Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

56. fundur
Fimmtudaginn 19. desember 1991, kl. 20:43:00 (2343)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns, til þess að flýta fyrir málsmeðferð, láta í ljós þá ósk mína að hæstv. félmrh. verði hér í salnum a.m.k. meðan á hluta ræðu minnar stendur. Síðan vil ég, virðulegi forseti, benda á það að þrátt fyrir að við stjórnarandstæðingar sýndum ráðherrum hæstv. ríkisstjórnar mikið umburðarlyndi í nótt varðandi setu þeirra í þingsölum meðan fjallað var um þetta mál og lengst af nætur var stóll hæstv. forsrh. auður, þá vil ég mælast til þess að hæstv. forsrh. fylgist með þessari umræðu í kvöld. ( Forseti: Forseti vill láta hv. þm. vita af því að hann mun koma skilaboðum til hæstv. félmrh. Samkvæmt töflu mun hún ekki vera komin í húsið enn þá en er væntanleg á hverri stundu.) Ég þakka forseta fyrir. Til viðbótar vil ég fara fram á það að hæstv. dómsmrh. verði viðstaddur þessa stund á meðan ég flyt mína ræðu.
    Nú er það svo að ég hafði gert mig kláran til þess að taka hér til máls kl. 6 í morgun. Allnokkur tími er liðinn síðan þannig að ég þarf kannski eilitla stund til að átta mig á hvernig ég tek á þessu máli nú. Ýmislegt hefur breyst frá þeirri stundu. Það sem ég ætla að koma að í upphafi minnar ræðu eru áhrif þessa frv., ráðstafana ríkisstjórnarinnar, og þess sem liggur fyrir m.a. í fjárlagafrv. núna á byggðamál. Ég nefni þar fyrst lögregluskattinn margfræga sem ég mun að vísu geyma mér að fjalla um frekar þar til hæstv. félmrh. verður kominn í salinn.
    Virðulegi forseti. Nú getur farið svo, þar sem við höfum unnið nánast nótt sem dag alla þessa viku í efh.- og viðskn., fjallað þar um ýmis skattafrv. ríkisstjórnarinnar sem tengjast síðan fjárlagafrv., tekjuhlið fjárlaga og öðrum ráðstöfunum í efnahagsmálum sem eru í gangi þessar vikurnar og dagana, að ég verði að biðja hæstv. forseta að virða mér það til betri vegar ef ég kann ekki að greina alfarið á milli hvað af þessu er í bandorminum margfræga, sem nú er til umræðu, og hvað í öðrum málum sem við höfum verið að fjalla um.
    Ég ætla næst að koma að Byggðastofnun. Samkvæmt fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því að framlög til Byggðastofnunar á fjárlögum séu skert frá því sem áður hefur verið og þótti eflaust mörgum að ekki hefði verið í of mikið lagt áður. Kannski væri ekkert við þetta að athuga ef menn ætluðu Byggðastofnun minni verkefni en verið hefur fram til þessa. Ég vil benda hæstv. forsrh. á að ég get hér og nú bent á tvennt í ráðstöfunum ríkisstjórnar, í frumvörpum sem liggja fyrir Alþingi, þar sem Byggðastofnun er ætlað að taka á sig ný og aukin verkefni á sama tíma og dregið er úr fjárframlögum til hennar. Ég nefni tvennt. Í greinargerð með frv. um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins sem liggur fyrir Alþingi núna segir að það sé miklu eðlilegra að ætla Byggðastofnun það hlutverk í byggðalegu tilliti sem Hagræðingarsjóði var ætlað áður. Ég spyr því hæstv. forsrh. hvernig það samræmist því að framlög til Byggðastofnunar séu lækkuð.
    Ég nefni annað atriði þar sem meiri hluti Alþingis leggur til að Byggðastofnun taki

að sér ný verkefni. Í fjárlagafrv. því sem liggur fyrir Alþingi núna er felld niður fjárveiting til iðnráðgjafa á landsbyggðinni sem ýmsir hefðu kannski haldið að veitti ekkert af að störfuðu áfram. Þar er, ef ég man rétt, tekið fram að þetta sé verkefni sem sé miklu æskilegra að Byggðastofnun sinni. Aftur kem ég að því að í tillögum ríkisstjórnarinnar, sem síðan endurspeglast í fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir núna, eru skornar niður fjárveitingar til Byggðastofnunar.
    Þetta eru þau tvö dæmi sem ég man eftir og hef núna á hraðbergi. Ekki kæmi mér á óvart þótt þau fyndust fleiri í tillögum hæstv. ríkisstjórnar og meiri hluta á þingi þar sem Byggðastofnun eru ætluð ný og stærri verkefni á sama tíma og dregið er úr fjárframlögum til hennar.
    Þá ætla ég að koma að næsta atriði sem tengist landsbyggðinni í þeim ráðstöfunum sem eru til umfjöllunar í ríkisfjármálum. Það er frestun á beinum greiðslum til sauðfjárbænda. Þarna er erfitt, eins og ég skil þetta, að tala um mikinn beinan sparnað því einungis er rætt um að fresta þessu um einhverja mánuði fram yfir áramót. Einhvern tíma hefðu menn leyst slíkt með láni. Það er ekki það, hæstv. forsrh., sem ég tel alvarlegt í þessu máli, heldur hitt að í aðgerðum til að leysa vanda ríkissjóðs, sem ég vissulega viðurkenni að er mikill, skuli vera gripið til sértækra aðgerða sem beinast að stétt, sem er langur vegur frá að hægt sé að tala um sem eina af þeim sem breiðust bökin hafa í okkar þjóðfélagi. Auk þess er þarna brotinn nýgerður og undirritaður samningur við sauðfjárbændur. Ég vil, hæstv. forsrh., að ráðherra skoði þetta í því ljósi að bændur á Íslandi hafa á umliðnum árum sýnt meiri samstarfsvilja, meiri sveigjanleika til þess að laga sig að breyttum aðstæðum en, þori ég að fullyrða, að dæmi eru til um varðandi bændastétt í nálægum löndum. Því til staðfestingar vil ég nefna að sauðfjárframleiðslan hefur dregist saman um þriðjung á til þess að gera fáum árum. Bændur hafa sýnt mikið raunsæi eftir að hafa horfst í augu við þær staðreyndir sem þar hafa blasað við því að vissulega viðurkenni ég að það þýðir ekkert að framleiða meira en það sem markaðurinn tekur við. Í ljósi þessara staðreynda, hæstv. forsrh., finnst mér þessar brigður á samningnum þeim mun alvarlegri. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að draga þessar tillögur til baka í þeirri törn sem við stöndum nú í síðustu dagana fyrir jól. Ég fullyrði að hæstv. ríkisstjórn yrði álitin meiri að eftir en áður.
    Þá ætla ég að koma að atriði sem er nú klárlega í frv. um bandorminn. Það birtist okkur í brtt. á síðustu stundu sem er vörugjaldið eða hafnaskatturinn. Það er þannig að á hafnagjöldin er lagt álag. Aflagjöldin eru undanþegin, þ.e. það eitt að landa sjávarafla er undanþegið en á öll önnur hafnagjöld er lagt 25% álag til þess að skapa ríkissjóði 125 millj. kr. viðbótartekjur sem mætir sömu upphæð sem er til aukningar á framkvæmdum við hafnir. Það er út af fyrir sig jákvætt. Það sem hins vegar er neikvætt við þetta er í fyrsta lagi það að samkvæmt reglum og lögum um hafnir er óheimilt að innheimta þessi gjöld til annars en rekstrar og uppbyggingar viðkomandi hafnar. Að vísu er sjálfsagt rétt, eins og hæstv. forsrh. minnti mig á í umræðum einhverja nóttina, að lög taka af önnur lög. Ég vil minna hæstv. forsrh. á að í þeirri umræðu, þegar ég talaði um að lög hefðu verið brotin, var ég ekki að tala um að lög núv. hæstv. ríkisstjórnar gætu ekki tekið af ákvæði í sveitarstjórnarlögum og ákvæði um samráð sveitarstjórna við ríkið. Ég var einungis að segja að þetta bryti í bága við lög um samráð, sem kveða á um samráð sveitarfélaga og ríkisins.
    En ég var að ræða um löndunargjaldið, hafnagjaldið. Þessi skattur er þess eðlis að hann leggst þyngra á landsbyggðina en höfuðborgarsvæðið vegna þess að mjög mikill hluti af þeim vörum sem til landsins koma fara fyrst um höfn hér á höfuðborgarsvæðinu, taka þar fullt gjald og taka aftur á sig gjald þegar þeim er landað á viðkomuhöfn úti á landi.

Þetta er þar með enn einn gjörningur núv. ríkisstjórnar sem bitnar þyngra á landsbyggð en höfuðborgarsvæði.
    Ég vil nefna til viðbótar þessu, og það er að vísu ákvæði sem einungis er í fjárlögunum, að þar er ekki króna ætluð til reksturs Skipaútgerðar ríkisins. Það er þvert á móti ákvæði þess efnis að Skipaútgerðin sé lögð niður og seld og andvirði útgerðarinnar verði notað til þess að standa undir rekstri hennar þrjá fyrstu mánuði ársins ef ég man rétt. Þar er hins vegar ekkert, ekki króna til að styrkja sjóflutninga til þeirra hafna sem hafa þurft á þessari þjónustu að halda. Nú ætla ég úr þessum stól ekkert að leggja mat á það hvort sá styrkur hefði átt að vera í því formi að Skipaútgerðin hefði verið rekin áfram eða í því formi að áætluð hefði verið fjárveiting til þess að styrkja starfandi skipafélög til þess að taka við þessari þjónustu. Vissulega er álitamál hvort það hefði ekki getað verið æskilegt. Ég ætla ekki að leggja mat á það hér.
    Þá kem ég næst að Vegagerðinni. Í fjárlagafrv. og fylgifrumvörpum þess er lagt til að framkvæmdafé til vegagerðar í landinu verði skorið niður um tæpar 700 millj. Þeir sem hæstar tölur nefna, nefna 1,1 milljarð. Þá eru þeir að vísu að tala um vegáætlun frá síðasta ári sem miðaðist við aðra verðlagsþróun, þannig að ég mun halda mig við töluna, tæpar 800 millj. Þetta er samdráttur sem kemur langþyngst niður á landsbyggðinni.
    Ég hef reyndar ásamt hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni flutt þáltill., sem ekki hefur verið tekin til umræðu, um það hvort ekki geti verið eitt mesta framfaramál okkar þjóðar við núverandi aðstæður, að leggja peninga í að ljúka hringveginum og nota það tækifæri sem nú býðst. Vegna þess að í landinu eru öflugir verktakar með góðan tækjakost sem fyrirsjáanlegt er, miðað við stefnu núv. ríkisstjórnar, að muni á næstu árum annaðhvort úreldast án þess að koma nokkrum að gagni eða vera seldur úr landi fyrir slikk. Ég held að færa megi að því rök og vísa til þess sem aðrar þjóðir hafa gert, að góðar samgöngur milli landshluta séu svo mikilvægar fyrir atvinnulífið, fyrir viðskipti og uppbyggingu atvinnulífsins, að þær krónur sem í það eru lagðar skili sér margfalt til baka, jafnvel þó það þurfi að taka þær að láni erlendis frá að einhverju leyti.     Ég nefni aðeins eitt dæmi, ,,átóbanana`` þýsku, sem kannski öðru fremur lögðu grunninn að endurbyggingu Þýskalands eftir seinni heimsstyrjöldina. Þannig höfðu þeir þetta fullkomna samgöngukerfi sem greitt gat fyrir öllum viðskiptum og þróun atvinnulífsins. Ég óttast það eilítið, hæstv. forsrh., að með þeirri áherslu sem nú er lögð á gangagerð, án þess að ég vilji nokkuð draga úr því, sitji önnur vegagerð eftir. Og farið geti svo, að eftir jarðgangatímabilið, ef svo má kalla, sem stæði í einn til tvo áratugi, stæðum við uppi með samgöngukerfi sem að öðru leyti væri orðið áratugum á eftir því sem gerist í nágrannalöndum okkar. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég mun gera það þegar ég mæli fyrir þessari þáltill., virðulegi forseti, sem ég vonast til að geti orðið fljótlega eftir að þing kemur saman aftur.
    Ég kem nú að öðru atriði varðandi landbúnað, sem eru jarðræktarframlögin. Ef ég man rétt voru þau 94 milljónir að verðgildi á síðasta ári og höfðu þá lækkað úr 540 millj. frá árinu 1984. Margar ástæður eru að vísu fyrir því og m.a. sú stærst, að bændur á Íslandi brugðust mjög vel við tilmælum um að draga úr framkvæmdum og aðlaga sig þannig breyttum aðstæðum. En ég vil minna á það, virðulegi forseti, og tengja það þeim umræðum sem nú eru í gangi innan Alþjóðatollabandalagsins eða GATT og snúast m.a. um viðskipti með búvörur. Samkvæmt þeim heimildum sem ég hef, ég mun að vísu koma að því hér næst í ræðu minni, standa umræðurnar þannig, að á morgun mun formaður GATT, Arthur Dunkel, leggja fram tillögu að samkomulagi í landbúnaðarmálum. Eins og mér skilst, eftir að hafa rætt við þá fulltrúa Íslendinga sem komu heim frá Brussel í gærkvöldi, er tillagan að öllum líkindum þess eðlis, að hann mun leggja hana fram í því formi, að henni verður annaðhvort hafnað eða henni tekið. Það verða ekki fleiri umræður nema e.t.v.

um einhverja útfærsluþætti. En í stuttu máli er grunnurinn að því samkomulagi sá, að greiðslur sambærilegar við jarðræktarframlögin okkar, sem eru tengdar landi eða ræktun eða einstökum landsvæðum, séu leyfðar á meðan að framleiðslutengdar greiðslur leyfast ekki.
    Ég vil nota tækifærið á meðan ég ræði um þennan kafla án þess að ég fari að kalla hér til hæstv. utanrrh. og hæstv. landbrh. Ég mun láta nægja að ræða þetta við hæstv. forsrh. og vekja athygli hans á því, að í þessari viku, gerðist það að íslenska sendinefndin neitaði að skrifa undir bókun nokkurra þjóða, þar sem Kanadamenn stóðu í fararbroddi. Hún fólst í því að þær þjóðir sem búa við kvótakerfi í landbúnaði, sem miðar að því að hætta eða skerða verulega útflutning og eru þá ekki með niðurgreiddar vörur á mörkuðum annarra landa, njóti einhverrar undanþágu varðandi innflutning á búvöru, sem þessi samningur gengur annars út frá. Eftir viðræður við fulltrúa landbrn. sem var á þessum samningafundum --- það er að vísu embættismaður og embættismenn gefa sjaldan mjög ákveðnar yfirlýsingar --- skil ég stöðu málsins þannig, að íslenska utanrrn. hafi gefið íslensku sendinefndinni fyrirmæli um að skrifa ekki þarna undir. Og ég vil nú biðja hæstv. forsrh. að ganga úr skugga um þetta í ríkisstjórninni og upplýsa síðan Alþingi um það, því að miklu máli skiptir að við fáum um þetta vitneskju.
    Ég sagði áðan að ég ætlaði ekki að kalla hér á hæstv. utanrrh. og hæstv. landbrh. Þeir voru leiddir saman um þetta mál á Alþingi í nótt og þar gengu yfirlýsingar þvert hver á aðra. Það var svolítið mjólkurduftsbragð af þeirri umræðu, hæstv. viðskrh. En að öðru leyti vil ég segja það um GATT-viðræðurnar að þar eru menn núna að tala að verulegu leyti um aðra hluti en voru í íslenska tilboðinu fyrir ári þannig að út frá þeim forsendum hefði að mínu mati verið sjálfsagt að íslenska ríkisstjórnin hefði skrifað undir þann fyrirvara sem Kanadamenn höfðu þarna forustu um að leggja fram.
    Ég vil taka það skýrt fram hér, að ég sé ekki einungis sorta í GATT-samningunum. Ég held að það sé jákvætt fyrir viðskipti með landbúnaðarvörur í heiminum að verð á þeim endurspegli betur en það gerir í dag raunverulegan framleiðslukostnað. Og það minnir mig á að ég heyrði hæstv. viðskrh. segja það fyrir nokkrum dögum í umræðunni um mjólkurduftsmálið að íslenska verðið, þessar 550 kr., væri reiknað verð og endurspeglaði markaðinn á engan hátt. Ég man nú ekki, hæstv. viðskrh., hvort þetta er orðrétt haft eftir, en ég man hins vegar að í sömu andránni nefndi hæstv. viðskrh. 50 kr. fyrir kílóið af innfluttu mjólkurdufti. Hann sagði hins vegar ekkert um að það verð, þessar 50 kr., endurspeglar á engan hátt heldur markaðinn eða framleiðslukostnað. Ef innlenda verðið, 550 kr., er reiknað verð þá er 50 kr. verðið á innflutningnum heldur betur reiknað. Því það byggist ekki á raunverulegum framleiðslukostnaði og flutningskostnaði til Íslands heldur er þetta stórlega niðurgreitt verð á heimsmarkaði núna, sem m.a. hefur hrapað svo tugum prósenta skiptir ef ekki hundruðum prósenta, ég kann ekki að fara með þá tölu, eftir að viðskiptabyltingin varð þegar austurblokkin opnaðist. Það þekki ég ósköp vel þar sem ég er vel kunnugur því verði sem fengist hefur fyrir þessa vöru ef hún hefur verið flutt út frá Íslandi.
    Ég vil biðja hæstv. viðskrh. að hafa þetta í huga þegar hann talar um reiknað verð á landbúnaðarvörum á næstunni. Mér segist nefnilega svo hugur, að nú sé miklu meira samræmi á milli framleiðslukostnaðar og verðs á markaði á mörgum íslenskum landbúnaðarvörum heldur en gerist og gengur í þeim nágrannalöndum okkar, sem hæstv. viðskrh. er mjög tamt að bera okkur saman við.
    Til viðbótar þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar gagnvart landsbyggðinni ætla ég að nefna hvernig búið er að atvinnulífinu, að frumframleiðslugreinunum og þá kannski fyrst og fremst sjávarútveginum, sem er eins og við vitum fyrst og fremst úti um land. Hann býr enn, þó að sú staðreynd hafi drukknað eilítið í annarri umræðu síðustu daga, við drápsvexti. Og ég vil leyfa mér, hæstv. forsrh. að taka svona stórt upp í mig, því það að borga allt að 20% raunvexti eins og verið hefur á undanförnum vikum, og verður væntanlega núna á þriggja til fjögurra mánaða tímabili þar sem raunvextir yfir heildartímabilið á óverðtryggðu innlendu fjármagni eru í kringum 15%, eru náttúrlega þvílíkir vextir að það eitt að þurfa að standa undir slíku ríður mörgu veikburða fyrirtæki að fullu. Og ég veit að hæstv. sjútvrh., sem situr í hliðarsal, gæti komið hingað upp og staðfest þetta með mér. Skora ég á hann að gera það á eftir. Ég veit að hæstv. sjútvrh. hefur komið fram með tillögur í ríkisstjórninni sem m.a. gengu út á það að færa raunvexti mjög ákveðið niður. Undir þær tillögur hefur ekki verið tekið enn svo ég viti og ég skora því á hæstv. sjútvrh. að koma nú upp og segja okkur frá því hvað hann hyggist gera á næstunni til þess að laga þennan þátt rekstrarskilyrða grunnatvinnuveganna úti á landi. En eins og ég sagði áðan, eru þau þannig núna að fyrirtækin hafa þurft að búa við þessa vexti nú um nokkurra mánaða skeið og í mörgum tilvikum standa þau alls ekki undir því.
    Þetta leiðir síðan hugann að skattastefnu ríkisstjórnarinnar, sem að mínu mati er vægast sagt afar sérstök. Á síðustu vikum mun hún hafa verið að reyna að brúa fjárlagabilið. Þá hafa, eins og ég sagði áður, komið fram tillögur um mjög sértækar aðgerðir, álögur á einstakar stéttir, á sauðfjárbændur, á barnafjölskyldur með miðlungstekjur og þar yfir og áætlaðar álögur á sjómenn svo eitthvað sé til tekið. Til viðbótar þessu hafa verið dregin fram frv. Og bendir allt til þess að hæstv. fjmrh. hafi fundið þau í skúffum í ráðuneytinu. Sum hver eru gamlir kunningjar og búið að fara margsinnis yfir þau hér og lesa upp úr ræðum hv. þm. Sjálfstfl. þegar þeir börðust á móti þeim á sínum tíma. Og því miður hefur komið í ljós að í hæstv. efh.- og viðskn. eru þau þannig unnin að þau væru kannski boðleg sem fyrsta vinnuplagg í ráðuneyti. Þannig er með frv. um tekju- og eignarskatt, sem nú er til meðferðar í efh.- og viðskn. Ég skildi ummæli hæstv. forsrh. í hádegisútvarpi þannig að búið væri að leysa ágreiningsmál sem snerta það frv. En á fundi efh.- og viðskn. í kvöld fór samt þannig, þegar kom að því að taka á þessum þáttum, að við í minni hlutanum vorum beðin að víkja af fundi eilitla stund á meðan meiri hlutinn og starfsmenn fjmrn. ráðfærðu sig um hugsanlegar brtt. En samt fór nú svo að eftir hálftíma var okkur tilkynnt að málin væru öll óleyst. Ekkert væri vitað hvenær hægt væri að boða nefndina saman aftur til þess að ganga frá þessu. Þar hygg ég að vegi þyngst ágreiningur um frádrátt á arði hlutabréfa í atvinnurekstri. ( Forsrh.: Það er búið að leysa þetta allt saman). Það er búið að leysa þetta allt saman, segir hæstv. forsrh. Og þá, hæstv. forsrh., endurtek ég ósk mína frá því í dag. Við fengum ekki að sjá þessa lausn. Við sátum klukkutímum saman í efh.- og viðskn. í dag. Þessi lausn var aldrei borin á borð fyrir okkur, þannig að nú, virðulegi forseti, fer ég fram á það við hæstv. forsrh. að hann komi upp að lokinni ræðu minni og kynni okkur þessa lausn. Við nefndarmenn í efh.- og viðskn. þurfum þá ekki að sitja klukkutímum saman úti í Þórshamri ef forsrh. upplýsir hér, þó hann vilji ekki kynna það frekar, að búið sé að leysa öll þessi mál. Því fer ég fram á það að hæstv. forsrh. komi upp og kynni okkur þessa lausn. Ég hygg reyndar að ég viti, en ég ætla ekkert að fara með það hér af því sem ég hef heyrt hér á göngunum í dag og gærkvöldi í hverju sú lausn er fólgin. En ég veit hins vegar að langur vegur er frá því að um samstöðu meðal stjórnarliða í efh.- og viðskn. sé að ræða. Ég veit reyndar líka að sú lausn er þess eðlis að aðilar vinnumarkaðarins telja hana gjörsamlega óviðunandi og einnig að hún er þess eðlis að sá veikburða hlutabréfamarkaður sem nú er verður enn veikburðari á næstunni.
    Og af því að talið hefur borist að þessu vil ég líka minnast á það við hæstv. forsrh., sem ég hef bæði rætt við fjmrh. og viðskrh., þ.e. áform ríkisstjórnarinnar um að selja ríkisfyrirtæki, breyta Búnaðarbankanum og fleiri fyrirtækjum í hlutafélög og setja á innlendan hlutabréfamarkað. Og ég vil því spyrja hæstv. forsrh. hvaða áhrif hann telji að það

hafi á veikburða hlutabréfamarkað ef ekki verður nema 1 milljarður og 75 millj., eins og áætlað er í tekjur í fjárlagafrv., sett inn á þann markað af hlutabréfum af ríkisfyrirtækjum á næsta ári. Ég geng lengra, ef ætti að ná þessum peningum, væri það einungis Búnaðarbankinn sem mundi seljast af þeim fyrirtækjum sem nefnd hafa verið. Ég veit líka, að lífeyrissjóðirnir og fleiri aðilar mundu gleypa við þeim hlutabréfum. Þarna er um að ræða mjög stöndugt og vel rekið fyrirtæki sem á engan hátt þarf að breyta. Ef ég man rétt, þá er talið að árleg fjárfesting á síðasta ári í heild í hlutabréfum hafi verið 3 milljarðar. Þarna er um að ræða 33% á markaði sem er hættur að hreyfast. Ég get upplýst hæstv. forsrh. um að framkvæmdastjóri Félags ísl. iðnrekenda, tilvonandi ráðuneytisstjóri í forsrn. --- Ég geri hlé á þessu augnablik. Ég næ þræðinum aftur.
    Virðulegi forseti. Ég get upplýst hæstv. viðskrh. um að ég er að spyrja hæstv. forsrh. sömu spurningar og ég spurði hann að fyrir nokkrum dögum þ.e. hvaða áhrif hann telji að það að setja 1 milljarð og 75 millj. af hlutafé í ríkisfyrirtækjum, væntanlega Búnaðarbankanum eins og áætlað er í fjárlagafrv., út á okkar veikburða hlutabréfamarkað í dag hafi. Það er nefnilega svo komið að það eru fulltrúar minni hlutans í efh.- og viðskn. sem berjast fyrir því nótt og dag, hæstv. viðskrh., að til þess verði séð að skilyrði, sem eru fyrir hinn veikburða hlutabréfamarkað sem hér er og reynt hefur verið að byggja upp á síðustu árum, verði ekki skert. Ég veit að hæstv. viðskrh. hefur unnið ötullega að því að styrkja hann. En það eru fulltrúar minni hlutans sem berjast gegn því á þingi þessa dagana að þar verði hlutirnir skertir svo að ekki verði úr bætt.
    Virðulegi forseti. Ég doka augnablik við eftir hæstv. forsrh. sem hefur veitt mér þann heiður að sitja hér nánast óslitið undir ræðu minni.
    Ég ætla á meðan að koma að einum þætti þessa máls sem ég hef ekki getið um fram að þessu. Það er ábyrgðasjóður launa. Áform ríkisstjórnarinnar, þegar fyrirsjáanleg eru stóraukin gjaldþrot, eru þau að skerða stórlega réttindi launafólks þegar að slíku kemur. Ég vil ekki segja að þar hefði ekki mátt neinu breyta. En sem dæmi um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þessa dagana fengum við þetta inn í nefndina í frv., þar sem það var í því formi, að lögin um ábyrgðasjóð launa væru felld brott en í staðinn kæmu þrjár greinar í bandorminum sem leystu þetta af hólmi. Þau kvæðu á um stofnun nýs sjóðs m.a. með 0,2% greiðslu af launum frá atvinnurekendum. Síðan kom allt í einu í ljós, hæstv. viðskrh. --- af því viðskrh. er eini ráðherrann sem hér situr núna --- að í 5.--15. gr. í lögunum um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota voru tæknileg atriði sem var alveg bráðnauðsynlegt að væru í gildi áfram. Við fengum brtt. þar sem öllu var snúið við, fyrri lög látin halda sér, en skipt út þremur fyrstu greinunum. Þetta var að vísu nokkuð snyrtilega unnið. Við fengum þetta í klippimyndaformi þar sem búið var að skeyta og líma saman þessi lög og ljósrita.
    Virðulegi forseti. Þá held ég áfram þar sem ég hvarf frá áðan er ég var að ræða um það við hæstv. forsrh. hver áhrif hugsanleg sala á 1 milljarði og 75 millj. af hlutabréfum í fyrirtækjum sem ríkið breytti í hlutafélög hefði. Ég sagði að ég sæi ekki á þeim lista, sem þar hefur verið nefndur, að það sé annað en Búnaðarbankinn sem gæti gefið þetta í ríkissjóð á næsta ári. Ég var að spyrja hæstv. forsrh. hvaða áhrif hann teldi að þetta hefði á hlutabréfamarkaðinn sem nú er í þvílíkri lægð og verðhrun verið slíkt á síðustu vikum að hefði það gerst á erlendum hlutabréfamarkaði væri það heimsfrétt.
    Ég var einnig að segja honum það, að á fundi efh.-og viðskn. mætti formaður eða framkvæmdastjóri Íslenskra iðnrekenda. Sá maður er, ef ég man rétt og segi rétt frá, ég er að vísu orðinn nokkuð vansvefta og minnið er aðeins að bila, en mig minnir nú samt, nýráðinn ráðuneytisstjóri ( Gripið fram í: Það er ekki búið að því). Nú, það er ekki búið að því. ( Gripið fram í: En það stendur til). Það stendur til og ég þakka fyrir leiðréttinguna. Það er a.m.k. búið að tilkynna að það standi til. Hann er einn af okkar reyndustu mönnum varðandi atvinnulífið og ég spurði hann einmitt þeirrar spurningar hvaða áhrif þetta hefði á fjármagnsmarkaðinn. Maðurinn er mikill diplómat og hefur e.t.v. haft í huga tilvonandi stöðu sína þegar hann svaraði mér á þann hátt að hvaðeina sem gert væri til þess að torvelda eða hindra eðlilega sölu hlutafjár á almennum markaði mundi mjög torvelda þessi markmið. Þetta bið ég hæstv. forsrh. að skoða í ljósi áformanna um að fella niður ákvæðið um að leyfilegt sé að draga útgreiddan arð frá skattskyldum tekjum í fyrirtækjum. Ég vil minna hæstv. forsrh. á að greiddur arður er alveg hliðstæður við greidda vexti í fyrirtækjunum. Á meðan öll meðferð vaxta er skattfrjáls er það náttúrlega, eins og framkvæmdastjóri VSÍ sagði, víðáttuvitlaust að ætla að taka það upp eitt og sér að skattleggja í fyrirtækjum útgreiddan arð.
    Aftur er annað mál að þegar að því kemur að allar fjármagnstekjur verða skattlagðar hljóta menn að skoða þetta. En ég vek athygli á því að í hugmyndum um skattlagningu fjármagnstekna hef ég aldrei heyrt um annað en að þær yrðu skattlagðar hjá viðtakanda. Þannig er þegar menn ræða um skattlagningu á vaxtatekjunum. Það væri þá alveg út í hött að setja nú ákvæði um að skattleggja arðgreiðslurnar í fyrirtækinu og mundi riðla því veikburða jafnvægi sem þarna er. Ég vek athygli á því að verulegar takmarkanir eru á þeim skattfrjálsu arðgreiðslum sem nú eru við lýði.
    Ég vil reyndar leyfa mér að beina þeirri spurningu til hæstv. viðskrh. hvort hann, með alla sína reynslu af fjármagnsmarkaðinum og af efnahagsmálum, telji rétt að staðið að skattleggja arðgreiðslurnar með þeim hætti sem hér er lagt til.
    Að lokum varðandi skattastefnu og það sem ég nefndi áðan um tilburði ríkisstjórnarinnar í skattamálum núna, m.a. með því að draga hvert frv. af öðru upp úr skúffum í fjmrn., vil ég benda á að að mínu mati er mjög brýnt og eitt brýnasta verkefni í efnahagsmálum okkar að endurskoða skattastefnuna frá grunni. Við eigum ekki að vera með inni í tekjuhlið fjárlagafrv. liði eins og kartöflugjald upp á 110 millj., sem þeir borga sem kaupa sér franskar kartöflur á skyndibitastöðum m.a., og þannig mætti áfram telja. Að mínu mati hlýtur skattastefnan að byggjast á fernu. Í fyrsta lagi hóflegum tekjuskatti. Í öðru lagi aðflutningsgjöldum, eins og okkur leyfist miðað við þær alþjóðasamþykktir sem við höfum skrifað undir á hverjum tíma. Í þriðja lagi skatta á neyslu með vissum undantekningum. Í fjórða lagi skatta á fjármagnstekjur vegna þess að ef efnahagslífið er í eðlilegu jafnvægi að öðru leyti, þá endar fjármagnið alltaf annaðhvort í neyslu eða að fjárfest er fyrir það. Þeir sem fjárfesta ætlast vonandi til þess að þeir séu að fjárfesta í arðbærum eignum, arðbærum rekstri eða þeir leggja fé í banka og fá þannig fjármagnstekjur. Með þessu móti náum við yfir þá tekjustofna sem við teljum eðlilegt að skattleggja.
    Virðulegi forseti. Nú er komið að lokakafla ræðunnar, þar sem ég hafði óskað eftir því að hæstv. félmrh. og hæstv. dómsmrh. væru viðstaddir. Ég veit að þau voru mætt til þess að fylgjast með ræðu minni þannig væntanlega verður ekki erfitt að kalla þau til.
    Virðulegi forseti. Ég sé að dómsmrh. er kominn en félmrh. væntanlegur. Ég sé að hæstv. dómsmrh. er sestur í kunnuglegt sæti. Ég man ekki betur en þarna sæti hann í stjórnarandstöðu fyrir tveimur árum í því sæti sem hann hefur sest í núna. Ég vona að þetta viti ekki á svo gott að hann telji sig vera á leiðinni í stjórnarandstöðu aftur á næstunni. Ég sé að hæstv. félmrh. er genginn í salinn þannig að ég get lokið ræðu minni.
    Ég ætla hér að lokum að fara örfáum orðum um lögguskattinn sem hæstv. dómsmrh. segir að vísu að sé enginn lögregluskattur. Þetta sé bara nefskattur sem ríkisstjórnin leggi á sveitarfélög í landinu. Það er að vísu rétt svo langt sem það nær. Hér í brtt., sem lagðar voru fyrir efh.- og viðskn., stendur: ,,Þrátt fyrir ákvæði 12. og 13. gr. laga nr. 56/1972, um lögreglumenn, skulu sveitarfélög greiða hluta kostnaðar við löggæslu á árinu 1992 sem

hér segir: Sveitarfélög með 300 íbúa eða fleiri greiði 2.850 kr. á hvern íbúa, sveitarfélög með færri en 300 íbúa greiði 1.700 kr. á hvern íbúa. Miða skal við íbúafjölda 1. des. 1991. Framlög sveitarfélaga skulu greidd með jöfnum mánaðarlegum greiðslum samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð.`` Það er því, hæstv. dómsmrh., ekkert undarlegt þó að þetta sé kallaður lögregluskatturinn þar sem þetta er tengt ,,þrátt-fyrir-ákvæði`` í bandorminum, ekki lánsfjárlögum eins og verið hefur fram að þessu, sem kveður á um að þetta tengist lögum um lögreglumenn.
    Nú ætla ég að koma að fyrsta atriðinu sem við rekum augun í. Þessi skipting að íbúar sveitarfélaga, hæstv. félmrh., með innan við 300 íbúa borgi 1.700 kr. og íbúar stærri sveitarfélaga borgi 2.850 kr. gengur þvert á þau markmið hæstv. félmrh. að stuðla að sameiningu sveitarfélaga og kemur í raun fram sem refsing við þau sveitarfélög sem nýlega hafa sameinast og við það farið upp fyrir 300 íbúa viðmiðunina. Þetta er nú ekki það versta því að ég vil, hæstv. félmrh., ekki ætla ráðherra það og reyndar ekki hæstv. dómsmrh. heldur að þau hafi séð fyrir afleitar afleiðingar þessarar skattheimtu. Í fyrsta lagi eru vinnubrögðin við hvernig þetta ber að þegar fyrst er tilkynnt að málaflokkur fatlaðra verði færður yfir á sveitarfélögin og það skapi 400 millj. kr. tekjur og álög samsvarandi á sveitarfélögin. Dregnar verði 300 millj. af landsútsvari ÁTVR, það jafnað út yfir útsvarsgreiðslur á Jöfnunarsjóð þannig að sveitarfélögin bæru þar í raun 700 millj. Þetta mætti mjög harðri andstöðu og hæstv. félmrh. tilkynnti fyrir nákvæmlega viku síðan, á fimmtudegi fyrir viku, að þetta mundi e.t.v. ekki ganga fram og upp yrðu teknar viðræður við Samband ísl. sveitarfélaga um breytingar á þessu. Þær viðræður eru boðaðar að morgni föstudags. Samkvæmt heimildum okkar í efh.- og viðskn. frá framkvæmdastjóra og formanni Sambands ísl. sveitarfélaga fóru þær fram á þann veg að þeir ásamt varaformanni voru boðaðir á fund þriggja ráðherra þar sem ekki var farið í samningaviðræður heldur var þeim tilkynnt, hæstv. félmrh., að hætt hefði verið við fyrri áform en ákveðið að taka þess í stað upp þann 700 millj. kr. skatt, lögregluskattinn, sem ég hef nefnt. Þetta kallaði formaður Sambands ísl. sveitarfélaga að ríkisstjórnin hefði verið að slíta friðinn við sveitarfélögin, hæstv. félmrh. Þetta er mun alvarlegra vegna þess að samskiptin við sveitarfélögin á síðustu árum hafa verið á þann veg að þar hefur verið að byggjast upp trúnaður, trúnaðartraust milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna, og hafi hæstv. félmrh. þökk fyrir það. Á þessum trúnaði byggðist m.a. sá vilji sveitarfélaganna í landinu til sameiningar. Það mál, hæstv. félmrh., er allt í uppnámi núna. Ég trúi því ekki fyrr en hæstv. félmrh. segir það úr þessum stól, að það hafi verið hans vilji, hæstv. félmrh., að standa svona að málum. Þetta hefur ekki einungis slitið friðinn milli ríkisstjórnar og sveitarfélaganna heldur er þetta á góðri leið með að slíta friðinn innbyrðis milli sveitarfélaganna. Ég er sannfærður um það að gangi þetta fram er þetta mesta óheillaskref í löggjöf og stjórnsýslu sem hafi verið stigið á Íslandi um langt árabil. Auk þess, eins og ég mun nú koma að, kemur þessi aðgerð mjög misjafnlega niður á sveitarfélögum. Öll þurfa þau að borga þennan skatt beint en ég ætla að koma að afleiðingunum.
    Hæstv. félmrh. sagði í sjónvarpi í fyrrakvöld, ég er að vísu nánast hættur að vita hvort það er nótt eða dagur, hvað var í gær og hvað er í dag, en ég held að það hafi verið í fyrrakvöld, að þetta þýddi eftir að tvö stór sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Mosfellsbær og Hafnarfjörður og væntanlega fylgja einhver í kjölfarið hafa brugðist við þessu með því að hækka útsvarsprósentu sína upp í 7,5% og öðlast þannig rétt til framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Í stað þess að, eins og er á þessu ári að kröfurnar á tekjujöfnunarframlögum sveitarfélaga eru rúmlega 500 millj., 520 ef ég man rétt, og framlagið er 500 millj. þannig að hægt var að verða við nánast öllum beiðnum, þýðir þetta samkvæmt upplýsingum hæstv. félmrh. að kröfurnar verða 750 millj., sem er 33% rýrnun fyrir þau

sveitarfélög sem fá tekjujöfnunarframlag úr Jöfnunarsjóði. Það byggist á því að þeim eru bættar upp tekjur að meðaltekjum sveitarfélaga í sama stærðarflokki og þau eru.
    Þetta hefur þær afleiðingar að sveitarfélög sem hafa getað hækkað útsvarsálagningu sína og fengið þar með tekjujöfnunarframlag hafa eftir þessa aðgerð hærri ráðstöfunartekjur á næsta ári en verið hefði. Þau geta velt hluta af þessari skattlagningu af sér og út til einstaklinganna aftur sem ég hélt að hefði verið markmið með þessari aðgerð hjá ríkisstjórninni að koma í veg fyrir. Ég get nefnt eitt dæmi hvað þetta þýðir, og reikna bara út frá forsendum hæstv. félmrh., af sveitarfélagi sem mér er vel kunnugt um norður í landi. Það er 1000 manna sveitarfélag og þarf að borga sínar 2.850 á íbúa, tæpar 3 millj. Það fékk á síðasta ári tæpar 30 millj. úr jöfnunargjaldinu vegna þess að meðaltekjur voru frekar lágar. Þetta þýðir 13 millj. minni ráðstöfunartekjur á næsta ári en í ár, 13% samdrátt, því þarna eru tölur svo skemmtilegar til að reikna með að tekjurnar eru rétt um 100 millj. og 13 þús. á íbúa. Væru samsvarandi álögur lagðar á Reykjavíkurborg væru þetta 1,3 milljarðar, hæstv. félmrh., á þessu ári. Þetta er svona einfalt og þetta byggist ekki á neinu öðru en skattinum, eins og hann er í frv., og á þeim tölum sem hæstv. félmrh. gaf upp í fjölmiðlum.
    Hér er um að ræða þvílíkan ójöfnuð að ég ítreka það --- og nú tala ég bæði til hæstv. dómsmrh. og hæstv. félmrh., en ég ber mikið traust til beggja --- ég ítreka það að hér mun stjórnarandstaðan halda uppi harðri málefnalegri gagnrýni þar til annaðhvort verður látið á það reyna að hægt sé að hnekkja þessu eða hitt að í ljós komi að hæstv. ríkisstjórn ætli að keyra þetta í gegn hvað sem raular og tautar. Ég bið hæstv. félmrh. að koma nú hér upp og upplýsa okkur um það hvort hún hafi séð þessar afleiðingar fyrir og hvort hún ætli að standa að því með hæstv. ríkisstjórn að keyra þetta í gegn í þessu formi sem ég veit að er þvert á þann anda sem hæstv. félmrh. hefur viljað viðhafa.
    Þetta vil ég hafa mín lokaorð í þessari ræðu og benda á að hér er ég kominn með enn eitt atriðið í aðgerðum hæstv. núv. ríkisstjórnar, hæstv. dómsmrh. og landsbyggðarþingmaður, sem gengur á freklegan hátt á sveitarfélög og íbúa landsbyggðarinnar. Þetta eru í sumum tilfellum sveitarfélög sem byggja mikið á sauðfjárrækt sem hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að svipta tveggja mánaða launum á næsta ári. Mér er mikil alvara, hæstv. dómsmrh., og ég vil fara þess mjög ákveðið á leit við hæstv. dómsmrh. að hann ásamt hæstv. félmrh. komi hér upp og upplýsi okkur um það hvort þessir hæstv. ráðherrar hafi séð þessar afleiðingar fyrir.