Fjárlög 1992

57. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 18:33:00 (2372)

     Frsm. minni hluta fjárln. (Guðmundur Bjarnason ):
     Hæstv. forseti. Frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 er nú komið til 3. umr. í hv. Alþingi. Minni hluti fjárln. flytur frhnál. á þskj. 323 og mun ég nú reyna að gera nokkra grein fyrir því.
    Þegar frv. var tekið til 2. umr. var það gert í ljósi nýframkominna tillagna frá hæstv. ríkisstjórn. Þessar tillögur voru þess eðlis að þær sköpuðu mikla óeiningu í þjóðfélaginu um ýmis mál sem þar var hreyft og ljóst þá þegar að það væri einnig mikil óeining um málið innan hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarflokkanna, enda hefur komið í ljós að ýmsar breytingar hafa verið gerðar á þeim tillögum sem þá voru boðaðar og jafnvel er enn verið að möndla með ýmsa þætti þeirra tillagna og ekki ljóst hver afdrif verða nokkurra atriða sem þar voru lögð til.
    Fundahöld í hv. fjárln. hafa auðvitað tekið nokkurt mið af þessu og verið með þeim hætti síðan 2. umr. fór fram að nýjar tilkynningar og nýjar tillögur hafa verið að berast frá ríkisstjórninni og allt fram á síðustu stundu, jafnvel svo að hæstv. fjmrh. verður að flytja eina brtt. enn sjálfur eftir að þskj. hafa verið lögð fram frá meiri hluta fjárln. og allar brtt. frá meiri hlutanum eru komnar inn á þing. Þá er enn verið að gera breytingar á hugmyndum um hvernig staðið skuli að þeim tillögum sem boðaðar hafa verið og hæstv. fjmrh. flytur sérstaka brtt. við tekjugrein frv. á þskj. 322.
    Í nál. minni hluta við 2. umr kom fram það álit okkar sem að því stóðum að umræða sú væri ekki tímabær, málið væri ekki nægjanlega vel undirbúið og við boðuðum því frhnál.
    Eins og ég sagði áðan voru tillögur frá ríkisstjórn og hugmyndir um breytingar að berast allt fram á síðustu stundu og því var það svo að nál. okkar var ekki tilbúið í gær

þegar fyrirhugað var að hefja 3. umr. Ég get út af fyrir sig beðist afsökunar á því að svo skyldi vera og hafi það tafið framgang málsins er það leitt, en á því eru þær skýringar að á fund sem haldinn var kvöldið áður komu fram nýjar upplýsingar sem var nauðsynlegt að taka inn í nál. Sá fundur stóð til kl. 11 í fyrrakvöld í hv. fjárln. og þá stóðu þingfundir hér í Alþingi þar sem rætt var um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem auðvitað er mál sem varðar fjárlaganefndarmenn, og vorum við fulltrúar minni hlutans í fjárln. viðstaddir þá umræðu allt fram undir morgun þá nótt og því var nál. ekki til fyrr en síðdegis í gær. Nú er hins vegar ljóst að það hefur ekki tafið mál sérstaklega vegna þess að umræðan hefur ekki getað hafist í allan dag því að ekki hefur verið ljóst með framgang þingmála.
    Ég rek þessa sögu hér til að benda á þau vinnubrögð sem nú eru uppi í hv. þingi og jafnframt til að koma á framfæri því sjónarmiði og gera reyndar athugasemdir við það hvaða möguleika stjórnarandstaðan hefur til að undirbúa sín mál við þessar aðstæður þegar tíminn er mjög knappur og þegar upplýsingar og athugasemdir um brtt. eru að berast fram á síðustu stund. Og kannski spyr maður líka, virðulegur forseti: Hvers vegna er stjórnarandstaðan að eyða tíma í þetta? Hvers vegna er stjórnarandstaðan að mæta á nefndarfundi? Hvers vegna er stjórnarandstaðan að eyða tíma í að reyna að leggja þar fram hugmyndir og tillögur og fá mál rædd? Hvers vegna er stjórnarandstaðan að leggja á sig mikinn tíma við að undirbúa nál. og jafnvel á stundum að taka þátt í þeim umræðum sem síðan fara fram? Þetta segi ég vegna þess að okkur hefur fundist umræða og málsmeðferð í þinginu, og kannski má segja utan þingsins líka, vera þess eðlis að svona spurningar hljóti að vakna.
    Í viðtali sem Ríkisútvarpið átti við hæstv. forsrh. í gærmorgun kemur einmitt þetta sjónarmið rækilega fram. Hæstv. forsrh. svarar þar spurningum fréttamanns og segir m.a. að stjórnarliðarnir hafi nýtt vel þann tíma sem stjórnarandstaðan hafi notað í þinginu til málþófs. Ég fullyrði að hér hafi ekki verið um neitt málþóf að ræða heldur hafi menn rætt málefnalega um þau atriði, þau mál sem hafa verið á dagskrá. E.t.v. hafa ræður á stundum verið nokkuð langar eins og gengur, en umræðan hefur öll verið málefnaleg og til þess gerð að reyna þrátt fyrir allt að koma málum á framfæri, sjónarmiðum og skoðunum stjórnarandstöðunnar. Í þessu viðtali sem ég vitnaði til og vil leyfa mér að gera orðrétt, með leyfi forseta, segir hæstv. forsrh. svo:
    ,,Þannig í sjálfu sér getur stjórnarandstaðan talað eins lengi og hún vill og við líka því við erum búin að ná í land í því sem við þurfum að ná í land og erum tilbúin til að afgreiða það og málþóf breytir engu um niðurstöðuna.``
    Þetta hlýtur að leiða til þess að nokkrar umræður verða í þingi um þingsköp og um það hvaða tilgang það hefur fyrir stjórnarandstöðu að taka yfirleitt þátt í þessum störfum ef það er viðhorf stjórnarmeirihlutans að þannig skuli mál fram ganga að ekkert og aldrei þurfi að taka tillit til sjónarmiða minni hlutans. Ég leyfi mér nú að álíta að þetta sé að hluta til viðhorf hæstv. forsrh. frá hans fyrri vinnustað og þar hafi hann getað leyft sér að haga sér á þennan hátt, en það er ekki hægt að haga sér svo gagnvart löggjafarsamkomu þjóðarinnar og ég vænti þess að hæstv. forsrh. taki upp ný vinnubrögð og ný viðhorf hvað stjórnarandstöðuna og sjónarmið hennar varðar.
    Í frhnál., sem flutt er á þskj. 323, byrjum við á því að ræða nokkuð á ný um tillögur ríkisstjórnarinnar eins og þær hafa legið fyrir síðustu dagana og þær hugmyndir sem þar eru uppi. Í fyrri tillögum var boðuð róttæk breyting á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en síðan hefur verið fallið frá þeim hugmyndum vegna gífurlegrar andstöðu í þjóðfélaginu, bæði hjá sveitarstjórnarfulltrúum og Sambandi ísl. sveitarfélaga, svo og hjá fulltrúum sem láta sig málefni fatlaðra varða og vilja ekki að höndlað sé með þeirra málefni eins og þar var hugmyndin. Ekki það að sveitarfélögin geti ekki verið fullfær um að annast málefni fatlaðra, jafnvel kannski betur en ríkið, heldur vegna þess að það er ekki hægt að kasta til höndum í svo viðkvæmum málaflokkum eins og þar eru á ferðinni með þeim hætti sem fyrirhugað var, enda er horfið frá því út af fyrir sig en haldið við það að velta verulegum byrðum yfir á sveitarfélögin og atvinnulífið. Þær hugmyndir standa enn.

    Reyndar er það nú svo að nokkur andstaða hefur verið uppi í stjórnarliðinu sjálfu um þessar hugmyndir og tillögur og vissulega er atkvæðagreiðslan öll eftir þannig að við vitum svo sem ekki hvernig mál kunna að skipast eða hvernig þeim kann að miða fram.
    Í nál. okkar við 2. umr. var lítið rætt um efnisatriði sjálfs frv., en hins vegar fjölluðu fulltrúar minni hlutans eða stjórnarandstöðunnar ítarlega um hina ýmsu málaflokka í framsöguræðum sínum og í framsöguræðu við nál. og í ræðum sínum um málið. Í frhnál. nú koma betur fram viðhorf stjórnarandstöðunnar til efnisþátta þess frv. sem hér er til umræðu.
    Niðurstöðutölur frv. eins og þær liggja nú fyrir eru þær að tekjuhliðin er upp á 105,4 milljarða kr. en gjöldin upp á 109,5 milljarða. Hallinn virðist því vera um það bil 4,1 milljarður kr. Þetta eru nokkuð svipaðar tölur og voru í upphaflegu frv., hallinn þó nokkru hærri sem nemur 300--400 millj. kr. Það er kannski ekki aðalatriðið eins og mál standa nú, gott ef satt væri og gott ef það stæðist að hallinn yrði ekki meiri en það viðmið sem ríkisstjórnin hefur sett sér. Staðreyndin er hins vegar sú að frv. er að þessu leytinu til óraunhæft. Tekjur eru ofáætlaðar að okkar áliti a.m.k. um 1 milljarð kr. fyrir utan það að ýmsir þættir um tekjuöflun eru óvissir sem ég kem nánar að á eftir. Gjöldin eru einnig vanáætluð. Það er erfiðara að meta hversu mikið þar er um að ræða. Þó munar þar mest um flatan niðurskurð upp á 1 1 / 2 milljarð kr. sem ég er sannfærður um að erfitt verður að ná fram. Þá er fjöldi stofnana með vanáætlaðar fjárveitingar sem þeim verður einnig erfitt að una við til að halda sínum rekstri gangandi og álítum við því að vanáætlun á gjaldahlið kunni að vera 1--2 milljarðar kr. Hallinn á frv. sé því 2--3 milljörðum kr. meiri en niðurstöðutölur þær sýna sem ég las upp aðan. Halli fjárlaga næsta árs gæti þess vegna verið 6--7 milljarðar í staðinn fyrir 4,1 eins og hér er gert ráð fyrir. Þetta mun að sjálfsögðu koma í ljós áður en langt líður á næsta ár, en ég óttast því miður að svona sé staðan í raun.
    Þetta eru vissulega ekki nýjar fullyrðingar. Stjórnarandstaðan hefur frá upphafi lýst því yfir að frv. væri ekki raunhæft og andmælt þeim fullyrðingum sem fram koma í grg. frv. og hafa komið fram í ræðum hæstv. fjmrh. og hv. stjórnarliða að hér sé um raunhæft frv. að ræða, ný vinnubrögð sem hafi verið notuð við frumvarpsgerðina eigi að leiða til þess. Stjórnarandstaðan hefur margsinnis bent á þetta, bæði í ræðum í hv. Alþingi og eins í vinnu hv. fjárln.
    Fullyrðingar í frv. um samdrátt í ríkisútgjöldum eru einnig rangar. Þar er reynt að nota þá aðferð að fela skatta gjaldamegin í frv., þ.e. þjónustugjöldin. Þau skekkja myndina þegar þau eru dregin frá gjaldahlið frv. í stað þess að láta þau koma fram tekjumegin, þessa svokölluðu ,,feluskatta`` eins og ég hef margsinnis bent á áður í umræðum um málið og önnur skyld mál hér í hv. þingi. Ef þessum skatttekjum, sem kallaðar eru þjónustugjöld, er bætt við tekjuhlið frv. kemur í ljós að viðbótarskattheimtan er um það bil 2 milljarðar kr. Og ef þjónustugjöldin eru lögð saman við skatttekjurnar eins og þær koma fram í frv. er heildarskattbyrðin því orðin 99,8 milljarðar og hefur aukist um 5,9 milljarða eða 6,3% miðað við árið 1991. Er því heildarskattbyrðin orðin 27% af vergri landsframleiðslu borið saman við 25,4% í ár samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun fjmrn. sem dags. er 17. des. 1991.
    Nú er það raunar svo að spá Þjóðhagsstofnunar um framvindu efnahagsmála á næsta ári hefur stöðugt verið að breytast og fyrir okkur hafa verið lagðar nýjar spár sem hafa sýnt nýjar tölur þó að ekki líði nema fáar vikur á milli.
    Álögur á atvinnuvegina eru einnig stórauknar í frv. og er atvinnulífinu gert að taka á sig stórar upphæðir, svo sem 525 millj. kr. vegna reksturs Hafrannsóknastofnunarinnar og 278 millj. kr. vegna nýrra hugmynda um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota svo að einhver dæmi séu nefnd.
    Þó að e.t.v. megi færa viss rök fyrir því að atvinnuvegirnir greiði í auknum mæli fyrir þá þjónustu sem hið opinbera veitir þeim er jafnljóst að nú er ekki rétti tíminn fyrir auknar álögur á atvinnulífið í landinu. Þvert á móti þyrftu stjórnvöld að leita allra leiða

til að létta af því álögum og aðstoða það við að fleyta sér yfir þá örðugleika sem nú er vissulega við að glíma, en ríkisstjórnin heldur sig fast við ,,kemur-mér-ekki-við``-stefnu hæstv. forsrh. og bætir stöðugt á klyfjarnar.
    Vissulega er við mikla erfiðleika að glíma í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar. Skal ekki gert lítið úr því og munar þar mest um aflasamdráttinn sem boðaður er og fyrirsjáanlegur er á næsta ári, svo og það að stóriðjuframkvæmdir sem áætlaðar voru eru nú ekki lengur í augsýn. Við vitum reyndar ekki í hversu mikilli fjarlægð þær eru, en því miður er ekkert sem bendir til þess eins og sakir standa að okkar þjóðarbú geti vænst nýrra tekna af sölu orkulindanna okkar eða rafmagnsins þaðan eða að líklegt sé að stóriðjuframkvæmdir hefjist á næstunni. En það er auðvitað aflasamdrátturinn sem hér munar mest um og þegar það gerist fimmta árið í röð að við þurfum að horfa fram á samdrátt í þjóðartekjum er vissulega alvarlegt útlit og erfitt fram undan. Ég reyndar gat þessa nokkuð í 2. umr. um fjárlagafrv. og nefni það nú hér vegna þess að ég fékk, ef ég man rétt, athugasemdir frá hv. þm. Pálma Jónssyni um það að ég hefði lítið rætt um þá erfiðleika og lítið gert úr því sem þar væri fram undan, en ég bið hann þá að líta í ræðu mína þegar hún kemur prentuð aftur í þingtíðindum og sannreyna að vissulega er okkur stjórnarandstæðingum þetta fyllilega ljóst.
    Það er erfið staðan í atvinnulífinu og það er samdráttur í þjóðartekjunum, einhver sá mesti frá stríðslokum. Það leiðir til þess að hætta er á vaxandi atvinnuleysi. Það leiðir til þess að atvinnulífið á í miklum erfiðleikum og jafnvel gæti atvinnuleysið orðið meira en spár gera nú ráð fyrir. Það hygg ég að sé m.a. hægt að rekja til þeirrar gjaldþrotastefnu sem hæstv. ríkisstjórn rekur. Má kannski segja að gjaldþrotastefnan sé hornsteinn í efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar og sé sú hagstjórnaraðferð sem hæstv. ríkisstjórn metur einna mest. Sú hagstjórnaraðferð mun leiða af sér aukið atvinnuleysi og þær staðreyndir ásamt erfiðleikum atvinnulífsins valda efasemdum stjórnarandstöðunnar varðandi traustleika tekjuhliðar frv.
    Og það eru vissulega fleiri en stjórnarandstæðingar sem eru með efasemdir um tekjuhliðina. Í minnisblaði sem dreift var í fjárln. frá fjmrn. þegar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar fyrir 2. umr. voru kynntar segir m.a., með leyfi forseta, þegar gerð er grein fyrir versnandi horfum upp á 1 1 / 2 milljarð kr. sem m.a. er talið stafa af því sem ég gat um áðan:
    ,,Auk þess hefur innheimta tekna síðustu vikurnar verið heldur lakari en reiknað var með sem aftur gæti haft áhrif á næsta ár til lækkunar, en ekki er reiknað með því í þessum tölum`` sem þar voru lagðar fram.
    Á fundi með fulltrúum fjmrn. og Þjóðhagsstofnunarinnar um tekjuhlið frv., sem haldinn var 17. des., eru þessar efasemdir einnig áréttaðar. Þar kom t.d. fram að áætlaðar tekjur af sölu ríkisfyrirtækja upp á 1 milljarð kr. eru í hreinni óvissu. Það hafa ekki verið lagðar fram neinar nánari hugmyndir eða tillögur um hvernig staðið skuli að því og hvort líklegt er að þær tekjur muni skila sér.
    Í öðru lagi var gerð grein fyrir því að slaki hafi verið á innheimtu á undanförnum vikum eða innheimtan hafi slaknað. Sjálfsagt er það nú að hluta til vegna ástandsins í atvinnu- og efnahagslífinu og reyndar kemur fram í þeim texta sem ég vitnaði til áðan á minnisblaði frá fjmrn.
    Í þriðja lagi kom fram að forsendur um tekjur af veltusköttum væru í bjartsýnasta kantinum.
    Varðandi virðisaukann er að vísu gert ráð fyrir því að hann lækki nokkuð á næsta ári, reyndar verulega, það verði minni tekjur af innheimtu virðisaukaskatts en áður var ráð fyrir gert upp á rúmlega 2 1 / 2 milljarð kr., en hins vegar er gert ráð fyrir auknum tekjum bæði af innflutningsgjöldum, af tryggingagjaldi og af tekju- og eignarskatti einstaklinga. Hér er um að ræða upphæðir sem nema mörg hundruð millj. kr. Er gert ráð fyrir að innflutningsgjöldin skili 330 millj. kr. meira en gert var ráð fyrir í fjárlagafrv., að tryggingagjaldið skili 250 millj. kr. og að tekju- og eignarskattur einstaklinga skili 515 millj. kr. meiri tekjum. Það hljóta að vera vafasamar spár sem hér eru settar fram miðað við það efnahagsástand sem við horfumst nú í augu við og líklega varlegt að tala um ofáætlun upp á 1 milljarð kr. eins og ég nefndi áðan.
    Þetta kemur reyndar allt saman einnig fram í áliti því sem minni hluti efh.- og viðskn. sendi fjárln. þó að seint væri og reyndar eftir að hún hafði lokið fundum sínum og þess vegna var það álit aldrei tekið þar til umræðu eða umfjöllunar en er prentað með sem fskj. í nál. frá meiri hluta fjárln. svo sem þingsköp gera ráð fyrir. Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að ræða um það mál sérstaklega. Það var rætt í þingskapaumræðum í gær hvernig þau mál hefðu þróast. Auðvitað verð ég að segja að það var leitt að ekki skyldi vera hægt að bíða eftir því nál. minni hluta efh.- og viðskn. og ræða það sérstaklega í fjárln., en við stjórnarandstæðingar gerðum ekki kröfu til þess að fundi yrði frestað og það nál. tekið sérstaklega til umræðu á nýjum fundi, enda kom fram að það yrði prentað með nál. meiri hlutans svo sem raun varð á. Hluti þessa álits er endurprentaður í okkar áliti þar sem bent er á leiðir til frekari tekjuöflunar. Þar er m.a. bent á þann möguleika að innheimta jöfnunargjald allt næsta ár en ekki hálft árið eins og gert er ráð fyrir í tillögum ríkisstjórnarinnar. Það mundi gefa 350--360 millj. kr. tekjuauka á næsta ári. Þar er einnig bent á að hækka álagningu á vörum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, sem mundi geta gefið verulegar upphæðir eftir því hvað sá varningur yrði hækkaður um mörg prósent, og einnig er bent á nauðsyn þess að herða á innheimtu skatta, sérstaklega virðisaukaskattsins.
    Mig langar að ræða örlítið sérstaklega um einn póst í tekjuáætlun meiri hlutans og hæstv. ríkisstjórnar þó að sá liður sé reyndar ekki mjög stór, þó 150 millj. kr., og á ég þar við svokallaðar arðgreiðslur ríkisfyrirtækja.
    Á lokamínútum síðasta fundar nefndarinnar voru kynntar nýjar reglur um arðgreiðslur ríkisfyrirtækja og talið nægjanlegt að þær reglur væru staðfestar af Alþingi ásamt samþykkt á tekjugrein frv. Arðgreiðslur þessar eiga að skila 150 millj. kr. í ríkissjóð. Minni hlutinn telur vafasamt að hægt sé að ákveða arðgreiðslur í ríkissjóð með þessum hætti og bendir m.a. á að bankastofnanir greiða að sjálfsögðu skatt samkvæmt lögum um skatt á innlánsstofnanir og arðgreiðslur hlutafélaga eru ákveðnar á aðalfundum félaganna samkvæmt tillögum stjórnar. Þá má einnig benda á að ríkið er minnihlutaeignaraðili í ýmsum þeim fyrirtækjum sem hér er gert ráð fyrir að skili arði í ríkissjóð. Þessar hugmyndir koma fram í brtt. á þskj. 295 sem flutt er af meiri hluta fjárln. og er þar liður nr. 2 og ber yfirskriftina ,,Reglur um útreikning arðgreiðslna ríkisfyrirtækja``. Við þetta geri ég ekki aðra athugasemd en þá að vekja til umhugsunar hvort rétt sé að málum staðið og bendi m.a. á að þar er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið, bæði hljóðvarp og sjónvarp, greiði arð allt að 20% af meðalhagnaði þriggja undanfarinna ára í ríkissjóð. Reyndar veit ég ekki hvort Ríkisútvarpið hefur nokkurn tíma haft hagnað og spurning hvort það er eðlilegt að það þurfi þá að hækka sín gjöld til að geta síðan skilað hluta af þeim aftur í ríkissjóð. Einnig eru tínd til fyrirtæki sem ríkið er ekki eignaraðili að nema að 20--40%, svo sem eins og Hitaveita Suðurnesja og Orkubú Vestfjarða. Þá eru taldir upp bankar sem eiga að greiða 2% arð í ríkissjóð og að lokum nokkur hlutafélög sem eiga að greiða allt að 10% arð og í sumum þeirra á ríkið ekki nema 18% eins og t.d. í Endurvinnslunni hf. þar sem ríkið er 18% eignaraðili. Þetta finnst okkur að þurfi að skoða nánar, en sannleikurinn er sá að það er eins með þetta og sumt annað sem hefur verið til meðhöndlunar og umræðu í hv. Alþingi seinustu dagana að það hefur lítill tími gefist til ítarlegrar umfjöllunar eða til nánari upplýsingaöflunar.
    Það væri full ástæða til þess, virðulegi forseti, að ræða ítarlega um innheimtu virðisaukaskattsins. Fjárln. hefur borist sérstakt minnisblað um innheimtu skattsins í ár og á næsta ári frá fjmrn. þar sem bent er á hugsanlegar orsakir þess að skatturinn virðist nú innheimtast verr en ráð var fyrir gert og nauðsyn þess að taka þar á ýmsum þáttum. Því miður er ekki tími til að fjalla ítarlega um það við þessa umræðu, en það verður auðvitað að reyna að tryggja betri skattaskil og þarf einnig að huga sérstaklega að þeim reglum sem gilda um endurgreiðslu virðisaukaskattsins af aðföngum því að í þessu minnisblaði er sérstaklega bent á að endurgreiðslurnar hafi farið langt umfram áætlanir ráðuneytisins. Þetta

er verkefni skattyfirvalda að skoða og koma með tillögur um og síðar löggjafans að fjalla nánar um málið.
    Ef ég sný mér þá aðeins að umfjöllun um gjaldahliðina er ljóst að það er hinn flati niðurskurður sem er stóra aðgerðin til að leita nýrra leiða í sparnaði og er gert ráð fyrir að hann skili 1 1 / 2 milljarði kr. Þetta sýnist okkur stjórnarandstæðingum óvarlegt og ólíklegt að muni ganga eftir miðað við að ýmsar stofnanir eru með vanáætlaðar fjárveitingar. Þar að auki er þetta erfitt í framkvæmd svo sem reynslan sýnir og hefur ekki skilað því sem ætlast hefur verið til þegar þetta hefur verið reynt áður. Það má auðvitað hugsa sér að slíka aðgerð væri hægt að framkvæma öðru hverju með margra ára millibili, kannski 10 ára millibili, til að taka á í ýmsum ríkisstofnunum og leita leiða til sparnaðar en ekki líklegt að það muni takast að fá mikið út úr slíkum sparnaði þegar hann er framkvæmdur annað eða þriðja hvert ár eða þessi aðferð við að leita sparnaðarleiða. Ég álít því að það muni nú leiða til samdráttar í þjónustu opinberra stofnana ef eins hart verður haldið utan um fjárveitingarnar og fjárlögin gera ráð fyrir.
    Þá er einnig gert ráð fyrir verulegri fækkun opinberra starfsmanna eins og þessar hugmyndir hljóða og liggja fyrir nú. Mig langar til að lesa upp úr skjali sem barst fjárln. frá fjmrn., m.a. vegna þess að í 2. umr. um frv. virtist koma fram misræmi í málflutningi fulltrúa stjórnarandstöðunnar og var á það bent af öðrum ræðumönnum í þeim umræðum. Það segir í þessu skjali, með leyfi forseta, þar sem fjallað er um ráðningastöðvun:
    ,,Allar nýráðningar verði stöðvaðar og nauðsynleg störf mönnuð með tilfærslu innan kerfisins. Óhjákvæmilegar nýráðningar verða bornar undir ríkisstjórn áður en til ráðningarsamnings kemur. Miðað við forsendur fjárlagarfrv. verði starfsmönnum ríkisins fækkað um 600 á árinu sem svarar 300 ársverkum. Áætlaður sparnaður er 510 millj. kr. Samkvæmt fjárlagafrv. hefði heildarfjöldi starfa hjá ríkinu orðið 16.968 árið 1992. Áreiðanlegar tölur um breytingar milli ára liggja ekki fyrir, en ljóst er að fjölgun hefði orðið að óbreyttu fjárlagafrv.`` Innan sviga er síðan sett 100--200 störf og spurningarmerki þar fyrir aftan.
    Ég hygg að það misræmi sem virtist koma fram í umræðum áður hafi verið þegar talað er annars vegar um að starfsmönnum verði fækkað um 600 á árinu sem svari 300 ársverkum, en hvort tveggja er sem sagt tekið upp úr þessu skjali fjmrn.
    Sú skerðing sem hér er ráðgerð og boðuð kemur fram m.a. á tveimur töflum sem sýndar eru í nál. frá minni hlutanum. Fyrst eru sýnd áhrif þessarar flötu lækkunar rekstrargjalda á ráðuneytin öll og kemur það harðast niður á menntmrn. og heilbrrn., en af þeim 2.455 millj. kr. sem þessi sparnaður á að gefa er gert ráð fyrir að menntmrn. þurfi að spara 764 millj. kr. og heilbr.- og trmrn. 921 millj. Hér er um mjög háar upphæðir að ræða og ef litið er á hvernig þetta kemur út fyrir nokkrar stærstu eða útgjaldasömustu ríkisstofnanirnar, sem einnig er sett fram í töflu í nál., kemur í ljós að það eru einnig heilbrigðis- og menntastofnanirnar sem harðast verða úti. Ríkisspítalarnir t.d. einir sér þurfa að spara á fjórða hundrað millj. kr., 308 millj. 227 þús. kr. svo að nákvæmlega sé talið, og Háskóli Íslands nær 93 millj. kr. Svo að dæmi sé tekið af smærri stofnunum, sem hlýtur þó að muna verulega um þetta, má nefna t.d. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem á samkvæmt þessum tillögum að spara 56 millj. kr. Ég fullyrði að það verður erfitt verk að ná þessu fram og ef marka má fréttir frá þeim stofnunum sem standa frammi fyrir því að leita leiða er ljóst að þær verða ekki sársaukalausar. Ég leyfi mér reyndar að fullyrða að þetta sé óframkvæmanlegt, a.m.k. í þeim mæli sem hér er ráðgert.
    Að vísu eru hér tillögur um að af þessum nær því 2 1 / 2 milljarði sem á að spara sé gert ráð fyrir að 2 / 5 hlutum sé aftur endurráðstafað eftir ákveðnum vinnureglum sem þó hafa ekki verið skýrðar nákvæmlega út enn sem komið er. Það má líka geta þess að aðferðirnar við að endurráðstafa þessu fjármagni eru þær að ekki er ljóst að það séu einmitt þessar sömu stofnanir sem fá fjármunina, enda þyrfti þá ekki að skerða nema um 3 / 5 hluta af því sem áætlað er og láta þar við sitja, en nú á að ráðstafa þessum upphæðum beint úr

ráðuneytunum sjálfum og þá að láta það ráðast þar hverjar stofnanir fá viðbótarfjárveitingar og hverjar ekki.
    Mig rámar í að hér á hv. Alþingi hafi verið umræður, líklega á síðasta þingi, þar sem fjallað var um frjálslyndi í ráðstöfunum ríkisfjármuna og gott ef það var ekki einmitt núv. hæstv. heilbrrh., sem þá var formaður fjárln., sem hvað stærst orð hafði um að þannig væri ekki hægt að standa að málum. Þetta var frv. sem fjallaði um greiðslur úr ríkissjóði og var þar m.a. fjallað um aukafjárveitingar sem nú hafa nær lagst af með því að flytja fjáraukalög oftar en áður var tíðkað, en hér er hins vegar gerð tillaga um að ráðuneytin fái 1 milljarð kr. eða fast að því til svo til frjálsrar ráðstöfunar. Hvar er þá fjárveitingavaldið? má kannski spyrja þegar svona er staðið að málum.
    Við höfum að vísu séð hugmyndir um hvernig hugsanlegt sé að standa að eftirliti með framkvæmd þessa ákvæðis og gert ráð fyrir að fjárln. eða fulltrúar hennar fylgist með úthlutun þessa fjár, en fjárveitingavaldið er að sjálfsögðu þá komið allnokkuð frá Alþingi sjálfu sem hingað til hefur ákveðið fjárveitingar til einstakra stofnana.
    Vonandi er hægt að finna leiðir til aukinnar hagræðingar og meiri sparnaðar en hingað til hefur tekist. Ég hef t.d. margrætt þau mál við fulltrúa, stjórnendur og starfsfólk heilbrigðisstofnana meðan ég sat sem heilbr.- og trmrh., kem kannski aðeins nánar að því máli síðar, en ég óttast að það verði erfitt að knýja þar dyra um svo stórar upphæðir sem hér er gert ráð fyrir.
    Sama er auðvitað um menntamálin og þessa stóru kostnaðarsömu málaflokka því að þeir eru jafnframt afar viðkvæmir og við alþingismenn höfum fengið upplýsingar um að þessi boðaði niðurskurður í menntamálum geti samsvarað því að nær 7.000 grunnskólanemar fengju enga kennslu á næsta ári, nær 7.000 grunnskólanemar. Þetta sýnir okkur aðeins hvers konar upphæðir hér eru á ferðinni og hvernig verður að takast á við verkefnið. Auk þess hlýtur þetta að hafa veruleg áhrif á málaflokkinn málefni fatlaðra þó svo að hæstv. félmrh. hafi reynt að verjast við 2. umr. um frv. og álitið að þetta mundi lítt eða ekki koma niður á þeim málaflokki. Ég veit og þekki af reynslu að hæstv. félmrh. er fimur að verjast og verst af mikilli hörku, en ég óttast samt að henni muni ekki takast að komast undan því að taka þátt í þessum sparnaði og auðvitað hljóti hann að bitna á þessum málaflokki eins og öðrum.
    Í þessu frv. og tillögum sem lagðar hafa verið fram síðar sem breytingar við frv. er gert ráð fyrir verulegum nýjum álögum á sveitarfélögin. Þar má t.d. minna á það sem áður hefur komið fram og er boðað í frv., kemur fram í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, álögur til húsnæðismála, ábyrgðasjóð launa, greiðslur til Fasteignamats ríkisins o.fl., og þó að fallið hafi verið frá róttækum breytingum á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er hér gert ráð fyrir nýjum skatti, sem hefur nú fengið heitið lögregluskattur, sem að auki leiðir til röskunar á úthlutunum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga svo sem rakið hefur verið hér í þingi við önnur tækifæri og ég ætla ekki að eyða tíma í núna. En talið er að í ýmsum tilvikum sé hér um verulega fjármuni að ræða sem hafi áhrif á stöðu sveitarfélaga, einkum hinna minni, og eru jafnvel dæmi um að tekjur minni sveitarfélaga muni skerðast um allt að 20--30%.
    Mig langar að rekja eitt dæmi sem ég þekki vel til og hef fengið upplýsingar um. Það er í mínum heimabæ, Húsavík, þar sem búa nú 2.503 íbúar. Þegar þar hefur verið tekið tillit til áhrifa þessara nýju gjalda og álaga --- ábyrgðasjóðs launa, húsnæðismálanna eins og þau eru hugsuð í því sveitarfélagi á næsta ári --- og þau miðuð við þær umsóknir sem sveitarfélagið hefur nú sent eða beiðnir um að byggja félagslegar íbúðir, þann fjölda íbúða sem fyrirhugað er að byggja, fasteignamatsálagninguna og lögregluskattinn svokallaða og áætluð áhrif hans á jöfnunarsjóðsframlögin, þá er hér um að ræða útgjöld þessa sveitarfélags með 2.500 íbúa upp á 11,1 millj. kr. sem eru 4,4% af heildarveltu þessa sveitarfélags. Ef hins vegar er litið á ráðstöfunarfé sveitarfélagsins eða eignabreytingafé í ár, árið 1991, var það samtals 61,7 millj. kr. og þýða þá þessi nýju gjöld sveitarfélagsins til ríkisins 18% af þessu eignabreytingafé. Í þessu sveitarfélagi eins og mörgum öðrum úti á

landsbyggðinni hafa verið erfiðleikar og áföll í atvinnulífinu sem því miður hafa auðvitað bitnað á sveitarfélaginu í einhverjum tilvikum. Það mun leiða til þess að sveitarfélagið hefur enn minni upphæðir til eignabreytinga á næsta ári, m.a. vegna hærri skatta, hærri vaxtaútgjalda og björgunaraðgerða sem sveitarfélagið hefur orðið að taka þátt í og er nú áætlað samkvæmt drögum að fjárhagsáætlun Húsavíkurkaupstaðar fyrir árið 1992 að eignabreytingafé verði aðeins 45,4 millj. kr. Og nú blasir við að sveitarfélagið þurfi að greiða rúmar 11 millj. kr. af þessu til ríkisins eða 24,5%, nær fjórðung af eignabreytingafé sem það missir nú og þarf að greiða til ríkisins. Eftir standa þá til ráðstöfunar til eignabreytinga, til allra framkvæmda í sveitarfélaginu 34,3 millj. kr.
    Virðulegur forseti. Aðrir fulltrúar minni hlutans í fjárln. munu fara ítarlega yfir ýmsa þessa efnisþætti og þau áhrif sem frv. og aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa á efnahags- og atvinnumálin í landinu. Ég mun því fara hratt yfir sögu hvað þessa þætti varðar en langar til að fjalla nokkuð í viðbót um einstaka þætti heilbrigðis- og tryggingamálanna af því að ég þekki þar nokkuð vel til. Því var það sem ég óskaði eftir því að þegar til þess kæmi yrði hæstv. heilbrrh. einhvers staðar í kallfæri. Ég lýsi ánægju minni með að hann skuli vera staddur í þingsal. Það má hins vegar benda á að hæstv. fjmrh. er ekki viðstaddur 3. umr. um fjárlagafrv. og verður það að teljast nokkuð óvenjulegt. Kannski má segja að það sé ekki ásættanlegt, en mér er kunnugt um að hann er upptekinn annars staðar á þessu augnabliki og geri því ekki kröfu um að hann komi í þingsal, en bendi á að þetta hlýtur að verða að teljast bæði óvenjulegt og óeðlilegt og ekki gott að þinghaldi skuli vera hagað með þessu móti.
    Það sem ég hafði hugsað mér að taka til umræðu næst var að fjalla ofurlítið nánar um heilbrigðismálin og þá kannski einkum um sjúkrahúsin og málefni sjúkrahúsanna, en þau mál hafa verið mjög til umræðu í þjóðfélaginu og í fjölmiðlum seinustu dagana og þá ekki síst hugmyndir og aðgerðir hæstv. heilbrrh. Fyrst langar mig þó að fara örfáum orðum um málefni Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra. ( Forseti: Forseti vill vekja athygli hv. ræðumanns á því að ætlunin er að fresta fundi kl. 19.30. Ef það kæmi sér vel fyrir ræðumann vegna kaflaskipta í ræðu hans að gera hlé á ræðu sinni nú mundi forseti heimila það.) Já, virðulegi forseti, ég hugsa að það væri rétt og kæmi sér vel. Að vísu var leitt að vera búinn að ómaka hæstv. heilbrrh. að koma sér sérstaklega til að hlýða á mál mitt og gera þá einmitt hlé þegar komið er að því, en ég lýk því alls ekki á 5 mínútum eða svo þannig að ég get þá fallist á það að gera hlé hér. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegur forseti. Ég var kominn þar máli mínu að ég ætlaði að fjalla næst um heilbrigðismálin og fara ofurlítið yfir stöðuna í þessum umræðum um sameiningu eða samstarf sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu og aðra þætti er varða heilbrigðis- og tryggingamál í frv. til fjárlaga fyrir árið 1992, en mér þykir að sjálfsögðu mjög miður að heilbrrh. skyldi ekki geta verið hér áfram. Hann var í salnum áðan þegar ræðu minni var frestað og var hér að minni beiðni en getur ekki verið hér í kvöld af ástæðum sem ég virði og geri ekki kröfu til þess að hann komi hér. Mér finnst hins vegar að þau mál sem eru til umfjöllunar í þjóðfélaginu varðandi rekstur heilbrigðisstofnana séu svo mikilvæg að það sé full ástæða til að ræða þau við ráðherra í hv. þingi og ég verð líka að lýsa sérstakri óánægju minni með það aftur að hæstv. fjmrh. skuli ekki treysta sér til að vera við 3. umr. fjárlaga, lokaumræðu fjárlaga fyrir næsta ár. Ég sagði fyrr í ræðu minni fyrir kvöldverðarhlé að út af fyrir sig væri ég ekki að gera kröfu til þess þá að hann kæmi hér þegar umræðan var að hefjast, en mér finnst það vart ásættanlegt að þessi umræða haldi áfram, a.m.k. ekki til enda, án þess að hæstv. fjmrh. sé við. Þá verð ég að segja að ef ljóst er að hann getur það ekki er það orðið á ábyrgð stjórnenda þingsins að haga málum svo til að hér sé verið að ræða mál einstakra ráðherra sem ekki geta verið á staðnum.
    En ég ætla að halda áfram umfjöllun minni um heilbrigðismálin og til þess að einhver sem málið varðar hlýði á það fyndist mér rétt að formaður eða varaformaður fjárln. væru í salnum, en það er ekki einu sinni svo að þeir séu hér staddir. ( Forseti: Forseti vill trufla hv. þm. með því að segja honum að forseti mun gera þær ráðstafanir sem unnt er

til þess að þeir hv. þm. sem nefndir voru verði viðstaddir.) Já, ég þakka hæstv. forseta fyrir það. Út af fyrir sig eiga þessi mál, sem ég ætla mér að ræða hér, ekkert sérstaklega erindi til formanns eða varaformanns umfram aðra hv. þm., sem ég tel að þessi mál varði mikið og þeim beri að kynna sér vel og átta sig á hvert stefnir og hvað er verið að gera varðandi rekstur og sameiningu sjúkrahúsa og samstarf þeirra í höfuðborginni, en þeir eru þó fulltrúar ríkisstjórnarinnar í fjárln. og bera þá auðvitað nokkra ábyrgð á hvernig þessi mál þróast og gætu verið málsvarar ríkisstjórnar við þessa umræðu þó svo að hæstv. heilbrrh. sé forfallaður og geti ekki verið í þinginu.
    Nú er mér ljóst að það vill svo til að hæstv. forseti sem situr nú í forsetastóli er fulltrúi í fjárln. og hefur unnið þar samviskusamlega og ég veit að hann mun hlýða á þetta mál og vonandi taka eitthvert tillit til þess sem mig langar til að koma á framfæri.
    Fyrst ætla ég samt að byrja á að ræða ofurlítið um málefni Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, og kannski örfá önnur atriði áður en ég sný mér að málefnum sjúkrahúsanna.
    Eins og þingheimur væntanlega veit rekur Sjálfsbjörg bæði vinnu- og dvalarheimili, svo og hjúkrunar- og endurhæfingarstofnun hér í Reykjavík auk þess að vera landssamband félaga sem starfa um allt land. Það eru 16 félög sem starfa á hinum ýmsu stöðum um landið þannig að Sjálfsbjörg rekur mikið og öflugt félagsstarf þar sem eru rúmlega 3 þús. meðlimir. Sambandið rekur þessar mikilvægu stofnanir, sem ég gat um áðan, sem eru stofnanir sem þjóna fötluðum einstaklingum, sumum hverjum alvarlega fötluðum sem þurfa mikla umönnun, og þess vegna er mikilvægt að starf landssambands fatlaðra, Sjálfsbjargar, sé virkt og það sé hlúð að því starfi eins og reyndar störfum ýmissa annarra frjálsra félagasamtaka sem starfa í landinu og hafa tekið sér það sem verkefni að vinna að málum sem mætti segja að tilheyrðu hinu opinbera, ríki eða sveitarfélögum eftir atvikum, og hafa leyst af hendi ómetanlegt starf í því sambandi og ég tel Sjálfsbjörgu tvímælalaust vera í þeim hópi.
    Vissulega hefur Sjálfsbjörg fengið ofurlítinn stuðning frá ríkinu til sinnar félagastarfsemi þó að það séu ekki háar upphæðir. Ef ég man rétt, ég hef það nú ekki skjalfest fyrir framan mig, munu það hafa verið einar 2 millj. kr. eða svo í félagsstyrk á því ári sem nú er að líða og svo að sjálfsögðu daggjöld til reksturs þessara stofnana eins og daggjaldaákvarðanir hafa verið á hverjum tíma af daggjaldanefnd. En nú ber svo við að Sjálfsbjörg á í verulegum rekstrarörðugleikum og þau húsakynni sem samtökin reka sína starfsemi í þurfa mikið viðhald og miklar lagfæringar. Meira að segja er nú svo komið að öryggismálum er stefnt í hættu ef ekki tekst að ráða þar bót á. Þess vegna hefur landssambandið sent Alþingi og fjárln. erindi þar sem þeir biðja um stuðning við sína starfsemi. Með leyfi forseta langar mig til að lesa eina málsgrein eða svo úr bréfi frá Sjálfsbjörgu, landssambandi fatlaðra, en þar segir svo:
    ,,Þann 20. júní sl. tók daggjaldanefnd ákvörðun um að hætta að viðurkenna húsaleigugjöld sem hluta af rekstrargjöldum vinnu- og dvalarheimilisins Sjálfsbjargar. Þessi ákvörðun þýðir beint tekjutap Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, upp á um það bil 14 millj. kr. Tekjutap Sjálfsbjargar á næsta ári vegna þessa er fyrirsjáanlegt á sautjándu milljón kr. Verði Sjálfsbjörgu, landssambandi fatlaðra, ekki bætt þetta tekjutap er ljóst að skera verður verulega niður þjónustu. Hér er rétt að benda á að ofangreind skerðing er um það bil 31,2% af áætluðum tekjum Sjálfsbjargar fyrir árið 1992.``
    Þá er trúlega átt við þær tekjur sem landssamtökin sjálf hafa til þess að standa undir rekstri sambandsins og þeirra eigna sem landssambandinu ber að sjá um.
    Í erindi þessu er að öðru leyti fjallað ítarlega um starfsemi sambandsins og segir síðar í þessu erindi, þar sem aðrar fjárveitingabeiðnir eru skilgreindar nánar, að nú við fjárlagagerð fyrir 1992 sé gert ráð fyrir að þessar stofnanir verði settar á það sem við köllum í daglegu tali föst fjárlög, þ.e. þau eru ekki lengur rekin með daggjaldaákvörðun heldur fái fasta fjárveitingu á fjárlögum til að reka starfsemina. Og þar segir í bréfinu, með leyfi forseta, svo:

    ,,Stofnunin hefur átt í viðræðum við heilbr.- og trmrn. varðandi fjárlagatillögur hennar. Það er ljóst að ráðuneytið hefur að mestu viðurkennt tillögur stofnunarinnar, en út af stendur að ekki er viðurkennd ein einasta ný staða við dvalarheimilið þrátt fyrir óskir um 14,66 ný stöðugildi.``
    Nú er það svo að samtökunum hefur verið ljóst að þau fengju ekki sínar ýtrustu óskir uppfylltar og hafa gert ráð fyrir að fækka stöðugildum ef þau fengju ekki svo mörg stöðugildi. Ýtrasta ósk þeirra nú er 8,86 ný stöðugildi sem þeir telja mjög brýnt að fá og áætlað er að muni kosta um 17 millj. kr. Einnig er farið fram á smáupphæð til eignakaupa og svo síðast en ekki síst, virðulegur forseti, fram á fjárveitingu vegna nauðsynlegs meiri háttar viðhalds á húsnæðinu eins og ég nefndi áðan. En gert er ráð fyrir að nauðsynlegar framkvæmdir sem þarf að leggja í kosti rúmar 40 millj. kr.
    Þeir gera ráð fyrir í erindi sínu að hægt sé að skipta þessari framkvæmd og þar með auðvitað líka fjárveitingunni á tvö eða jafnvel fleiri ár þó að verkefnið sé orðið mjög brýnt og munu einnig senda umsóknir til Framkvæmdasjóðs fatlaðra til að mæta þessum brýnu þörfum og vonandi verður hægt að verða við því að einhverju leyti þar. En það sem ég tel einna erfiðast í þessu sambandi er að öryggismálum er ekki sinnt nægjanlega vel og samkvæmt fréttum sem ég hef fengið af ástandi mála í þessum húsakynnum fór í vatnsveðri hér á dögunum úr sambandi brunavarnakerfi sem þýðir það að hluti af brunavarnakerfi er ekki í sambandi, viðvaranir þess ekki virkar. Þá sjá menn hvers kyns ástand getur komið upp ef voða ber að höndum þar sem fatlaðir einstaklingar búa.
    Erindi þessu var því miður ekki hægt að sinna og það sem mér finnst enn furðulegra og þó það skipti ekki máli upp á fjárveitingarnar sem brýnast er að leysa, þá finnst mér miður að hafa ekkert svar fengið frá ráðuneyti heilbrigðismála um það hvernig ráðuneytið lítur til þessarar stofnunar og hvaða lausnir það sér á vanda samtakanna. Það var ítrekað gengið eftir því að fá slíkt álit til fjárln. en án árangurs. A.m.k. hefur það ekki borist mér sem gekk þó fastast eftir því að fá þessar upplýsingar.
    Ég ætla ekki að eyða tíma í að rekja mikið fleiri mál einstakra stofnana þó vissulega væri ástæða til, þó ekki væri nema kannski rétt aðeins að nefna málefni St. Jósefssjúkrahússins í Hafnarfirði. Þau voru töluvert til umræðu í þinginu fyrr í haust og menn voru þar stóryrtir mjög og höfðu í frammi heitstrengingar um að það skyldi ekki fara fram með þeim hætti, sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir, að gerbreyta starfsemi þessa sjúkrahúss. Niðurstaðan er nú sú að af mikilli náð hafa hæstv. ríkisstjórn og hæstv. heilbrrh. lofað að draga úr skerðingunni sem áætluð var um helming þannig að það á ekki að taka af stofnuninni nema 60 millj. miðað við 120 millj. sem áætlað var í upphafi, enda hefði það lagt núverandi starfsemi þessarar stofnunar í rúst og reyndar sýnist mér að 60 millj. kr. skerðing hljóti að hafa afgerandi áhrif á það hvernig þessi stofnun getur starfað. En um þetta hefur að lokum náðst samkomulag við stjórnendur stofnunarinnar. Óttast ég þó að það samkomulag sé gert undir ákveðnum þrýstingi og mönnum hafi kannski verið sagt að þeir mættu þykjast góðir að fá þó þetta og skyldu vel við una, en um það ætla ég ekki að hafa fleiri orð. Um það er flutt brtt. af meiri hluta nefndarinnar að laga hér nokkuð til þó að vafalaust muni sjúkrahúsið í Hafnarfirði eiga við alvarlega rekstrarerfiðleika að stríða eftir sem áður miðað við hvernig fjárveitingin verður að þessari brtt. samþykktri.
    Þá langar mig aðeins áður en ég sný mér að sjúkrahúsunum að nefna annan flokk sem heyrir undir heilbr.- og trmrn., en það eru fjárveitingar til lífeyristrygginga. Samkvæmt fjárlagafrv. var ráðgert að skerða þær um 330 millj. kr. Að vísu hefur verið flutt brtt. og samþykkt um að sú skerðing sé ekki nema 250 millj. Við 2. umr. fjárlaga var bætt á þennan fjárlagalið 80 millj., en eftir sem áður á að skera niður um 250 millj. kr. og engin skýring hefur fengist á því hvernig þeim sparnaði skuli náð þrátt fyrir óskir um upplýsingar um það hvað sé yfir höfuð í gangi, hvaða áætlanir séu uppi. Í fyrri ríkisstjórn voru uppi hugmyndir um að tekjutengja grunnlífeyri og spara þannig verulega í útgjöldum lífeyristrygginga, en þær náðu ekki fram að ganga. Og það var fyrst og fremst vegna andstöðu þingflokks Alþfl. Nú hefur þessi ágæti þingflokkur hæstv. heilbrrh. innan sinna raða,

og það er væntanlega hæstv. heilbrrh. sem gerir þessa tillögu, og ef það viðhorf sem var á seinasta þingi gagnvart þessum hugmyndum um tekjutengingu grunnlífeyris er óbreytt hjá þingflokki Alþfl. er ekki hægt að láta sér detta annað í hug en að hér eigi hreinlega að lækka lífeyrisbætur til öryrkja og aldraðra til að ná fram þessum sparnaði eða a.m.k. væri fróðlegt að fá að heyra hvaða aðrar hugmyndir kunna að vera þar á ferðinni.
    Mikið hefur verið rætt um málefni sjúkratrygginganna, bæði í umræðum um fjárlagafrv. og reyndar við ýmis önnur tækifæri, og ég ætla því ekki að eyða miklum tíma í það núna, en árétta andstöðu minni hlutans við fyrirhugaða gjaldtöku fyrir komu á heilsugæslustöðvar. Eins og þingheimi er væntanlega kunnugt er nú fyrirhugað að taka á ný upp gjald fyrir komu á heilsugæslustöð sem fellt var niður fyrir tveimur árum og var liður í þeirri stefnu að leggja áherslu á hvers konar forvarnastarf og fyrirbyggjandi störf í heilbrigðisþjónustunni. Nú virðist eiga að hverfa frá þessu og við andmælum þeim hugmyndum.
    Þá ætla ég að snúa mér að því að ræða málefni sjúkrahúsanna og þá einkum stóru sjúkrahúsanna þriggja í höfuðborginni sem hafa verið mikið til umræðu á undanförnum dögum og vikum. Það hefur reynst erfitt að fá setta niður á blað endanlega afstöðu heilbr.- og trmrn. til málefna ríkisspítalanna og þá á ég við það til að skýra mál mitt nánar að ríkisspítalar sendu fjárln. beiðni um leiðréttingu á fyrirhuguðum fjárveitingum eins og þær koma fram í fjárlagafrv. upp á 300--500 millj. kr. og bilið má rekja til þess hve mikið væri veitt til nauðsynlegra viðhaldsframkvæmda. Til lagfæringa á rekstrinum voru um það bil 300 millj. af þessum upphæðum og þar af leiðrétting á launalið upp á 134 millj. kr. miðað við óbreytt rekstrarumfang frá því sem er í ár. Hæstv. heilbrrh. kom á fund fjárln. og ræddi við nefndina um málefni ríkisspítalanna og gerði grein fyrir stöðunni og miðaði þá umfang hennar og rekstrarform við það sem var á árinu 1990. Nú er ljóst að eftir verulegan niðurskurð og aðhald á árinu 1989 hefur ýmislegt breyst, ný verkefni og ný viðfangsefni komið inn til ríkisspítalanna. Má t.d. nefna þar, þó ekki sé tínt til nema eitt atriði, að hjartaskurðaðgerðum hefur fjölgað og auðvitað hlýtur það að þýða aukin rekstrarútgjöld þannig að viðmiðun við 1990, og þá algerlega gengið fram hjá því sem hefur gerst á árinu 1991, hlýtur að þýða misræmi í tölum. Hæstv. ráðherra lofaði sjálfur að sjá til þess að send yrði skrifleg greinargerð um samanburð á þessum tölum til fjárln. Sú greinargerð hefur ekki komið fram þrátt fyrir ítrekuð tilmæli um það. Nú er ég ekki með þessu að væna hæstv. heilbrrh. eða ráðuneytið um að reyna að leyna upplýsingum eða fela tölur, síður en svo, af því að ráðherra gerði grein fyrir því að hann væri að miða við árið 1990, en ósk mín var sú að fá að sjá þetta til samanburðar af því að hér er um að ræða flókin mál. Þó að maður leggi sig fram nær maður kannski ekki öllum upplýsingum niður á minnisblöð á stuttum fundi og bað ég um að fá þessar upplýsingar þess vegna skjalfestar til að bera þær saman við óskir ríkisspítalanna og sjá hvað hér kynni að bera á milli og hvað það væri þá sem ætti að skera niður af þeim verkefnum sem eru unnin í dag.
    Ef það er t.d. hugmyndin að fækka aftur hjartaskurðaðgerðum er líka nauðsynlegt að vita það. Það er fróðlegt fyrir þingheim að fá að vita ef það er afstaða og ráðlegging hæstv. heilbrrh. til ríkisspítalanna að gera það. Nú er vitað að aðgerðir þessar eru ódýrari hér heima á Íslandi en úti í London, en eins og við vitum höfum við sent marga sjúklinga sem þurfa í slíkar aðgerðir til London. Við vitum líka að við eigum á að skipa mjög færum sérfræðingum á þessu sviði þannig að við þurfum ekki að leita eftir þessum aðgerðum til útlanda þess vegna. Og síðast en ekki síst er árangur hér betri en erlendis oft og tíðum og t.d. er sýkingarhætta eftir slíkar aðgerðir miklu fátíðari hér heima á Íslandi en eftir þær aðgerðir sem gerðar eru erlendis. Þess vegna tel ég að það yrði mikil afturför ef þeim aðgerðum yrði aftur fækkað og bendi á þá hugmynd, sem reyndar hefur verið skoðuð áður og alveg fullkomin ástæða til að fara nánar ofan í saumana á henni, að bera saman kostnað við þessar aðgerðir hér heima og erlendis og færa þá til fjármuni frá Tryggingastofnun ríkisins ef aðgerðum á að fækka, ef það er stefnan, þannig að ríkisspítalar geti haldið áfram svipuðum aðgerðafjölda en draga þá frekar úr því að senda Íslendinga erlendis sem þó hlýtur að vera neyðarkostur vegna þess að við þessar aðgerðir er biðlisti og við vitum því miður að það hafa orðið afföll af þeim biðlista sem er sárt til að vita ef þar er um að ræða einstaklinga sem hefði verið hægt að koma til hjálpar.
    Varðandi Borgarspítalann, þá hefur stjórnendum hans tekist að halda rekstri innan fjárveitinga undanfarin ár en nú stefnir í að halli þessa árs verði um það bil 100 millj. kr. samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjóra sjúkrahússins sem komu fram á fundi í fjárln. Benti hann m.a. á að svokölluð álagsprósenta, sem er álag á föst laun og stafar af vaktakerfi, yfirvinnu og því vinnufyrirkomulagi sem óhjákvæmilegt er að hafa á sjúkrahúsunum, væri nú 79% á Borgarspítalanum, en í forsendum fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir nema 71% svo að hér ber verulega í milli, en ekki er eftir því sem best er séð vitað hvernig eigi að mæta þessum mismun ef á að fara eins með Borgarspítalann og Landspítalann, að miða hans fjárveitingar á næsta ári við það umfang sem var á árinu 1990 og taka ekki tillit til rekstrarstöðunnar í ár þar sem blasir við að sjúkrahúsið fari 100 millj. fram yfir fjárveitingar.
    Síðast en ekki síst langar mig síðan til að ræða þær hugmyndir sem nú eru uppi um sameiningu Borgarspítalans og Landakots, en á undanförnum árum hafa verið uppi hugmyndir um sparnað í rekstri sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu og hafa þær byggst á aukinni hagræðingu með samstarfi eða sameiningu stóru sjúkrahúsanna þriggja. Slíkar breytingar taka því miður langan tíma og þarf að undirbúa þær vel þannig að þær skili tilætluðum árangri og ekki líklegt að hægt sé að ná fram sparnaði á þessu sviði með einhverjum skyndiákvörðunum.
    Með breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, sem samþykkt voru hér á Alþingi fyrir um það bil ári, nánar tiltekið 21. des. 1990, var stofnað svokallað samstarfsráð sjúkrahúsanna í Reykjavík. Hlutverk þessa ráðs er m.a. að gera tillögur um mótun framtíðarstefnu þessara sjúkrahúsa, starfssvið þeirra, gera þróunar- og fjárfestingaráætlanir og stuðla að sem hagkvæmastri verkaskiptingu. Vissulega hefði verið æskilegt að þessi lagabreyting, sem framkvæmd var fyrir ári, hefði verið með þeim hætti að þetta samstarfsráð hefði haft meiri völd en raun ber vitni, hefði getað skipað fyrir um verkaskiptingu milli þessara sjúkrahúsa og haft meira ákvörðunarvald en texti laganna hljóðar nú, en þó var hér um að ræða mikilvægt skref í að nálgast það að koma á nokkurs konar yfirstjórn yfir þessi sjúkrahús sem gæti sagt fyrir um það og til um það hvernig rekstrinum væri best háttað.
    Í stað þess að þróa málin áfram eftir þessum farvegi hefur hæstv. núv. heilbrrh. ákveðið --- ég segi ákveðið --- að skynsamlegasta leiðin til þess að ná fram skjótum sparnaði, jafnvel svo hundruðum millj. kr. skiptir, sé að sameina Borgarspítala og St. Jósefsspítalann að Landakoti í eina stofnun. Og ég segi ákveðið vegna þess að þetta er lagt til í frumvarpsgerðinni sjálfri, greinargerð frv., og síðan það var lagt fram hefur verið unnið að þessu og sérstök nefnd verið að störfum sem hefur haft það markmið og verkefni fyrst og fremst, að sögn einstakra nefndarmanna sem hafa komið til viðtals við fjárln., að kanna hvort þetta væri mögulegt. Þess vegna virðist hafa verið ákveðið fyrst að þetta skyldi gert og síðan sett nefnd í að kanna hvernig að því skyldi staðið. Niðurstaða nefndarinnar, sem kemur fram á síðustu stundu rétt fyrir afgreiðslu fjárlaganna, er í stuttu máli á þessa leið, ef ég má lesa orðrétt upp úr áliti nefndarinnar, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin telur mögulegt að sameina rekstur Borgarspítala og St. Jósefsspítala undir eina stjórn og telur líklegt að það leiði til sparnaðar ef til lengri tíma er litið og aukinnar skilvirkni í þjónustu. Það skipulag sem hér er sett fram er algerlega háð því að tryggt verði fé til þeirra framkvæmda sem gerð er grein fyrir í skýrslunni.``
    Hér er t.d. sagt að það sé mögulegt að sameina rekstur þessara stofnana --- það hefði líklega vart þurft mikil fundahöld eða miklar ,,spekúlasjónir`` til að komast að þeirri niðurstöðu einni og sér --- og svo það að það sé líklegt að það geti leitt til einhvers sparnaðar. Ekki er nú tekið dýpra í árinni en þetta, virðulegur forseti, og til að leiða nú fram einhvern hugsanlegan sparnað af þessu er nauðsynlegt að fá verulega fjármuni til að hrinda nauðsynlegum breytingum í framkvæmd. Það segir nefnilega síðar í þessu nál. að nauðsynlegar framkvæmdir, sem þarf að ráðast í árið 1992, muni kosta a.m.k. 400 millj. kr. og jafnframt er sagt, orðrétt úr skýrslunni, með leyfi forseta:
    ,,Þar sem mestur hluti ársins 1992 mun fara í almennan undirbúning og í stofnframkvæmdir sem eru forsenda fyrir tilfærslu verkefna yfirleitt er vart hægt að gera ráð fyrir sparnaði í rekstri á árinu 1992.``
    Það er sem sagt alls ekki gert ráð fyrir að þetta leiði til neins sparnaðar. Það er varlega tekið til orða. Það segir: er vart hægt að gera ráð fyrir því, en aðspurðir segja nefndarmenn að það komi ekki til greina, það verði enginn sparnaður af þessum breytingum á næsta ári. Hins vegar muni þessi sameining kalla á verulegar viðbótarfjárveitingar.
    Heildarkostnaður við sameiningu þessara sjúkrahúsa er áætlaður í skýrslunni 1 milljarður 10 millj. kr. Vissulega er þar um að ræða hluti sem eru margir hverjir í gangi og hafa verið lengi og gengið of hægt eins og t.d. bygging B-álmu Borgarspítalans og kann það að vera skýring að einhverju leyti á áhuga manna á að koma þessari sameiningu á ef hún getur leitt til þess og flýtt fyrir því að framkvæmdir gangi hraðar og fjárveitingar fáist til verksins. En það kom hins vegar fram á fundi fjárln. hjá einum nefndarmanna, Loga Guðbrandssyni, framkvæmdastjóra St. Jósefsspítalans á Landakoti, að áætlanir um lagfæringar á Landakotsspítala væru mjög grófar og ekki byggðar á traustum grunni og hann meira að segja gekk svo langt að segja að við þessa áætlanagerð hefði verið viðhöfð ,,ráðhússaðferðin`` sem menn þekkja vel hver er. Hún er, eins og einhver lýsti því, að reka puttann upp í loftið. Ég man ekki hvort það var þáv. borgarstjóri, núv. hæstv. forsrh., eða einhver annar háttsettur maður hjá borginni sem taldi að áætlanir um kostnað við byggingu ráðhúss Reykjavíkurborgar hafi verið viðhafðar með þeim hætti og þá er nú ekki grunnurinn traustur ef það hefur verið sama aðferðin sem notuð hefur verið við þessa áætlanagerð, enda höfum við séð aðra áætlun um kostnað við þessar fyrirhuguðu breytingar sem hljóðar upp á rúma 2 milljarða kr. og er kannski ekkert fjær lagi en hin sem hljóðar upp á 1 milljarð.
    Ég teldi rétt að hv. Alþingi hefði hugleitt þessi mál mjög vandlega áður en framkvæmt er samkvæmt svona tillögum vegna þess að vissulega höfum við vítin til að varast. Má þar nefna breytingar á Þjóðleikhúsinu sem hafa farið langt fram yfir áætlanir og reyndar á Bessastöðum líka og sjálfsagt víðar. Það þýðir ekki að það hafi ekki verið nauðsynlegar framkvæmdir í sjálfu sér, en það hefði líka verið nauðsynlegt að viðhafa betri áætlanagerð þannig að menn vissu fyrir fram út í hvað verið væri að fara og það er það sem þarf að gera í þessu efni líka. Ég tel að menn þurfi að gæta sín mjög vel, það þurfi hv. Alþingi að gera áður en það tekur afdrifaríkar ákvarðanir í þessu sambandi.
    Þetta var um kostnaðarútreikningana, en í áliti nefndarinnar er einnig fjallað ofurlítið nánar um hugsanlegan sparnað af þessari sameiningu og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin gerir ráð fyrir að sameining spítalanna tveggja taki a.m.k. þrjú ár. Þar sem mestur hluti ársins 1992 mun fara í almennan undirbúning og í stofnframkvæmdir, sem eru forsenda fyrir tilfærslum verkefna yfirleitt, er vart hægt að gera ráð fyrir sparnaði í rekstri á árinu 1992. Sparnaður getur orðið að einhverju leyti á árinu 1993, eftir því hve stofnframkvæmdum og verkefnatilfærslum miðar hratt, og að fullu á árinu 1994. Því má búast við að hinn sameinaði spítali þurfi álíka há fjárframlög til rekstrar næstu tvö ár og spítalarnir tveir hafa til samans á þessu ári.``
    Og síðar segir svo: ,,Nái sameiningin fram að ganga með þeim hætti sem hér að framan greinir má gera ráð fyrir milli 290 og 310 millj. kr. sparnaði í rekstri á ári þegar stofnframkvæmdum og verkefnatilfærslum er lokið.``
    Nú eru 200--300 millj. kr. töluverðir fjármunir og ekki skal ég gera lítið úr því, en við höfum líka fyrir okkur aðra áætlun sem unnin er af starfsfólki Landakotsspítala og þær vangaveltur hafa verið sendar hæstv. heilbr.- og trmrh. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Hugsanlegur sparnaður í rekstri við að sameina spítalana yrði sennilega nokkrir tugir milljóna kr. á ári vegna sameiningar vakta og tækjakaupa og ýmissa þjónustudeilda.``

    Hér virðist nú ekki vera samræmi í hlutunum frekar en varðandi kostnaðaráætlunina.
    Nú ætla ég ekki að gerast neinn dómari í þessu rekstraruppgjöri og vissulega má gera ráð fyrir að eitthvað sé hægt að spara með því að reka þessar tvær stofnanir með öðrum hætti en gert er eða sameina þær. En það er nauðsynlegt að horfa lengra en á það eitt. Við verðum að horfa á hver sé líkleg þróun með tvo álíka stóra spítala sem fljótlega mundu lenda í harðri samkeppni sín á milli um takmarkaða fjármuni. Þá álít ég að við stöndum fyrst frammi fyrir útgjaldaaukningunni og að sóunin hefjist fyrir alvöru.
    Það er skoðun fjölmargra aðila innan heilbrigðiskerfisins að sameining Borgarspítala og Landakots muni aldrei geta leitt til sparnaðar þegar litið er til lengri tíma ef menn líta á heilbrigðisþjónustuna í heild. Það er jafnframt fullyrt að sameining af þessu tagi muni leiða til stóraukinna útgjalda og þar með kostnaðar og tjóns fyrir alla aðila þegar fram í sækir. Þessi skoðun er studd af áliti erlendra rekstrarráðgjafa, Moret Ernst & Young, sem unnu að hagræðingarstörfum fyrir ríkisspítala fyrr á þessu ári. Í skýrslu þeirra, sem birtist í september sl., kemur m.a. fram það álit að sameina beri ríkisspítala og Borgarspítala. Það sé skynsamlegasta leiðin og áhrifaríkust til að ná fram hagræðingu og sparnaði í rekstri sjúkrahúsanna. Jafnframt kemur fram það álit að fyrirhuguð sameining Borgarspítala og Landakots sé óskynsamleg því að þá verði tvöföldunin mest og kostnaðurinn muni hækka, sóunin verða í hámarki.
    Þetta eru alvarlegir dómar, virðulegur forseti, ef það er rétt og það er ótrúlegt ef hæstv. heilbrrh. og hv. Alþingi ætla að leggja af stað í svona för án þess að skoða málin mikið betur, gefa sér tíma til að skoða ítarlega þær hugmyndir sem settar eru fram af virtum aðilum sem hafa unnið mikið við að skipuleggja og gera tillögur um rekstur heilbrigðisþjónustu víða um lönd, ekki bara hjá okkur.
    Til þess að fá nánari upplýsingar um þetta fékk fjárln. á sinn fund fulltrúa frá ríkisspítölunum til að ræða við. Þeir sem mættir voru til fundarins voru Davíð Á. Gunnarsson, forstjóri ríkisspítalanna, Þorvaldur Veigar Guðmundsson, formaður læknaráðs, Þórður Harðarson prófessor, fyrrv. forseti læknadeildar Háskóla Íslands, og Ragnheiður Haraldsdóttir hjúkrunarframkvæmdastjóri. Mig langar til að vitna aðeins til minnispunkta sem ég skrifaði eftir þessu ágæta fólki þegar það ræddi við okkur.
    Þórður Harðarson lét þau orð falla að það sem hér væri verið að stefna mönnum út í væri hörð samkeppni milli tveggja álíka stórra stofnana og ókostir samkeppninnar í þessu tilviki væru þeir að það yrði um að ræða óþarflega margt starfslið til að fást við verkefnin. Sérstaklega yrði yfirmönnun hvað lækna varðar. Allur tækjabúnaður þyrfti að vera í báðum þessum stofnunum, þjónustunni yrði spillt þar sem ekki fengist nægjanleg sérhæfing miðað við ef verkefnin væru unnin aðeins á einni stofnun en ekki skipt á báðar eins og hann óttaðist að yrði. Rannsóknar- og kennsluþættinum yrði einnig spillt með því að eyða kröftunum og það yrði rekin í meira mæli en nú er tvöföld þjónusta á hinum ýmsu sviðum og sameining Borgarspítala og Landakots gengi þvert á þau sjónarmið að reyna að sameina þjónustuþættina.
    Þá benti hann einnig á að stofnkostnaðarframkvæmdir nú, sem kostuðu verulega fjármuni, hlytu að bitna á nauðsynlegri fjárþörf til rekstrar og það væri ekki það brýnasta sem menn þyrftu að leggja í nú að bæta við stofnkostnaðinn heldur að fá fjárveitingar til rekstrarins. Þetta sagði hann að væri reynsla annarra þjóða einnig. Þar væri vandamálið að hörð samkeppni milli stofnana yrði kostnaðarsöm og þýddi í raun meiri eyðslu. Til að koma í veg fyrir það væri eina leiðin sú að sameina sjúkrahúsin stjórnunarlega.
    Þorvaldur Veigar Guðmundsson, formaður læknaráðs, lét m.a. þau orð falla að honum fyndist nauðsynlegt að skoða þessi mál mikið betur, m.a. líta nánar á skýrslu þessara erlendu ráðgjafa og það að skera nú enn niður fjárveitingar til rekstrarins til að setja þær í stofnkostnaðarframkvæmdir hlyti að þýða að biðlistarnir lengdust vegna þess að bráðveiku fólki væri ekki úthýst að sjúkrahúsunum. Biðlistarnir mundu lengjast og erfiðleikar heilbrigðisþjónustunnar magnast.

    Ragnheiður benti á að allir sem hefðu komið að þessum málum og velt þessu fyrir sér teldu nauðsynlegt að skoða þetta í víðara samhengi en þær hugmyndir sem nú eru uppi um sameiningu Landakots og Borgarspítalans og það hefði verið að sjálfsögðu líka niðurstaða þessara erlendu ráðgjafa. Auk þess benti hún á að það yrði erfitt að manna Landakot eftir fyrirhugaðar breytingar þar sem það væri yfir höfuð erfitt að manna nú öldrunarþjónustustofnanir, það væri erfitt að fá starfsfólk á slíkar stofnanir og það yrði ekki auðveldara að fá fólk til að vinna á stofnun eins og Landakoti þegar það hefði ekkert annað verk en veita þessa öldrunarþjónustu.
    Þá benti hún einnig á það sem fram kemur í skýrslu nefndarinnar um sameiningu þessara tveggja umræddu sjúkrahúsa, en þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Hinn sameinaði spítali þyrfti á aukinni aðstöðu að halda til kennslu og rannsókna og gera þarf honum kleift að fjármagna akademískar stöður og starfsemi á móti Háskólanum`` --- og benti á að þetta hefði aukinn kostnað í för með sér og mundi tvöfalda þjónustu á þessu sviði í staðinn fyrir að reyna að sameina kraftana sem mest hvað varðar rannsóknir og kennsluaðstöðu. Allt virðist þetta því bera að sama brunni.
    Þorvaldur Veigar setti einnig fram þær hugmyndir að fá þá aðila sem fjárln. og Alþingi hefur til ráðgjafar um hin ýmsu málefni til að skoða þetta nánar, eins og t.d. Ríkisendurskoðun, og við í fjárln. settum síðan fram þær óskir að Ríkisendurskoðun yrði látin líta á þetta þótt tíminn væri naumur og einnig væri æskilegt að fá einhverja afstöðu eða skoðun fjmrn. á málinu, en hvorugt þetta hefur tekist á þessum skamma tíma þegar svo mikill hraði hefur verið á afgreiðslu mála og tillögurnar koma svo seint fram.
    Vissulega væri hægt að taka ótal fleiri dæmi til þess að vitna til og ræða við fleiri aðila, fá fram skoðanir þeirra og væri auðvitað hægt að vitna til margra ágætra blaðagreina þar sem fjallað hefur verið um þessi mál. Ég hef þegar vitnað til blaðagreinar í Morgunblaðinu 10. sept. sl. sem Ásmundur Brekkan ritaði og ætla ekki að eyða tíma nú í að lesa hana upp. Sama má segja um nýlega blaðagrein, í Morgunblaðinu 17. des., eftir Árna Björnsson og reyndar einnig í DV fyrir nokkru, 28. nóv., eftir Guðmund G. Þórarinsson sem er stjórnarformaður ríkisspítalanna. Allir hafa þessir menn velt þessu fyrir sér og skoðað þessi mál og allir komist að þeirri niðurstöðu að það sem nú væri stefnt að væri ekki rétt. --- Þar sem hæstv. fjmrh. er kominn til fundar bið ég hann að huga vel að þessu máli. Ég tel að það sé svo stórt mál hér á ferðinni og afdrifaríkt fyrir útgreiðslu úr ríkissjóði að hæstv. fjmrh. þurfi að gefa þessu gætur. Ég þykist reyndar viss um að hann hafi sem fyrrv. fulltrúi og reyndar formaður stjórnarnefndar ríkisspítalanna velt þessu fyrir sér og hafi á þessu skoðanir og ég bið hann að líta vel til málanna.
    Minni hluti nefndarinnar varar því við hugmyndum af þessu tagi og lýsir undrun sinni á vinnubrögðum hæstv. heilbrrh. er hann nánast neyðir fulltrúa St. Jósefsspítala til að samþykkja áframhaldandi samningagerð af þessu tagi með því að skerða framlag til spítalans um nær 400 millj. kr. eins og nú er gerð tillaga um, úr 1.214 millj. kr. miðað við óbreyttan rekstur í 831 millj. kr. eins og brtt. meiri hlutans hljóða nú upp á. Ég álít að hér hafi menn verið settir nánast upp við vegg og svipuð aðferð hafi verið viðhöfð og við St. Jósefsspítalann í Hafnarfirði, að menn ættu ekki annarra kosta völ en að setjast niður aftur og skoða þetta dæmi. Auðvitað sjá allir að það að skerða fjárveitingu St. Jósefsspítala um 400 millj. kr. er nánast það sama og leggja starfsemi þess sjúkrahúss í rúst eða a.m.k. lama hana verulega.
    Hinir erlendu ráðgjafar benda einnig á það í skýrslu sinni að minni sjúkrahús eigi fullkomlega rétt á sér og geti verið mjög hagkvæmur kostur til að sinna ýmsum sérverkefnum við hliðina á einu stóru meginsjúkrahúsi sem yrði til með sameiningu Landspítalans og Borgarspítalans. Minni hluti nefndarinnar leggur því til að samstarfsráði sjúkrahúsanna í Reykjavík ásamt fulltrúum heilbrrn. og fjmrn. verði falið að taka þessa skýrslu erlendu rekstrarráðgjafanna til ítarlegrar umfjöllunar og leita allra leiða til að ná fram hagræðingu og sparnaði í rekstri sjúkrahúsanna. Ég er sannfærður um að það er hægt og menn eiga að reyna að vinna það verk vel og reyna að ná því fram og hafa þá þessar fram

komnu tillögur til hliðsjónar.
    Ég hef leyft mér, virðulegur forseti, að flytja brtt. við brtt. meiri hlutans sem varða þetta mál, en meiri hlutinn flytur brtt. við 6. gr. frv. þar sem lagt er til að áfram verði haldið samningagerð um stofnun nýs sjúkrahúss sem sé byggt á starfsemi Borgarspítalans og St. Jósefsspítalans að Landakoti. Mín brtt. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Fjmrh. er heimilt að ganga til samninga við Reykjavíkurborg og Sjálfseignarstofnun St. Jósefsspítala um nánara samstarf og/eða sameiningu ríkisspítala, Borgarspítalans og St. Jósefsspítala, að Landakoti. Samningsgerðin verði í höndum heilbrrh. og Samstarfsráðs sjúkrahúsanna í Reykjavík, auk fjmrh. Samningurinn er háður samþykki fjárln.``
    Þetta er brtt. við breytingu sem meiri hlutinn hefur lagt fram. Mín hugmynd er sú að inn í þessa vinnu komi einnig fulltrúar frá ríkisspítölunum í gegnum samstarfsráðið sem er hinn eðlilegi vettvangur fyrir samningagerð af þessu tagi og með því að það sé heimild fjmrh. að ganga til slíkrar samningagerðar ásamt heilbrrh. eða hans fulltrúum held ég að hér ættu að geta komið að málinu allir þeir aðilar sem málið varðar.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að fara að ljúka máli mínu. Auðvitað er leitt að hæstv. heilbrrh. skyldi ekki hafa verið viðstaddur, en mér var kunnugt um hans erfiðleika til að vera við á þessum tíma og gerði því ekki kröfu til þess. Ég vil aðeins segja að lokum að af því sem hér hefur verið sagt og af því sem fram kemur í nál. minni hlutans er ljóst að fjárlagafrv. fyrir 1992 var óraunhæft í upphafi svo sem við höfum haldið fram í máli okkar og frv. er það enn. Frv. er illa unnið og ýmis stefnumál sem sett eru fram í grg. með frv. um nýja útgjaldastefnu og takmörkuð ríkisumsvif eru ekki á rökum reist eins og ég hef rakið í máli mínu. Tillögur frá ríkisstjórninni seinustu dagana hafa skapað ringulreið í þjóðfélaginu á ýmsum sviðum og þar að auki hafa þessar tillögur verið að breytast dag frá degi þannig að menn hafa í raun ekkert vitað hvert stefndi. Ógerningur hefur verið að átta sig á til hvers þær leiddu og ég tel reyndar að þær hafi ekki fengist nægjanlega ítarlega ræddar í fjárln. eins og nauðsynlegt hefði verið. Ósk minni hlutans um að fá nokkra aðila til viðtals við nefndina til að ræða þessar tillögur þegar þær komu fram rétt fyrir 2. umr. var hafnað og tel ég að það muni vera fátítt í störfum nefnda þingsins að beita þannig meirihlutavaldi gegn óskum minni hlutans um eðlilegt upplýsingastreymi. En það er í takt við annað sem er að gerast í þinginu seinustu klukkustundir. Röksemdir um tímaskort geta ekki átt við þegar rætt er um slíka málaflokka og í svo veigamiklum og mikilvægum málum og fjárlagafrv. og tillögur til breytinga á fjárlagafrv. hljóta að verða verðum við að telja að nauðsynlegra sé að vanda vinnubrögð og gefa sér meiri tíma til þessa verks.
    Minni hluti nefndarinnar flytur ekki sameiginlegar brtt. við frv., en einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma. Undir þetta nefndarálit, sem ég hef verið að gera grein fyrir, virðulegur forseti, rita auk mín hv. alþm. Guðrún Helgadóttir, Jón Kristjánsson, Margrét Frímannsdóttir og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.