Brunavarnir og brunamál

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 16:43:00 (2331)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil eins og síðasti ræðumaður fagna því að þetta frv. er komið fram. Ég hef nokkuð fylgst með framgangi þess með því að hafa samband við forustumenn brunamála í mínu héraði og hef í gegnum það skynjað að mikil þörf er á því að taka þennan málaflokk til gagngerðrar endurskoðunar. Það er mjög ánægjulegt að m.a. Landssamband brunaliðsmanna hefur tekið mjög virkan þátt í því að koma hreyfingu á þessi mál.
    Ég ætla ekki að halda langa ræðu. Það hefði út af fyrir sig verið gott að þessi mál hefði borið upp á annan tíma en einmitt um jólaannirnar þegar þannig stendur á að ef þingmaður talar lengur en fimm mínútur er það hugsanlega túlkað sem málþóf. En ég vil þó segja að ég vil leggja áherslu á það þegar þetta verður tekið til umfjöllunar í nefnd að þótt þarna séu tekin af öll tvímæli um það að Brunamálastofnun fari með yfirstjórn þessa málaflokks verði samt leitað eftir því að eftirlitið heima fyrir verði eflt og gert sem virkast því að ekkert landseftirlit kemur í staðinn fyrir það. Það eina raunverulega virka eftirlit sem getur orðið, og þá á ég við sem er virkt frá degi til dags og er á vettvangi, er það eftirlit sem er í hverju sveitarfélagi fyrir sig þó svo Brunamálastofnun samræmi allar reglur og hægt sé að leita til hennar í stærri málum. Eins og hér er sagt, hún geti haft þar ákveðið frumkvæði.
    Ég lýsi einnig ánægju minni með það að lagt er til að ábyrgð eigenda og/eða forráðamanna atvinnuhúsnæðis verði aukin varðandi brunavarnir og eftirlit með þeim. Ég held nefnilega að oft og tíðum hafi það gert eftirlitsmönnum og ákvörðunarmönnum um brunavarnir erfitt fyrir að þeim hefur fundist að ábyrgð þeirra væri svo mikil og því er ekki að neita að maður þekkir dæmi þess að gerðar hafa verið kröfur sem maður hefur ekki nokkur rök fyrir eða skilið hvers vegna voru settar fram nema þá þannig að viðkomandi eftirlitsmenn væru að tryggja sig fyrir hugsanlegum skakkaföllum þó svo á hinn bóginn, hæstv. félmrh., að líka séu dæmi um það að um vítaverða vanrækslu hafi verið að ræða. Ég legg því áherslu á að það sé jákvætt að ábyrgð eigenda og forráðamanna atvinnuhúsnæðis verði aukin.
    Ég tel einnig jákvætt að það skref er þarna stigið að enginn vafi leikur á að stjórn Brunamálastofnunar fari með málefni stofnunarinnar eða eins og hér er sagt um 3. gr.: ,,Lagt er til að stjórn Brunamálastofnunar verði æðsta stjórnvald hennar en á því leikur vafi samkvæmt núgildandi ákvæði þar sem segir að stjórnin ,,skuli hafa eftirlit með rekstri og starfsemi stofnunarinnar``. Í þessu skyni er stjórnin styrkt faglega og skipulagslega. Í stað þriggja stjórnarmanna sem nú er skal skipa fimm manna stjórn. Til að styrkja tengslin við ráðuneytið beint skal ráðherra skipa formann stjórnar án tilnefningar.`` --- Þetta tel ég allt saman jákvætt.
    Að lokum, virðulegi forseti, ítreka ég ánægju mína með að þetta frv. komi fram og það muni fá vandaða þinglega meðferð í nefnd og geti síðan orðið brunavörnum í landinu til heilla þegar fram líða stundir.