Aukatekjur ríkissjóðs

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 17:52:00 (2339)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Eins og kemur fram í nál. 274 um frv. til laga um aukatekjur ríkissjóðs undirritaði ég það nál. með fyrirvara. Það er jafnframt rétt, eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Vestf., að í nál. um tekjuhlið fjárlaganna tökum við fulltrúar minni hlutans í efh.- og viðskn. fram að við styðjum það að aukatekjur ríkisins séu hækkaðar þótt við höfum haft fyrirvara um einstaka liði.
    Þegar gjaldskrá eins og þessi er sett er ýmislegt þar sem mætti vera með öðrum hætti og er álitamál. T.d. er mikið álitamál hvað einstakar atvinnustéttir skuli greiða fyrir veitingu atvinnuréttinda enda er það í mörgum tilvikum að menn sækjast ekki eftir þeim skírteinum frá ríkisvaldinu og láta sér nægja skólaskírteini sín í því sambandi. Hins vegar hefur verið mikið um að atvinnuréttindi séu varin með lögum. Þar af leiðandi er það svo í einstaka tilvikum að menn komast ekki hjá því að hafa þessi skírteini. Þessi gjaldskrá er mjög misjöfn en gefur nokkrar tekjur. Það er alveg ljóst að sú gjaldskrá er eitthvað hærri en kostnaði við veitingu leyfanna nemur. Því má segja að það sé rétt hjá hv. 2. þm. Vestf. að þar er um skattlagningu að ræða á slíka aðila. Hins vegar er ekkert óeðlilegt að þeir sem slíka þjónustu fá greiði þann kostnað sem af henni hlýst enda sé það ekki þjónusta sem menn telja að eigi að vera sameiginleg eins og t.d. heilbrigðisþjónusta, sjúkrahúsþjónusta, þjónusta menntastofnana þar sem almennt er viðurkennt að samfélagið allt skuli standa undir slíkri þjónustu án tillits til þess hvernig ástatt er fyrir einstaklingunum. Það þykir mörgum, og ekki síst þeim sem í mínum flokki starfa, óeðlilegt að menn greiði fyrir margvíslega heilbrigðisþjónustu með tilliti til þess hvernig líkamlegu ástandi er varið. Það er viðurkennt að í slíkum tilvikum eigi það ekki að ráða.
    Öðru máli gegnir um ýmis önnur atriði. Það sem kemur fram í þessu frv. og er einkum hækkað eru ýmis gjöld sem snerta þjónustu fyrir dómstólum og ýmsum stofnunum framkvæmdarvaldsins, þjónusta sem menn fá við búskipti, fullnustugerðir og margt

fleira. Það er alveg ljóst að ýmsar aðgerðir af hálfu yfirvalda hafa farið vaxandi vegna þess að gjaldþrotum hefur fjölgað, innheimtuaðgerðum með aðstoð opinberra aðila, ef svo má að orði komast, hefur jafnframt fjölgað. Þar af leiðandi hefur kostnaður við þessi atriði vaxið mjög á undanförnum árum. Þessi kostnaður hefur lagst í vaxandi mæli á ríkissjóð og það er ekki óeðlilegt að við sé brugðist með því að hækka gjöld á þá sem þessa þjónustu nota. Þannig er meginhluti þeirra hækkana, sem koma fram í þessu frv., tengdur I. kafla frv. sem fjallar um dómsmálagjöld, II. kafla, um fullnustuaðgerð og búskipti, og III. kafla, um þinglýsinga- og lögbókandagerðir og um atvinnuréttindi og ýmislegt fleira. Hér er í mörgum tilvikum um samræmingu að ræða og nauðsynlega endurskoðun. Þetta kemur sér jafnframt vel í þeim mikla samdrætti sem nú er í ríkistekjum og ekki óeðlilegt að þetta sé tekið til athugunar og endurskoðunar. Við sem störfum í minni hluta efh.- og viðskn. viðurkennum þessa nauðsyn og því höfum við fallist á það að þessi gjöld hækki. Við höfum þó fyrirvara um að hér kunni ýmislegt að vera sem mætti teljast óeðlilegt en það má þá endurskoða það síðar eftir því sem reynslan kennir mönnum. Engin leið var að fara svo ofan í hvert einasta atriði í þessu frv. og meta sérhvern lið sem þar er. Til þess hefði nefndin þurft langan tíma og verður að treysta framkvæmdarvaldinu til þess að meta það eðlilega þótt reynslan kenni mönnum nú að því getur skjátlast eins og öðru valdi.
    Ég sé ekki ástæðu, virðulegi forseti, til þess að hafa fleiri orð um þetta mál enda ber mér að mæta á fund í efh.- og viðskn. um þessar mundir og læt þetta nægja. Ég vil lýsa stuðningi við málið og hef gert grein fyrir fyrirvara mínum.