Vatnsveitur sveitarfélaga

57. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 13:08:00 (2360)

     Frsm. félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir ):
     Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs þar sem hv. 15. þm. Reykv. beindi til mín ákveðnum spurningum og ætla ég að leitast við að svara þeim.
    Fyrst ætla ég að leyfa mér að koma inn á athugasemd við 7. gr. um álagningu vatnsgjalds. Ég tók það svo að það væri fyrst og fremst áhyggjuefni að margfeldisstuðull væri notaður miðaður við fasteignir í Reykjavík, ef ég hef skilið það rétt. Ég ætla að leyfa mér að vitna í umsögn um 7. gr. þar sem segir: ,,Til þess að jafna heimildina og gera hana samanburðarhæfa milli vatnsveitna sveitarfélaga er gert ráð fyrir að áður en til álagningar kemur verði stofninn margfaldaður með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík á sama hátt og kveðið er á um í 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 90/1990, varðandi fasteignaskatta. Stofn til álagningar vatnsgjalds á aðrar fasteignir skal vera fasteignamat þeirra. Upphæð vatnsgjaldsins má nema allt að 0,3 hundraðshlutum af álagningarstofni. Er hér um að ræða svipað hundraðshlutfall og vatnsveitur hafa haft í reglugerðum sínum, en einstaka vatnsveitur hafa haft heimild til að innheimta hærra hundraðshlutfall.``
    Ég held ég fari rétt með að það er þannig að viðmiðun fasteignamats er mjög oft notuð varðandi gjöld í sambandi við eignir í sveitarfélögum, en það hefur verið erfitt fyrir mörg sveitarfélög þar sem fasteignamat er lágt að þeim eru oft ætlaðir sömu tekjustofnar, en þeir nýtast þeim á mjög ólíkan hátt miðað við t.d. fasteignamat. Þar ber kannski hæst fasteignaskattinn sjálfan. Ef ég man rétt var tekið á þessu fyrir u.þ.b. tveimur árum með því að nota einhvers konar viðmiðunarstuðul fyrir sveitarfélög þannig að þau væru ekki svo bundin með tekjustofna sína af fasteignamatinu í sveitarfélaginu, líka vegna þess að sum hafa fengið endurmat og önnur ekki. Hins vegar verð ég að viðurkenna að ég er ekki alveg viss um þetta mál, reyndar vék ég úr sal áðan af því ég vissi af félmrh. í húsinu og fannst æskilegt, ef það yrðu umræður um málið, að ráðherrann yrði hér, en ég tel samt að ég hafi eitthvað fyrir mér í þessu. Aðalmálið í 7. gr. og varðandi þessi 0,3% er að verið er að setja hámark og það er þá að mínu mati verið að reyna að tryggja að það sé nokkuð líkt farið með það hámarksgjald, sem sett er á sveitarfélögin, óháð matinu af því að verkefnið sem slíkt er væntanlega fremur líkt.

    Hins vegar er það svo að frv., og þá tengist það hinni spurningunni sem snýr að umhverfisþættinum, er fremur tæknifrumvarp, þ.e. að verið er að setja lög um tækniþáttinn og gjaldtökuna, og þá vil ég t.d. nefna að það er verið að leggja þá skyldu á sveitarfélög að starfrækja vatnsveitur, en það þýðir ekki að þau eigi að vera með sína eigin uppsprettu. Ég get tekið sem dæmi bæjarfélagið mitt, þar sem ég hef starfað í sveitarstjórn, sem kaupir vatnið frá Reykjavíkurborg, en starfrækir vatnsveituna og sér að öðru leyti samkvæmt viðlíka lögum og þessum um miðlun í sínu sveitarfélagi. Það starfrækir vatnsveituna undir þeim lögum sem ég tel að hafi verið vatnalögin fram að þessu.
    Ég tek undir mikilvægi þess að sinnt sé umhverfisþættinum við allar slíkar framkvæmdir sveitarfélaga, en ég er ekki alveg viss um að ákvæði um slíkt eigi að vera í lögum eins og þessum. Þá er ég að vísa til þess að þetta er verkefnaframkvæmd á hendi tæknideildar sveitarfélaganna eða þeirra þátta eftir því hver störf þeirra eru. Umhverfisþátturinn er hins vegar mjög víða kominn undir sérstakar stjórnir og starfar eftir sérstökum lögum. Það má segja að þar sem farið er að sinna umhverfisþætti styrki hann eftirlitsþátt umhverfismálanna gagnvart framkvæmdarvaldinu í sveitarfélögunum. Það er mitt mat að það sé vænlegra að umhverfisþættinum og umönnun hans sé sinnt samkvæmt einhverjum slíkum umhverfislögum. Ég undirstrika að ég tek mjög undir mikilvægi þessa þáttar. Við fylgdum því ekki eftir með því að koma með ábendingu um að ákvæði um þetta ætti að koma inn í lögin og ég er að tala fyrir mig, enda enginn annar, ef ég man rétt, sem tók þetta upp. En þetta er það sjónarmið sem ég hef.
    Ég hef hins vegar áhuga á að nefna það varðandi athugasemdir um lagafrv. og af því mér finnst það skipta máli að nefndinni sem vann frv. var falið að endurskoða gildandi lagaákvæði um vatnsveitur og holræsi. Með endurskoðun skyldi stefnt að því að einfalda framkvæmd þessara mála, t.d. með því að athuga hvort ekki mætti komast af með eina reglugerð fyrir allar vatnsveitur og aðra fyrir holræsi í stað reglugerða og gjaldskráa í hverju sveitarfélagi eins og nú er. Það kemur fram að nefndin kynnti sér sérstaklega ákvæði III. kafla vatnalaga, um notkun vatns til heimilis- og búsþarfa, iðnaðar og iðju án vatnsorkunota, og X. kafla sömu laga, um holræsi, lög og aðstoð til vatnsveitna o.s.frv. og kynnti sér fjölmargar reglugerðir sem sveitarstjórnir hafa sett um vatnsveitur á grundvelli vatnalaga og laga um aðstoð til vatnsveitna. Loks aflaði nefndin sér upplýsinga frá öðrum Norðurlöndum um hvernig málum þessi væri háttað þar.
    Nefndin varð sammála um að endurskoða þurfi ákvæði vatnalaga um holræsi, en telur hins vegar að sú endurskoðun krefjist víðtæks samráðs við önnur ráðuneyti svo sem umhvrn. og iðnrn. Nefndin mun leggja til við ráðherra áður en hafist verður handa við að endurskoða þau ákvæði að tekið verði upp formlegt samstarf við þau ráðuneyti sem hlut eiga að máli varðandi þennan þátt.
    Ég held að það sé kjarninn í málinu að umhverfisþátturinn komi líka inn í þá meðferð vatnalaganna. Fyrirspyrjandi veit það e.t.v. betur, en ég hef talið að rannsókn á grunnvatnskerfum hljóti að vera þáttur í vatnalögunum sem slíkum en ekki þessu tæknifrumvarpi um vatnsveiturnar.
    Ég hef eflaust svarað þessu ófullnægjandi en gert mitt besta. Ég tek aftur undir umhverfisþáttinn, en ég hef fjallað um frv. eins og það birtist mér sem frv. um samræmingu gjaldskrár og framkvæmdina á vatnsveitu, ekki endilega þannig að uppsprettan sé hjá sveitarfélaginu, og vek athygli á því að nefndinni barst reglugerð sem þegar var búið að semja og að það er mikið hagsmunamál sveitarfélaganna að samræmi sé í þessum þáttum vegna eðlis framkvæmdarinnar.