Bókhald

57. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 12:16:02 (2355)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umfjöllunar fjallar í stuttu máli um það að setja upp svokallað reikningsskilaráð og lögbinda það. Þetta ráð skuli stuðla að mótun góðrar reikningsskilavenju, eins og segir í lagatextanum, ,,með útgáfu og kynningu samræmdra reglna sem farið skal eftir við gerð reikningsskila``. Enn fremur á ráðið að gefa álit á því hvað telst vera góð reikningsskilavenja á hverjum tíma.
    Þetta þýðir að hér er verið að taka upp einhvern vettvang eða aðila sem hefur það hlutverk að samræma, ef kostur er, reikningsskil og bókhald í úrlausnarmálum sem eru flókin og ekki einsýnt hvernig eigi að meðhöndla.
    Ég tel, eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls, vera til bóta að slíkur vettvangur sé til, en ítreka vissar efasemdir við að lögbinda þennan vettvang og gefa honum ,,átoritet`` til að gefa nánast út fyrirmæli um meðferð mála í þeim málum sem ráðið tekur fyrir. Ég er almennt ekki sannfærður um að í þessum málaflokki, eins og mörgum öðrum, sé það besta leiðin til að taka á málum að lögbinda einhvern aðila og færa honum vald til að afgreiða slík mál. Ég held að að sumu leyti hafi það verið ágæt þróun á undanförnum árum þar sem endurskoðendur hafa með samstarfi, með frjálsum hætti oft komist að skynsamlegri niðurstöðu sem flestir ef ekki allir hafa getað sameinast um.
    Þessum fyrirvara mínum geri ég þó ekki svo mikið úr varðandi frv. að ég muni leggjast gegn því. Ég mun greiða því atkvæði þó ég hafi þessar efasemdir um nauðsyn á því að lögbinda hlutina.
    Það er hins vegar alveg laukrétt að nauðsynlegt er að hafa einhvern farveg til að taka á þeim álitamálum sem upp koma í reikningsskilum. Þau eru býsna mörg og geta skipt verulegu máli, bæði fyrir framteljandann og fyrir þjóðina í heild sinni. Ég nefni sem dæmi um álitamál sem eru uppi í þessum efnum hvernig eigi að fara með aflaheimildir sem fyrirtæki hefur keypt á undanförnum árum eða hefur fengið úthlutað frá sjútvrn. Það hefur

komið fram á undanförnum vikum að hér er um að ræða verulegt álitamál, hvernig með eigi að fara, og t.d. ber ekki saman ríkisskattstjóra í þeim efnum og löggiltum endurskoðendum sem tjá sig um þetta mál í Morgunblaðinu sl. miðvikudag.
    Eins og fram hefur komið í svari við fsp. frá mér um skattalega meðferð á aflakvóta er það afstaða ríkisskattstjóra að eignfæra beri keyptan kvóta og afskrifa um 8% á ári. Það er hins vegar afstaða tveggja löggiltra endurskoðenda, sem rætt er við í greininni sem ég vitnaði til áðan, að það beri að afskrifa þessi kaup um 20% á ári. Þarna ber verulega á milli, hvort menn afskrifa kaupin á fimm árum eða tólf. Það hefur mikil áhrif á útgerðarkostnað hvor leiðin valin er og í ljósi þeirra tillagna sem fyrir liggja í frv. til laga um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt, þar sem lagt er til að rekstrartap megi ekki verða eldra en fimm ára gamalt, þá detti það út af borðinu, getur þetta þýtt verulegar breytingar á afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og orðið þess valdandi að þau fyrirtæki verði að greiða skatta af engu öðru en tapi. Hve þeir skattar verða miklir eða hvort þeir verða fer eftir því hvort menn ætla að afskrifa þetta á tólf árum eða fimm. Hér er um verulegan mun að ræða ef maður lítur á þetta mál eingöngu frá þessum sjónarhóli.
    Skattaleg meðferð á kvóta er út af fyrir sig ekki mál sem ég ætla að gera að umtalsefni ellegar yfir höfuð meðferðin á kvótanum, en ég bendi á þetta þar sem augljóst er að áliti færustu manna ber ekki saman í svo veigamiklu máli og það styður nauðsyn þess að menn reyni að koma sér saman um afstöðu. Það er ljóst að í þessu máli gengur það ekki þannig að þá erum við komnir að hinni niðurstöðunni sem er sú að menn eiga að ganga frá lögum eins skýrum og hægt er og með því móti verða álitamálin færri. Það er að mínu viti það ráð sem best dugar til að greiða úr og fækka álitamálum og ágreiningsefnum í reikningsskilum að löggjafinn gangi frá skýrari lögum. Lagasetning hefur ekki ætíð verið nægilega skýr og það hefur gefið tilefni til þess að menn hafa haft uppi mismunandi álit á reikningsskilum og meðferð í bókhaldinu.
    Ég nefni sem dæmi að svo virðulegur aðili sem Ríkisendurskoðun komst á skömmum tíma að ólíkri niðurstöðu í sama máli. Ég fylgdist með endurskoðun Ríkisendurskoðunar á einni stofnun ríkisins og þar gerðist það sama, að afstaða Ríkisendurskoðunar breyttist mjög á skömmum tíma, þannig að ljóst er að hægt er að túlka lög með nokkuð rúmum hætti og mun rýmri hætti en eðlilegt væri í þessum málaflokki.
    Ég vil því, virðulegi forseti, draga það saman að ég tel að besta ráðið til þess sé að semja skýrari lög og í öðru lagi er ég á þeirri skoðun að samráðsvettvangur þurfi að vera fyrir hendi til að gefa út sameiginlegt álit í álitaefnum sem verða þó alltaf uppi, en ég hef efasemdir um hvort það væri rétt að lögbinda þann vettvang og afstöðu þeirra sem sitja í þessu ráði. Ég hef vissar efasemdir um það þó ég muni ekki leggjast gegn frv. sem hér er til umræðu.
    Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu.