda í heiðri. Það er nú samt svo að þeir geta ekki verið alveg frjálsir að því hvernig þeir túlka góða reikningsskilavenju, þeir verða að fara að þeim venjum og lögum sem gilda.
    Ég gat þess að nauðsynlegt væri að hafa einhvern til að dæma þarna um því að oft á tíðum væri góð reikningsskilavenja önnur en kæmi fram í gildandi löggjöf. Gildandi löggjöf fylgdi ekki þróuninni og þar af leiðandi væri nauðsynlegt að hafa slíkan úrskurðaraðila.
    Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að hafa langt mál um þetta frv. Tekist hefur samkomulag um að mæla með því í efh.- og viðskn. Ég var að vísu fjarstaddur þá afgreiðslu. Ég hafði óskað eftir því að frv. yrði breytt og tekið tillit til athugasemda sem höfðu komið fram og einnig athugasemda sem ég hafði gert við það. Um það náðist ekki samstaða en ég tel það ekki vera slíkt grundvallarmál að það réttlæti að mál þetta stöðvist af þeim sökum.
    Ýmsir aðilar létu í té umsögn um málið, Félag löggiltra endurskoðenda, ríkisskattstjóri, viðskipta- og hagfræðideild, Verslunarráð Íslands, Ríkisendurskoðun o.s.frv. Ég hefði talið eðlilegt að aðili frá lánastofnunum kæmi inn í þessa nefnd. Ég hef líka lagt áherslu á að ég tel ekki ástæðu til að fulltrúi skattyfirvalda sitji í nefnd sem þessari. Og vil ég fyrst og fremst leggja áherslu á að ég tel fjmrh. ekki eiga að gæta hagsmuna skattyfirvalda á þessu sviði, heldur á öðrum sviðum. Þannig er að ekki fer alltaf saman það sem rétt er samkvæmt skattalegum túlkunum og samkvæmt góðri reikningsskilavenju.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta annars merka mál mikið lengri ræðu, þótt full ástæða væri til þess. Og ég vildi lýsa þeirri afstöðu minni að ég mun greiða atkvæði með frv. þó ég hefði kosið að nokkrar breytingar væru gerðar á því. Ég hefði viljað beina því til hæstv. fjmrh., sem ekki er nú viðstaddur en ég veit að hann les ræður manna um þau mál sem hann snerta, og ég ætlast ekki til þess að hann sé viðstaddur. Ég veit að hæstv. fjmrh. hefur mikið að gera við að reyna að ná einhverju samkomulagi um lögin --- um frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt, jafnvel þó að hæstv. forsrh. hafi nú haldið því fram að því sé öllu saman lokið, þá er okkur sem störfum í efh.- og viðskn. fullkomlega ljóst að svo er alls ekki. Ég tel að hæstv. fjmrh. þurfi að fá tíma til þess að ná áttum í því máli. Því það frv. er svo dæmalaust að það eru eiginlega merk tímamót í sögu Sjálfstfl. að hann skuli leggja slík ósköp fram. Enda hefur allt atvinnulífið risið upp og lýst því yfir að hér sé um aðför að atvinnulífinu að ræða.
    Þótt það sé mikilvægt fyrir atvinnulífið að geta fært gott bókhald og það séu reglur sem gilda um það og reglur sem þarf að hafa í heiðri, þá er það mikilvægara um þessar mundir að koma á þeirri skipan mála að atvinnulífið geti borið sig og staðið undir atvinnu í landinu. En hæstv. ríkisstjórn virðist ekki telja að svo eigi að vera. Það eigi að reyna að ná sem mestu af atvinnulífinu og ég býst við að þar séu komin sjónarmið Alþfl. í hnotskurn sem telur að nauðsynlegt sé að skattleggja atvinnulífið og þá sérstaklega sjávarútveginn og berst fyrir því í hvaða ríkisstjórn sem Alþfl. situr í að skattleggja þá atvinnugrein sem mest. Ég hafði haldið að Sjálfstfl. gæti staðið gegn því. Nú hefur Alþfl. tekist að gera tillögur um það að breyta þannig skilyrðum á hlutabréfamarkaði á Íslandi að þar verður ekki hægt að starfa framar. Menn höfðu vonast til þess að lífeyrissjóðirnir gætu keypt eitthvað af hlutabréfum á markaði og komið inn í atvinnulífið en samkvæmt þeim tillögum sem nú hafa komið frá ríkisstjórninni um tekjuskatt og eignarskatt liggur alveg ljóst fyrir að hlutabréfamarkaður á Íslandi heyrir fortíðinni til.
    Þetta er það verkefni sem efh.- og viðskn. er nú að glíma við og veit ekki hvernig á að taka á og veit ekkert um hvers konar samkomulag er um það mál milli stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, enda liggur það sjálfsagt ekki fyrir og því er eðlilegt að hæstv. fjmrh. sé ekki viðstaddur þessa umræðu og ég geri ekki kröfu um það. En ég legg á það áherslu að síðar í dag verði staðið við það eins og gert var ráð fyrir að haldinn verði fundur í efh.- og viðskn. og þau mál tekin fyrir þannig að við vitum betur hvað þar gengur á og hvað er hæft í þeim fullyrðingum forsrh. að niðurstaða sé fengin. Samkvæmt því sem hann hefur sagt var sú niðurstaða fegin í gær, en á fundi efh.- og viðskn. í morgun kom ekkert það fram sem benti til þess að slík niðurstaða væri komin. En hvað um það, það er mikilvægt að atvinnulífið búi við góðar starfsvenjur, að reikningsskil séu þannig frá atvinnufyrirtækjum í landinu að þeim sé hægt að treysta að lánastofnanir geti treyst reikningum sem koma inn á borð þeirra, að þeir aðilar sem vilja kaupa hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum geti treyst reikningsskilum fyrirtækjanna og ég vænti þess að þær breytingar verði gerðar á nýjan leik og komið verði í veg fyrir það að menn geti eyðilagt þennan markað. Það hafði náðst um það góð pólitísk samstaða að efla íslenskan hlutabréfamarkað og auka þátttöku almennings í atvinnulífinu. Það er mikilvægt mál en ein af forsendum þess að almenningur geti gerst aðili að atvinnulífinu er að það liggi fyrir góð reikningsskil sem gefi glögga mynd af rekstri þeirra fyrirtækja sem þar eiga hlut að máli. Það hefur stundum borið við að svo hefur ekki verið og eru dæmi um að atriði sem hafa valdið deilum hafa komið til úrskurðar dómstóla og má nefna ýmis mál í því sambandi. Síðast var á ferðinni mál sem tengdist fyrirtæki sem varð gjaldþrota og hét Hafskip en þar fjölluðu dómstólar m.a. um hvort reikningsskil þess fyrirtækis hefðu verið með eðlilegum hætti. Í slíku tilviki leita menn eftir því hvað sé góð reikningsskilavenja, hvað sé skylt samkvæmt lögum en það kom mjög vel í ljós í því máli að ekki var nægilegt að hafa upplýsingar um það hvernig ganga skyldi frá málum lögum samkvæmt heldur þurftu þeir sem í málinu dæmdu að átta sig sem best á því hvað væru góðar og gildar venjur. Ég býst ekki við því að þeir sem lesa þá dóma séu allir sammála um niðurstöðurnar en það er þó alveg ljóst samkvæmt þeim dómi að það er mikil þörf á því að ganga tryggilegar frá málum og koma upp úrskurðaraðila sem hægt er að leita til í ýmsum ágreiningsmálum er varða góða reikningsskilavenju. En aðalatriðið er þó það að þeir sem starfa að þessum málum hafi þá þekkingu sem til þarf til að góð reikningsskilavenja geti ávallt verið í framkvæmd. En svo slysalega vill til að þeir sem að þessum málum starfa eru ekki alltaf sammála um hvernig beri að standa að málum og hefur það oft komið í ljós og kemur það einmitt fram í grg. með þessu frv. að það er ein af ástæðum þess að þetta frv. er flutt að ýmsir þeir aðilar sem ganga frá reikningsskilum telja sig ekki vera bundna af því sem kemur fram í túlkun t.d. Félags löggiltra endurskoðenda eða túlkun frá alþjóðlegum reikningsskilanefndum eða reikningsskilanefnd endurskoðenda. Það er að sjálfsögðu aðalástæðan fyrir því að menn hafa tekið upp þetta mál og flutt frv. þess efnis.
    Það fer að sjálfsögðu mikið eftir framkvæmd mála eins og á öðrum sviðum hvernig til tekst en aðalatriði er að þeir menn, sem í slíka nefnd eru kvaddir og skipaðir, hafi til að bera þekkingu á málum og geti leiðbeint öðrum inn á þær brautir sem þykja bestar í þessum efnum. Ég tel að þar sé yfirleitt vel skipað en vitna til þeirra athugasemda sem ég hef áður komið hér á framfæri í sambandi við mál þetta.
    Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að tala lengur í þessu máli en vildi koma þessum sjónarmiðum á framfæri og endurtek að ég mun styðja þetta frv. þótt ég hefði kosið að gera á því lítils háttar breytingar. En ég vænti þess að það muni fljótlega koma til endurskoðunar í ljósi reynslunnar og þá má gera þær breytingar sem ég hef hér bent á og ég á von á því að menn munu fljótt sjá að það er ekki að ástæðulausu að bent er á það. Ég tel að ríkisvaldið og ráðherrar eigi ekki að vera að taka ábyrgð á fleiri málaflokkum en nauðsynlegt er og mér finnst að ráðherrar taki óþarflega mikla ábyrgð á þessu máli með því að skipa mann í nefndina. Ég veit ekki af hverju menn vilja ekki breyta því. Ég held að það sé óskynsamleg afstaða af hálfu viðkomandi ráðherra en því má að sjálfsögðu breyta þegar fram líða stundir. Ef ráðherra velur það hæfan mann sem er vel inni í þessum málum, þá er það að sjálfsögðu aðalatriðið.