Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

57. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 14:33:00 (2367)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Hér er um viðamikið frumvarp að ræða, en ég hef ákveðið að taka aðeins fyrir einn einstakan þátt þess þótt full ástæða væri til að fjalla um allt þetta frumvarp eins miklum deilum og það eða einstök ákvæði þess hafa valdið í samfélaginu.
    Það er alltaf eins og þegar á reyni verði menn að gera upp hug sinn og raða því í forgangsröð sem þeim þykir skipta mestu máli. Í mínum huga er enginn vafi á að fyrstu þrjár greinar frv. geta, ef að lögum verða, valdið gífurlegum breytingum á högum skólabarna hér á landi og þar yrði um alveg feikilega afturför að ræða ef af yrði. Það var með sæmilega metnaðarfullum hætti staðið að setningu grunnskólalaga í vor, en þetta frv. gerir ekki aðeins það að krukka í þau lög og taka aftur þann góða ásetning sem þar var þó fram settur heldur er í þessum ákvæðum um skref aftur á bak að ræða og það er mjög alvarlegt mál. Því mun ég takmarka mál mitt við þetta.
    Ég hef orðið vör við, og þykir raunar bæði slæmt og jafnvel dálítið undarlegt, að það eru ekki allir sem hafa gert sér grein fyrir hvað felst í þessum fyrstu greinum frv. Mér er ljóst að það hafa verið teknir út tveir litlir liðir í meðförum nefndar úr 1. gr. laganna. En það sem eftir stendur er það sem mestu máli skiptir og það sem mestu varðar. Frv. lætur kannski ekki mikið yfir sér en þegar það er borið saman við grunnskólalögin er eiginlega verið að taka allt þar sem mestu máli skiptir. Það er verið að gangast fyrir því að skólamáltíðir sem upp á að taka á næstu árum verði ekki teknar upp um fyrirsjáanlegan tíma með frestun. Það er verið að krukka í lengd kennslutíma sem er e.t.v. eitt það alalvarlegasta. Það er verið að fjalla um skólaathvörf og það er verið að fella út mikilvæg ákvæði um námsráðgjafa og auk þess, og kannski er það eitt af því sem mér þykir erfiðast að kyngja, er verið að færa hæstv. menntmrh. vald sem ég held að hann yrði ekki öfundsverður af að hafa. Og ég held að þar sem nú gilda ákveðin lög og ákveðin viðmiðunarstundaskrá hefur verið sett fram og ákveðin markmið í því sambandi sé ekkert sem skiptir meira máli en að halda sig við það sem menn hafa á annað borð samþykkt með lagasetningu í stað þess að setja embættismann þjóðarinnar menntmrh., mann framkvæmdarvaldsins, í þann vanda að þurfa að fjalla með reglugerðum um það sem hefur þegar verið fest í lög. Um þetta snýst málið ekki síst.
    En mig langar til skýringar að lesa þær greinar grunnskólalaga sem eiga ekki að koma til framkvæmda eða breytast því það kemur á óvart hversu hljótt þetta hefur farið. Það hafa að vísu verið hjá þeim sem þekkja gerst til málanna mjög hávær mótmæli, en hér er sem sagt skv. 1. gr. --- og ég mun aðeins stikla á því alstærsta, alls ekki rekja þetta lið

fyrir lið --- enn talað um að ekki komi til framkvæmda á árinu 1992 3. mgr. 4. gr. grunnskólalaga en 3. mgr. 4. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Í grunnskóla skulu nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma.`` --- Það er ekki smávegis sem þarna er verið að taka til baka.
    Samkvæmt d-lið 1. gr. í bandorminum er talað um að 1. og 6. mgr. 46. gr. laga um grunnskóla eigi ekki að koma til framkvæmda heldur á árinu 1992. Það er ekki löng lesning. Með leyfi forseta get ég rakið hvað þar er um að ræða:
    1. mgr. 46. gr. grunnskólalaga fjallar um vikulegan kennslutíma á hvern nemanda í grunnskóla og þar er sett lágmark. Ég ætla ekki að lesa upp þann lista en þetta lágmark er sú sátt sem um þetta mál hefur náðst. Ég veit að það eru margir og m.a. við kvennalistakonur sem hefðu jafnvel viljað ganga lengra í þessum efnum. Þetta á að fella út.
    6. mgr. 46. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Komið skal á fót skólaathvörfum við hvern grunnskóla, þar sem þörf er á, þar sem nemendur geta dvalist utan kennslustunda. Til að standa straum af viðbótarkostnaði er heimilt að taka gjald fyrir dvöl nemenda í skólaathvörfum og skal upphæð gjaldsins ákveðin af skólastjóra í samráði við fræðslustjóra.``
    Þetta er það sem núna er verið að taka út af borðinu. Þetta eru ákvæði sem margir hafa lengi beðið eftir. En þetta er ekki hægt að skoða nema í samhengi við 3. gr. frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum þar sem sagt er að í stað 1.--6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða komi þrjár nýjar málsgreinar. Og mig langar fyrst til að fara í ákvæði til bráðabirgða og geta þess að þar er í fyrsta lagi talað um lágmarks vikulegan kennslutíma á hvern nemanda sem eigi að koma til framkvæmda á næstu þremur árum frá gildistöku laganna. Með því að taka þetta úr lögunum og setja það orðalag sem ég rek á eftir, sem í rauninni setur allt vald í hendur ráðherra, er verið að breyta því sem er fast markmið í eitthvað sem við í rauninni vitum ekkert ávísun á hvað er. Í öðru lagi er verið að taka þarna út ákvæði um hámarksfjölda nemenda í 4.--10. bekk og síðan fjölda nemenda í 1.--3. bekk þannig að hér er allt undir.
    Þarna eru markmið sem eru sett ár frá ári og þetta eru markmið sem mér er kunnugt um að kennarar hafa lagt gífurlega áherslu á að yrði ekki hróflað við. Þetta hefur verið mikið baráttumál. Sífellt er verið að leggja meiri byrðar á herðar kennurum. Þeim er ætlað að sinna bæði kennslu og að vissu leyti einnig andlegum þörfum nemenda. Við getum alltaf deilt um hvort það sé sanngjarnt að leggja þessar byrðar á herðar kennara, en við getum ekki deilt um að þess er þörf að koma til móts við þær óskir kennara sem þeir setja fram miðað við þær kröfur sem gerðar eru til þeirra.
    Einnig felst í þessu ákvæði til bráðabirgða ákvæði um námsráðgjafa og því er einnig breytt. Þá er í þessu ákvæði hvorki meira né minna en ákvæði um einsetinn skóla. Ég veit ekki til þess að neinn flokkur eða stjórnmálasamtök, hagsmunafélög eða aðrir hafi annað en tekið undir að hér bæri að stefna að einsetnum skóla. Loksins þegar það gerist er þessu ákvæði kippt út og ákveðið að reyna einhverja aðra leið. Því miður eru þau ákvæði sem í staðinn koma allsendis ófullnægjandi.
    Hér er einnig enn og aftur ákvæði um málsverði á skólatíma. Það er sem sagt tvítekið út þannig að það sé öruggt að ekki sé hægt að hrinda þessu í framkvæmd.
    6. mgr. í ákvæði til bráðabirgða fjallar um sérskóla vegna fatlaðra barna. Þar er annað ákvæði sem kemur inn. En ég held að það hafi ekki verið hróflað við greininni efnislega.
    En í staðinn fyrir öll þessi verðugu og merkilegu markmið á að koma þetta orðalag, með leyfi forseta, úr 3. gr. frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum og vil ég lesa þetta svo fari ekkert á milli mála um hvað ég er að tala:

    ,,Greiðslur ríkissjóðs, sbr. 75. gr., skulu miðast við 22 nemendur í 1. og 2. bekk og 29 nemendur í 3.--10. bekk.
    Til viðbótar því sem kveðið er á um í 78. og 79. gr. skulu þeir grunnskólar, sem ríkið rekur fyrir fötluð börn (sérskólar) vera reknir áfram á vegum þess þar til grunnskólar geta veitt fötluðum nemendum sambærilega eða betri þjónustu.
    Menntmrn. setur í reglugerð ákvæði um vikulegan kennslutíma á bekk í grunnskóla, þar með talið valgreinar, og leyfilega aukningu nemendastunda vegna skiptitíma.``
    Það er ekki síst þessi síðasta málsgrein 3. gr. sem ég tel að sé stórháskaleg. Ekki vegna þess að ég vilji ætla hæstv. menntmrh. eða nokkrum menntmrh. illan ásetning heldur vegna þess að ég held að við verðum að skoða þetta í ljósi annars sem blasir við á þessum vetrardögum þegar við erum að fjalla um mjög mikla uppstokkun í ríkisfjármálum.
    Þá mun ég rekja hvers vegna ég hef svo miklar áhyggjur af nákvæmlega þessum ákvæðum. Það er nefnilega ekki að ástæðulausu að við kvennalistakonur rísum nú upp gegn gjörsamlega óþörfum breytingum á nýlegum grunnskólalögum, lögum sem eru ekki fullkomin en hins vegar stórt skref í rétta átt. Allar þær breytingar, sem lagðar eru til um grunnskólalögin í bandorminum, eins smekklegt sem það nafn nú er á frv., eru til hins verra að okkar mati.
    Frestun á upptöku skólamáltíða eru alvarleg tíðindi. Við búum í samfélagi þar sem vinnuálag er meira en víðast annars staðar og mun ég nánar fjalla lítillega um að á eftir. Meira en 80% giftra kvenna eru nú útivinnandi. Flestar eru þessar konur með börn. Til samanburðar má geta þess að 20% giftra kvenna voru útivinnandi árið 1960. Vissulega er mjög misjafnt á hvaða aldri þessi börn eru, en þó má nefna að hér á landi er samanborið við nágrannalöndin þjóðin mjög ung, það er mikið af börnum hér á grunnskólaaldri. Það held ég að enginn velkist í vafa um. Ekki þarf að fjölyrða um einstæða foreldra, þeir eru nánast allir útivinnandi og aðstæður þeirra ekki á þann veg að þar sé heldur forsvaranlegt að krukka í neitt af þeim bótum á skólakerfi sem orðið hefur. Það er nefnilega mikið atriði fyrir útivinnandi foreldra og raunar mannréttindi barna heimavinnandi foreldra líka að skólastarf sé í mjög góðu horfi. Þess vegna er í rauninni óhjákvæmilegt annað en bæði að taka tillit til þessa langa vinnudags og einnig þess um hvað skólastarf á að snúast.
    Langur vinnudagur merkir jafnframt að allt of fáir foreldrar, a.m.k. í stærri byggðarlögum, hafa nokkur tök á að vera t.d. heima með heitan mat í hádeginu eins og mér heyrist stundum að þeir haldi sem standa að lagasetningu á Alþingi. Það er raunar stórundarlegt, en enn heyrir maður að í rauninni eigi bara hver og einn að bjarga þessum málum og helst að hafa mjög mikla sektarkennd ef börnin fá ekki þá þjónustu sem allir mundu vilja að þau fengju og þetta á að vera einkamál foreldra --- foreldra sem leggja samfélaginu mikið af mörkum með vinnuframlagi sínu. Samfélagið er reiðubúið að taka við þessu vinnuframlagi en ekki að laga sig að þessum aðstæðum.
    Jafnframt þessu, miðað við núverandi ástand og það ástand sem mér sýnist að eigi að viðhalda, verði þessi ákvæði bandormsins að lögum, þyrfti þar að auki foreldri sem ætlaði að fara heim og elda mat handa börnunum sínum að hafa matartíma u.þ.b. frá kl. 11 á morgnana til kl. 3 á daginn ef miða ætti við núgildandi stundaskrár. Það er nefnilega allt á huldu um hvort nokkurn tímann hefur verið tekin bein afstaða til þess að það væri fastur og samræmdur matartími. Ekki er það mín reynsla af stundaskrám barnanna minna alla vega. Og á ég þó ekki nema tvö. Ég sé því í rauninni ekki hvernig þetta er hugsað. En ég get þessa vegna þess að slík viðhorf heyrast enn þá. Og hvort sem hér er um einhverja upphafna draumsýn að ræða, sem felur í sér að hér séu einhverjir yfirburðaforeldrar sem eigi að gera allt og geta allt, eða eitthvað annað, einhver gömul rómantík á ferðinni, þá er

þetta mjög skaðlegt fyrir alla umræðu. Ég held að við verðum að miða umræðuna við þann veruleika sem við búum við hvort sem við erum sátt við hann eða ekki.
    Það er vitað mál að allmörg börn eru vannærð að mati skólahjúkrunarfræðinga og það sýnir að ekki eru fullnægjandi úrræði til fyrir börn sem hafa með sér nesti eða lifa á sjoppufæði og skyldi raunar engan undra. Þetta er einfaldlega engin lausn og þetta eru engar fréttir. Það þykir eðlilegt á flestum vinnustöðum að þar geti menn fengið hollt og næringarríkt fæði, sums staðar er það frítt eins og hefur þegar komið fram í ræðum nokkurra. Einkum þótti mér athyglisvert að heyra hver þróun mála hefur verið hjá vegavinnuflokkum þar sem menn þurftu áður að hafa með sér nesti en fá nú allt frítt. Mér er vel kunnugt að þar er boðið upp á frítt fæði. Þetta er eðlileg þróun, ég held að enginn efist um það. En af hverju hefur ekki það sama gerst í sambandi við börnin okkar? Hvernig stendur á því að það hefur ekki þessi eðlilega þróun orðið hjá þeim sem eru að vaxa úr grasi og þurfa mest á þessu að halda?
    Ég minni á umræður og upplýsingar sem fram komu er hér var á Alþingi til umræðu till. til þál. um skólamáltíðir. En flm. till. voru Guðmundur G. Þórarinsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Alexander Stefánsson og Stefán Guðmundsson. Man ég ekki betur en að sú till. hafi verið til umfjöllunar a.m.k. á tveimur þingum. En mig langar að taka undir það sem þar kemur fram í greinargerð þó ég taki aðeins lítinn kafla fyrir. Mér finnst þar nákvæmlega tekið í sama streng og ég er að reyna og það var viðurkennt með samþykkt grunnskólalaganna í vor að þá stefnu bæri að taka. En í greinargerðinni stendur, með leyfi forseta:
    ,,Vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu hefur skipan máltíða í vaxandi mæli riðlast á heimilum á síðustu árum. Síaukinn fjöldi mæðra vinnur utan heimilis. Fjöldi barna á grunnskólaaldri gengur sjálfala mikinn hluta dagsins.
    Mörg börn fá í hendur fjármuni í stað fæðu og fæðuval og neysluvenjur mótast um of af framboði söluskála í grennd við skóla. Oft er þar aðallega á boðstólum sælgæti, sætabrauð og gosdrykkir. Fæðan verður því vítamínsnauð og sykurneysla úr hófi, margfalt hærri en þekkist meðal grannþjóða okkar. Miklar tannskemmdir íslenskra barna eiga m.a. rætur að rekja til rangs mataræðis.
    Of algengt er að börn borði ekki áður en þau fara í skóla á morgnana, og fá síðan ekki viðunandi máltíð í hádeginu. Fyrir börn og unglinga á vaxtarskeiði er ein máltíð á dag engan veginn nægjanleg. Talið er að börn þurfi auk morgunverðar tvær aðalmáltíðir á dag. Rétt fæðuval er sérstaklega mikilvægt fyrstu 15 árin, en næringin hefur áhrif bæði á andlegan og líkamlegan þroska.
    Skólinn er vinnustaður barnanna. Foreldrar fá í auknum mæli hádegisverð á vinnustað en börnin eru ekki alltaf tilleiðanleg að taka með sér nesti í skólann. Helst eru það yngstu börnin, sem varla eru nema hálfan daginn í skóla, ýmist fyrir eða eftir hádegi, sem hafa með sér smánesti, en skólarnir hafa þá gjarnan á boðstólum til sölu ýmiss konar drykkjarvörur og jógúrt. Spurningin er hvort þessir nemendur fái góðan hádegisverð þegar heim kemur.
    Tvísetning eykur enn meir á óreglu matmálstíma á heimilum barnanna, en Ísland hefur nokkra sérstöðu hvað þetta snertir.``
    Ég lýk þessari tilvitnun og tek undir hvert einasta orð.
    Þessu hefði maður haldið að væri nú búið að reyna að gera einhverja bragarbót á. Þetta er það sem við vorum að fjalla um þegar grunnskólalögin voru sett í vor og þetta voru þau markmið sem við settum okkur. Og mér þykir hart að það skuli eiga að hverfa frá því.
    Þetta er hins vegar ekki allt og sumt því þótt það sé alvarlegt að fresta nú því að

gera úrbætur og bjóða upp á skólamáltíðir er eins og ég gat um áðan jafnvel enn alvarlegra að nú er stefnt í hættu nauðsynlegri fækkun nemenda í bekkjum og í algera óvissu upp á hve mikla kennslu verður boðið næsta vetur. Ég held að við getum ekki litið fram hjá því að þegar við erum að fjalla um að það geti hugsanlega orðið einhver skerðing verður hún ekki núna á vorönn heldur kemur hún öll, og þá með tvöföldum þunga væntanlega, fram á síðari hluta næsta árs, þ.e. næsta skólaár. Sú ákvörðun, að ákvörðun um stundafjölda er vísað til ráðherra, er það sem ég er einna hræddust við. Og ég ítreka að ég efa ekki að ráðherra er góður og grandvar maður og vill börnum þessa lands ekkert illt. Hins vegar er honum eftir ítarlega umræðu í fjárln. gert að skera niður í sínu ráðuneyti á næsta ári um slíkar svimandi upphæðir að það er augljóst að hann verður að grípa til mjög harkalegra aðgerða. Honum er gert að skera niður launakostnað í ráðuneyti sínu um 6,7% og rekstrarkostnað einnig um lægri upphæð. Þetta er feikileg skerðing.
    Það má ekki gleyma því hve mikill hluti af launakostnaði á vegum ríkisins er í grunnskólunum. Það er því engin tilviljun að það var mat Svanhildar Kaaber, formanns Kennarasambands Íslands, samkvæmt kvöldfréttum í sjónvarpinu í gærkvöld, að þetta jafngilti því t.d. að það yrði að hætta allri kennslu 6 og 7 ára barna á næsta hausti, loka öllum skólum í ýmsum stórum bæjarfélögum sem þar voru tilgreind, t.d. yrði samkvæmt þessari skerðingu að loka skólum í Keflavík, á Akureyri og fleiri stórum stöðum, ekki bara einhverjum þessara staða heldur öllum, eða að skera niður um 380 stöðugildi í grunnskólum landsins. Og ég held að við velkjumst ekkert í vafa um að við þurfum á hverju einasta stöðugildi kennara að halda og gott betur ef vel á að vera. Við þurfum ekki á niðurskurði á 380 stöðugildum að halda.
    Ég spyr: Hvað mun þetta frv. merkja? Hvaða kosti setur það okkur? Hvað felst í þessum sakleysislegu ákvæðum sem ég hef rakið? Nákvæmlega það sem verstu grunsemdir segja manni. Ætli hæstv. menntmrh. að framfylgja boðskap fjárlaganna verður hann að standa fyrir stórfelldasta niðurskurði á kennslu hjá grunnskólabörnum sem um getur, alla vega í þeirri tíð sem mitt minni nær til og ég er æði hrædd um að jafnvel enginn sem á sæti á Alþingi hafi minni til þess að þekkja til annars eins stökks niður á við. Þess vegna er mjög mikilvægt að hæstv. menntmrh. verði ekki settur í þessa hræðilegu aðstöðu heldur fái að framfylgja gildandi lögum. Það ætti ekki að vera ofrausn að gefa fagráðherra leyfi til að fá að framfylgja þeim lögum sem honum er ætlað að starfa eftir.
    Það er alveg áreiðanlegt að annar sparnaður, sem hæstv. menntmrh. er ætlað að ná, getur einnig bitnað á góðum málum eins og samfelldum og lengdum skóladegi þó auðvitað sé hægt að hafa samfelldan stuttan skóladag. Ég þykist hafa bent á að lengdur skóladagur kemur varla til greina ef á að fækka kennurum um 380 eða leggja niður kennslu í e.t.v. tveimur árgöngum. Það er fráleitt að tala um slíkt nema það eigi að taka einhverja gríðarstóra hópa í umsjá eins og eins kennara, ég geri ekki ráð fyrir að svo langt verði gengið. Hér er í rauninni verið að mála sig út í horn. Það er ekki hægt að fara á þennan veg með þau lög sem við búum við. Það er ekki hægt að kippa jafnveigamiklum ákvæðum beinlínis úr umferð. Og það er ekki hægt að bjóða okkur heldur upp á þær röksemdir að þetta eigi að vera einhver smáfrestun í stuttan tíma. Það að setja allt skólastarf úr skorðum, þó ekki væri nema eitt skólaár, mundi í fyrsta lagi þýða að hér léki allt á reiðiskjálfi, hér færi allt á fleygiferð í sambandi við vinnu fólks, aðbúnað barna, félagsleg mál og eitt og annað. Ég trúi ekki að það sé ætlan stjórnvalda að leysa atvinnumál þjóðarinnar með því að setja alla í úlfakreppu. Að neyða þá til að fara heim vegna þess að atvinnustefna ríkisstjórnarinnar veiti atvinnuvegunum svo slæman aðbúnað að atvinna lamist á mörgum stöðum og þá sé búist við að fólk sem er án atvinnu og úrræða taki að sér að leysa það hlutverk sem grunnskólum hefur fram til þessa verið ætlað. Ég bara trúi

ekki að það sé ætlun stjórnvalda.
    Ég held hreinlega að þessi hugsun hafi ekki verið hugsuð til enda. Ég held að það geti varla annað verið. Þar af leiðandi held ég að langeðlilegast og skynsamlegast væri að taka fyrstu þrjár greinarnar úr bandorminum og helst að gleyma því að þær hafi nokkurn tíman verið settar þarna, en alla vega að fara ekki að svo vanhugsuðu máli í gang með einhverja slíka framkvæmd.
    Ég held að þessi stóri og merkilegi málaflokkur ætti skilið að það væri staðið af ábyrgð að málum. Við höfum ekki séð neinar útfærslur. Við vitum að einum menntmrh. er ætlað það sem í rauninni er ekki hægt, að lama nánast starf grunnskólans. Og honum er ætlað það með því að setja í hans hendur reglugerðarvald sem honum er síðan ekki gert að framfylgja sómasamlega miðað við annað það sem við höfum séð nú þegar. Ég held að það sé sanngjarnt að taka þennan kaleik af hæstv. menntmrh. ( Forseti: Forseti hafði verið búinn að samþykkja að fresta fundi milli kl. 2 og 2.30 og ef hv. þm. á mikið eftir af sinni ræðu væri gott að fresta henni þar til við hentugt tækifæri.) Ég er reiðubúin að gera það. Ég er á kaflaskilum núna og er reiðubúin að gera hlé á ræðu minni. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegi forseti. Ég var þar komin í ræðu minni að mig langaði til að gera lítillega grein fyrir þeim áherslum sem samtök foreldra og kennara hér á landi hafa einkum lagt og það styður svo ekki verður um villst að þau ákvæði grunnskólalaganna sem við öll viljum standa vörð um trúi ég, alla vega innst í okkar hjarta, eru þau áherslumál sem skipta langsamlega mestu máli. Foreldrafélögin í Reykjavík létu gera könnun fyrir ekki löngu síðan og þar áttu foreldrar að raða í forgangsröð hver væru helstu baráttumálin og gefa því einkunn hvað skipti þau mestu máli. Skemmst er frá því að segja að langsamlega mesta áherslu lögðu foreldrar á einsetinn skóla og samfelldan, lengdan skóladag, nákvæmlega þau mál sem ég hef verið hér með til umfjöllunar. Og ekki löngu seinna kom önnur aðstaða, skólamáltíðir sem bar m.a. mjög hátt og var með því sem einnig var lögð langmest áhersla á. Það er ekki nokkurt vafamál að þetta eru atriði sem þorri allra foreldra vill að við stöndum vörð um. Við eigum að reyna að hafa okkar stefnu á þann veg að það sé hægt. Það stendur í könnun sem birt var á vegum Samfoks, sem er samband foreldra- og kennarafélaga í Reykjavík, í bæklingi sem var útbýtt í efh.- og viðskn. í gær, að þetta séu ekki bara orðin tóm heldur hafi aðilar innan þessara samtaka áhuga á að beita sér í þessum málum. Með leyfi forseta langar mig, svo enginn misskilji nú orð mín, að segja þetta hreint út með orðum forsvarsmanna Samfoks:
    ,,Mesta áherslu fá mál sem mikið er verið að fjalla um, ekki bara í foreldrafélögum heldur meðal almennings og stjórnmálamanna, svo sem einsetinn skóli, samfelldur skóladagur og mál sem tengjast því. Þau mál snerta beint eða óbeint hvert heimili í landinu. Það er fagnaðarefni fyrir foreldra að í orði skuli ríkja almenn pólitísk eining um þessi mál. Þessi könnun staðfestir vilja foreldra í Reykjavík um að yfirvöld láti ekki sitja við orðin tóm. Því mun Samfok fylgja þessari niðurstöðu fast eftir við rétta aðila.``
    Og það er engin tilviljun að á fundi í efh.- og viðskn. í gær, sem ég sat í fjarveru eins fulltrúa okkar kvennalistakvenna, þar sem forsvarsmenn þessara samtaka komu, var að vísu fjallað um allt önnur mál, en þetta var nánast það eina sem foreldrar vildu koma á framfæri: Ekki skerða skólatíma. Ekki standa á móti lengingu skólatíma. Standið vörð um einsetningu skóla og samfelldan skóladag. Skólamáltíðirnar voru einnig nefndar mjög framarlega í forgangi. Þannig erum við að tala um mál sem eru geipilega mikilvæg fyrir þorra fólks. Ég held að það sé hægt að segja að það sé varla til sú fjölskylda hér á landi sem hefur ekki af einhverjum grunnskólabörnum að segja. Ég get ekki ímyndað mér annað en að ef þessi stóri hópur væri jafn vel skipulagður þrýstihópur og t.d. hópur sjómanna væri þar stærsti og öflugasti hópur í öllu landinu og málsvarar þeirra sem virkilega þurfa á því

að halda.
    Eins og ég hef rakið er þessu í raun öllu stefnt í hættu ef I. kafli frv. verður að lögum, þ.e. fyrstu þrjár greinarnar. Og foreldrar og kennarar gera sér grein fyrir þessum staðreyndum. Þeir tengja einmitt þetta frv., bandorminn, við það hvort unnt verður að ná þeim markmiðum sem við höfum sett og við höfum samþykkt að framfylgja eða ekki. Það er þess vegna sem ég vildi orða það sem svo áðan, og ítreka það nú þar sem hæstv. menntmrh. er kominn inn, að við eigum að sjálfsögðu að standa vörð um þau lög sem samþykkt voru í vor og taka þann kaleik frá hæstv. menntmrh. að hann þurfi að krukka í lög með því að hafa heimild til þess eða í rauninni skyldu til að úrskurða um lengd skólatíma t.d. með reglugerð. Þennan kaleik verðum við að taka frá menntmrh. vegna þess að nógur er þrýstingurinn á hann annars staðar frá. Það er öllum stuðningur að hafa a.m.k. lög til að styðjast við, ekki veikara en það. Við höfum ekki efni á því í þessu samfélagi að velja neinar leiðir sem bitna á þeim sem minnst mega sín, börnunum.
    Af því að ég orðaði það svo og ætla ekki að gera það órökstutt að foreldrar tengdu beinlínis ákvæði í bandorminum svokallaða við hvort af verður að hægt verði að framfylgja þessum markmiðum eða ekki langar mig til að vísa í það sem liggur fyrir í umsögnum um þennan bandorm eftir að hann var í umfjöllun í hæstv. menntmn. og það eru fylgiskjöl sem voru með þeirri greinargerð sem menntmn. sendi til hæstv. efh.- og viðskn. Það er svo sem af nógu að taka, en ég held að ég byrji á að vísa í nál. frá minni hluti efh.- og viðskn. og geri það ekki síst vegna þess að þar er í rauninni sú stefnumörkun sem ég vil taka undir. En þar stendur um 1.--3. gr. bandormsins, með leyfi forseta:
    ,,Minni hlutinn er andvígur þessum breytingum og mótmælir því að slíkum grundvallarbreytingum í skólamálum sé lætt með í skjóli ráðstafana í ríkisfjármálum. Þessar breytingar hafa óveruleg kostnaðaráhrif og fylgir þeim í reynd lítill sparnaður umfram það sem hvort eð er væri hægt að ná fram á grundvelli heimilda. Ýmis önnur atriði, sem lagt er til að frestað verði eða felld niður með öllu, snerta aðra en ríkið.
    Minni hlutinn telur að í þessum breytingum felist afturför í skólamálum og vísar í því sambandi til umsagnar minni hluta menntmn. og bréfs frá Kennarasambandi Íslands og Kennarafélagi Reykjavíkur.`` --- Og þar er vísað í fylgiskjal I.
    Minni hlutinn lagði til að þessum hluta frv. yrði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Þarna er í rauninni verið að segja hvað felst í orðanna hljóðan og tek ég undir það. Það ætti að vera útlátalaust svo langt sem þetta frv. nær að taka þessar greinar út.
    Hins vegar, og mér er það ekkert launungarmál, værum við jafnframt að halda okkur á þeim nótum sem ég trúi að flestir í hjarta sínu fylgi og sennilega bæði í orði og á borði, að ef menntmrh. eins og öðrum verði gert að ná niðurskurði, sem ég veit að margir efast um að væri hægt í því ráðuneyti þar sem mjög víða hefur verið hagrætt og sparað gífurlega mikið, ekki síst í skólastarfi, þá verði það alla vega ekki ekki þannig að það nái til skólanna. Ég held að með því móti værum við í rauninni búin að leggja þá línu, ef þetta væri komið út úr frv. sem við erum með til athugunar.
    Ég held að það væri heiðarlegast af Alþingi að taka af skarið um þetta mál. Ég mundi styðja hæstv. menntmrh. í því að hann fengi meira svigrúm en aðrir til að taka á sig flatan niðurskurð. Auðvitað höfum við mótmælt flötum niðurskurði víða, en ég held --- og ég hef raunar heyrt það á máli fólks sem ég met mikils --- að sums staðar sé hægt að ná þessum niðurskurði. En ég hef líka heyrt marga segja að það sé afskaplega erfitt fyrir menntmrh. að ná þessum flata niðurskurði nema draga verulega úr þjónustu í grunnskólakerfinu og skólakerfinu almennt og ég hef alltaf varað við að slíkar heildar- og allsherjarlausnir geti snert einstaka málaflokka mjög illa þar sem kannski er hægt að gera skynsamlega annars staðar. Ég minni á það, sem ég gat lítillega um í máli mínu í öðru

máli í gær, að við sem tilheyrum minni hluta á Alþingi höfum sýnt þá ábyrgð að benda á ýmsar leiðir sem hægt væri að fara til að ná endum saman, t.d. sem nemur því bili sem þyrfti að brúa í þessum efnum. Við vitum að hæstv. ríkisstjórn hlýtur að líta á það eins og aðra möguleika með jákvæðu hugarfari. Við skiljum vel þann vanda sem ríkissjóður er í, við viljum bara að sparnaðurinn bitni ekki á þeim sem síst skyldi og ég held að það eigi enginn að þurfa að velkjast í vafa um að börnin eru okkur mjög mikilvæg og það atlæti sem þau fá. Við verðum að viðurkenna þá staðreynd að skólinn er mjög stór hluti af tilveru þess aldurshóps sem sækir skóla nú.
    Ég ætla ekki að hætta mér út í miklar umræður um tilhögun skólastarfs og þær hugmyndir sem hafa verið um einkavæðingu í skólakerfinu. Það er annar málaflokkur og ég tel ekki sanngjarnt að færa mig út í þær umræður í þessu tilliti þó að það sé skýrt í mínum huga að auðvitað er það hluti af heild og alltaf á að taka fyrir alla þá þætti sem varða mál.
    Ég hef allmargar umsagnir undir höndum. Í fyrsta lagi almenna umsögn minni hluta menntmn. um I. kafla frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum eins og ég gat um áðan. Ég er ekki beinlínis að vitna í þá umsögn að öðru leyti en því að minna á að minni hluti menntmn. taldi í rauninni engin frambærileg rök fyrir að breyta áformum um framkvæmd grunnskólalaga í tengslum við ráðstafanir í ríkisfjármálum og benti á að þetta væri ekki rétti staðurinn til að fjalla um grunnskólamál almennt.
    Í öðru lagi er hér bréf frá Kennarafélagi Reykjavíkur og þar er örstuttur kafli sem mér þætti vænt um að fá, með leyfi forseta, að vitna í þar sem upplýsingar koma fram:
    ,,Kennarar fögnuðu því að ný grunnskólalög voru samþykkt í vor, en í þeim er einmitt tekið tillit til breytts þjóðfélags og stefnt að lengingu skóladags nemenda, skólamáltíða, skólaathvarfs og fækkunar nemenda í bekkjardeildum. Þegar fjallað er um fjölda nemenda í bekkjardeildum er yfirleitt talað um meðaltal sem er mjög villandi. Þó meðaltal nemenda í bekk í Reykjavík hafi lækkað um 0,43 nemendur eru nú 132 bekkjardeildir með yfir 25 nemendur en voru 92 á skólaárinu 1990--1991.``
    Ég held að það sé ekki nóg með að við þurfum að vera vel á verði miðað við núverandi ástand heldur þurfum við að sækja fram í stað þess að veita möguleika á að draga úr þjónustu við börn. Ég hef áður fært rök fyrir því hvers vegna ég tel svo mikilvægt að það sé hlustað á raddir kennara sem biðja um fækkun í bekkjardeildum. Þeirra hlutverk, eins og ég gat um áður, verður sífellt margbrotnara og við getum ekki lokað augum fyrir staðreyndum. Ef það á að sinna þörfum þeirra einstaklinga sem nemendur eru, því nemendur eru ekki bara tölur á blaði, nemendur eru fólk, nemendur eru börn og börnin eru líka fólk, eins og margt gott fólk hefur sagt, verðum við að sjá til þess að kennari hafi möguleika á því að veita hverjum og einum nemenda sínum þá athygli og umönnun sem hægt er.
    Ég vek athygli á því að Alþingi hefur samþykkt m.a. að gera átak gegn einelti sem var tillaga okkar kvennalistakvenna. Ég veit að það hefur tekist mjög vel í þeim skólum sem reynt hefur verið að sporna við þessum vanda, sem hefur verið í ýmsum skólum. Þetta útheimtir m.a. að bekkjardeildir séu ekki of stórar, kennarar séu ekki of störfum hlaðnir og ekki sé of mikið þrengt að skólatíma. Ef við ætlum okkur að láta börnum okkar líða vel, börnum alls þessa lands, verðum við m.a. að huga að þessum þörfum þeirra. Vinnuþjáðir kennarar geta lítið gert þar sem aftur kennarar sem hafa hóflegan fjölda í bekk og ekki of mikið vinnuálag --- ég ætla ekki að fara út í umræðu um launamál núna --- kennarar sem búa við þolanlegar aðstæður geta ýmislegt gert. Þarna erum við að tala um það sem e.t.v. seinna og e.t.v. mjög fljótlega mun jafnframt verða sparnaður í samfélaginu. Ég mæli ekki líðan fólks í peningum, en ég veit að það eru mjög dýrar lausnir þegar verið er að takast á við alvarleg vandamál eftir á.
    Ég vil jafnframt benda á það að lengd skólatíma skiptir máli og fjöldi í bekkjardeildum þegar verið er að tala um skólastefnu almennt. Þá vil ég ekki síst vísa til þess að það hefur verið bent á það með réttu, að ég held af forsvarsmönnum allra flokka á Alþingi, að að mörgu leyti séum við með rangar og vitlausar áherslur í skólastarfi þar sem ofurkapp hefur alltaf verið lagt á bóknám, en list- og verkmenntagreinum hefur ekki verið gert jafnhátt undir höfði.
    Samkvæmt skýrslu sem við kvennalistakonur fengum um stöðu lista- og verkmenntagreina kom í ljós að stundafjöldi í list- og verkmenntagreinum hjá grunnskólanemendum er frá tveimur stundum og upp í fjórar til fimm þegar best gerist á grunnskólatíma. En í 9. bekk, sem nú er orðinn 10., er um val að ræða. Þetta þýðir í rauninni að þessar áherslur í skólastarfi eru ekki skýrar. Það er ekki jafnmikið val fyrir börn sem frekar mundu vilja fara út í að læra í iðnskólum, á verkmenntabrautum fjölbrautaskóla eða annars staðar eins og þeim sem ætla í bóknám. Við höfum alltaf verið mikið fyrir bókina og ég tek undir virðingu fyrir bóknámi, en mér finnst að börn eigi rétt á fjölbreyttara skólastarfi.
    Ég held að það sé bein tenging á milli þeirrar miklu ásóknar sem er í Háskóla Íslands núna --- og bið nú hæstv. menntmrh. þegar hann hefur tíma að hlusta sérstaklega á þetta þar sem ég veit að hann hefur miklar áhyggjur af Háskólanum --- ég held að það sé engin tilviljun heldur hrein stýring sem hefur falist í því að börnum hefur meira og minna verið beint yfir á bóknámsbrautir leynt eða ljóst vegna þess að það hefur verið lítið svigrúm vegna takmarkaðs stundafjölda og mikils fjölda í bekkjum að halda uppi öflugri hand- og myndmenntakennslu að ég tali nú ekki um aðrar verkmenntir og íþróttakennslu. Þarna kemur ýmislegt inn í og ég held að við mundum e.t.v. leysa á miklu farsælli hátt þann vanda eða opna þá blindgötu sem við erum nú komin í, að beina allt of mörgum í bóknám og þá háskólanám, ef við viðurkenndum að á fyrri skólastigum þyrfti að standa öðruvísi að skólastarfi. Ég minnist þess að hv. þm. Sólveig Pétursdóttir vitnaði, að ég held í umræðu í fyrravor, í langri og ítarlegri og að mörgu leyti mjög fróðlegri ræðu um grunnskólalögin sem við samþykktum þá, til ályktunar, 29. landsfundar Sjálfstfl., þar sem einmitt var verið að leggja áherslu á að nemendur þyrftu að eiga kost á fjölbreyttu námi sem væri við hæfi allra. Ég tel mig því eiga skoðanasystur og vonandi mörg skoðanasystkini hér þegar ég ræði sérstaklega um mikilvægi þess að leggja rækt við list- og verkmenntagreinar hér á landi.
    Það er sama hvort við erum að hugsa um andlega velferð barnanna eða hvort við erum að hugsa um hagsýni og hagfræðileg rök, þetta hlýtur að koma vel út.
    Ég veit að það er margt í frv. sem ég þyrfti að fjalla um ef ég ætti að vera sjálfri mér samkvæm og uppfylla þá kröfu samvisku minnar, allt sem mér finnst máli skipta og ætti að fjalla um, en ég valdi að taka skólamálin sérstaklega út. Ég held að það sé vegna þess að ég get ekki hugsað til þess að það verði hróflað við þeirri skólastefnu sem við höfum þó náð fram. Ég vil sjá miklu metnaðarfyllri og betri skólastefnu en við höfum, en það er þó lágmark að halda í það sem við höfum og því er stefnt í voða með því frv. sem við höfum fyrir framan okkur. Ég ítreka þetta ekki kannski síst vegna þess að það er annar þrýstingur í þjóðfélaginu, þrýstingur flats niðurskurðar og sparnaðar, og við eigum ekki að láta undan slíkum þrýstingi.