Vatnsveitur sveitarfélaga

57. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 12:32:00 (2357)

     Frsm. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá félmn. á þskj. 306 um frv. til laga um vatnsveitur sveitarfélaga.
    Nefndin hefur fjallað um frv. þetta sem felur í sér endurskoðun á gildandi lagaákvæðum um vatnsveitur og holræsi. Nefndin fékk umsögn um frv. frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og mælir stjórn sambandsins með samþykkt þess. Jafnframt bárust nefndinni drög að reglugerð er sett yrði eftir samþykkt frv. Þá fékk nefndin á sinn fund til viðræðna um málið Húnboga Þorsteinsson, skrifstofustjóra í félmrn., Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, formann stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, og Þórð Skúlason, framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga.
     Nefndin mælir með samþykkt frv., en vill jafnframt lýsa þeirri skoðun sinni að skilja beri ákvæði 2. mgr. 1. gr. frv. þannig að hreppsnefnd sé einungis heimilt að leggja í framkvæmdir við gerð vatnsveitu að fyrir liggi gögn er sýni að hagkvæmt þyki að leggja veituna og reka hana, sbr. 77. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986.
    Í tilefni af því að nefndin setur fram þessa skoðun sína í nál. vil ég, virðulegur forseti, leyfa mér að lesa umsögn í frv. um 1. gr. og hún hljóðar svo:
    ,,Í þessari grein kemur fram sú meginregla að bæjarstjórnum á öllu landinu er skylt, eftir því sem kostur er, að starfrækja vatnsveitur til að geta fullnægt vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja, þar á meðal hafna, í hlutaðeigandi sveitarfélagi. Í núgildandi vatnalögum, 20. gr., er hins vegar kveðið á um heimild bæjarstjórna til að starfrækja vatnsveitur. Með hliðsjón af þjóðfélagsþróun er talið eðlilegt að breyta þessu á þann veg að meginreglan verði sú að starfræksla vatnsveitna verði eitt af skylduverkefnum bæjarstjórna eftir því sem staðhættir leyfa hverju sinni. Ákvæði þetta kemur því í stað núgildandi 20. gr. vatnalaga.
    Aftur á móti er ekki talið unnt að leggja sömu skyldu á hreppsnefndir og er þá fyrst

og fremst haft mið af því hve byggðin er dreifð í mörgum hreppanna og kostnaður við vatnsveitur gæti þar af leiðandi orðið gífurlegur. Þó er það svo að nú þegar starfrækja í kringum 50 hreppar eigin vatnsveitu og í þeim tilvikum eiga öll ákvæði þessa frv. jafnt við um þær sem og vatnsveitur kaupstaða og bæja. Í þeim hreppum þar sem ekki hefur verið lögð vatnsveita er hins vegar einungis heimilt að leggja í stofnkostnað að gögn liggi fyrir sem sýni að hagkvæmt þyki að leggja veituna og reka hana. Er þetta ákvæði í samræmi við 77. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, en þar er kveðið á um skyldu sveitarstjórna til að leita umsagnar sérfróðs aðila um kostnaðaráætlun þegar sveitarstjórn hyggst ráðast í stórframkvæmdir sem gætu stofnað fjárhag sveitarfélags í óefni ef illa tækist til. Ákvæði þetta kemur í stað ákvæðis 28. gr. vatnalaga.``
    Þessa skoðun setur sem sagt nefndin fram í nál.
    Undir nál. rita allir nefndarmenn og Kristinn H. Gunnarsson setur fyrirvara við sína undirskrift.