Brunavarnir og brunamál

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 16:00:00 (2328)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um brunavarnir og brunamál. Í kjölfar stórbrunans að Réttarhálsi 2 skipaði ég starfshóp til að gera heildarúttekt á stöðu brunamála á Íslandi. Starfshópur þessi skilaði skýrslu sinni til mín haustið 1989. Í þessari skýrslu komst starfshópurinn m.a. að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir allgóða löggjöf um brunavarnir og brunamál þegar á heildina væri litið væru víða veilur í skipulagi brunamála og þá sérstaklega skipulagi eldvarnaeftirlits á vegum sveitarfélaga. Athugasemdum og kröfum um úrbætur væri lítt fylgt eftir og upplýsingar um helstu brunatjón væru ófullnægjandi.
    Meginniðurstöður og tillögur þessa starfshóps lutu að auknu forvarnastarfi á hönnunarstigi byggingartíma mannvirkja, hertu eldvarnaeftirliti eftir að hús hafa verið tekin í notkun svo og áframhaldandi heildarúttekt á mannvirkjum þar sem ætla mætti að brunaáhætta væri mest í landinu þar sem mjög ríkt yrði gengið eftir því að kröfum um lagfæringar og úrbætur yrði sinnt undanbragðalaust.
    Hinn 29. jan. 1990 fól ég síðan nefnd að undirbúa framkvæmd á þeim tillögum er fram koma í áðurnefndri skýrslu og semja nýtt frv. til laga um brunavarnir og brunamál. Í nefnd þessa voru skipuð Magnús H. Magnússon, fyrrv. ráðherra, formaður, Ingi R. Helgason hæstaréttarlögmaður, Hákon Ólafsson byggingarverkfræðingur og Þórhildur Líndal, deildarstjóri í félmrn. Starfsmaður nefndarinnar var Þórir Hilmarsson verkfræðingur.
    Nefnd þessi skilaði mér á síðasta vetri frv. til laga um brunavarnir og brunamál sem lagt var fram á 113. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Í sumar var því ákveðið að senda frv. til umsagnar fjölmargra hagsmunaaðila í brunamálum og bárust ýmsar athugasemdir. Ég fól því nefndinni að taka frv. til endurskoðunar með tilliti til þeirra athugasemda sem borist höfðu og liggur það frv. nú hér fyrir.
    Helstu nýmæli þessa frv. eru þau að lagt er til að tekin verði af tvímæli þess efnis að Brunamálastofnun ríkisins fari með yfirumsjón með öllum brunavörnum og brunamálum í landinu og beri ábyrgð á þeim gagnvart félmrh. Lagt er til að stjórn Brunamálastofnunar ríkisins verði æðsta stjórnvald hennar en ákvæði núgildandi laga eru óskýr í þeim efnum. Þess vegna er lagt til að stjórnin verði styrkt faglega og skipulagslega með því að fjölgað verði fulltrúum í stjórninni. Þeir verði fimm í stað þriggja eins og nú er. Annar þessara nýju fulltrúa verði skipaður samkvæmt sameiginlegri tilnefningu Arkitektafélags Íslands, Tæknifræðingafélags Íslands og Verkfræðingafélags Íslands og hinn verði skipaður af félmrh. án tilnefningar.
    Önnur sjónarmið komu fram varðandi skipan á stjórn Brunamálastofnunar, svo sem að stjórnin yrði kosin beint af Alþingi og vænti ég þess að nefndin sem fær þetta mál til meðferðar skoði það sérstaklega. Lagt er til að félmrh. skipi brunamálastjóra tímabundið til sex ára í senn að fengnum tillögum stjórnar Brunamálastofnunar ríkisins. Þetta ákvæði tekur þó ekki til núverandi brunamálastjóra. Í frv. er gert ráð fyrir því að brunamálastjóri annist daglegan rekstur stofnunarinnar í umboði stjórnar.
    Lagt er til að ábyrgð eigenda og forráðamanna atvinnuhúsnæðis verði aukin varðandi brunavarnir og eftirlit með þeim. Brýna nauðsyn ber til að setja reglur um skyldur eigenda húsa og annarra mannvirkja í landinu varðandi þetta atriði og í 19. gr. frv. er að finna ýmis nýmæli og ítarleg ákvæði um brunavarnir bygginga, bæði nýbygginga og eldri mannvirkja. Jafnframt vil ég í þessu sambandi geta þess að nú þegar liggja fyrir í félmrn. drög að reglugerð um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði sem hafa að geyma enn frekari ákvæði um þetta. Lagt er til að eldvarnaeftirlit sveitarfélaganna verði eflt frá því sem nú er með því m.a. að gera byggingarnefndir sveitarfélaganna virkari og efna til samvinnu hinna opinberu eftirlita. Annars vegar eldvarnaeftirlits sveitarfélaga og hins vegar rafmagns- og vinnueftirlits ríkisins. Drög að reglugerð um eldvarnaeftirlit sveitarfélaga eru nú fyrirliggjandi í félmrn. Auk þess er lagt til það nýmæli að vátryggingarfélögum verði heimilt að setja álag á iðgjöld brunatrygginga húsa og mannvirkja, þegar og á meðan ekki er sinnt kröfum um úrbætur í brunavörnum.
    Þá er enn fremur gert ráð fyrir að dagsektir sem heimild er til að leggja á, ef ekki er sinnt úrbótum í brunavörnum, renni til hlutaðeigandi sveitarsjóðs í stað ríkissjóðs eins og nú er. Lagt er til að Rannsóknarlögregla ríkisins í stað lögreglustjóra annist lögreglurannsókn eftir brunatjón og kveðji til sérfróða menn eftir þörfum. Rannsóknin skal beinast að fleiri þáttum en gert er ráð fyrir í núgildandi lögum um brunavarnir og brunamál. Brunamálastofnun og rafmagnseftirlit ríkisins hafa eftir sem áður heimild til að rannsaka bruna á eigin vegum, þó að höfðu samráði við rannsóknaraðila ef lögreglurannsókn er í gangi. Þá er lagt til að árlega megi verja allt að 5% af brunavarnagjaldi skv. a-lið 24. gr. frv. til að styrkja slökkviliðsmenn, eldvarnaeftirlitsmenn og aðra þá sem starfa að brunavörnum til náms á sviði brunamála. Í frv. er gert ráð fyrir því að félmrh. ákveði hversu hátt hlutfall þetta megi vera hverju sinni og jafnframt að nánari ákvæði um þessar styrkveitingar skuli sett í reglugerð.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv. en mælist til þess að því verði vísað til hv. félmn. að lokinni 1. umr.