Fjárlög 1992

57. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 17:42:02 (2371)

     Frsm. meiri hl. fjárln. (Karl Steinar Guðnason) :
     Hæstv. forseti. Fjárln. hefur nú lokið störfum fyrir 3. umr. fjárl. fyrir árið 1992. Allmargar tillögur voru kallaðar til baka við 2. umr. og fjallaði nefndin um þær að nýju ásamt hinum hefðbundnu verkefnum sem lúta að 3. umr. Þrátt fyrir ýmis nýmæli í þingsköpum og mikinn vilja til þess að láta afgreiðslu ganga fyrir sig án þess að lenda í tímapressu hefur það ekki tekist. E.t.v. er það vegna þess að við óvenjumikla erfiðleika er að stríða í efnahagsmálum um þessar mundir. Ekki ætla ég að fullyrða um það. Hins vegar er mikil nauðsyn á að mál gangi greiðar fyrir sig en raun hefur orðið á. Tímapressa og mikið vinnuálag hefur fylgt störfum fjárveitinganefndar, nú fjárlaganefndar, svo lengi sem elstu menn muna.
    Fjárln. hefur reyndar fyrir nokkru lokið störfum sínum vegna þeirrar frestunar sem hefur orðið á þingsköpum, en ég vil geta þess að það er ætíð mikil vinna að ganga frá ýmsum afgreiðslum, skýringum, undirbúningi að prentun þingskjala og fleiru.
    Ég vil geta þess að svo langt gekk það á sínum tíma hvað tímapressu varðaði að árið 1988 lauk síðasta fundi fjárveitinganefndar aðeins 30 mínútum áður en 3. umr. hófst.
    Eins og tíðkast hefur mættu fulltrúar Þjóðhagsstofnunar til viðræðu við nefndina fyrir 3. umr. frv. og gerðu þar grein fyrir efnahagshorfunum. Þar kom fram að í júlíbyrjun, þegar ríkisstjórnin markaði þá stefnu að fjárlagahalli ársins 1992 yrði ekki meiri en 4 milljarðar kr., lá fyrir spá Þjóðhagsstofnunar um að þjóðartekjur mundu dragast saman um 1,8% á næsta ári. Helstu ástæður þessa samdráttar voru þá minnkandi afli, erfiðleikar í útflutningsiðnaði og versnandi viðskiptakjör. Forsendur fjárlagafrv. voru heldur lakari þar sem þá var gert ráð fyrir 3% minnkun þjóðartekna árið 1992.
    Í kjölfar frestunar álversframkvæmda og lakari viðskiptakjara hafa efnahagshorfurnar enn versnað. Samkvæmt þeirri þjóðhagsspá, sem nú liggur fyrir, er gert ráð fyrir að þjóðartekjur minnki um allt að 6,1% á næsta ári eða rúmlega þrisvar sinnum meira en í júlí-spánni.
    Þessi nýja þjóðhagsspá boðar meiri samdrátt í efnahagslífinu á næsta ári en reiknað var með í fjárlagafrv. og þrengir það enn frekar svigrúmið við fjárlagagerð. Þannig er fyrirsjáanlegt að útgjöld heimilanna dragast verulega saman á næsta ári sem aftur þýðir minni tekjur hjá ríkissjóði. Þá má reikna með að minni tekjubreytingar og aukið atvinnuleysi hafi sömu áhrif. Að öllu samanlögðu er talið að þessi samdráttur skerði tekjur ríkissjóðs um 3--3 1 / 2 milljarð kr. á næsta ári. Þessu til viðbótar hefur virðisaukaskattur innheimst verr á yfirstandandi ári en áætlað var á fjárlögum, sérstaklega á allra síðustu mánuðum, en það hefur aftur áhrif á áætlun næsta árs.
    Tekjuáætlun fjárlagafrv. hefur nú verið endurskoðuð í ljósi aukins efnahagssamdráttar á næsta ári og fyrirsjáanlegs tekjusamdráttar á árinu 1991. Niðurstaða þessarar endurskoðunar er að heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári lækki um rúmlega 1 milljarð kr. frá fjárlagafrv. eða úr 106,4 milljörðum kr. í 105,4 milljarða. Skatttekjur lækka svipað eða úr 98,9 milljörðum í 97,8 milljarða kr. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun verða skatttekjur ríkissjóðs sem næst óbreyttar að raungildi á næsta ári frá því í ár, en skatthlutfallið hækkar hins vegar vegna mikils samdráttar í landsframleiðslu. Samdrátturinn í landsframleiðslu sést m.a. af því að heildarfjárhæðin lækkar í krónum talið um 4 1 / 2 milljarð á næsta ári en að raungildi nemur samdrátturinn 15 milljörðum kr.
    Helstu frávik frá fjárlagafrv. skýrast af fyrirsjáanlegri skerðingu tekna vegna versnandi þjóðhagshorfa á árinu 1992 og endurskoðun á tekjugrunni 1991, en þetta tvennt er metið á nálægt 2 milljarða kr. til lækkunar. Á móti vega sérstakar aðgerðir til tekjuöflunar sem samanlagt eru taldar skila 1 milljarði kr. umfram áætlun frv.
    Halli á fjárlögum verður, ef brtt. meiri hluta nefndarinnar verða samþykktar, 4 milljarðar 82 millj. Tekjur verða 105 milljarðar 388 millj., gjöld verða 109 milljarðar 470 millj.
    Í fjárlagafrv. hefur verið fylgt mjög aðhaldssamri stefnu í útgjöldum stofnana. Þess utan hefur nú verið ákveðið að lækka rekstrarútgjöld stofnana um 2,5 milljarða kr. með jafnri skerðingu. Þetta hefur í för með sér að launagjöld lækka um 6,7% eða 2,3 milljarða kr. og önnur gjöld um 0,2 milljarða kr. sem einkum skal mætt með lækkun ferða- og risnukostnaðar og aðkeyptri sérfræðiþjónustu. Á móti þessu er ákveðið að skilja eftir óráðstafað hjá ráðuneytum 1 milljarð kr. til að mæta óhjákvæmilegum útgjöldum ráðuneyta og stofnana þeirra.
    Til að ná markmiðum um lækkun ríkisútgjalda hefur verið unnið að útfærslu á tillögum um hvernig að framkvæmdinni og eftirlitinu skuli staðið. Annars vegar beinast þær að því hvernig skerðingin verður útfærð og hins vegar að því hvernig eftirliti með útgjöldum ríkisins verður fylgt eftir innan ársins. Til að fylgja eftir ákvörðunum um lækkun rekstrargjalda er ljóst að taka þarf erfiðar ákvarðanir nú í upphafi árs um niðurskurð á þjónustu.
    Þjóðarbúið hefur ekki fyrr frá því að lýðveldið var stofnað orðið fyrir öðru eins áfalli og nú er spáð. Samdrátturinn, tekjufallið varð mest áður árið 1968 og var þá 6%. Nú verður það sem fyrr segir 6,1% miðað við spá Þjóðhagsstofnunar. Samdráttur þjóðartekna fimmta árið í röð hlýtur að skapa geigvænlega erfiðleika fyrir alla þjóðina. Heimilin í landinu, hver einasti einstaklingur mun finna fyrir því sem fram undan er ef spár reynast réttar.

    Það er við slíkar aðstæður sem mikil nauðsyn er á að taka fast á málum, viðurkenna vandann og einbeita sér að því að bregðast við honum með trúverðugum aðgerðum. Það er ekki vafi á að mikil nauðsyn er á að það skapist sem mest samstaða meðal þjóðarinnar í þessum efnum. Ábyrgðarlaust tal um að allt sé í lagi, eina vandamálið sé hverjir stjórna, er hættulegt og getur skaðað þá þjóðarsamstöðu sem nú er nauðsynleg. Það er deginum ljósara að það eru ekki einungis lífskjörin sem eru í hættu heldur og sjálfstæði þjóðarinnar.
    Tillögur meiri hluta fjárln. við þessa fjárlagagerð eru að því leyti sérstakar að þetta er í fyrsta sinn í a.m.k. 30 ár sem þær fela í sér lækkun útgjalda. Tillögurnar bera þess merki að það er ásetningur nefndarinnar að taka fast á málum, leggja sig fram um að ná árangri. Vitneskjan um að slíkt er fórn fyrir betri framtíð, björgunaraðgerðir til varnar hruni heimilanna og atvinnuveganna hefur verið haft að leiðarljósi varðandi ákvörðunartöku.
    Áður en tekið er til við að gera grein fyrir einstökum brtt. meiri hluta fjárln. vil ég í örfáum orðum endurtaka þakkir mínar, sem ég viðhafði við 2. umr., í garð samstarfsnefndar samnefndarmanna minna í fjárln., bæði meirihlutamanna og fulltrúa stjórnarandstöðu. Samstarfið í fjárln. hefur verið gott og fundarstörf gengið greiðlega. Einnig vil ég enn þakka ritara nefndarinnar, starfsfólki Ríkisendurskoðunar, fjmrn., starfsfólki í Austurstræti 14 og í Alþingishúsinu. En allt þetta fólk, sem unnið hefur með fjárln., hefur lagt sig fram um að veita nefndarmönnum aðstoð og greiða götu þeirra.
    Vegna fyrirspurnar frá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni við 2. umr. fjárlaga hefur menntmrn. upplýst eftirfarandi: Á fundi með fjórum af sex þingmönnum Vestfjarða þann 1. ágúst sl., sem menntmrh. boðaði til, voru rædd málefni Héraðsskólans í Reykjanesi. Ráðherrann gerði þar grein fyrir að útlit væri fyrir að skólinn yrði ekki starfræktur lengur þar sem nemendur væru svo fáir. Ákvörðun var svo tekin síðar um að skólinn yrði lagður niður svo sem kunnugt er. Á nefndum fundi lýsti ráðherra þeim vilja sínum að sem nánust samvinna yrði milli ráðuneytis heimamanna þegar rædd yrði framtíð staðarins. Ráðherra lýsir þeirri skoðun sinni að litlar líkur séu til að skólahald verði vakið upp að nýju með sama hætti og það var fram að sl. vori. Hugmynd ráðherra er að sett verði á fót nefnd sem hafi það verkefni að kanna hvernig unnt er að kveikja nýtt líf á staðnum, nýta hús og annað sem staðurinn hefur upp á að bjóða. Ráðherrann mun hafa forgöngu á næstunni um skipan nefndarinnar og óska samstarfs við þingmenn kjördæmisins og tilnefningar fulltrúa frá heimamönnum. Ráðherra hefur og tjáð mér að hann muni óska eftir því við nefndina að hún skili áliti fyrir maílok.
    Svo að ég víki að öðru máli var fjárln. sammála um að fela Vegagerð ríkisins að kanna þær leiðir sem koma til greina við að tryggja vatnsleiðsluna til Vestmannaeyja yfir Markarfljót og hlutast til um að gömlu brúnni verði haldið við til að bera leiðsluna meðan ekki hefur verið gripið til annarra leiða. Vegagerðinni er falið að gera tillögur um hagkvæmustu leiðina til að tryggja sem frekast er kostur öryggi vatnsleiðslunnar yfir Markarfljót og leggja lausnina fyrir fjárln. sem fyrst.
    Gerð gróðurkorta hefur verið eitt af verkefnum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins á undanförnum árum. Nú er unnið að því að endurskipuleggja gróðurkortagerðina með það fyrir augum að koma þessum kortum í stafrænt form og auka gildi þeirra fyrir áætlanagerð og skipulagsvinnu. Þessi endurskipulagning er hluti af tilraunaverkefni í stafrænni kortagerð sem unnið er í samstarfi margra stofnana ríkisins á vegum umhvrn. og er Rannsóknastofnun landbúnaðarins formlegur aðili að verkinu. Til þess er ætlast að stofnunin haldi þessu verkefni áfram og greiði kostnað af rekstrarfé sínu árið 1992 til þessa verkefnis.
    Í fjárlagafrv. er 13 millj. kr. óskipt framlag til Skálholtsstaðar á fjárlagalið 06-790 Kirkjumál, ýmis kostnaður. Ekki eru gerðar tillögur um breytingar á þeirri fjárveitingu, en starfandi er nefnd á vegum dóms- og kirkjumálaráðherra sem kannar málefni Skálholtsstaðar, þar með talið málefni Skálholtsskóla. Fyrir liggja drög að frv. til nýrra laga um Skálholtsskóla og drög að samningi um þátttöku ríkissjóðs í rekstri skólans. Ef frv. um

Skálholtsskóla verður samþykkt sem lög er gert ráð fyrir að taka fé til rekstrar skólans af þeim 13 millj. sem eru á lið dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Rekstrarframlag til skólans verður þá samkvæmt fyrrgreindum samningi sem undirritaður yrði af dóms- kirkjumrh., menntmrh. og fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs.
    Til nefndarinnar barst erindi frá Dimmuborgaráði þar sem m.a. var farið fram á fjárveitingu til að stöðva sandfok sem náttúru Dimmuborga stafar mikil hætta af. Stöðvun sandfoks er verkefni Landgræðslu ríkisins. Nefndin vill beina þeim eindregnu tilmælum til stofnunarinnar að horfa til þess sérstaka verkefnis við ráðstöfun á fé sem ætlað er til verkefna á uppblásturssvæðum á fjárlögum.
    Er þá komið að því að fjalla um þær breytingar sem meiri hluti nefndarinnar leggur til varðandi fjárveitingar til sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu. Fyrst skal þá nefna St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Lagt er til að fjárveiting til hans hækki um 60 millj. kr. frá ákvæðum frv. þannig að heildarfjárveiting verði um 175 millj. kr. Þrátt fyrir þessa hækkun lækkar fjárveiting til hans frá þessu ári sem svarar 60 millj. kr. Tillaga þessi er gerð á grundvelli samkomulags sem ráðherra gerði við stjórn og aðra yfirmenn spítalans þann 17. des. sl. þar sem hann féllst á tillögu stjórnar spítalans um aðgerðir til sparnaðar sem fram höfðu verið lagðar fyrr í mánuðinum. Jafnframt mun stjórnin gera frekari sparnaðartillögur þannig að sjúkrahúsið geti starfað við þær fjárveitingar sem hér eru lagðar til. Uppi eru áform um að taka upp svokallaðar fimm daga deildir og að auka sértekjur. Enn fremur lýsir stjórn spítalans sig fúsa til viðræðna um endurskipulagningu sjúkraþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Þess er vænst að með þessari fjárveitingu og umræddum samningi náist það tvíþætta markmið að hagræða og draga úr kostnaði jafnframt því sem St. Jósefsspítalinn geti haldið áfram að vera mikilvægur hlekkur í heilbrigðisþjónustu í Hafnarfirði og nágrannabyggðum.
    Varðandi fjárveitingar til Borgarspítala og St. Jósefsspítala að Landakoti eru lagðar til umtalsverðar breytingar á fjárlagafrv. Eins og þingmönnum er kunnugt eru fjárveitingar til þessara stofnana sameinaðar í fjárlagafrv., enda var því lýst yfir að stefnt væri að sameiningu þessara sjúkrahúsa. Viðræður hafa staðið yfir undanfarna mánuði milli ráðamanna sjúkrahúsanna undir forustu heilbrrn. um slíka sameiningu. Fjárlaganefnd var greint frá skýrslu frá þessum viðræðuhópi. Í skýrslunni er lagt til að sameiningunni verði hrundið í framkvæmd og lagðar fram ítarlegar tillögur um nauðsynlegar framkvæmdir, svo og útreikningar á þeim ávinningi sem af sameiningu gæti leitt. Síðan gerðist það að stór hluti starfsfólks lýsti sig andvígan þessum sameiningaráformum og St. Jósefssystur tóku undir þetta sjónarmið. Með vísun til anda samnings ríkisins um kaup á sjúkrahúsinu frá 1976 hefur ráðherra lýst því yfir að ekki verði gengið þvert á sjónarmið nunnanna, enda hafa þær innt af hendi mikið starf í þágu sjúkra á Íslandi. Vegna þessarar stöðu er augljóst að sameining spítalanna nær ekki fram að ganga í bráð. Því er nauðsynlegt að skipta nú fjárveitingunni milli sjúkrahúsanna tveggja og endurvekja sérstaka fjárveitingaliði þeirra. Gerir meiri hluti nefndarinnar tillögu þar að lútandi.
    Samkvæmt þessum tillögum hækkar heildarfjárveitingin til þessa málaflokks um 80 millj. kr. frá fjárlagafrv. Engu að síður er um umtalsverða lækkun að ræða miðað við fjárveitingar þessa árs. Nemur heildarlækkunin um 250 millj. kr. Skipting fjárveitingarinnar er í anda fyrrgreindrar skýrslu um hugsanlega verkaskiptingu spítalanna, en þar er gert ráð fyrir að flytja hluta starfseminnar yfir á Borgarspítalann, m.a. með því að leggja af bráðavaktir á Landakoti. Fjárveitingin til Borgarspítalans verður samkvæmt tillögu meiri hluta nefndarinnar ámóta og á þessu ári að undanskilinni nokkurri hækkun vegna yfirtöku fæðingarheimilisins við Eiríksgötu eins og síðar verður vikið að.
    Hvað Landakot varðar er um verulega lækkun að ræða. Má ætla að fjárveiting til þessa sjúkrahúss lækki um 380 millj. kr. frá því sem óbreytt starfsemi gæfi tilefni til eða allt að 1 / 3 . Því verður stjórn spítalans að grípa til allróttækra aðgerða í rekstri hans. Velflestir læknar spítalans hafa gefið út viljayfirlýsingu um áframhaldandi samninga við Borgarspítalann og heilbrrn. um samstarf og verkaskiptingu með sameiningu í huga og að þeim

viðræðum verði lokið innan þriggja mánaða. Er því treyst að nunnurnar verði sáttar við þessi áform. Í ljósi þessa leggur meiri hluti nefndarinnar til að fjárveitingalið á samheitinu Sjúkrahús í Reykjavík, sem ætlaður var til framkvæmda eða annars kostnaðar í samruna sjúkrahúsanna, verði ekki skipt upp að sinni heldur viðhaldið að mestu. Er þar um 195,5 millj. kr. að ræða sem verður ráðstafað samkvæmt tillögu ráðherra að höfðu samráði við fjárln. þegar fyrir liggja niðurstöður úr fyrrgreindum viðræðum.
    Þá er lagt til ákvæði í 6. gr. sem heimilar fjmrh. að ganga til áframhaldandi samninga við Reykjavíkurborg og sjálfseignarstofnun St. Jósefsspítala um stofnun nýs sjúkrahúss. Slíkur samningur yrði, ef af verður, háður samþykki heilbrrh. og fjárln. Þá hefur komið fram að náðst hafi samkomulag milli stjórnenda ríkisspítalanna og Borgarspítala um að þeir fyrrnefndu yfirtaki rekstur Fæðingarheimilis Reykjavíkur við Eiríksgötu. Þetta kallar þó ekki á neinar breytingar á fjárlagafrv. þar sem þegar hafði verið gert ráð fyrir þessu fyrirkomulagi við gerð frv. Meiri hluti fjárln. vill leggja áherslu á að samstarf eða samruni fyrrgreindra sjúkrahúsa verður að leiða til raunverulegs sparnaðar í rekstri sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu án þess að til skerðingar á þjónustu komi. Í raun þarf þjónusta að batna, einkum hvað varðar hjúkrun aldraðra þar sem nú ríkir hið mesta ófremdarástand. Sameiningu þessara sjúkrahúsa verður að skoða í heildarsamhengi. Þannig verður samhliða sameiningunni að koma á skýrri verkaskiptingu milli hins hugsanlega sameinaða sjúkrahúss og ríkisspítalanna. Tryggja verður að sjúkrahúsin sérhæfi sig í auknum mæli og ekki verði komið upp dýrri hátækniaðstöðu á þeim báðum þar sem ein mundi nægja.
    Þá er þess að geta að liðurinn Sértekjur undir sameiginlegum fjárveitingum til sjúkrahúsa í Reykjavík lækkar samkv. till. meiri hluta nefndarinnar um 40 millj. kr. Sá liður geymir ýmsan sparnað sem ætlað er að ná fram í sjúkrahúsrekstrinum en ekki eru enn tök á að skipta á milli þeirra. Hér er einkum haft í huga að ná fram lækkun lyfjakostnaðar með útboði. Enn fremur flytur liðurinn í sér sparnað sem ná skal með því að draga úr ferðakostnaði lækna. Nú er talið að ekki náist að fullu sá sparnaður sem að var stefnt í fjárlagafrv. hvað það varðar. Því er umrædd breyting gerð.
    Vil ég nú víkja að einstökum þáttum þessara brtt.
    1. tillagan á þskj. 302 varðar forsrn. Þar er lagt til að liðurinn Ýmis verkefni hækki um 1,5 millj. kr. Um er að ræða framlag til Þróunarfélags Reykjavíkur.
    2. tillaga varðar Byggðastofnun, en þar er gert ráð fyrir lækkun rekstrarkostnaðar um 20 millj. kr. sem kemur til vegna samdráttar í starfseminni.
    3. tillagan varðar framhaldsskóla almennt. Þar er gert ráð fyrir að liðurinn Rekstrarhagræðing í skólum verði felldur niður í kjölfar ákvörðunar um að fallið verði frá hækkun skólagjalda.
    4. tillagan snýr að Héraðsskólanum í Reykholti. Þar er gert ráð fyrir að framlag til skólans hækki um 8,7 millj. kr. vegna ákvörðunar um áframhaldandi rekstur.
    5. tillagan varðar grunnskóla almennt, en þar er gert ráð fyrir að óskipt framlag lækki um 10 millj. kr.
    6. tillagan varðar Þjóðleikhúsið. Um er að ræða 12 millj. kr. framlag vegna kostnaðar við frágang á sviðslyftu og fatahengi og ljósabúnaði, en þetta er m.a. til þess að verða við öryggiskröfum sem komið hafa fram.
    7. tillagan snýr að framlögum til lista. Þar er um að ræða að lækka fjárveitingu til Leikfélags Reykjavíkur um 14 millj. kr. og hækka fjárveitingu til Íslensku óperunnar um 15 millj. kr. Þetta er í samræmi við væntanlegan samning menntmrh. og fjmrh. við Íslensku óperuna.
    8. tillagan varðar ýmislegt á sviði menntamála. Annars vegar er um að ræða 400 þús. kr. hækkun á framlagi til Kvenfélagasambands Íslands. Hins vegar er um að ræða uppgjör á kostnaði vegna undirbúnings að byggingu handboltahallar. Af 30 millj. kr. fjárveitingu renna 20 millj. til HSÍ og 10 millj. til Kópavogskaupstaðar.
    9. tillagan varðar aðalskrifstofu utanrrn. Þar er lagt til að 7,5 millj. kr. verði fluttar frá Útflutningsráði til viðskiptaskrifstofu vegna umsvifa í tengslum við EES-samningana.
    10. tillagan varðar Búnaðarfélag Íslands. Þar er lagt til að framlag hækki um 5 millj. kr. til að mæta greiðslum vegna lífeyrisskuldbindinga starfsmanna Búnaðarfélagsins.
    11. tillaga varðar sérstakar greiðslur í landbúnaði. Þar er lagt til að framlög vegna nauta-, svína-, hrossa- og alifuglaafurða hækki um 30 millj. kr.
    12. tillagan lýtur að greiðslu vegna búvöruframleiðslu. Annars vegar er um að ræða 40 millj. kr. lækkun á framlagi vegna uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir vegna endurskoðunar sölu- og birgðaáætlana. Hins vegar snýr tillagan að beinum greiðslum til bænda. Þar er lagt til að beinar greiðslur til bænda vegna afurða lækki um 295 millj. kr. vegna þess að gert er ráð fyrir að greiðslum verði dreift á 12 mánuði, tímabilið 1. mars 1992 til 1. febrúar 1993, en komi ekki öll á næsta ári eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Þessi ráðstöfun er í samræmi við ráðstöfun búvörusamnings, nánar tiltekið grein 5.2.1. þar sem kveðið er á um tilhögun greiðslna til bænda. Þar kemur skýrt fram að beinar greiðslur skuli greiðast mánaðarlega frá 1. mars. Í greininni kemur fram að fullnaðaruppgjör skuli fara fram 15. des. vegna framleiðsluársins þar sem tekið sé tillit til gæðaflokkunar framleiðslunnar. Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að fullnaðaruppgjör og fullnaðargreiðsla af hálfu ríkissjóðs færu saman, en hér er horfið frá þeirri forsendu m.a. á grundvelli ákvæðanna um að greiðslurnar skuli inntar af hendi mánaðarlega. Rétt er að vekja athygli á því að 29. gr. búvörulaganna, nr. 46/1985, stendur óhögguð, þess efnis að fullnaðargreiðsla afurðastöðva skuli fara fram eigi síðar en 15. desember.
    13. tillagan varðar Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Þar er lagt til að sameina þrjú viðfangsefni í eitt og fella þannig brott viðfangsefnin Rannsóknavið og Útibú. Þetta hefur ekki kostnaðarauka í för með sér en hefur þann tilgang að auka svigrúm og frjálsræði stofnunarinnar til ákvarðana innan marka heildarfjárveitingar.
    14. tillagan snýr að veiðieftirliti. Þar er gert ráð fyrir að framlag hækki um 3,9 millj. kr.
    15. tillagan varðar lögreglustjórann í Reykjavík. Þar er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður vegna almennrar löggæslu lækki um 10 millj. kr.
    16. tillagan varðar Landhelgisgæslu Íslands. Þar er lagt til að fjárveiting til reksturs varðskipa lækki samtals um 31 millj. kr. og fjárveiting til reksturs flugvéla lækki um 19 millj. kr.
    17. tillagan varðar Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þar er gert ráð fyrir að framlag hækki um 27 millj. kr. Samkvæmt tekjuáætlun ríkissjóðs 1992, sem nú liggur fyrir, má ætla að framlag til Jöfnunarsjóðsins, sem er 1,4% af skatttekjum ríkissjóðs, nemi 1.370 millj. kr. á árinu 1992. Til viðbótar koma 27 millj. kr. vegna vantalins framlags á árinu 1991 í samræmi við endurskoðun á tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir yfirstandandi ár.
    18. tillagan varðar ýmsa starfsemi á sviði félagsmála. Þar er lagt til að framlag til starfsmenntunar í atvinnulífinu lækki um 10 millj. kr. Þá er einnig lagt til að framlag til Kvennaathvarfs hækki um 700 þús. kr. og framlag til Stígamóta hækki um 500 þús. kr.
    19. tillagan varðar Tryggingastofnun ríkisins. Þar er gert ráð fyrir að framlag til sjúkratrygginga lækki um 246,4 millj. kr. sem færist á aðra liði. Annars vegar er framlag til Tannverndarsjóðs að upphæð 10 millj. kr. fært á nýtt viðfangsefni og framlag til Náttúrulækningafélagsins að upphæð 236,4 millj. kr., en framlög til félagsins verða greidd af föstum fjárlögum á fjárlagalið 08-431 og verður nánar vikið að því síðar.
    20. tillagan snýr að Hollustuvernd ríkisins. Þar er lagt til að framlag til heilbrigðiseftirlits lækki um 5 millj. kr. og framlag til rannsóknarstofa lækki um 5 millj. kr. Ástæðan er sú að gert er ráð fyrir 10 millj. kr. hækkun á sértekjum stofnunarinnar.
    21. tillagan snýr að fjárlagaliðnum Sjúkrahús í Reykjavík. Þar er annars vegar um að ræða lækkun á sértekjum að fjárhæð 40 millj. kr. vegna þess að áform í fjárlagafrv. um sparnað í ferðakostnaði lækna náðist ekki að fullu. Hins vegar fellur brott liðurinn Kostnaður vegna endurskipulagningar, að fjárhæð 204 millj. kr. sem er skipt á milli Borgarspítala og St. Jósefsspítala, Landakoti eins og fram kemur hér á eftir. Loks er tekið upp nýtt

viðfangsefni, Stofnframkvæmdir vegna endurskipulagningar, að fjárhæð 195,5 millj. kr.
    22. tillagan varðar ríkisspítala. Þar er annars vegar um að ræða 36 millj. kr. hækkun vegna sérkjarasamninga við aðstoðarlækna og hins vegar tilflutning á 10 millj. kr. frá liðnum Stjórnarnefnd --- stofnkostnaður til liðarins Yfirstjórn mannvirkjagerðar á Landspítalalóðinni vegna viðkvæmrar stöðu byggingarmála.
    23.--25. tillaga varða skiptingu fjárveitinga á fjárlagalið 08-374 á milli Borgarspítala og St. Jósefsspítala, Landakoti. Koma báðir spítalarnir inn sem nýir liðir en liðurinn 08-374 fellur brott. Þá kemur einnig fjárveiting af liðnum 08-370 eins og getið er um hér að framan. Heildarkostnaður við Borgarspítalann er áætlaður 2.589 millj. kr., en heildarkostnaður við St. Jósefsspítala er áætlaður 847,6 millj. kr. Viðbótarútgjöld umfram frv. nema 80 millj. kr.
    26. tillagan varðar sjúkrahús og læknisbústaði. Þar er gert ráð fyrir að framlag til St. Fransiskusspítala í Stykkishólmi hækki um 15 millj. kr.
    27.  tillagan varðar nýjan lið, Tannverndarsjóð. Framlag til hans nemur 10 millj. kr. Hér er ekki um viðbótarútgjöld að ræða þar sem þessi kostnaður var áður greiddur af sjúkratryggingum og lækkar sá liður um sömu fjárhæð.
    28. tillagan varðar St. Jósefsspítala, Hafnarfirði. Annars vegar er gert ráð fyrir hækkun launa og rekstrargjalda að fjárhæð 76 millj. kr. og hins vegar hækkun sértekna að fjárhæð 16 millj. kr. Viðbótarútgjöld vegna þessa nema því 60 millj. kr.
    29. og 30. tillagan varða breytingu á fjárlaganúmerum. Liðurinn 08-430, Vistun geðsjúkra afbrotamanna, verður 08-490, en liðurinn 08-410, Sjálfsbjörg, hjúkrunar- endurhæfingarstofnun, verður 08-430.
    31. tillagan varðar nýjan lið, Náttúrulækningafélag Íslands, sem skiptist í tvö viðfangsefni, endurhæfingardeild 186,4 millj. kr. og heilsuhælisdeild 50 millj. kr. Þetta hefur ekki kostnaðarauka í för með sér þar sem þessi kostnaður var áður greiddur af sjúkratryggingum og lækkar því sá liður um 236,4 millj. kr.
    32. tillagan varðar heilsugæslustöðvar almennt. Þar er lögð til hækkun að fjárhæð 10 millj. kr. þar sem áform í fjárlagafrv. um lækkun á ferðakostnaði lækna náðist ekki að fullu.
    33. tillagan varðar Vegagerð ríkisins. Þar er lagt til að hætt verði framkvæmd við Vestfjarðagöng á næsta ári og er áætlað að spara með því móti 250 millj. kr.
    34. tillagan snýr að hafnamálum. Gert er ráð fyrir að leggja á sérstakt vörugjald sem renni í sérstaka deild við Hafnabótasjóð. Gjaldið verður sem svarar 25% álagi á vörugjöld samkvæmt hafnalögum önnur en vörugjöld af sjávarafla. Þessu fé á að verja til að standa straum af framvæmdum við almennar hafnargerðir eftir því sem ákveðið er í fjárlögum ár hvert.
    35. tillagan varðar Flugmálastjórn. Þar er lögð til hækkun að fjárhæð 12,5 millj. kr. til Alþjóðaflugþjónustunnar.
    36. tillagan varðar ýmis framlög á sviði samgrn. Þar er tekinn inn nýr liður, GPS-staðsetningarkerfið. Líklegt er að þetta kerfi komi í stað Loran C-kerfisins. Aðeins er rúmt ár þar til það kerfi kemst í fullan rekstur. Í samgrn. er í undirbúningi starf sem lýtur að því að tryggja sem besta þjónustu þessa kerfis eftir að það tekur til starfa. Koma þarf upp tilraunakerfi, m.a. til að staðfesta hæfni þess. Gert er ráð fyrir 6 millj. kr. til þessa verkefnis.
    37. tillagan varðar Iðntæknistofnun Íslands. Þar er lagt til að fjárveiting lækki um 2,5 millj. kr.
    38. tillagan varðar Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Þar er lagt til að fjárveiting lækki um 1,5 millj. kr.
    39. tillagan varðar iðnaðarrannsóknir. Þar er lagt til að fjárveiting lækki um 12,5 millj. kr.
    40. tillagan varðar iðju og iðnað. Þar er gert ráð fyrir að framlag til Evreka lækki um 5 millj. kr. og framlag til iðnþróunar- og markaðsmála lækki um 2,5 millj. kr.

    41. tillaga snýr að Orkustofnun. Þar er lagt til að framlag lækki um 6 millj. kr.
    42. tillagan varðar niðurgreiðslur á vöruverði. Hér er að stærstum hluta um lækkun á niðurgreiðslum á mjólkurdufti að ræða. Gert er ráð fyrir að við niðurgreiðslur á mjólk sem notuð er sem hráefni í þurrmjólk verði miðað við að hráefnið kosti það sama og á öðrum Norðurlöndum. Jafnframt er við það miðað að framleiðendur mjólkurdufts lækki verð sitt á mjólkurdufti niður í það sem gerist á Norðurlöndum. Með því móti mun verð framleiðenda taka fyrst og fremst mið af hráefnisverði.
    43. tillagan varðar ýmis verkefni á sviði umhvrn. Tekinn er inn nýr liður, Rannsóknir á botndýrum á Íslandsmiðum, og eru 3 millj. kr. ætlaðar í þann lið. Þá er einnig lagt til að framkvæmdum við nýtt náttúruhús í Reykjavík verði frestað.
    44. tillagan varðar Landmælingar Íslands. Lagt er til að framlag til stafrænnar kortagerðar hækki um 8 millj. kr. og að sértekjur lækki um 4,3 millj. kr.
    45. tillaga snýr að almennum sparnaði í rekstri ríkisins. Með skipulögðum aðgerðum er stefnt að því að ná fram um 1,5 milljarða kr. lækkun á rekstrarkostnaði ríkisstofnana eða sem svarar til 5% af heildarkostnaði þeirra. Launagjöld allra stofnana ríkisins eru lækkuð um 6,7% frá því sem þau ella hefðu orðið eða um 2,3 milljarða kr. Annar rekstrarkostnaður er lækkaður um 1,3% eða um 200 millj. kr. Til móts við þessa lækkun verður 2 / 5 hlutum lækkunarinnar, um 1 milljarði kr., ráðstafað hlutfallslega á sérstakan fjárlagalið í hlutaðeigandi ráðuneyti.
    Rétt er að árétta að fjárln. mun fylgjast grannt með framkvæmd þessarar tillögu og má í því sambandi benda á ákvæði 6. gr., lið 6.11, þar sem gert er ráð fyrir því að leita þurfi samþykkis fjárln. um það hvernig dregið verður úr starfsemi ríkisstofnana og ráðuneyta, og lið 6.22 þar sem hafa ber samráð við fjárln. um ráðstöfun áðurnefndra 2 / 5 hluta.
    Þá er á þskj. 302 gerð grein fyrir tilfærslum frá einstökum stofnunum innan ráðuneyta á fjárlagalið 950 til ráðstöfunar í tengslum við rekstrarsparnað í viðkomandi ráðuneyti. Alls nema þessar tilfærslur 161,7 millj. kr.
    Þá kem ég að brtt. sem nefndin hefur flutt og varða Kirkjuferju og Kirkjuferjuhjáleigu og er hún á sérstöku þingskjali. Það fjallar um kaup ríkissjóðs á loðdýrahúsum og lausafé á jörðunum Kirkjuferju og Kirkjuferjuhjáleigu í Árnessýslu. Hér er um að ræða sérstakt mál sem nefndin telur sér skylt að taka upp. Málið snýst um það að 20. mars sl. voru undirritaðir tveir kaupsamningar milli landbrh. og ábúenda tveggja ríkisjarða um kaup ríkissjóðs á loðdýrahúsum á jörðunum ásamt búrum, aðstöðu og kössum tilheyrandi þeim rekstri. Kaupverð er samtals um 47 millj. kr. sem greiðist að stærstum hluta með yfirtöku lána hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins, Landsbanka Íslands og Byggðastofnun. Í báðum samningum er ákvæði þess efnis að ábúandi haldi ábúðarrétti sínum á jörðinni auk þess sem hann muni áfram eiga önnur mannvirki með sama hætti og áður.
    Fjmrn. fellst ekki á greiðsluskyldu ríkissjóðs samkvæmt þessum samningum þar sem þeir séu gerðir án lagaheimildar og vísar ráðuneytið í því sambandi til greinargerðar ríkislögmanns um málið sem hefur verið dreift hér í þingsalnum með tillögunni. Niðurstaða ríkislögmanns er í stuttu máli sú að með samningunum hafi verið stofnað til skuldbindingar ríkissjóðs án lagaheimildar. Í framhaldi af því óskar landbrn. eftir heimild Alþingis og hefur m.a. þær skýringar fram að færa um gerð þessara samninga að við ákvörðun um kaupin hafi verið höfð hliðsjón af ákvæðum ábúðarlaga um kaupskyldu landsdrottins á húsum og umbótum á jörð er leiguliði hverfur af jörðinni. Ef ríkissjóður hefði ekki með þessu móti leyst aðkallandi fjárhagsvanda ábúanda væri líklegt að hann hrektist af jörðinni og ríkissjóður hefði þá þurft að innleysa öll mannvirki og ræktun sem ábúandi ætti á jörðinni. Kaupin séu því nauðsynleg til að tryggja áframhaldandi búsetu á jörðunum og til að forða frekari útgjöldum ríkisins vegna ábúðarloka ábúanda.
    Röksemdafærsla af þessu tagi getur ekki réttlætt þá tvo samninga sem um ræðir. Í fyrsta lagi verða ákvæði ábúðarlaga um kaupskyldu landsdrottins ekki virk nema leiguliði hverfi af jörð. Þá er landsdrottni skylt að kaupa tilteknar eignir fráfarandi leiguliða samkvæmt mati úttektarmanna og greiða fyrir með ákveðnum hætti. Samkvæmt samningunum var ákvörðun um kaup á húsunum ekki byggð á úttekt matsmanna og því ekki vitað hvort eða hvaða verði ríkissjóður hefði þurft að leysa til sín þessar eignir við ábúðarlok. Í öðru lagi er ólíklegt að þessir samningar forði frekari útgjöldum ríkissjóðs vegna ábúðarloka ábúanda, a.m.k. ef horft er til lítið eitt lengri tíma.
    Í samningunum felst m.a. kaup á lausafé sem engin kaupskylda stendur til. Fyrir liggur einnig að þessir sömu ábúendur muni búa áfram á jörðunum og eiga áfram ýmis mannvirki sem líklegt er að ríkið þurfi að leysa til sín þegar ábúð þessara manna lýkur einhvern tíma í framtíðinni.
    Ég ætla ekki að rekja frekar lagaleg og fjárhagsleg rök sem mæla gegn þessum samningum en vísa til greinargerðar embættis ríkislögmanns í því efni. Það sem máli skiptir nú er að fá botn í málið þannig að því megi ljúka annaðhvort með staðfestingu eða riftun þessara samninga. Ríkislögmaður kemst að þeirri niðurstöðu að til að geta efnt samningana á löglegan hátt beri landbrn. að leita heimildar Alþingis. Sé vilji landbrh. hins vegar sá að rifta samningunum vaknar spurningin um réttarstöðu viðsemjenda landbrh. gagnvart ríkissjóði og hugsanlega um bótarétt. Um það segir í greinargerð ríkislögmanns, með leyfi forseta:
    ,,Í því tilviki að Alþingi synjaði um heimild kynni landbrh. að vera heimilt að lýsa sig óbundinn af samningunum þar sem lagaforsenda fyrir endanlegu skuldbindingargildi þeirra hefur þá brugðist.``
    Það er með öðrum orðum ekki ljós hugsanleg bótaskylda ríkissjóðs ef Alþingi synjar um heimild. Í því efni verður að fá úrskurð dómstóla. Ef ekki er leitað heimildar Alþingis virðist hins vegar bótaskylda ríkissjóðs vera nokkuð ótvíræð. Um það segir ríkislögmaður, með leyfi forseta:
    ,,En ekki kemur að okkar mati til álita að landbrn. geti bótalaust lýst sig óbundið af samningunum á þessu stigi. Það getur komið til álita eftir að ráðuneytið hefur árangurslaust leitað lagaheimildar Alþingis.``
    Að teknu tilliti til þessara atriða telur fjárln. sér skylt að taka málið upp til ákvörðunar þingsins. Það er álit einstakra nefndarmanna að þessir samningar séu skýlaust lögbrot og staðfesting þeirra feli í sér slæmt fordæmi sem líklega leiði til fjölmargra óska á hendur ríkissjóði um samsvarandi samninga til að leysa úr fjárhagslegum erfiðleikum einstakra bænda eða búgreina.
    Ég vil geta þess hér að þrátt fyrir að nefndarmenn hafa allir skrifað upp á tillöguna eru skoðanir mjög skiptar um hana. Nefndarmenn hafa skrifað upp á tillöguna vegna þess að þeir hafa talið sig skuldbundna að flytja tillöguna að ósk landbrh. og bréfi ráðherra hefur verið dreift og ég hef skýrt frá því hvers vegna við teljum nauðsynlegt að verða við þessum óskum. En nefndarmenn fjárln. eru allir óbundnir af því hvernig þeir greiða atkvæði í þessu máli. Menn eru mjög skiptra skoðana um það. En ég vil lýsa því hér að ég tel að hér sé um lögbrot að ræða.
    Þær breytingar sem gerð er tillaga um vegna B-hluta fjárlagafrv. eru einkum af þrennum toga:
    Í fyrsta lagi er um að ræða breyttar áætlanir vegna nýrra og áreiðanlegri upplýsinga um rekstrarniðurstöðu líðandi árs sem hefur áhrif á afkomu á árinu 1992.
    Í öðru lagi er um að ræða endurskoðun áætlana vegna breytinga á horfum í efnahagsmálum á næsta ári frá því sem gert var ráð fyrir við gerð fjárlagafrv.
    Í þriðja lagi hefur áætlunum verið breytt til samræmis við útfærslu ríkisstjórnar og ráðherra á aðgerðum sem boðaðar voru um viðkomandi fyrirtæki og stofnanir í fjárlagafrv.
    Alls er gerð tillaga um breytingar á áætlunum 11 fyrirtækja og sjóða í B-hluta.
    Vakin er sérstök athygli á að þessar breytingar hafa ekki í för með sér nein áform um breytingar á gjaldskrám umfram það sem gerð var grein fyrir í fjárlagafrv. Ég mun hér á eftir rekja skýringar á þeim breytingum sem gerð er tillaga um við 3. umr. frv.
    Þjóðleikhús, á fjárlagalið 22-973. Framlag úr ríkissjóði hækkar um 27,5 millj. kr.

og er við það miðað að stofnunin dragi saman reksturinn og hagræði sem nemur um 55 millj. kr. miðað við upphaflega áætlun hennar. Launagjöld hækka um 11 millj., eigin tekjur Þjóðleikhússins lækka um 11,5 millj. kr. og rekstrargjöld hækka um 5 millj. kr. Hækkun framlags úr ríkissjóði var tekin inn við 2. umr., en ekki var gerð brtt. vegna B-hluta við það tækifæri.
    23-114 Flugstöð Leifs Eiríkssonar, rekstur. Ákvörðun liggur ekki fyrir hjá utanrrn. um framtíðarskipan rekstursins þannig að rekstrarjafnvægi verði tryggt til frambúðar. Ráðuneytið mun á næstu mánuðum gera tillögur til ríkisstjórnar um framtíðarskipan rekstursins.
    Fjárvöntun fyrirtækisins samkvæmt fjárlagafrv. nemur um 23 millj. kr. Þá er einungis reiknað með að fyrirtækið standi í skilum með vaxtagreiðslur af föstum lánum. Lagt er til að innritunargjald, sem er leigugjald Flugleiða fyrir aðstöðu í flugstöðinni, verði hækkað úr u.þ.b. 300 kr. í tæpar 400 kr. eða úr 5 dollurum í 6,5 dollara á hvern innritaðan farþega til þess að ná endum saman við reksturinn miðað við framangreindar forsendur.
    Síldarverksmiðjur ríkisins. Áætlunum um breytingu á fyrirtækinu í hlutafélag hefur seinkað og er ekki á þessu stigi gert ráð fyrir að af því geti orðið fyrr en um mitt næsta ár. Því þarf að setja fyrirtækið aftur í fjárlög. Forsendur áætlunarinnar eru að loðnuveiði verði um 600 þús. tonn og að fjórðungur þess magns verði unninn í verksmiðjum fyrirtækisins. Þá er gert ráð fyrir að fyrirtækið fái skuldbreytt afborgunum af áhvílandi lánum.
    Hvað varðar Byggingarsjóð ríkisins er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir jafnvægi milli út- og innstreymis vegna skyldusparnaðar. Að mati stjórnenda Húsnæðisstofnunar ríkisins og í ljósi reynslu síðustu ára er talið að útstreymi umfram innstreymi vegna skyldusparnaðar verði 220 millj. kr. Lagt er til að tekið verði tillit til þessa og lántökur hækkaðar sem því nemur.
    Hvað varðar Atvinnuleysistryggingasjóð er áætlað að atvinnuleysi á næsta ári verði talsvert meira en gert var ráð fyrir við gerð fjárlagafrv. Reiknað er með að kostnaðarauki Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna þessa nemi um 195 millj. kr. umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Til að mæta þessum kostnaðarauka hækkar framlag ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs um 150 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir að 45 millj. kr. af áætluðu 400 millj. kr. framlagi Atvinnuleysistryggingasjóðs til Eftirlaunasjóðs aldraðra í fjárlagafrv. geti runnið til atvinnuleysisbóta þar sem nýjar áætlanir gera ráð fyrir að þessar greiðslur til sjóðsins verði ekki hærri en 355 millj. kr. Svigrúm Atvinnuleysistryggingasjóðs til greiðslu atvinnuleysisbóta á næsta ári nemur því tæplega 1.270 millj. kr.
    Hvað varðar Lánasýslu ríkisins, 29-971, eru áætluð launagjöld hennar lækkuð um 16,5 millj. kr., en önnur rekstrargjöld hækkuð um sömu fjárhæð. Þetta er gert vegna þess að laun starfsmanna Ríkisábyrgðasjóðs eru greidd af Seðlabanka Íslands. Lánasýsla ríkisins endurgreiðir síðan Seðlabankanum þennan kostnað sem aðkeypta þjónustu.
    Póst- og símamálastofnun, 30-101. Endurskoðuð áætlun fyrirtækisins gerir ráð fyrir betri afkomu sem nemur 80 millj. kr. Skýrist það einkum af því að greiðsluafgangur á þessu ári verður meiri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Ætlunin er að þessu fé verði varið til fjárfestingar í tveimur jarðstöðvum fyrir fjarskiptasamband við Grænland og Færeyjar fyrir Alþjóðaflugmálastofnunina (ICAO). Þessi fjarskipti hafa fram til þessa farið um svokallað NARS-kerfi sem bandaríski herinn hyggst leggja niður á fyrri hluta næsta árs. ICAO mun endurgreiða Pósti og síma þessa fjárveitingu með vöxtum á næstu 10 árum.
    Hvað varðar Skipaútgerð ríkisins er gert ráð fyrir að fyrirtækið verði lagt niður á næsta ári og öðrum aðilum falið að sinna nauðsynlegri þjónustu eftir því sem stjórnvöld telja nauðsynlegt og ásættanlegt. Miðað er við að fyrirtækið verði í rekstri einhvern tíma á fyrri hluta næsta árs en starfsemi muni síðan lögð af og eignir seldar.
    Hafnabótasjóður. Samkvæmt breytingum á frv. ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, um breytingu á hafnalögum, nr. 69/1984, er gert ráð fyrir sérstöku 25% álagi á vörugjöld, önnur en vörugjald á sjávarafla. Áætlað er að gjald þetta nemi

125 millj. kr. á næsta ári og að það renni í sérstaka deild við Hafnabótasjóð. Skal fé úr deildinni varið til að standa straum af framkvæmdum við almennar hafnargerðir eftir því sem segir í lögum og ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Því er gerð tillaga um að tekjuáætlun Hafnabótasjóðs hækki um 125 millj. kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. og að þetta fé renni síðan til fyrrgreindra verkefna og færist sem sértekjur á Hafnaframkvæmdalið í A-hluta ríkissjóðs.
    Hvað varðar Sementsverksmiðju ríkisins er gert ráð fyrir 15% samdrætti í sementssölu miðað við áætlun fjárlagafrv. Þetta þýðir að afkoma Sementsverksmiðjunnar verður lakari sem nemur 29 millj. kr. Ætlunin er að mæta því með skuldbreytingu sem feli í sér frestun á hluta afborgana af viðskiptaskuldum fyrirtækisins.
    Hvað varðar Rafmagnsveitur ríkisins segir að endurskoðuð rekstraráætlun fyrirtækisins geri ráð fyrir nokkurri aukningu í orkusölu miðað við forsendur fjárlagafrv. sem gefur svigrúm til 64 millj. kr. hækkunar áætlunar um fjárfestingu á næsta ári. Þannig geti Rarik að einhverju leyti fjármagnað nauðsynlega fjárfestingu í sveitarafvæðingu sem undanfarin ár hefur verið kostuð af sérstakri fjárveitingu í fjárlögum hverju sinni.
    Hæstv. forseti. Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir brtt. meiri hluta nefndarinnar við fjárlagafrv. ársins 1992 við 3. umr. Ég legg til að frv. verði samþykkt að þeim breytingum gerðum.