Verðlagsráð sjávarútvegsins

57. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 11:38:00 (2351)

     Halldór Ásgrímsson :

     Virðulegur forseti. Eins og fram kemur á þskj. 278 í nál. frá sjútvn. undirrita ég þetta nál. með fyrirvara. Ég vil gera grein fyrir sjónarmiðum mínum í sambandi við þetta mál þótt ég geti út af fyrir sig stutt þá ákvörðun sem felst í frv.
    Það má segja að hlutverk Verðlagsráðs sjávarútvegsins hafi verið að breytast með þeirri þróun sem hefur átt sér stað í landinu. Það hefur gætt meira og meira frjálsræðis í verðlagningu sjávarafla og þessi þróun hefur átt sér alllangan aðdraganda, en það má segja að mikil breyting hafi orðið í þessum efnum þegar uppboðsmarkaðir tóku til starfa hér á landi. Áður höfðu íslensk fiskiskip selt afla sinn erlendis og sú sala hafði jafnframt áhrif á verðákvarðanir hér innan lands. Það fer hins vegar ekki hjá því að það mun alltaf verða umdeilt hvaða verð skuli greiða fyrir sjávarafla og það er nánast sama hvaða skipulag verður haft á þeim hlutum, að deilur verða uppi og menn þurfa að komast að niðurstöðu.
    Það er mikill misskilningur að í orðunum ,,frjálst verð`` felist endanleg lausn. Orðin ,,frjálst verð`` þýða ekkert annað en það að menn vilja láta markaðinn um að leysa þau verðlagningarvandamál sem upp kunna að koma. Það liggja að mínu mati heilbrigð sjónarmið þar að baki og á að vera meginregla í viðskiptum. Það má hins vegar ekki gleyma því að seljendur sjávarafla hafa um þessar mundir og hafa haft á undanförnum árum betri stöðu á þessum markaði en kaupendur. Það er ýmislegt sem hefur orðið til þess að styrkja stöðu seljenda. Stjórn fiskveiða hefur m.a. átt þátt í því og jafnframt hefur verið afar mikil samkeppni milli vinnsluaðila í landinu til að ná í hráefni. Fiskvinnslustöðvar eru of margar og á þeim markaði eru margir að berjast fyrir lífi sínu. Hið háa verð verður til þess að þessi hópur vinnsluaðila grisjast eitthvað og erfitt er að koma í veg fyrir það, en það er alveg ljóst að samkeppnin er mjög hörð um hráefnið. Það hefur lengi verið ljóst í íslenskum sjávarútvegi að þar eru uppi margvísleg tekjuskiptingarvandamál milli þeirra sem eiga fiskiskipin, þeirra sem vinnsluna stunda, sjómanna og landverkafólks og það má segja að slíkt tekjuskiptingarvandamál sé ríkjandi í þjóðfélaginu öllu.
    Verðlagsráð sjávarútvegsins hefur þjónað þeim tilgangi að vera sáttasemjari á þessum vettvangi. Það er mikill misskilningur þegar því er haldið fram að þar hafi verið beitt verulegum opinberum afskiptum. Ég minni á að oddamaður í yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins er skipaður samkvæmt lögum. Hann er ekki skipaður sem sérstakur fulltrúi ríkisvaldsins heldur er hann skipaður sem sáttaaðili og er alveg ákveðið í lögunum hver það skuli vera. Það er forstjóri Þjóðhagsstofnunar og hann hefur þær skyldur að sætta þar sjónarmið en ekki að þjóna sjónarmiðum ríkisvaldsins. Hann ber hins vegar almenna ábyrgð og honum ber að taka tillit til verðlagningar og markaðsverðs á sjávarafurðum. Það hefur hins vegar verið nokkuð algeng skoðun að oddamaður væri nokkurs konar starfsmaður ríkisvaldsins og bæri að hlíta fyrirskipunum þaðan. Þessi skilningur kemur mjög víða fram, jafnvel hjá ýmsum sem skrifa um íslenskt þjóðfélag og halda ræður um það sem er að gerast á markaði í landinu. Þannig hef ég t.d. séð slík sjónarmið koma fram af hálfu stofnunar eins og Seðlabanka Íslands. Þarna hefur verið nokkuð ríkur misskilningur á ferðinni.
    Oddamaður hlustar á sjónarmið kaupanda og hann hlustar á sjónarmið seljanda. Hann reynir að samræma þessi sjónarmið, en að lokum verður hann oft að taka afstöðu með öðrum aðilanum og það hefur gerst í gegnum tíðina.
    Á árinu 1985 var lögunum breytt þannig að Verðlagsráð sjávarútvegsins gat ákveðið að gefa verðlagningu frjálsa á tilteknum fisktegundum, enda næðist um það einróma samkomulag í ráðinu. Ástæðan fyrir því að ekki var gengið lengra í breytingum var einfaldlega sú að tekjuskiptingarvandamálið var viðurkennt og það var ekki alveg séð hvað skyldi koma í staðinn. Þróunin hefur hins vegar orðið sú að þessi mál hafa lent í hendur manna á einstökum stöðum og hver og einn kaupandi hefur í ríkara mæli þurft að taka eigin ákvarðanir með tilliti til framboðs og eftirspurnar. Verðlagsráð sjávarútvegsins hefur hvorki getað né viljað koma í veg fyrir þessa þróun. Það verð sem þar er ákveðið er eingöngu lágmarksverð og það er enginn sem bannar aðilum að koma sér saman um hærra

verð. Það var hins vegar talið lengst af í íslenskum sjávarútvegi að það væri til bóta að til væri vettvangur þar sem hægt væri að skiptast á skoðunum og ráða ráðum sínum um það hvað gera skyldi og þá e.t.v. taka ákvarðanir um að verðlagningin skyldi verða algjörlega frjáls. Það var jafnframt talið til bóta að það væri til lágmarksverð, ákveðin viðmiðun til að fara eftir í ljósi þeirra staðreynda að víða háttar þannig til að tiltölulega fá fiskiskip eru í einu byggðarlagi, jafnvel eitt, og fáir kaupendur og jafnvel aðeins einn kaupandi. Það getur því háttað þannig til að það sé aðeins einn kaupandi í einu byggðarlagi og einn seljandi. Það vill oft þannig til að þessi atvinnutæki eru í eigu eins og sama aðilans. Í slíkum tilvikum eru tekjuskiptingarvandamálin augljós. Sjómenn á viðkomandi stað vilja að sjálfsögðu miða kaup og kjör við það sem gengur og gerist á almennum markaði en lögmál hins frjálsa markaðar fá að sjálfsögðu ekki að njóta sín í slíkum tilvikum. Það er staðreynd sem ekki verður gengið fram hjá að í litlu samfélagi þar sem byggð er dreifð, eins og hér á Íslandi, háttar einfaldlega þannig til að lögmál markaðarins geta ekki notið sín. Það eru ekki sömu skilyrði til þess og þar sem fjölmenni er mikið og margir búa á litlu svæði.
    Það má segja að auðvitað gætu þessi lögmál notið sín betur ef Íslendingar byggju á tiltölulega litlu svæði á landinu. Það er hins vegar ekki okkar markmið. Ég tel að það séu a.m.k. mjög fáir stjórnmálamenn sem telja æskilegt að íslenskt samfélag líti þannig út. Það er almennt talið og viðurkennt af stjórnmálamönnum að mikilvægt sé að viðhalda byggð sem víðast í landinu og vera trúr þeim stöðum og landsvæðum sem forfeður okkar hafa byggt upp. Það er ekki þar með sagt að þar eigi ekkert að breytast og engu eigi að hreyfa. En til þess að halda þessu jafnvægi verða að vera til staðar í landinu einhverjar þær stofnanir sem geta miðlað málum að því er varðar mikilvægar vörur og mikilvæga þjónustu landsmanna.
    Menn tala oft um að það megi ekki hafa nein afskipti af neinu tagi af verðlagningu. Þetta sjónarmið er ekki ríkjandi almennt í heiminum. Ég minni t.d. á að það eru afar mikil afskipti af verðbréfamarkaði í Bandaríkjunum þó þau séu talin vagga hinna frjálsu viðskipta. Verðbréf eru sú vara sem mest er höndlað með í því merkilega ríki. Viðskipti með verðbréf eru meiri þar en á nokkru öðru sviði. Það þykir nauðsynlegt í því annars tiltölulega frjálsa ríki að hið opinbera hafi veruleg afskipti af þessum markaði og það séu settar reglur um hvernig þessi viðskipti skuli fara fram.
    Það liggur fyrir að fiskur og viðskipti með fisk eru eitt af því mikilvægasta og trúlega það mikilvægasta, a.m.k. er það mín skoðun að það sé það mikilvægasta. Ég veit ekki hvort um það er full samstaða í landinu en þessi viðskipti eru afar þýðingarmikil. Það vill þannig til að aðgangur að þessari auðlind er takmarkaður og rétturinn til að veiða hefur verið látinn í hendur ákveðinna aðila. Með tilliti til þess er ekki óeðlilegt að þarna séu ákveðnar samskiptareglur. Þessar samskiptareglur hafa fyrst og fremst komið fram innan Verðlagsráðsins og ég hef verið þeirrar skoðunar að áður en breyting yrði þar á þyrfti að liggja betur fyrir hvað ætti að taka við. Það má segja að slíkir hlutir geti verið hluti af mörkun stefnu á þessum sviðum. Auðvitað er í gangi stefnumörkun á hverju einasta ári á sviði sjávarútvegsins og það er mikilvægt að stíga þar hvert skref varlega og átta sig sem best á því hvað tekur við.
    Ég get því viðurkennt að ég hef haft vissa tregðu í frammi við að samþykkja að Verðlagsráðið verði lagt niður eða yfirnefnd þess. Sú tregða hefur fyrst og fremst byggt á því að ég hef ekki alveg áttað mig á því hvað við mundi taka. Mér þótti eðlilegt að um það væri sem best samstaða og því væri ekki óeðlilegt að allir aðilar þyrftu að koma sér saman um aðra skipan mála. Hins vegar verður að viðurkennast að það hefur dregið úr mikilvægi Verðlagsráðs smátt og smátt hvort sem mönnum líkar það betur eða verr og því má segja að það væru minni umskipti ef það væri lagt niður nú en fyrir nokkrum árum. Þó eru alltaf uppi einhverjar deilur sem almennt eru leystar í Verðlagsráðinu án þess að því sé skotið til yfirnefndar, en þó er ekki hægt að útiloka að þar verði þær alls ekki leystar. Það mun þá gerast þannig, af því ég heyrði að það var verið að tala um rækju þegar ég gekk í salinn, að ef ekki næst samkomulag á milli aðila, hvort sem það er á Bíldudal eða Blönduósi eða einhverjum þeim stöðum þar sem rækja er mikilvæg mannlífi á staðnum, að reyna mun á menn á viðkomandi stað að leysa þann ágreining. Það er að sjálfsögðu af hinu góða að menn geri sér grein fyrir ábyrgð sinni og þurfi að takast á við það verkefni. Auðvitað má ekki ganga svo langt að menn séu gjörsamlega undanskildir að þurfa að takast á við það.
    Þessar deilur eru oft mjög hatrammar og illleysanlegar. Þá hefur oft og tíðum verið til bóta að til væri vettvangur sem er aðeins fjarri stöðunum og að hægt væri að taka þessar deilur inn á þann vettvang til að forða návíginu. Hitt er svo annað mál að jafnvel þó að deilurnar hafi verið leystar á vettvangi yfirnefndar hefur það ekki komið í veg fyrir að návígið kæmi upp jafnframt því að stundum sætta menn sig ekkert við þær niðurstöður sem eru teknar á vettvangi yfirnefndar og halda áfram að deila um þessa skiptingu. Það hefur hins vegar verið málinu til styrktar að niðurstaða hafi fengist á vettvangi yfirnefndar og orðið til þess að erfiðara hefur verið að brjóta það upp á viðkomandi stað.
    Virðulegur forseti. Það var ekki hugmyndin að hafa um þetta mál mjög langa ræðu. Ég geri mér grein fyrir að um það er almenn samstaða innan sjávarútvegsins að gera þessa breytingu, fara út í þessa skipan mála þó að einstakir aðilar hafi um það fyrirvara og geri sér ekki alveg grein fyrir hvað taka skuli við. Það er mikilvægast að sjávarútvegurinn sjálfur geri sér grein fyrir ábyrgð sinni í málinu og eðlilegt að stjórnvöld taki fullt tillit til þess vilja sem þar ríkir. Ég viðurkenni þeirra rétt til þess og löggjafarvaldinu ber að taka mikið tillit til hans. Í ljósi þess get ég stutt frv., en vildi gera grein fyrir þessum sjónarmiðum við umræðu málsins þannig að ljóst sé að með þessari breytingu verða áfram átök. Það kemur ekkert í veg fyrir að þessi átök muni verða og það er viss ótti margra við að staða seljendanna sé einum of sterk. Ég get tekið undir þau sjónarmið, en hins vegar er ekki auðleyst hvernig hægt er að koma meira jafnvægi á. Það jafnvægi mun sjálfsagt skapast í meira mæli þegar sá tími kemur að fiskvinnslustöðvum hefur fækkað í eðlilegu hlutfalli við það framboð sem er á markaði. Það verður sársaukafull aðlögun. Það er mikilvægt að reynt sé að hafa einhver áhrif á þá aðlögun þannig að hún hafi ekki mjög slæm áhrif á byggðirnar í landinu því að hér er ekki um neitt einkamál þeirra að ræða sem eiga þessar stöðvar eða eiga skipin. Hún snertir hvert einasta mannsbarn í viðkomandi byggðarlögum og í reynd snertir hún þjóðfélagið í heild sinni. Hins vegar ber að viðurkenna þetta aðlögunarvandamál og skyldu stjórnvalda til að taka þátt í þeirri þróun sem þar á sér stað og viðurkenna að hún á ekki að gerast skipulagslaust og án afskipta opinberra aðila. Það eru svo miklir almannahagsmunir í húfi að hið opinbera getur ekki komið fram og sagt að því komi það ekkert við.
    Með því að ég hef komið þessum sjónarmiðum á framfæri, herra forseti, tek ég fram að ég mun greiða atkvæði með frv.