Verðlagsráð sjávarútvegsins

57. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 12:08:00 (2352)

     Einar K. Guðfinnsson :
     Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér engin þörf á að orðlengja umræðu um svo sjálfsagt og eðlilegt mál. Hér er verið að leggja til breytingu á lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins, fullkomlega í samræmi við þá breytingu sem hefur átt sér stað á verðlagningu sjávarafurða á síðustu árum. Sú var að vísu tíðin, fyrir ekki mörgum árum, að nokkrum sinnum á ári settust vísir menn niður í því skyni að reyna að móta fiskverð. Þeir dagar sem þá fóru í hönd voru miklir spennudagar almennt í þjóðfélaginu og menn ræddu fram og til baka hvort ýsan hækkaði um prósentunni meira eða minna og þorskurinn um prósentunni meira eða minna o.s.frv. Síðan voru hlutirnir stilltir í þjóðfélaginu eftir þessari merku ákvörðun og afkoma greinarinnar í heild réðst af heildarákvörðun Verðlagsráðsins. Þetta var þannig fyrir nokkrum árum, en síðan hafa hlutirnir breyst.
    Í dag hefur Verðlagsráð ekki lengur sama hlutverk og það hafði. Ákvarðanir um

fiskverð, jafnvel þó þær séu teknar formlega á vettvangi Verðlagsráðsins, hafa sáralitla þýðingu. Í dag, eins og fram hefur komið, er ákvörðun um fiskverð almennt tekin úti um allt land. Ég fullyrði að fiskverð í einstökum fiskvinnslustöðvum er hvergi alveg eins. Sannleikurinn er einfaldlega sá að menn reyna að koma sér saman um það, hver með sínum hætti, hver áhöfn við sinn fiskkaupanda, hver útgerð við sinn fiskkaupanda, hvernig eigi að skipa fiskverðinu hverju sinni. Sums staðar fara menn þá leið að hækka þorskinn örlítið meira, annars staðar einhverja aðra tegund, allt eftir eðli málsins á hverjum og einstökum stað. Jafnvel þó að Verðlagsráð starfi eftir bestu vitund og þátttakendur í Verðlagsráði reyni sitt besta til að endurspegla fiskverðsþróun í landinu er hún einfaldlega svo margbreytileg að því verður ekki komið við með því að ákvarða fiskverð á einum stað með einum almennum hætti. Sú staða er úr sögunni og frá því verður ekki horfið.
    Það er hins vegar eðlilegt, eins og hv. 1. þm. Austurl. gerði, að velta fyrir sér hvað muni taka við. Ég hygg að það sé einfaldlega komið í ljós vegna þess að atburðarásin hefur tekið af löggjafanum völdin og sú þróun sem verður á næstu árum hefur þegar hafist. Fiskverðið verður ákvarðað út um allt land með frjálsum samningum sjómanna og útvegsmanna og fiskkaupenda.
    Hér hefur nokkuð verið komið inn á afkomu rækjunnar og stöðu rækjuvinnslunnar í landinu sem vissulega er afar alvarleg. Hér er ekki um að ræða eitthvað sem er að koma upp á borðið rétt í þessu. Það hefur verið að síga á ógæfuhliðina fyrir þessari þýðingarmiklu atvinnugrein á undanförnum mánuðum og missirum og hefur verið afskaplega erfitt að bregðast við. Meginástæðan fyrir því hvað þarna hefur verið að gerast er sú að rækjuverðið til framleiðendanna hefur hrapað. Menn töldu á sl. vori að það hefði lækkað um 25% ef tekið væri tillit til þess að útborganir úr Verðjöfnunarsjóði væru líka hættar. Það verður að segja þá sögu eins og hún er að verðaðlögunin á hráefninu hefur ekki tekist. Menn hafa einfaldlega ekki viljað viðurkenna þá staðreynd að tekjur greinarinnar hafa minnkað um fjórðung. Menn hafa ekki viljað viðurkenna þá staðreynd með því að lækka útgjöld hennar með sama hætti. Þetta hefur gerst þrátt fyrir það að á þessum tíma hafi verðlag rækjunnar verið ákvarðað innan Verðlagsráðsins. Þar hafa menn ekki talið sér fært að viðurkenna þá verðþróun sem orðið hefur. Vitaskuld er ósköp eðlilegt að þeir sem eru að selja rækjuna reyni eftir bestu föngum að halda verðinu jafnháu og þeim er frekast unnt og eins og fram kom í máli hv. 5. þm. Vestf. hefur það jafnan verið svo að útvegurinn hefur haft yfirhöndina vegna þess að hann er handhafi kvótans.
    Þó að það sé ekki ástæða til að fjalla almennt um fiskveiðistjórnunina vil ég ekki hverfa frá þessu máli öðruvísi en að segja að ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það standi sérstaklega á um kvótann gagnvart rækjunni. Það var þannig á sínum tíma þegar menn voru að afla sér reynslu í rækjuveiðum að rækjuvinnslurnar útbjuggu skipin, rækjuvinnslurnar gerðu út skipin og rækjuvinnslurnar báru alla fjárhagslega og útgerðarlega ábyrgð á rekstri skipanna. Ég er þeirrar skoðunar að þær hafi átt svo mikinn þátt í því að afla reynslu fyrir útgerðirnar að það hefði verið eðlilegast að úthluta þeim einhverjum hluta a.m.k. af heildarkvóta rækjunnar þannig að þær stæðu betur í lappirnar í samningum við rækjuútgerðirnar.
    Ég fagna því að hæstv. sjútvrh. hefur tekið með ákveðnum og afgerandi hætti á málum rækjuvinnslunnar. Það er hins vegar ekki auðleyst. Sannleikurinn er sá, staðreyndirnar blasa þannig við okkur, að rækjuvinnslan stendur ekki undir neinum skuldum. Það má gott heita ef hún getur núna greitt af breytilegum kostnaði, en eins og afkoman er í þessari grein, sérstaklega varðandi vinnslu ákveðinnar stærðar rækju, er staðreynd að hún stendur ekki undir neinum skuldum. Í þeirri stöðu eru ekki margar leiðir færar hvað snertir almennar stjórnvaldsaðgerðir, en ástæða er til að fagna því að verið sé að reyna að finna aðrar leiðir til að leysa rækjuvinnsluna út úr þessum mikla vanda.