Vatnsveitur sveitarfélaga

57. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 13:21:00 (2363)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er þrennt sem ég vildi koma á framfæri. --- Er nú hv. 11. þm. Reykn. horfinn á braut? Það er vont þegar maður veitir andsvar við ræðu hv. þm. og hann hleypur út. Ég óska eftir því að sá ágæti hv. þm. doki aðeins við meðan ég veiti andsvar. ( Forseti: Þingmaðurinn er kominn.) Ég þakka fyrir, virðulegi forseti.
    Það var aðeins þrennt sem ég vildi nefna í andsvari við ræðu hv. 11. þm. Reykn. Í fyrsta lagi: Ég vildi spyrja hv. þm. að því sem frsm. nefndarinnar hver skilningur þingmannsins væri á heimild í 8. gr. um aukavatnsgjald, hvort í þessu felist að takmörk séu fyrir því hvað þetta gjald má vera hátt, þannig að það liggi fyrir afstaða frsm. um þetta mál.

    Í öðru lagi vek ég athygli á því að frv. var ekki sent út til sveitarfélaga til umsagnar. Það er samið af nefnd á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga --- held ég að ég fari rétt með. Það er út af fyrir sig ágætis stofnun en er ekki það sama og sveitarfélögin.
    Í þriðja lagi vil ég nefna varðandi Jöfnunarsjóðinn að ég hafði uppi ábendingar um að það væri nauðsynlegt að tryggja betur en nú er ákvæði í lögum um Jöfnunarsjóðinn, þ.e. það sem rennur til vatnsveituframkvæmda, fyrst menn væru að herða á skilyrðum bæjarstjórna til að reka vatnsveitur. Ég vil nefna, virðulegur forseti, að úr Jöfnunarsjóðnum voru lánaðar til vatnsveituframkvæmda 1988 62 millj., 1989 43 millj. og á síðasta ári, 1990, 17 millj., þannig að greinilegt er að mjög minnkandi er það fé sem varið er í þennan málaflokk úr Jöfnunarsjóðnum.