Brunavarnir og brunamál

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 16:49:00 (2332)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég fagna vissulega þeirri umræðu sem hefur farið fram um þetta

frv. til laga um brunavarnir og brunamál og þær góðu undirtektir sem það hefur hér fengið. Það er alveg ljóst að mikill skilningur ríkir nú á því að það þarf að gera gangskör í því að efla allt forvarnastarf og eldvarnaeftirlit í landinu og skerpa á ýmsum lagaákvæðum þar að lútandi. Þess vegna vænti ég þess að breið samstaða geti tekist um að þetta mál verði í höfn áður en þinginu verður slitið í vor.
    Ég vil geta þess vegna fyrirspurnar sem fram kom hjá hv. 18. þm. Reykv. að undanfari þess að þetta frv. var samið var ítarleg úttekt sem gerð var á stöðu brunamála hér á landi og eins og fram kemur í athugasemdum við þetta frv. að ýmsum atriðum í forvörnum okkar og eldvarnaeftirliti væri verulega ábótavant. Í skýrslunni koma fram ýmsar fróðlegar upplýsingar um stöðu brunamála, kostnað við brunavarnir, brunatjón o.s.frv. Því miður er ég nú ekki með þessa skýrslu við höndina en henni var dreift á sínum tíma og væntanlega mun sú nefnd fá hana til meðferðar sem fær þetta mál til umfjöllunar ásamt þeim reglugerðum. Ég tel einnig nauðsynlegt að nefndin fái þær reglugerðir til skoðunar sem eru tilbúnar eða drög að þeim um eldvarnaeftirlit sveitarfélaga og hins vegar reglugerð um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum atvinnuhúsnæðis sem ég tel mjög mikilvægt.
    Ég vil taka undir þær áherslur sem hafa komið fram í umræðunni og verið dregnar fram. Varðandi kostnaðinn við brunavarnir í landinu er ljóst að þar eins og víða annars staðar í þjóðfélaginu þyrfti að vera meira fjármagn til staðar til að hægt sé að sinna þessum mikilvæga málaflokki betur. Þó er alveg ljóst að á umliðnum árum hafa orðið verulegar breytingar að því er varðar tekjustofna Brunamálastofnunar sem hafa margfaldast og gert Brunamálastofnun þar af leiðandi kleift að sinna þessu verkefni miklu betur. En ég vil geta þess að mjög gott starf hefur verið unnið á vegum Brunamálastofnunar og brunamálastjóra. Á undanförnum árum hafa úttektir á skólahúsnæði, atvinnuhúsnæði og stofnunum fatlaðra verið gerðar svo dæmi séu tekin. Skýrslurnar liggja allar fyrir og það verður að segjast eins og er að víða er brotalöm. Fyrir liggja úttektir um ýmsar af þessum stofnunum og hvað þarf að gera til að bæta úr. Því miður er það svo að oft er brotalöm á framkvæmdinni. Ég tel að þau ákvæði sem hér eru gefi tilefni til að ætla að hægt sé að herða verulega á. Kostnaður við brunatjón hefur vaxið mjög á undanförnum árum og sú skýrsla sem ég nefndi dregur upp tölur því til staðfestingar. Ég vil hvetja þingmenn til að skoða þá skýrslu á meðan þetta mál er til meðferðar í þinginu. Á umliðnum árum hafa orðið nokkrir stórir brunar sem hafa hleypt verulega upp kostnaði hér á landi.
    En ég vil ítreka það, virðulegur forseti, að ég þakka þær umræður sem hafa orðið um þetta mál og mér finnst þær vekja vonir um að náðst geti breið og góð samstaða og hér í þingsölum sé virkilegur skilningur á því að bæta verulega úr í þessum mikilvæga málaflokki.