Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

57. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 16:42:00 (2370)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, en forsrh. mælti fyrir máli þessu til 1. umr. þann 6. des. sl. þannig að mál þetta hefur verið til umfjöllunar á Alþingi í u.þ.b. hálfan mánuð. Hæstv. forsrh., sem ekki er viðstaddur en ég vænti muni verða það síðar, mælti fyrir þessu máli í alllöngu máli og gerði þá efnahagsmál almennt í landinu að umræðuefni og fór yfir þá stöðu sem nú er uppi. Hann minntist sérstaklega á í upphafi sinnar ræðu að ekki hefði getað orðið úr fyrirhuguðum álverksmiðjuframkvæmdum á Keilisnesi, en ríkisstjórnin hafði í öllum áætlunum sem hún hafði gert fram til þess tíma gert ráð fyrir að úr byggingu álvers yrði. Þessar hugmyndir ríkisstjórnarinnar voru gagnrýndar af Vinnuveitendasambandinu á sínum tíma. Vinnuveitendasambandið taldi að það væri ekki rétt að gera ráð fyrir að af byggingu álvers gæti orðið. Það væri hins vegar betra að taka það inn í myndina síðar meir ef það gerðist því að staða samninga væri með þeim hætti að ekki væri hægt að gera ráð fyrir að það væri öruggt. Auðvitað hefði verið varlegra af hæstv. ríkisstjórn að áætla þjóðartekjur og þjóðarútgjöld með tilliti til þess og fara að ráðum Vinnuveitendasambands Íslands. Það var ekki gert og má segja að vegna þess að ekki gat af því orðið þurfti að taka allar hliðar þjóðarbúskaparins til athugunar því að þessi niðurstaða hafði að sjálfsögðu mikil áhrif á fjárlög og alla áætlanagerð að því er varðar framtíðina.
    Hæstv. forsrh. gerði stöðu ríkissjóðs að umræðuefni, en hann gerði líka stöðu atvinnulífsins að umræðuefni. Hann gat þess að samkeppnisstaða atvinnuveganna væri ekki nægilega góð, að skattlagning atvinnurekstrar hér á landi hefði mikil áhrif á samkeppnisstöðuna gagnvart erlendum keppinautum. Hann gerði að umtalsefni að uppi hefði verið kröfugerð um að afnema svokallað aðstöðugjald. Undir þau sjónarmið stjórnarandstöðunnar hefur m.a. hæstv. sjútvrh. tekið. En hæstv. forsrh. taldi að ekki væri nóg að lýsa því yfir að tilteknir skattar verði afnumdir --- og, með leyfi hæstv. forseta, orðaði hann það þannig: ,,Breytingar af þessu tagi verður að undirbúa vel.`` Og hann bætti við: ,,Skattbreytingar þarf því að undirbúa þannig að þær raski ekki mikilvægustu markmiðum í efnahagsmálum.``

Þetta eru orð að sönnu hjá hæstv. forsrh. og hefði mátt telja að þann 6. des. sl. stæði til að taka hlutina rólega. Ég held að hann hafi orðað það þannig að nú þyrftu menn að sýna stillingu eða rósemi og ekki stæði til að grípa til skyndiákvarðana í sambandi við skattlagningu atvinnulífsins.
    En það fór samt svo að hæstv. ríkisstjórn lagði fram frv. um skattlagningu einstaklinga og atvinnulífsins þar sem greinilegt var að skyndiákvarðanir höfðu verið teknar og ræðan frá 6. des., sem var haldin hálfum mánuði fyrr, var týnd og tröllum gefin. Ekki veit ég hvort nálægð jólanna hefur haft einhver áhrif á hæstv. ríkisstjórn, en ég er helst á því að næturfundurinn frægi, þar sem helstu ákvarðanir voru teknar af hæstv. ríkisstjórn, hafi orðið afdrifaríkur í þessu sambandi og ráðherrar sem áttu að bera ábyrgð á stöðu atvinnulífsins hafi þar samþykkt ýmislegt sem þeir hafi ekki ígrundað vel.
    Það er mjög merkilegt í þessu sambandi, miðað við þessi orð hæstv. forsrh., að við skulum upplifa á Alþingi og í þjóðfélaginu að aðeins 10 dögum síðar, eftir að forsrh. segir að nú þurfi menn að athuga hlutina vel og taka sér góðan tíma í að skoða skattamál atvinnurekstrarins, skuli Vinnuveitendasamband Íslands sjá sig knúið til að senda frá sér yfirlýsingu undir heitinu ,,Aðför að atvinnurekstri``.
    Það eru merkileg tímamót í sögu íslensks atvinnurekstrar að hann hafi með svo afdráttarlausum hætti þurft að lýsa því yfir að hann byggi við fjandsamlegt ríkisvald. Ég vil í því sambandi minna á að hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram frv. til laga um breytingar á tekjuskatti og eignarskatti þar sem m.a. er gert ráð fyrir að grundvallarbreyting verði gerð á meðferð skattlagningar arðs í íslensku þjóðfélagi. Þessi breyting gengur út á að arður skuli vera skattfrjáls hjá móttakanda en ekki frádráttarbær hjá greiðanda. Þessari breytingu er kastað fram að lítt yfirveguðu máli og meira að segja kemur fram í röksemdum með því frv. sem þar var lagt fram að hér sé fyrst og fremst um að ræða að tryggja að hugsanlegar breytingar á næstunni geri ekki að verkum að um afturvirkni verði að ræða. Ég skil út af fyrir sig vel að hæstv. núv. fjmrh. sé hræddur við afturvirkni skattalaga. Hann hefur haldið um það margar mætar ræður á Alþingi ásamt ýmsum öðrum alþingismönnum úr hans flokki og telur af því vonda reynslu undir stjórn fyrri ríkisstjórna að þannig sé farið að málum. Það er út af fyrir sig rétt hjá hæstv. fjmrh. að vel má vera að þar hafi oft verið heldur langt gengið og ekki er það til fyrirmyndar. Hins vegar er það nokkur nýlunda að menn telji ástæðu til að boða breytingar á þessum málum með löggjöf og vera svo hræddir við afturvirkni að þurfa að taka slíkt út úr og setja um það sérstök lög. Það var t.d. ekki gert ráð fyrir að þessi breyting á skattalögunum mundi fela í sér einhverjar tekjur fyrir ríkissjóð. Hér virtist eingöngu vera um varúðargrein að ræða. Á sama tíma var lögð fram tillaga um að tap fyrri ára, ef það væri eldra en fimm ára gamalt, væri ekki frádráttarbært. Það er alveg ljóst að þar er um afturvirkni að ræða og því í fullu ósamræmi við það mikla varúðarsjónarmið sem kemur fram hjá hæstv. ríkisstjórn í greininni sem varðar arð frá atvinnulífinu.
    Þetta mál hefur verið mikið rætt í efh.- og viðskn. og aðilar atvinnulífsins kallaðir til sem allir hafa skýrt frá því að hér væri um mikið hættuspor að ræða, íslenski hlutabréfamarkaðurinn væri mjög viðkvæmur á þessu stigi, þar hefði farið fram mikið uppbyggingarstarf á undanförnum árum og stjórnvöld skilið þau sjónarmið sem þar liggja að baki og gert sér grein fyrir að mikilvægt væri fyrir íslenskt atvinnulíf að fá meira eigið fé inn í sinn rekstur. Jafnvel aðilar sem hafa talið sig vera á vinstri kanti í íslenskum stjórnmálum, eins og fyrrv. hæstv. fjmrh., hafa skilið þessi sjónarmið. Hann beitti sér m.a. fyrir því að á síðasta ári, ef ég man rétt, var prósentan sem heimilt er að draga frá að því er arð varðar hækkuð úr 10% í 15%. ( Fjmrh.: Það var núverandi sem gerði það.) Ég hygg að sú löggjöf hafi verið sett í tíð hæstv. fyrrv. fjmrh. ( Fjmrh.: Það var þingmannafrumvarp.) Já, það má vel vera að hæstv. núv. fjmrh. hafi komið mjög að því máli, enda hefur hann verið áhugamaður um þessi mál, haft á þeim mikinn skilning. Þeim mun óskiljanlegra er hvers vegna hann vill rífa niður sín góðu verk frá fyrri tíð.
    Það er áreiðanlega rétt hjá hæstv. fjmrh. að hann hafði mjög mikil áhrif í þessu

sambandi á hæstv. fyrrv. fjmrh. En það hlýtur að teljast mikilvægt að hans dómi að allir íslenskir stjórnmálaflokkar skuli hafa staðið að því og skilið að það væri hvað mikilvægast fyrir íslenskt atvinnulíf að eiginfjárstaða þess væri bætt. En hvað svo sem því líður, hæstv. fjmrh., hefur atvinnulífið sent frá sér þessa yfirlýsingu um aðför að atvinnurekstrinum, hvað svo sem líður fyrri ágætum verkum þáv. hv. þm. Friðriks Sophussonar. Ég vil ekki vanmeta þau og það starf sem hann hafði uppi á Alþingi í þessu sambandi. Þau er hægt að meta með því að lesa hans ræður. En það er nú er því miður svo að þær eru ekki alveg í samræmi við það sem fram kemur í dag.
    Flestir hafa viðurkennt að þetta ákvæði, sem sett er fram í lögunum um tekju- og eignarskatt, sé algerlega óþarft og engin ástæða til að lögfesta það. Það hefur meira að segja gengið svo langt að menn eru að tala um að hæstv. ríkisstjórn ætli að lögfesta lélegan brandara. Ég er ekki þeirrar skoðunar að þetta eigi eitthvað skylt við brandara, þetta er hið alvarlegasta mál. Hæstv. ríkisstjórn hefur í reynd viðurkennt að þetta ákvæði skipti nánast engu máli tekjulega séð og aðeins haldið því fram að þetta sé gert í varúðarskyni. Síðan koma þeir aðilar sem best þekkja til á íslenskum hlutabréfamarkaði og halda því fram að þetta geti nánast eyðilagt það mikla uppbyggingarstarf sem þarna hefur átt sér stað, m.a. að frumkvæði hæstv. núv. fjmrh. eins og hann réttilega tók fram í frammíkalli sínu. Ég tel mikilvægt að hann hefur bent á það á Alþingi. En alveg sama. Það skal samt gert. Og á fundi sem við áttum fyrir skömmu með fulltrúum atvinnulífsins var þetta enn áréttað af þeim.
    Virðulegur forseti. Ég hafði hugsað mér að vitna til þess sem kom fram í þeirra máli. Ég tel í sjálfu sér mikilvægt að hæstv. fjmrh., sem ekki hefur haft möguleika á að taka þátt í því starfi undanfarna daga, geri sér ljóst hvað menn hafi þar sagt. Án þess að ég vitni þar sérstaklega í ákveðna menn kom skýrt fram að menn töldu þetta tilefnislaust og tilgangslaust og bera vott um að menn taki ekki rökum og hvort það gæti virkilega verið að menn vilji hafa á blaði einhvern fjandskap í garð atvinnulífsins. Þetta eru ekki mín orð, hæstv. ráðherra, þetta eru orð forsvarsmanna atvinnulífsins í landinu. Og hvers vegna í ósköpunum eru menn svo fljótir að gleyma að hæstv. forsrh. heldur hér ræðu um það fyrir aðeins hálfum mánuði að nú þurfi að halda ró og undirbúa mál vandlega, sérstaklega að því er varðar skattlagningu, það sé sérstök ástæða til að taka hlutina með ró í sambandi við skattlagningu atvinnulífsins?
    Þeir menn sem best þekkja til á íslenska hlutabréfamarkaðnum sögðu að hér væri ekki um málefni neinna sérstakra aðila að ræða. Þetta væri spurningin um allan atvinnureksturinn í landinu. Það væri lífsspursmál fyrir atvinnulífið á Íslandi að það væri ekki mismunun á kostnaði, sem hlýst af því að fyrirtæki fá hlutafé inn í sinn rekstur, og því lánsfé sem fyrirtækin þurfa að taka.
    Nú er t.d. mikill áhugi fyrir því hjá lífeyrissjóðunum í landinu að auka þátttöku í atvinnulífinu og það vill svo til að á vegum þessara sjóða er stærsti hluti sparnaðar landsmanna. Meiri sparnaður á sér stað í gegnum lífeyrissjóðina en hinum almenna sparnaði nemur og lífeyrissjóðirnir geyma og varðveita langstærstan hluta af sparifé landsmanna. Það er lífsspursmál fyrir íslenskt atvinnulíf að lífeyrissjóðirnir verji meira fé til uppbyggingar þess, ekki síst núna þegar lægð er í íslensku efnahagslífi, þegar við þurfum á að halda að auka framleiðsluna, auka framleiðni, auka hagræðingu í atvinnulífinu, en þar er e.t.v. að sækja mestu möguleika til framfara eins og nú stendur. Menn hafa orðið fyrir vonbrigðum að því er varðar uppbyggingu stóriðju hér á landi og þar hefur verið byggt á heldur mikilli bjartsýni. Nú hefur það ekki orðið að veruleika og því þurft að endurskoða allar forsendur í þjóðarbúskap Íslendinga. Ætli það sé þá ekki ástæða til að menn hlúi vel að atvinnulífinu og geri ráðstafanir til þess að það geti sótt fram á veg ekki síst þegar er upplýst að afkoma atvinnuveganna á næsta ári mun trúlega versna um eina 6 milljarða a.m.k.
    Þótt það sé mikill skilningur á því hjá þeim sem hér stendur að það þurfi að tryggja afkomu ríkissjóðs verður afkoma ríkissjóðs ekki tryggð með því að atvinnulífinu blæði út. Ríkissjóður mun tapa á því og halli á ríkissjóði mun aukast og er alveg ljóst að eins og

nú standa sakir er mikil hætta á að atvinnuleysi aukist. Þess vegna er það enn þá óskiljanlegra hvernig í ósköpunum stendur á því að menn halda fastatökum við þetta ákvæði sem engu máli skiptir. Hvað getur legið þar að baki? Er þetta einhver pólitík, eins og einn af forsvarsmönnum atvinnulífsins orðaði það? Er þetta einhver þráhyggja í einhverjum sem skilur ekki þarfir íslensks atvinnulífs? Getur það verið að einhverjir hæstv. ráðherrar taki ekki sönsum í þessu máli? Og getur verið að þessari vitleysu, sem er óheppileg og óheilbrigð, eigi að halda svo til streitu að atvinnulífi Íslendinga þurfi að blæða? Er nú ekki nóg að menn haldi áfram að hafa allt of mikið framboð af húsbréfum á íslenska verðbréfamarkaðnum til skaða fyrir atvinnulífið þó menn bæti því ekki við að hlutabréfamarkaðurinn verði eyðilagður? Og ég spyr hæstv. fjmrh.: Getur verið að það sé eitthvert samband þarna á milli? Ég spyr hvort það geti verið að sama skilningsleysið komi þarna fram.
    Ég á bágt með að trúa því að einhverjir hæstv. ráðherrar geti verið svo skilningslausir á þarfir íslensks efnahagslífs og atvinnulífsins sérstaklega að þeir ætli sér einfaldlega að koma því til leiðar að verðbréfamarkaðurinn fari í fyrsta lagi á hliðina með þeim afleiðingum að vextir rjúka upp og þar með fari atvinnulífið á hliðina og ætli svo að bæta því við að nú skuli hlutabréfamarkaðurinn líka fara á hliðina. Eru menn ekki farnir að meta hæstv. núv. ríkisstjórn heldur mikils ef þeir ætla að leggja þetta hvoru tveggja á sig? Gæti ekki verið, hæstv. forsrh., að það væri rétt að fara að orðum þínum 6. des. þegar þú sagðir í framsöguræðu þinni um þetta mál að nú skyldu menn taka hlutina rólega og gæta að því hvað væri verið að gera og undirbúa allar breytingar í skattamálum vel? Þá varst þú, hæstv. forsrh., sérstaklega að vitna til þess að menn væru uppi með ótímabærar kröfur, eins og ég skildi ræðu þína, um að fella niður aðstöðugjald. Ég skildi ræðu þína þannig að það væri rétt að undirbúa það mál sérstaklega vel. En aðeins nokkrum dögum síðar er lagt fram á Alþingi frv. til laga um breytingar á tekjuskatti og eignarskatti sem verður að kallast fjandsamlegt atvinnulífinu. Og atvinnulífið hefur séð ástæðu til að birta mjög sterkar yfirlýsingar um það og er nú svo komið að menn botna ekkert í því sem þar er að gerast. Þar ætla menn að halda inni ákvæði sem engum er til gagns og menn hafa haft sterk orð um. Rökstuðningurinn sem við fáum í hv. efh.- og viðskn. er þess eðlis að menn ætli sér að gera breytingar á skattlagningu fjármagnstekna í framtíðinni. Það sé ætlun núverandi ríkisstjórnar. Það hafði ríkisstjórnin tekið fram í sínum --- sennilega ekki stjórnarsáttmála heldur í Viðeyjarkverinu hvíta, sem nýlega kom út og menn, a.m.k. sumir hverjir, vilja taka eitthvað af því sem þar stendur trúanlegt. Að vísu hafa sumir hv. stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar ekkert viljað við það kannast og er nú svo komið að einhverjir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar gefa ekki meira fyrir það sem þar stendur en að þeir vilja fá hluta af því sérstaklega fest í löggjöf, þeir vilja fá það fest í löggjöf að það eigi að taka upp skattlagningu á fjármagnstekjur og það eigi síðan að fresta þessu máli, þ.e. skattfrelsi arðsins, þar til þar að kemur.
    Nú er út af fyrir sig full samstaða um það á Alþingi að rétt sé að taka upp skattlagningu á fjármagnstekjur og það er atriði sem ég hef skilið svo að allir íslenskir stjórnmálaflokkar séu sammála um og þá vænti ég þess að hv. núv. stjórnarflokkar séu um það sammála, það standi ekki þarna og þeir séu samt um það ósammála. Að vísu hefur hæstv. fjmrh. lýst yfir í fjárlagafrv. að þessi skattlagning eigi ekki að hafa í för með sér neinar nýjar tekjur fyrir ríkissjóð og það sé betra að ná þessum nýju tekjum með því að skattleggja barnafólk sérstaklega eins og hann hefur gert tillögur um og ég hef oft áður sagt hæstv. fjmrh. og ég þarf ekki að endurtaka ræður mínar í því sambandi.
    Um þetta er fullkomin samstaða, en ef á að skattleggja fjármagnstekjur í einhverjum mæli gengur það í þveröfuga átt við það ákvæði sem er í lögum um tekjuskatt og eignarskatt og því hefur það ekkert með það að gera. En er tiltrúin svona lítil á samkomulagi núv. hæstv. ríkisstjórnar að það þurfi að lögfesta einstök atriði þessa samkomulags? Getur verið að það ríki slíkt vantraust milli ráðherra í núv. ríkisstjórn að það sé krafa um að það sem menn koma sér saman um skuli sett í lög? Það er algjör nýlunda í samstarfi stjórnarflokka á Íslandi, ég hef aldrei heyrt það fyrr, og gæti kannski verið að það verði

næsta skref þegar menn gera stjórnarsáttmála sín í milli að það sé komið með hann í heilu lagi til Alþingis og hann settur sem löggjöf. Það væri nýlunda í íslenskri löggjöf. ( Fjmrh.: Það var gert 1979.) Það er út af fyrir sig alveg rétt, hæstv. fjmrh., það voru sett lög í apríl 1979, ætli þau hafi ekki verið númer 10 eða svo, sem fjölluðu um margvíslega hluti í efnahagsmálum. (Gripið fram í.) Það var alla vega einhvers staðar undir 10, gæti hafa verið númer 3 eins og mér heyrist að hér sé sagt, en ætli það geti ekki verið að þau séu frá 10. apríl 1979. Eitthvað var um 10 í þessari löggjöf. En þá er það upplýst að þetta voru lög nr. 3 10. apríl 1979 sem hæstv. fjmrh. er að vitna til. Það var á margan hátt allt öðruvísi löggjöf --- og ég hygg að núv. hæstv. viðskrh. kannist við þá lagasmíð því hann kom nokkuð að því --- og sú löggjöf hefur verið gagnrýnd með ýmsum hætti. Ég er ekki að segja að allt sem þar standi sé til mikillar fyrirmyndar, en í þeirri löggjöf var m.a. ákveðið að innleiða verðtryggingu á Íslandi. ( Fjmrh.: Þau voru númer 13.) Það er sem sagt 10 plús 3. Ég er ekki orðinn nógu minnugur á tölur, hæstv. fjmrh. En það er mikilvægur kostur þegar menn þurfa að sýsla um fjármál að muna tölur, eins og ég veit að hæstv. fjmrh. hefur áreiðanlega komið til góða í starfi hans. En þannig er með mig að ég er farinn að vera heldur gleyminn á tölur. ( Fjmrh.: Þetta kemur með aldrinum.) Já, já, þetta er allt saman skiljanlegt.
    En í þessari löggjöf var ákveðið að taka upp verðtryggingu hér á landi. Og gæti ekki verið að það hafi skipt máli fyrir íslenskan fjármagnsmarkað að þessi verðtrygging var tekin upp? Það gæti hugsast, þó að ýmsir gallar hafi verið á þessu máli, að það hafi verið til bóta miðað við þær aðstæður því sparnaður landsmanna hafði farið mjög minnkandi um langt skeið og þótti nauðsynlegt að setja verðtryggingarákvæði í lög til að tryggja að sparnaður Íslendinga ykist á nýjan leik.
    Þessi ákvæði hafa vissulega orðið til þess að fjármagnskostnaður atvinnulífsins hefur hækkað mikið, en það hefur líka lagt þær skyldur á stjórnvöld að reyna að fara varlega á fjármagnsmarkaðnum. Má vissulega segja að íslensk stjórnvöld hafa ekki verið nógu gætin í því sambandi. Halli á ríkissjóði hefur verið of mikill og útgáfa á ýmsum ríkispappírum verið úr hófi fram. Það sem hefur sett fjármagnsmarkaðinn á hliðina að undanförnu er ekki eingöngu hallinn á ríkissjóði heldur jafnframt sú mikla útgáfa á húsbréfum, sem eru ríkistryggðir pappírar, sem hefur verið að undanförnu. Þetta verður að lagfæra og þýðir ekkert annað en draga úr þessari útgáfu um stundarsakir ef menn meina eitthvað með því að ætla að auka atvinnu hér á landi og gefa atvinnulífinu tækifæri til að byggja upp sem er mikilvægast um þessar mundir. Það er vissulega mikilvægt að landsmenn geti eignast eigið húsnæði. En það er til lítils að vera skuldugur í eigin húsnæði atvinnulaus. Ég er hræddur um að það muni gagnast unga fólkinu í skamman tíma. Ef menn halda að það leysi íslenskt efnahagslíf eru menn á villigötum. En látum vera að það náist ekki samstaða um að taka rökum í því máli. Það er margrætt á Alþingi og virðist ekki ganga hjá hæstv. núv. ríkisstjórn frekar en þeirri fyrri. En þegar á svo að bæta því við að rífa niður allt það uppbyggingarstarf sem hefur verið á íslenskum hlutabréfamarkaði eru menn hættir að skilja. Ég trúi því vart að menn ætli að skilja svo við þetta mál og láta sér standa á sama um orð þeirra manna sem hafa hvað besta þekkingu á þessu máli.
    Ég minni t.d. á varfærnisleg orð fulltrúa Seðlabankans í þessu máli. Hann sagði sem svo að það væri fullkomlega eðlilegt að taka upp skattlagningu fjármagnstekna. Það kom honum á óvart að þetta framtak núv. ríkisstjórnar væri fyrsta skrefið og er nú varlega til orða tekið að það hafi komið honum á óvart. Hann bætti við: Er þetta nauðsynlegt?
    Og hann sagði líka: Þessi tillaga hefur nú þegar truflað og fælt fólk frá hlutabréfakaupum. Það kom jafnframt fram að hlutabréfamarkaðurinn er á viðkvæmu uppbyggingarstigi. Það er ekkert gamanmál að rífa niður þetta starf og þess vegna hélt ég að hæstv. núv. stjórnarliðar mundu taka þetta ákvæði út í stað þess að taka málið út úr nefnd eins og nú hefur verið gert og ákveða að lögfesta þetta óeðlilega og óþarfa ákvæði.
    Menn halda því sjálfsagt fram að við sem nú störfum í stjórnarandstöðu séum með málþóf. Það verður sjálfsagt það sem einhverjir munu segja, að sá sem hér stendur haldi

uppi málþófi í málum á Alþingi. Ég skal játa að ég hef sjaldan talað lengi þó ég hafi bráðum verið hér í 17 ár. En ég tel það mikilvægt hlutverk mitt sem stjórnarandstæðings að reyna að koma vitinu fyrir núv. ríkisstjórn og hv. stjórnarliða. Ég tel að stjórnarandstaðan hafi oft á árum áður komið vitinu fyrir stjórnvöld, því þetta er ekki fyrsta ríkisstjórnin sem lætur sér detta í hug eitthvað sem ekki er rétt að gera, það hefur því miður komið fyrir í öllum ríkisstjórnum sem starfað hafa á Íslandi frá upphafi lýðveldisins. Þar hafa verið ráðin misvitur ráð og verða alltaf misvitur ráð. Það hlýtur að vera eðlilegt hlutverk stjórnarandstöðu á hverjum tíma að benda á það sem úrskeiðis fer, kalla til þá aðila í samfélaginu sem þekkja best til og hlusta á rök þeirra og færa þau fram. En þegar rökin eru ekki lengur tekin gild vegna einhverrar þráhyggju sem enginn skilur hljóta menn að grípa til þess að tala á Alþingi í þeirri von að það sé tekið alvarlega.
    Það er ekki hægt að fara með það sem einhverja léttavöru þegar fulltrúar sem starfa á þessum markaði halda þessu fram og segja að helstu væntingarnar til framfara á næstunni séu hagræðing í atvinnulífinu og vilji einstaklinganna í landinu til að taka þátt í þeirri endurskipulagningu sem þurfi að eiga sér stað og vilji sameiginlegra sjóða landsmanna, sem fyrst og fremst eru geymdir í lífeyrissjóðum okkar, til að taka þátt í þessu. --- Nei, það er ekkert hlustað á þetta.
    Lífeyrissjóðirnir hafa sagt sem svo: Við viljum gjarnan halda áfram að kaupa hlutabréf í íslenskum atvinnurekstri, en það gefur auga leið að við munum hætta að gera það þegar arður af hlutabréfum er ekki lengur frádráttarbær í atvinnurekstrinum en vextir af lánsfé eru frádráttarbærir. Þá munu lífeyrissjóðirnir að sjálfsögðu fremur vilja lána íslenskum atvinnuvegum. En það er ekki það sem íslenskt atvinnulíf þarfnast. Það vill fá meira eigið fé og það vill hafa skilyrði til þess.
    Og lífeyrissjóðirnir bæta við: Hæstv. núv. ríkisstjórn hefur ákveðið að opna verðbréfamarkaðinn, opna hlutabréfamarkaðinn þannig að Íslendingar geti farið að kaupa verðbréf í öðrum löndum og erlendir aðilar geti farið að kaupa verðbréf á Íslandi. Menn hafa meira að segja gengið svo langt að það er farið að selja húsbréfin í útlöndum. Hvað ætli það gangi lengi að selja þá pappíra með ríkisábyrgð á erlendum verðbréfamörkuðum á sama tíma og helsta vandamál Íslendinga er allt of mikill viðskiptahalli? Það getur sérhver skynsamur maður séð, sem hugsar til framtíðar, að þetta gengur ekki upp. En það skal samt gert í nafni einhvers sem enginn fær skilið og nú lýsa lífeyrissjóðirnir því yfir að það sé trúlega það helsta sem þeir geti gert að kaupa hlutabréf í erlendum fyrirtækjum vegna þess að þar séu reglur aðrar og nú hafi þeir fullar heimildir til að kaupa hlutabréf í helstu auðhringum heimsins og væntanlegum samkeppnisaðilum Íslendinga á mörkuðum. Er það nú það sem íslenskt atvinnulíf þarf á að halda, að íslenskir lífeyrissjóðir fari að kaupa hlutabréf í erlendum fyrirtækjum og ríkissjóður að selja húsbréf með ríkisábyrgð á erlendum verðbréfamörkuðum? Er þetta framtíðin sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar boðar? Væri ekki rétt að hún læsi leiðara Alþýðublaðsins frá í gær og tæki hann til greina? ( Gripið fram í: Er hann ekki illa skrifaður eins og venjulega?) Það var upplýst, hv. þm., að sá leiðari væri skrifaður samkvæmt útboði og er það nýlunda að það sé jafnvel farið að bjóða út leiðaraskrif stjórnarblaðanna, flokksmálgagnanna. (Gripið fram í.) Ég bið þig um að fá það upplýst hjá hæstv. utanrrh. sem er formaður Alþfl. Ég hygg að hann viti meira um starfsemi Alþýðublaðsins en sá sem hér stendur þó ég telji að hæstv. utanrrh. hafi ekki talið sig bera nokkra ábyrgð á þessum leiðara. En ég hefði talið hæstv. utanrrh. meiri mann að því ef hann hefði gengist við honum því hann var ágætlega skrifaður og meira að segja Morgunblaðið endurtók hann í dag. Mér þótti gott hjá Morgunblaðinu að endurbirta þennan annars ágæta leiðara. ( Gripið fram í: Ertu ekki með hann?) Nei, ég er ekki með hann, en ég hefði vænst þess að þessi skrif stuðningsblaða ríkisstjórnarinnar, fyrst hins ágæta Alþýðublaðs sem að vísu er ekki stórt að vöxtum, en síðan endurprentað í Morgunblaðinu sem er með miklu meiri útbreiðslu, ættu að verða nægilegt til að koma vitinu fyrir hæstv. ráðherra. En svo virðist ekki vera.
    Nú er það svo, virðulegur forseti, að ég hef e.t.v. gert nokkuð mikið mál úr því sem

ég hef verið að tala um, þ.e. skattlagningu atvinnulífsins, en ég geri það að umtalsefni vegna þess að hæstv. forsrh. gerði það að sérstöku umtalsefni í framsögu með þessu máli og því átti ég von á því, miðað við það sem hann sagði 6. des. sl., að efndirnar yrðu með svipuðum hætti. En það kemur í ljós í þessu máli eins og mörgum öðrum að það ber ekki að taka hæstv. ríkisstjórn alvarlega og alls ekki það plagg sem er niðurstaða Viðeyjarfundanna. --- Hæstv. fjmrh. Ég skil að þú þurfir að eiga orðastað við hæstv. félmrh. út af þessu máli því hæstv. félmrh. ber stóra ábyrgð í þessu máli. Lífeyrissjóðir landsmanna eru m.a. á ábyrgð hæstv. félmrh. og því ætti það að liggja fyrir að ráðherra með svo mikið ábyrgðarsvið hefði skilning á þessu máli.
    En í þessu plaggi eru mikil áform og sérstakur kafli um nokkuð sem heitir ,,einkavæðing opinberrar starfsemi``. Ég veit að hæstv. núv. fjmrh. hefur verið mikill áhugamaður um þessa einkavæðingu. Hann hefur oft haldið ræður hér á þingi áður en hann varð fjmrh. um hversu nauðsynlegt væri að taka upp meiri einkavæðingu hér á landi. En hver er dómur atvinnulífsins um þessi áform eftir þau ósköp sem hafa birst frá hæstv. ríkisstjórn? Atvinnurekendur segja einfaldlega: Það þýðir lítið að tala um að einkavæða í opinberri starfsemi þegar búið er að rústa íslenskan hlutabréfamarkað. --- Eða á hverju byggist einkavæðing? Byggist hún á því að afhenda eignir ríkisins til tiltekinna manna? Byggist hún á því að selja eignir ríkisins fyrir lítið eða ekki neitt? Eru það hugmyndirnar sem liggja á bak við einkavæðingu ríkisstjórnarinnar? Ég hefði haldið og tekið það alvarlega að það stæði til að tryggja að hér á landi væri sterkur hlutabréfamarkaður sem gæti m.a. annað því að smátt og smátt yrðu verkefni, sem ríkið og sveitarfélögin hafa nú með höndum, færð yfir til einkaaðila í landinu.
    Það er margt sem mælir með því að ákveðin verkefni, sem nú eru í höndum opinberra aðila og ríkisins, séu færð yfir til einstaklinga. Það er út af fyrir sig eðlileg þróun íslensks þjóðfélags að þar verði breytingar. Það er ekki langt síðan við fengum okkar sjálfstæði og við höfum þurft að reka margt í okkar samfélagi með sameiginlegum sjóðum og það ber að sjálfsögðu að endurskoða og taka til endurmats. Það er t.d. að mínu mati ekkert sem mælir með því að bæjarfélög í landinu séu að stússast í veitingahúsarekstri, það eru engin rök með því og auðvitað á að fela það einkaaðilum. Sveitarfélög eiga ekki að eiga veitingahús. Það eru mistök. Það er margt annað sem sveitarfélögin hafa með höndum. Þau eru með malbikunarstöðvar og þau eru með vélaverkstæði og margt fleira sem er miklu betur komið í höndum einstaklinga.
    Sum sveitarfélög eru í útgerð og fiskvinnslu. Það er t.d. ekki langt síðan stærsta sveitarfélag landsins, Reykjavíkurborg, var að stússast í útgerð og verka fisk. Það var ákveðið að selja þessa starfsemi, sem ég taldi mjög rétta ákvörðun, og koma henni í hendur aðila sem kunnu þar betur til verka. Það hefur komið í ljós að það fyrirtæki gengur miklu betur eftir að dugmiklir einstaklingar fóru að reka það. Að vísu er að hluta til hægt að þakka þá velgengni því að menn höfðu manndóm í sér til að gera skipulagsbreytingar í íslenskum sjávarútvegi sem gerði að verkum að þetta fyrirtæki gat notið þess sem menn gátu að vísu ekki séð fyrir þegar það var selt og höfðu ekki trú á. En virði þess fyrirtækis er mun meira en það var þá og hefði kannski getað verið meira virði í höndum fyrri eiganda.
    Ríkið á atvinnufyrirtæki eins og t.d. Síldarverksmiðjur ríkisins sem var rétt að fara út í á þeim tíma, en í dag er sjálfsagt að færa það í hendur einstaklinga og selja slíka starfsemi vegna þess að það er ekki og á ekki að vera markmið ríkisins að stússast í atvinnurekstri. Þess vegna get ég tekið undir að það á ekki að gera nema í undantekningartilvikum, sérstaklega sé það réttlætanlegt að ríkið hafi hönd í bagga ef um einokunaraðstöðu er að ræða.
    Eitt af því sem stendur til að gera er að selja ríkisfyrirtæki. Getur það verið að menn átti sig ekki á því að til þess að geta selt fyrirtæki á einhverju verði þurfi að vera starfandi hlutabréfamarkaður í landinu? Halda menn að það sé vænlegt að setja fyrirtæki á hlutabréfamarkað sem er allur í rúst? Það stendur nú einhvers staðar í þessu kveri, ég

hef lagt á mig að lesa það --- já, ég er meira að segja búinn að finna það, það er á bls. 7 --- þar stendur þessi ágæta setning sem ég er sammála: ,,Þess verður gætt að einkafyrirtækjum verði ekki afhent einokunaraðstaða á markaði.`` --- Þess verður gætt sérstaklega.
    En hvað er það sem menn eru að hugsa um að selja? Það er kominn listi yfir það. Það er Bifreiðaskoðun Íslands hf. --- Gæti verið að það fyrirtæki hefði einokunaraðstöðu hér á markaði? Mér er nær að halda að það sé ekki mikil samkeppni í bílaskoðun í landinu. Mér er a.m.k. ekki kunnugt um það, nema þá að það verði opnað fyrir að bílar í Reykjavík megi fá skoðun á Egilsstöðum og bílar á Egilsstöðum geti fengið skoðun í bílaskoðuninni í Reykjavík. Þannig væri hægt að byggja upp einhverja samkeppni. En það kostar mikið að keyra á milli staða þannig að ég fæ ekki séð að það sé mjög líklegt að þarna verði virk samkeppni á markaði. En þetta á að selja samkvæmt þeim upplýsingum sem koma fram í fjárlagafrv. Ég sé ekki betur en þetta stangist algjörlega á við það sem segir á bls. 7 í kverinu og er nema von að menn séu undrandi á því sem þar stendur og taki það e.t.v. lítt alvarlega.
    Það er fleira sem á að selja. Það á að selja Endurvinnsluna hf. Það er fyrirtæki sem er inni við Súðarvog og tekur á móti tómum dósum og pressar þær saman og tekur líka á móti tómum flöskum. Ekki veit ég hvað þeir gera við þær. Brjóta þær? Þetta á að selja. Hvernig ætla menn að skapa samkeppni í þessu? Hvaða fyrirtæki á að keppa við Endurvinnsluna? Ég geri mér ekki grein fyrir því. ( Forseti: Forseti vill aðeins trufla hv. þm.) Það þykir mér leitt, en ég tek því afar vel, hæstv. forseti. ( Forseti: Já, það veit ég, en ástæðan er sú að það er meiningin að taka fyrir annað dagskrármál. Á hv. þm. langt mál eftir eða vill hann fresta ræðunni á meðan annað mál á dagskrá er tekið fyrir? Það er hægt að bíða nokkra stund enn, en ef hv. þm. á langt mál eftir mundi ég vilja óska eftir því að hann frestaði ræðunni.) Til að vera hreinskilinn, hæstv. forseti, þá hefur upphaf ræðu minnar tekið miklu lengri tíma en ég átti von á og ég er því miður rétt að byrja. En ég er alveg viss um að ég get komið öllu því sem liggur á hjarta mínu á framfæri síðar og ég sætti mig við það og mun því fresta ræðu minni. ( Forseti: Forseti þakkar hv. 1. þm. Austurl. fyrir tillitssemina.)