Fjárlög 1992

57. fundur
Föstudaginn 20. desember 1991, kl. 23:37:00 (2376)

     Guðrún Helgadóttir :
     Hæstv. forseti. Það er líkast til einsdæmi í sögu þessa þings að við sitjum hér þriðju nóttina í röð og gefur auga leið að þingmenn eru orðnir harla illa úthvíldir. En við teljum það að sjálfsögðu ekki eftir okkur.
    En vegna þess að því hefur verið haldið hér fram hvað eftir annað að stjórnarandstaðan sé að tala til þess að tefja mál, hún sé með málþóf og annað slíkt, þá er nauðsynlegt að fólk skilji að hér fer fram málefnaleg umræða sem er haldið uppi til þess að berjast gegn því sem þessi ríkisstjórn hyggst nú gera með þessari þýðingarmestu lagasetningu hvers árs. Og ég tek undir það með hv. 2. þm. Austurl., sem hér talaði síðastur, að þetta eru hættuleg lög sem við eigum sjálfsagt því miður eftir að sjá samþykkt hér innan tíðar.
    En áður en ég hef mál mitt langar mig að ræða aðeins um störf hv. fjárln. Þegar við fyrrverandi forsetar þingsins lögðum drög að því að færa Alþingi Íslendinga í eina málstofu, var megintilgangur þess að styrkja innviði þingsins, efla þingið og gera það sjálfstæðara og óháðara framkvæmdarvaldinu. Nefndir urðu helmingi færri og áttu þess vegna að geta lagt meiri tíma í sína vinnu, unnið mál betur og til styrkingar fjárln. þingsins var

sett inn ákvæði um að senda mætti beiðni um álit til fagnefnda þingsins. Þetta eru að mínu mati mjög æskileg vinnubrögð.
    Það hefur hins vegar verið langt frá því að unnið hafi verið á þennan hátt í hv. fjárln. Þau vinnubrögð eru satt að segja varla til frásagnar en nauðsynlegt að taka á því máli þegar í upphafi á þessu fyrsta þingi þegar unnið er eftir nýjum þingskapalögum. Fjárln. hefur þá sérkennilegu afstöðu að skipta sér strax í meiri hluta og minni hluta sem ekki gerist á fyrstu stigum máls í öðrum nefndum. Nefndarmenn ræða saman, líta svo á að allir nefndarmenn hafi jafnan rétt til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, en þegar í upphafi fjárlagavinnunnar var það gjörsamlega gert skýrt að stjórnarandstaðan væri þarna nú eiginlega bara svona formsins vegna, eins og einu sinni var sagt.
    Vinna var heldur ruglingsleg og ekki var þar alveg við fjárln. að sakast vegna þess að ríkisstjórnin, sem var að senda nefndinni fjárlagafrv. sitt í smábútum og síbreytandi því allan tímann sem vinnan stóð, gerði nefndinni auðvitað afar erfitt um vik þannig að sjálfstæði nefndarinnar varð svo sem ekki neitt. Og endirinn á leiksýningunni varð þegar loksins hafði verið gengið frá fjárlagafrv. og búið að leggja það hér fram til 3. umr. að þá kom enn beiðni um að breyta nú svolitlu í uppsetningu á frv.
    Þessi vinnubrögð ná auðvitað ekki nokkurri átt. Og það gerðist í fyrsta skipti í langan tíma, alla vega síðan ég kom hér til þings fyrir tólf árum, að stjórnarandstaðan gafst upp við að gefa út nákvæmt nál. um frv. við 2. umr., eins og venjan er vegna þess að það var ekki haus eða hali á frv. Tekjuhliðin var í upplausn og ríkisstjórnin skipaði meiri hluta fjárln. að draga út úr frv. veigamikla þætti þess þannig að 2. umr. um frv. varð auðvitað meira og minna á röngum forsendum byggð.
    Ég harma að þurfa að segja þetta en tel að það sé alveg nauðsynlegt vegna þess að þetta má ekki gerast aftur. Engin lög í landinu hafa meiri áhrif á líf fólksins í landinu en fjárlög hvers árs og til þeirra verður að vanda. Og það er verkefni okkar, sem kjörin hafa verið í fjárln. Alþingis, að vinna þessa vinnu öll saman og reyna að leita þeirra lausna sem við getum sem mest sætt okkur öll við. Við eigum ekki að vera handbendi neinnar ríkisstjórnar. Og hafi þetta ekki skilist með nýjum þingskapalögum þá held ég að við séum á afar rangri braut.
    Það var einnig vilji þingmanna þegar nýju þingskapalögin voru samin að efh.- og viðskn. þingsins fengi meira vægi og yrði til ráðgjafar og aðstoðar fjárln. og fagnefndirnar einnig. En það verður að segjast eins og er að álitin sem komu frá fagnefndunum jöðruðu við að vera móðgun við fjárln. vegna þess að í mörgum þeirra stóð beinlínis í stuttu bréfi að eiginlega væri ekki ástæða til að hafa neinar skoðanir á umræddu frv. Ég vil biðja hv. þm. að hugsa vandlega um þetta þar til næsta fjárlagagerð fer fram vegna þess að ég held að við þetta verði ekki unað og skiptir þá engu hvort um stjórnarandstæðinga eða stjórnarþingmenn er að ræða, þetta er ekki rétta leiðin til þess að setja landinu fjárlög. Og ég vil minna á að í öðrum þjóðþingum hér í kringum okkur, sem við mörg okkar erum harla kunnug, er fjárln. í raun og veru eins konar lokaafgreiðsluaðili að vinnu allra nefnda þjóðþinganna við gerð fjárlaga. Verkefni fjárln. er að safna saman og vinna síðustu gerð frv. áður en það er lagt fyrir þjóðþingið en þá eru allir þingmenn búnir að koma nálægt þessari vinnu. En ég skal ekki eyða meiri tíma í þetta, ég harma mjög að svona skyldi fara og held að þarna hafi verið illa að verki staðið og vona að það gerist ekki aftur.
    Við 1. umr. um fjárlagafrv. fór ég allítarlega yfir heildarstöðu frv. þá --- hún er að vísu verulega breytt síðan þá --- og geri það þess vegna ekki núna. Hv. 1. þm. Norðurl. e., hv. 4. þm. Suðurl., hv. 2. þm. Austurl. og hv. 6. þm. Vestf. hafa farið vel yfir frv., eins og það er nú, enda öll í hv. fjárln. þingisns. Ég ætla því ekki að fara yfir heildarstöðu málsins en ég kemst auðvitað ekki hjá því að fara yfir einstaka þætti og þá helst þá sem hv. 3. þm. Suðurl., Margrét Frímannsdóttir, tók ekki sérstaklega fyrir.
    Oft vill brenna við, þegar talað er um fjárlög ríkisins, að þær umræður verði harla langt frá öllu lifandi fólki. Menn tala um afkomu þjóðarbúsins, þjóðhagsspár og annað slíkt. Á fundi í fjárln., einum af mörgum, voru þeir Þjóðhagsstofnunarmenn spurðir hvernig spá

þeirra hefði reynst á síðasta ári. Það kom raunar í ljós að nokkrar sveiflur urðu þar eins og annars staðar í þjóðfélaginu því þar skeikaði um 1% þjóðartekna. Það er kannski til þess að gefa okkur örlítinn vonarbjarma að ekki sé alveg að marka þær hrakspár sem fyrir okkur eru lagðar núna. Það er ekkert nýtt að við lifum í þjóðfélagi sem er afar sveiflukennt og við höfum áður orðið að bregðast við óvæntum atburðum, hvort sem það hafa verið náttúruhamfarir eða aflabrestur, og venjulega höfum við lifað það sæmilega af. Það svartagallsraus, sem yfir okkur er hellt núna, er nú kannski ofurlítið ýkt, ríkisstjórninni til aðstoðar.
    Vissulega verðum við að vera raunsæ og það er ljóst að með minnkandi afla eru erfiðleikar fram undan sem við verðum að vinna bug á. Til þess erum við hér. Það verk verðum við auðvitað að vera saman um öll og leitast við, eins og unnt er, að vinna okkur fram úr þeim vanda.
    Í fjárlagaræðu sinni, sagði hæstv. fjmrh., sem augljóslega er svo að þrotum kominn að hann getur ekki lagt á sig að sitja og hlýða á ræðumenn hér, en hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég hef í máli mínu lagt áherslu á fjögur lykilatriði sem móta stefnu og aðgerðir þessa fjárlagafrv. Þau eru: Að draga úr ríkisumsvifum og hleypa þannig nýjum þrótti í efnahagslíf þjóðarinnar. Að stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu. Að renna styrkum stoðum undir velferðarkerfið. Að byggja traustan grunn fyrir komandi kjarasamninga.``
    Þetta er eiginlega eins og tekið upp úr þáttum Ragnars okkar Reykáss því allt er þetta auðvitað eintómt bull.
    Það er ekkert sjálfgefið að það hleypi nýjum þrótti í efnahagslíf þjóðarinnar að draga úr ríkisumsvifum. Ég gæti átt langa samræðu við hæstv. fjmrh. um það og ég held það þurfi ekki að fara lengra en til nágranna okkar Breta til þess að sjá hvernig þeir fóru út úr því að einkavæða járnbrautirnar og fleiri fyrirtæki sem hrunið hafa niður síðan sú ágæta einkavæðing fór fram og hafa menn skrifað um það margar bækur.
    Að stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu er sjálfsögð setning sem ég held að hafi verið í öllum fjárlagaræðum fyrr og síðar.
    Síðan vogar ráðherrann sér að segja að hann ætli að renna styrkum stoðum undir velferðarkerfið. Allt sem lagt er til í þessu ágæta frv. er til þess eins að draga úr styrk velferðarkerfisins.
    Að byggja traustan grunn fyrir komandi kjarasamninga --- ekki einu sinni hafa þessir menn, hæstv. ríkisstjórn, haft rænu eða vit á því að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna um nokkurn skapaðan hlut. Beraðist það í sjónvarpi í kvöld þegar rætt var um margumræddan sjómannaafslátt, sem nú á náttúrlega að rýra, það þarf að fara að rýra tekjur sjómanna, þeir eiga það þá helst skilið. Eftir að hv. 16. þm. Reykv., Guðmundur Hallvarðsson, forustumaður í þeirra röðum, var búinn að marglýsa því yfir að fullt samkomulag væri um þessa hluti koma auðvitað sjómannasamtökin og segja að það sé ekki sannleikskorn í því. Hv. þm. varð að gjöra svo vel að biðja næstum því afsökunar í sjónvarpinu í kvöld.
    Allt er þetta raunar á eina bókina lært og varla hefur svo verið flutt stjfrv. á þinginu í vetur að ekki hafi risið upp einn þingmaður, stundum tveir, úr stjórnarliðinu og mótmælt því harðlega og jafnvel hótað mönnum réttarhöldum ef umrædd frv. yrðu samþykkt. Þannig að þessi vinnubrögð öll eru náttúrlega satt best að segja ekki nokkrum manni bjóðandi.
    Það er nefnilega eitt sem hv. þm. verða að vita og það er að ekkert vit er í að setja óréttmæt lög. Til þess að lög séu einhvers virði verður þjóðin að sætta sig við þau. Þetta eru gömul og ný sannindi, einfaldlega vegna þess að fólk fer ekki eftir óréttlátum lögum. Það vill svo til að samband er milli umbjóðenda okkar og okkar hér í þessu húsi. Þetta er ákaflega mikilvægt og ég mun koma að því seinna. Þá mun ég gera grein fyrir lögum sem fólk hefur verið sátt við og þess vegna hafa þau unnið vel.
    Ef við lítum á, hæstv. forseti, hvað er í þessu fjárlagafrv. og þá er ég að hugsa um það sem snýr að lifandi fólki í þessu landi, að fjölskyldunum, börnunum, gamla fólkinu,

sjúklingunum, fatlaða fólkinu, verkafólkinu okkar, sjómönnunum okkar, --- hver er þá upptalningin? Það á að skerða barnabætur sem svo sannarlega margt ungt fólk munar um að fá. Skera á niður laun uppeldisstéttanna, opinberu starfsmannanna, fóstranna, kennaranna, hjúkrunarfólksins, umönnunarstéttanna o.s.frv. Nemendur í Háskóla Íslands eiga að greiða 17 þúsund krónur --- eða guð má vita hver talan verður --- fyrir það eitt að fá að fara í skólann. Hér hafa sem sagt verið tekin upp skólagjöld sem auðvitað eru endileysa vegna þess að óhjákvæmilegt verður að Lánasjóður ísl. námsmanna bregðist við þessu. Það á að stórskerða kjör námsmanna. Það á að pína sveitarfélögin til þess að hækka útsvar. Það á að draga þau hlunnindi sem sjómenn hafa haft með sjómannaafslætti, það eru verðlaunin til þeirra manna sem afla stærsta hluta þeirra tekna sem við lifum af. Atvinnulífið skal reyna að rústa eins og unnt er með því að taka upp auðlindaskatt, þrískatta sömu peningana með því að fara að leggja skatt á arð, útgreiddan arð. Búið er að bjarga því að barnaörorkustyrkur verði tekinn af og heldur er búið að laga ákvæði um þátttöku ríkisins í tannlækningum barna.
    Þetta er aðeins yfirlitsupptalning og kann vel að vera að ég hafi gleymt einhverju. Við skulum byrja á mikilvægum þætti í þjóðlífinu sem er Lánasjóður ísl. námsmanna. Með lögum nr. 72/1982 um Lánasjóð ísl. námsmanna, mig minnir að lögin heiti Lög um námslán og styrki, var jafnrétti íslenskra ungmenna til náms tryggt. Frá upphafi var ljóst að verulegt fjármagn þyrfti að koma til frá ríkinu fyrstu árin en síðan yrði sjóðurinn sjálfum sér nógur þegar endurgreiðslur tækju að skila sér. Á sl. áratug hefur ríkisframlag sveiflast frá 50% til 90% og þess vegna hefur verið gripið til lántöku sem aldrei skyldi verið hafa. Mikill vaxtamunur er á námslánum sem einungis eru verðtryggð og lánum sem bera vexti og það hefur auðvitað skaðað sjóðinn verulega. Nú er talið að 66% af námsaðstoðinni á næsta ári þurfi að koma frá ríkinu og því vantar enn 600 milljónir í fjárlögum svo að ekki þurfi að koma til frekari lána. Verði þessari lántöku haldið áfram verður sjóðurinn kominn í algjöra blindgötu eftir örfá ár.
    Það er mjög mikilvægt að tala ekki um Lánasjóð ísl. námsmanna eins og hann sé einhver þurfalingur. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjárhagsstöðu sjóðsins frá því í apríl 1991 segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ef sjóðnum hefði verið lokað í árslok 1990 gæti hann staðið við allar sínar skuldbindingar án þess að þurfa á frekari ríkisframlögum að halda. Þar að auki gæti sjóðurinn endurgreitt ríkissjóði á nafnvirði rúma 9 milljarða af eigin fé sínu sem var rúmlega 13 milljarðar kr. um síðustu áramót. Ef þessir 9 milljarðar eru færðir til núvirðis, miðað við 6% ávöxtunarkröfu, verður útkoman 3 milljarðar kr.``
    Núgildandi lög um námslán og námsstyrki eru nefnilega dæmi um lög sem nokkur friður hefur verið um. Námsmenn hafa verið sáttir við lögin, endurgreiðslur sýna það því að þær nema nú um 60%. Þær eru tekjutengdar og því greiða menn skuldir sínar við sjóðinn betur en almennt gerist og skil af gjaldföllnum skuldum eru 91% sem ég hygg að sé mjög há prósentutala af slíkum skuldum. Þessi sjóður þarfnast verulegra ríkisframlaga örfá næstu ár. En þegar sjóðurinn er kominn í jafnvægi og farinn að standa undir sér sjálfur er ég sannfærð um að við höfum byggt upp eitt besta námslánakerfi sem finnst í heiminum.
    Nú hefur hæstv. ríkisstjórn lagt fram á Alþingi frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna. Maður hlýtur að spyrja sig: Hvers vegna --- af hverju má það ekki vera í friði sem er vel gert? Ef það verður að lögum eru kjör íslenskra námsmanna skert verulega enda er sagt beinlínis í frv. og gefið í skyn að það sé von flytjenda að það dragi úr eftirspurn eftir námslánum. Það væri gaman að heyra frá hæstv. menntmrh., sem sýnist vera mjög þreyttur líka og af honum dregið eins og hann vill að fari fyrir námslánasjóðnum, hvort hann eigi við það að hann vilji að námsmönnum fækki, hvort hann vilji draga úr menntunarstigi í landinu. Hér hefur um árabil verið talað um að framtíð þjóðarinnar sé falin í auknu rannsóknarstarfi á öllum sviðum, bæði fyrir atvinnuvegina og fyrir þjóðfélagið allt og land og lýð. Er þá ráð að draga úr framlögum til námsmanna? Það held ég að geti ekki

staðist. Stjórnarandstaðan mun náttúrlega verja miklum tíma í að standa vörð um Lánasjóð ísl. námsmanna, annað er ekki við hæfi.
    Það er ein meginhugsun sem er afgerandi röng þegar menn tala um Lánasjóð ísl. námsmanna. Menn leggja til jafns fjárfestingarlán og framfærslulán lánasjóðsins. Menn sem fá lán til húsnæðiskaupa eiga sitt hús og það er áþreifanleg eign. Menn sem leggja það á sig að læra, stunda langt nám, geta ekki unnið fyrir tekjum á meðan, eru ekki að fjárfesta í neinu nema menntun sinni og hún er ekki einkamál. Hún er fjárfesting samfélagsins alls. Námslán eru ósköp einfaldlega til þess að gera mönnum kleift að hafa þak yfir höfuðið og eitthvað að borða á meðan þeir stunda nám. Þeir eru ekki bara að því fyrir sig, þeir eru að gera það í þágu samfélagsins alls. Þetta er sú grundvallarhugsun sem mér finnst stundum að menn ekki skilji.
    Aðförin að lánasjóðnum er auðvitað ekkert mikið öðruvísi en aðförin að öllu mennta- og menningarlífi í landinu. Það stendur til að skera það allt niður. Það er kannski eitthvað það aumingjalegasta sem ég hef lengi séð í fjárlögum að eftir að Þjóðarbókhlaðan hefur orðið fyrir þeirri meðferð sem hún hefur fengið, eftir að skattar sem fólk greiddi beinlínis til þess að hún yrði byggð voru af henni aftur teknir, á nú enn að finna tekjulind þar því að taka á svolítið frá Þjóðarbókhlöðunni vegna framkvæmda á Bessastöðum. Þjóðin virðist ekki hafa ráð á því, hvorki að byggja yfir forseta sinn né halda staðnum í sæmilegu lagi, nema taka það af Þjóðarbókhlöðunni, af öllum stofnunum. Þvílíkur dómadags aumingjaskapur.
    Ég byrjaði á efri endanum á menntuninni í landinu en ég get alveg eins fært mig niður stigann. Því hefur verið bjargað að framhaldsskólanemendur þurfi einnig að fara að greiða skólagjöld og vonandi sjáum við þá tillögu ekki meir. En það stendur auðvitað til að draga úr fjárveitingum til allra skóla í landinu. Á síðasta þingi samþykktum við, og vorum harla ánægð með það, lög um leikskóla og lög um grunnskóla. Það fyrsta sem þessi hæstv. ríkisstjórn gerir er auðvitað að fresta framkvæmd þeirra. Ég get ekki stillt mig --- því miður er hæstv. forseti þessa þings, Salome Þorkelsdóttir, ekki í salnum --- en hún ásamt mér og fleirum flutti ár eftir ár tillögur hér í þinginu um samfelldan skólatíma og um skólamáltíðir. Við skyldum vænta að hæstv. forsetinn gæti haft veruleg áhrif á þessi mál en hæstv. ríkisstjórn virðist virða vilja hennar í þessum efnum að vettugi.
    Ástandið í uppeldismálum okkar hér er orðið þannig að það er full ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af. Þjóðfélagið krefst þess að báðir foreldrar vinni úti frá ungum börnum, fólk þvælist með litlu börnin milli dagmæðra og leikskóla og eyðir stórfé í barnagæslu, stundum svo að erfitt er að sjá hvernig heimilin komast af. E.t.v. tekur þó verra við þegar börnin byrja skólagöngu vegna þess að enn verra ástand er varðandi gæslu barna sem byrjuð eru í skóla og eru þar kannski örfáa tíma á dag. Það er undarlegt að hv. þm. skuli ekki hafa af því meiri áhyggjur að íslensk börn eru alein heima, sérstaklega hér í stóru bæjunum á Stór-Reykjavíkursvæðinu, obbann af deginum. 7, 8 og 9 ára börn ráða auðvitað ekkert við þetta. Þau geta ekki brugðist við neinu óvenjulegu sem kynni að koma upp. Auðvitað er þetta stórhættulegt og hafa auðvitað orðið, því miður, slys á þessum börnum.
    Umferðarslys á íslenskum börnum eru verulega hærri, eins og skýrslur sýna, heldur en annars staðar gerist vegna þess að í löndunum hér í kringum okkur eru börn á þessum aldri alls ekkert látin vera ein á ferli. Ég tala ekki um hér uppi á Íslandi þar sem myrkrið er meira og lengri hluta ársins. Kennarar í grunnskólum berja á því í blaðagrein eftir blaðagrein hvernig ástandið er að verða með málþroska íslenskra barna. Í Mbl. 24. nóv. skrifar Ragnheiður Briem, sem er doktor í kennslufræði og kennari í íslenskum málvísindum við Menntaskólann í Reykjavík, langa grein og reyndar skrifaði hún aðra nokkru seinna þar sem hún segir satt að segja skelfilega hluti um málþroska bana. Svo ég taki örstuttar setningar úr því, hæstv. forseti, þá segir Ragnheiður Briem, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Móðurmálskunnáttu Íslendinga, einkum ungu kynslóðarinnar, er áfátt. Þetta lýsir sér þannig að (ungt) fólk á æ erfiðara með að tjá hugsanir sínar bæði munnlega og skriflega.

Orðaforði hefur rýrnað mjög svo að nú skilja nemendur ekki mál sem lá ljóst fyrir jafnöldrum þeirra fyrir tveimur áratugum. Þetta veldur m.a. því að kennarar þurfa að eyða dýrmætum tíma í að ,,þýða`` ósköp venjulegar námsbækur á hálfgert barnamál ef efni þeirra á að komast til skila.``
    Þannig er ástandið að mati dr. Ragnheiðar á sama tíma og Námsgagnastofnun, sú stofnun sem á að útbúa námsefni fyrir íslenska skólanema, er svelt ár eftir ár og hefur alls ekki það fé sem til þarf. Það er eins og menn haldi að það geti ekkert komið fyrir Íslendinga, Íslendingar séu svo sterkir og sjálfstæðir og gáfaðir að á þeim hríni ekkert. Því miður er þetta ekki svo. Það tekur raunar ekki nema eina kynslóð að veikja þjóð menningarlega mjög alvarlega.
    Í þessari grein Ragnheiðar segir hún að það sé algengt að börn svari sér á ensku ef hún yrði á þau í skólabekk. Ef börnin missa eitthvað á gólfið, lýsir hún hér, þá segja þau ,,thank you``. Ef hún segir: Á ég að rétta þér þetta? Þá segja þau ,,yes please``. Nú er ég ekkert að hafa á móti því að börn kunni ensku, það er svo sem allt í lagi. En grunur minn er sá að þessi kunnátta byggist á því að börnin hanga yfir sjónvarpstækjum eða myndböndum hálfu og heilu dagana og horfa á efni sem þau hafa auðvitað enga möguleika til að skilja og því síður nokkra manneskju til að leita til ef eitthvað veldur þeim ama eða áhyggjum.
    Þetta getur ekki verið það líf sem við viljum búa börnunum okkar. Ég trúi því ekki. Satt að segja sýnist mér að kjör ungra fjölskyldna, sem eru að hefja búskap, séu slæm, samfélagið sé satt að segja afskaplega óvinsamlegt þeim hér á landi. Ég hygg að margt af námsfólkinu okkar, sem kemur frá t.d. Norðurlöndunum, verði illilega vart við þetta. Það er ætlast til að þetta unga fólk kaupi sér íbúð því leigumarkaðurinn er ekki nokkrum manni bjóðandi. Ef fólk skyldi vera svo lítið út undir sig að vera gift hvort öðru eru dagheimilin svo til lokuð og algjörlega lokuð. Dagmóðir handa einu barni kostar líklega hátt í 30 þús., hygg ég, 26--27 þús. kr. Ef fólk skyldi nú eiga tvö börn þá geta menn lagt saman. Þá fer að verða lítið eftir af launum fólks og óskiljanlegt hvernig því er ætlað að greiða háar upphæðir af launum sínum. En þetta er svo sem búið að segja svo oft og helst sitja hér og hlýða þeir hv. þm. sem hafa haldið sömu töluna aftur og aftur. Kannski er það rétt mat hjá hæstv. forsrh. að við séum bara að tala hvert við annað hér í stjórnarandstöðunni og litlu máli skipti hvað við erum að segja.
    Ég hygg að fyrr eða síðar verði hið háa Alþingi neytt til þess, af illri nauðsyn, að bregðast við þessu ástandi. Ég hygg að við þetta verði ekki búið. Við erum því miður að sjá fyrstu merki þessa ófremdarástands í uppeldi barna á Íslandi. Það vill svo til að ekki er með öllu illt að vera hér um nætur. Það varð til þess að ég átti leið um miðbæinn heim úr vinnunni eitt kvöldið og ég verð að segja það alveg eins og er að ég hélt að ég þekkti nokkuð Reykjavíkurborg og lífið í henni. En mig rak í rogastans að sjá unga fólkið í miðbænum. Það munu hafa verið prófalok í framhaldsskólunum og ég held að engan hv. þm. langi til að sjá þetta ástand meðal ungs fólks. Auðviðað er þetta ekki allur hópurinn en það var ekki fallegt það sem á ferli var. Þessi tala hefur verið haldin svo oft að kannski er mál að linni enda telur hæstv. ríkisstjórn ekki áhugavert að hlýða á það mál.
    Í menningarmálunum er ráðist í þessu frv. að svo til öllu sem til mennta og menningar verður talið. Einn er sá þáttur íslenskrar menningar sem ég hygg að flestir Íslendingar hafi gleði og gagn af og taki þátt í en það eru áhugaleikfélögin á Íslandi sem eru í raun og veru dálítið sérstakt fyrirbæri. Á erlendum vettvangi hefur fólk ekki trúað manni þegar maður hefur lýst þessari starfsemi þar sem í minnstu samfélögum á Íslandi eyða menn frístundum sínum í að leika klassísk verk eins og ekkert sé. Má fara nærri um hvert gagn og hvert menningaratriði þetta er á hverjum stað. Þessi vaxtarbroddur skal auðvitað kyrktur. Bandalag íslenskra leikfélaga er að sjálfsögðu skorið niður við trog. Þannig er vegið að öllu því sem má til menningar verða.
    Einn er sá þáttur, og þar tek ég undir með hv. 2. þm. Austurl., sem við leyfðum okkur að setja í menningarkaflann í nál. minni hluta fjárln. en það eru ferðamálin vegna

þess að ekkert kynnir kannski betur íslenska menningu en skynsamleg ferðamálastefna. Nú er það svo að það hefur sýnt sig að sú atvinnugrein hefur verið að rísa og auðvelt í raun og veru að efla hana. En hvað gerist þá? Þá kemur hæstv. ríkisstjórn og sker verulega niður fjárframlög til ferðamála. Byggðasöfn, Þjóðminjasafn, Þjóðleikhús. Þjóðarbókhlaðan fékk einhverja peninga en þó þarf hún að verða til þess að hjálpa Bessastöðum um smáupphæð. En allt er þetta skorið niður við trog. Þess vegna höfum við alþýðubandalagsmenn á þskj. 327 lagt fram brtt., sem við erum svo sem ekki bjartsýn um að hafi mikið að segja. Við leggjum til að við 4. gr., 02-919 Söfn, ýmis framlög, 112 Listasafn Sigurjóns Ólafssonar komi: Í stað 4.500 þús. komi 7.500 þús. kr. Þarna hefur ekkja Sigurjóns Ólafssonar komið upp á heimili þeirra hjóna einhverju fallegasta safni hér í borg, meira og minna ein og sjálf. Í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstjórnar var reynt að hjálpa til við þetta verkefni. Við leggjum það enn til og fyrsti flm. er Svavar Gestsson og aðrir eru Ragnar Arnalds og Guðrún Helgadóttir. Aðra brtt. leggjum við einnig fram við 4. gr., við liðinn 02-973 101 Þjóðleikhús. Í stað 254.500 þús. komi 277.500 þús. Það liggur ljóst fyrir að leikhúsið getur ekki starfað eins og því ber eðlilegan tíma nema það fái lágmarksrekstrarfé. Þá er á þskj. 327 3. till. við 4. gr. 02-982 Listir, framlög. 128 Kynning á íslenskri list erlendis. Þar leggjum við til að fyrir 9.000 þús. komi 20.000 þús.
    Það eru alþýðubandalagsmenn sem hafa klifað á því um árabil og reynt að fá hið háa Alþingi til að skilja að list getur verið arðbær. Meira að segja er hægt að græða á list ef menn hlúa að henni og gera það vel og skynsamlega. Menn eru alltaf að tala um minjagripagerð og annað slíkt. Er til nokkuð betra sem minjagripur en góð bók á því tungumáli sem ferðamaðurinn getur lesið? Eða útlendingurinn sem kaupir bókina. Ég hygg að við séum æðimörg sem lítum við í bókabúð þegar við erum á ferð erlendis og festum kaup á þarlendri bók. Við eigum mikið af listafólki sem gæti svo hæglega verið gagnlegt við gerð minjagripa og mætti reisa þá iðn mjög verulega með því að láta í það peninga og kynna þessa list erlendis einnig.
    Á þskj. 324 hefur hv. þm. Svavar Gestsson einnig lagt fram veigamiklar brtt. Hann mun gera grein fyrir þeim síðar. Aðrir hv. þm. Alþb. munu eflaust kynna sínar brtt. svo ég mun ekki eyða tíma hv. þm. í það en vek enn athygli á fleiri till. sem fluttar hafa verið um menningarmál. Þá vil ég sérstaklega geta brtt. á þskj. 325, sem er einnig við 4. gr., 02-872 Lánasjóður íslenskra námsmanna. Ekki höfðum við farið þá leið að biðja um allt það sem sjóðurinn þyrfti að fá en við leggjum til að í staðinn fyrir 2.220.000 þús. komi 2.500.000 þús. sem mundi minnka nauðsynlega lántöku.
    Hæstv. forseti. Það er erfitt að vera stuttorður þegar þetta frv. er annars vegar. Menn hafa fylgst með þeim farsa sem átt hefur sér stað hér í borginni varðandi sjúkrahús borgarinnar. Er satt að segja með hreinum ólíkindum hvernig að því máli var staðið. Hæstv. heilbrrh. kom á fund hv. fjárln. á föstudagskvöldi og kynnti að hann mundi leggja saman í eina stofnun Landakotsspítala og Borgarspítala. Aðspurður upplýsti hann að þetta skyldum við samþykkja næstkomandi þriðjudag. Við athugun á málinu kom í ljós að --- og við vorum mörg sem það vissum --- fyrir nokkru höfðu verið fengnir hingað mjög færir sérfræðingar í rekstri sjúkrahúsa til að gera úttekt á ríkisspítölunum. Höfðu menn þá fyrst og fremst í huga að bæta rekstur Landspítalans. Þessir menn, sem hafa mikla reynslu, fyrirtækið Ernst og Young, komu auðvitað auga á að í litlu samfélagi eins og okkar er óhjákvæmilegt að skoða önnur sjúkrahús um leið og eitt er skoðað. Þess vegna þótti þeim erfitt að vinna að stefnumörkun eins sjúkrahúss án tillits til annarra. Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skal stjórnarnefnd ríkisspítalanna gera þróunar- og rekstraráætlun a.m.k. fjögur ár fram í tímann. Að þessu sinni var sem sagt ákveðið að þetta fyrirtæki skyldi gera þessa úttekt. Það varð úr að þessir sérfræðingar skoðuðu þá kosti sem fyrir eru í Reykjavík og komust að þeirri niðurstöðu að óeðlilegt væri að leggja saman Landakotsspítala og Borgarspítala, það yrði einungis til að hér í borginni yrðu tvö stór sjúkrahús, svokölluð sérhæfð eða hátæknisjúkrahús, sem kepptu hvort við annað. Þar sem Landspítalinn væri einnig kennslustofnun, háskólasjúkrahús, væri eðlilegra að gera þessar tvær stofnanir, Borgarspítalann og Landspítalann að einni og koma þá upp fyrsta flokks háskólasjúkrahúsi og það varð niðurstaða sérfræðinganna. Þeir segja hér:
    ,,Þjónusta sem krefst þverfaglegrar þekkingar, mikillar sérhæfni í einstökum greinum, dýrra tækja og þar sem sjúkratilfelli eru fremur fá, sérhæfð þjónusta verði sameinuð á einum stað, eða endurskipulögð á tveimur stöðum. Það mundi bæði leiða til aukinnar hagkvæmni og meiri gæða þjónustunnar m.a. vegna betri nýtingar, sérhæfðs starfsfólks og dýrra tækja, meiri reynslu við meðferð sjaldgæfra tilfella, betri möguleika á kennslu og rannsóknum og minni stjórnunarkostnaði.`` --- Ég bið hæstv. forseta afsökunar á því að mér láðist að biðja um leyfi forseta til að lesa þetta úr skýrslunni. Þeir segja einnig hér, með leyfi forseta:
    ,,Samruni ríkisspítalanna og Borgarspítalans með staðsetningu á tveimur stöðum; skipst verður á starfsemi og meðferð í því skyni að hafa samræmda starfsemi á hvorum stað; ríkisspítalarnir og Borgarspítalinn bæta hvor annan upp þannig að samvirkni og hagkvæmni yrði veruleg.`` Síðan yrði unnt að dreifa almennri þjónustu. Æskilegt væri að sameinaður Landspítali og Borgarspítali skipti við Landakot á bráðaþjónustu og annarri starfsemi sem dreift verður frá ríkisspítala að Borgarspítala. Hins vegar segja þeir:
    ,,Samruni Borgarspítala og Landakots. Þannig yrðu til tvö sjúkrahús af svipaðri stærð, annars vegar ríkisspítalar og hins vegar Borgarspítali--Landakot. Hörð samkeppni yrði milli þeirra um fjármagn og starfsfólk. Bæði sjúkrahúsin mundu keppast við að verða leiðandi í sem flestum greinum sérhæfðrar læknisþjónustu. Þetta mundi leiða til meiri kostnaðar vegna verri nýtingar sérhæfðs starfsfólks og dýrra tækja og minni gæða vegna þess að sérfræðingar í undirsérgreinum fengju ekki tækifæri til að viðhalda hagnýtri reynslu. Með tilliti til fólksfæðar og takmarkaðs fjármagns til heilbrigðismála er því ekki réttlætanlegt að hafa mjög sérhæfða þjónustu á tveimur stöðum.``
    En stjórnvöld létu sig hvergi. Því er þannig farið að Landakotsspítalinn, sem byggður var af St. Jósefssystrum, var seldur fyrir nokkrum árum með þeim skilyrðum af systranna hálfu að honum yrði ekki breytt í veigamiklum atriðum nema með leyfi þeirra. Það hefur ekki einu sinni verið gengið úr skugga um það hvort þær væru hlynntar þessari sameiningu heldur var vaðið áfram og þá fyrst farið að tala við þær, ef það er þá búið, þegar einhver rifjaði þetta ákvæði upp. Að standa þannig að málum er auðvitað mikið meira en fyrir neðan allar hellur. Fjárln. kallaði báða aðila á sinn fund og varð allundrandi þegar í ljós kom að báðir aðilar voru heldur á móti því að gera þetta í miklum hasti. Þannig héldum við að það mál væri leyst. En það var ekki aldeilis, enn var tilkynnt að um þessa sameiningu væri að ræða. Síðan hefur það farið svo að til bjarga sér út úr þessum vanda hefur hæstv. ráðherra ákveðið að fresta málinu aðeins og búa til nýja nefnd.
    Hæstv. forseti. Ég sé að hv. þm. eru orðnir dálítið óþolinmóðir að komast að hér og ég sé að ég mun vera búin að tala í næstum klukkutíma. (Gripið fram í.) Nei, ekki svo lengi? Hv. þm. bera sig ekki nærri eins illa og mér sýndist að þeir gerðu svo að ég mun eyða hér ofurlítið meiri tíma.
    Þetta sjúkrahúsmál er náttúrlega eitt af þessum dæmum og eitt af stóru dæmunum um slík vinnubrögð. Það er hreint óskiljanlegt hvað hægt er að standa illa að hlutum. Á þessum fundi spurði ég hæstv. heilbrrh. hvort þingmenn gætu ekki fengið niðurstöður Ernsts og Youngs sem er mikið plagg. Ráðherra gaf lítið út á það svo ég upplýsti að ég hefði þetta undir höndum og hvort ráðuneytið vildi ekki dreifa þessu til þingmanna sem gætu þá kynnt sér málið. Þá svaraði hæstv. ráðherra því að ég gæti svo sem gert það sjálf og það gerði ég raunar. Á síðustu stundu kom skýrsla frá nefnd sem skipuð hafði verið til að athuga þennan samruna Borgarspítala og Landakots. Þeirri nefnd tókst ekki að vera sammála því hjúkrunarforstjórinn í hópnum skilar séráliti og lýsir algjörri andstöðu við málið. Sú skýrsla er reyndar heldur fátæklegt plagg og lítið að byggja á, svo vægt sé til orða tekið, því þar stendur að mögulegt sé að þessi samruni hafi sparnað í för með sér en gerir samt ráð fyrir því að formleg sameining spítalanna tveggja eigi sér stað fyrir áramótin 1991 og 1992. Þetta eru náttúrlega slík vinnubrögð að maður trúir ekki sínum eigin augum. Í kafla hér um kostnað stofnframkvæmda --- ég tek það fram að þetta átti að vera sparnaðaraðgerð --- heildarkostnaður við framkvæmdirnar er álitinn 1 milljarður. Þar af eru 700 millj. kr. til komnar vegna lúkningar framkvæmda sem þegar eru í gangi, þ.e. verklok við B-álmu og endurnýjun skurðstofu á Borgarspítala. Þannig er það afar erfitt að fá einhvern minnsta botn í hvað hér er verið að gera og verða nú hv. þm. að treysta því að þetta mál eigi sér ekki lengri lífdaga.
    Ég veit satt að segja ekki af hverju ég á að taka til viðbótar. Sem betur fer hefur tekist að bjarga því að örorkustyrkur barna yrði tekinn úr heilbrigðiskerfinu. Það datt hæstv. ríkisstjórn í hug. Látum það vera, að færa ákvæði 10. gr. í lögum um málefni fatlaðra, sem er aðstoð við fólk sem getur ekki unnið vegna fötlunar barna, yfir í almannatryggingalögin og ég er ekkert á móti því. En þar með átti barnaörorkustyrkurinn að falla niður. Þetta er slíkt þekkingarleysi á eðlismuninum á þessum tveimur bótaflokkum að þetta hlýtur einhver að hafa samið sem veit ekkert um hvað málið snýst. Örorkustyrkur er greiddur vegna bæklunar eða vanþroska barna yngri en 16 ára sem hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og mikla umönnun. Þessi styrkur er greiddur á þremur stigum og er tiltölulega lágur. Ég má segja að lægsta greiðslan er kringum 6.000 kr. og líklega hæsta upp í 12.000 eða 14.000 kr. Bætur skv. 10. gr. laga um málefni fatlaðra er allt annars eðlis vegna þess að þar er um að ræða börn sem eru í hjólastólum, börn sem verða að hafa manneskjuna með sér. Sú greiðsla er milli 40.000 og 50.000 kr. á mánuði enda verður annað hvort þeirra foreldra, sem fá fullan slíkan styrk, að vera með barninu. Síðan er styrkurinn skertur að nokkru leyti ef foreldri tekst að vinna einhvern hluta úr degi, t.d. ef börnin eru á sérhæfðum stofnunum eins og Öskjuhlíðarskóla eða einhverju slíku. Það kostulega var að þessi sparnaðarráðstöfun var dálítið skrýtin vegna þess að ef eitthvað af þeim börnum sem hafa haft barnaörorkustyrk yrðu færð upp í 10. gr. bæturnar þá er það að sjálfsögðu stór hækkun á útgjöldum. Þannig að það bar nú vott um að einhver hefði ekki vitað það sem hann átti að vita. En sem betur fer mun stjórnarandstöðuþingmönnum hafa tekist að fá menn ofan af þessari vitleysu í þingnefnd, annaðhvort í gær eða í dag.
    Ekki er látið nægja að reyna að hafa af sjómönnum þessi skattfríðindi margumrædd sem kölluð hafa verið sjómannaafsláttur. Hér hafa menn flutt tillögur um að sæmilega verði séð fyrir björgunarmálum sjómanna og við höfum nokkur beitt okkur dálítið í því máli að keypt yrði nothæf og sæmandi björgunarþyrla til þess, hvort heldur er, að bjarga mönnum sem í sjávarháska lenda og ekkert síður eru slíkar þyrlur að flytja fólk á landi frá dreifðum byggðum þessa lands okkar. Látið er nægja að hafa einhverja heimild í 6. gr. svona rétt til þess að róa líklega hv. þm. Inga Björn Albertsson, en ekki hefur honum tekist enn að fá að mæla fyrir frv. sem hann hefur flutt um sama mál, til að tryggja að þetta verði virkilega gert. Að þessi kaup fari fram. Vitanlega eru engir peningar látnir í þetta og vitanlega verður engin þyrla keypt samkvæmt fjárlögunum eins og þau eru núna.
    Enn er vikið að þessum aðalútvegi okkar þjóðar. Boð bárust til fjárln. að breyta liðnum Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Honum hafði verið skipt upp áður í almennan rekstur, yfirstjórn, rannsóknasvið og ekki síst útibú. Nú á þetta allt að koma í einn lið sem heitir Almenn starfsemi og ein upphæð látin í stofnunina. Það er því algjörlega í höndum ráðherra að leggja niður útibú ef til þess kæmi eða að stjórna þessu eins og hann einn vill. Þannig að vinna sjómanna er ekki mikils metin í þessu frv. sem við erum hér að ræða. Virðist ekki skipta miklu máli þó að Farmanna- og fiskimannasambandið sendi okkur tilkynningar öðru hverju. Varðandi þyrlumálin er í samþykktum frá 35. þingi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, 1. mál um öryggismál, og ég ætla að leyfa mér að lesa það, hæstv. forseti:
    ,,35. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands haldið í Reykjavík 12.--15. nóv. 1991 skorar á Alþingi Íslendinga að samþykkja lög um kaup á öflugri björgunarþyrlu. Gengið verði frá kaupum á slíkri þyrlu eins fljótt og auðið er og eigi síðar en á fyrri hluta árs 1992.``

    Hæstv. forseti. Það yrði sennilega of langt mál að fara ofan í alla þá liði í þessu frv. sem ástæða væri til. Ég trúi því satt að segja ekki --- og mun þess vegna ekki gera það að megininntaki máls míns, enda gerði hv. 3. þm. Suðurl. það hér áðan --- að sveitarfélög landsins verði svo fjársvelt með auknum álögum með þessari nýju kvöð að þurfa að sjá um löggæslu, ég vona að til þess komi ekki. En það segir sig auðvitað sjálft að það bitnar ekki á neinum nema íbúunum á þessum stöðum vegna þess að það er ljóst að án aukinna álaga er þetta ekki gerlegt. Enda til þess ætlast að íþyngja því fólki sem síst skyldi og er þá ekki langt frá þessari stefnu sem hér er höfð uppi í byggðamálum.
    Eitthvað virðist hæstv. ríkisstjórn hafa verið óörugg um þetta, samanber minnisblað það frá fjmrn. sem kom eftir að búið var að prenta og leggja fram til 3. umr. fjárlagafrv. og vakti nokkra athygli.
    Þá ætla ég að koma aðeins að skrýtnu máli sem liggur fyrir á þskj. 308 frá fjárln. og við tókum öll þátt í að skrifa upp á það, en það er nýr liður um að kaupa loðdýrahús og fylgifé þeirra á jörðunum Kirkjuferju og Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfushreppi í Árnessýslu.
    Það er mikið haft við þessa tillögu sem ætti auðvitað að vera bara ósköp venjuleg brtt. við 6. gr., tvær, þrjár línur, eða þó þær væru fleiri, en hér leggur öll nefndin fram þessa tillögu á sérstöku þskj. og var mikil áhersla á það lögð. Nú skal ég fallast á að almennt er ég algjörlega hlynnt því að í sem allra mestum mæli eigi hæstv. ráðherrar að leita heimilda fyrir sem allra mestu af þeim greiðslum sem þeir bera ábyrgð á og þess vegna er sjálfsagt að leita heimildar til að greiða þetta. En það skondna í þessu máli er að auðvitað hafa margar slíkar greiðslur farið fram í því sama hæstv. landbrn. og ég óskaði að sjálfsögðu eftir því í nefndinni að fá lista yfir slík kaup á síðustu 10 árum og ef þetta var svona sérstakt í tíð hæstv. fyrrv. landbrh., Steingríms Sigfússonar, þá gat nú ekki verið mikið mál að gefa lista yfir það. En starfsmanni þingsins tókst ekki að fá þennan lista og ekki heldur lögfræðilegt álit lögfræðings ráðuneytisins sem ég vissi að var til og hæstv. fyrrv. landbrh. vissi einnig að var til. Þegar ljóst var að þetta kæmi ekki þá hringdi ég sjálf í ráðuneytið og las umræddum lögfræðingi smápistil um rétt alþingismanns til að biðja um slíkar upplýsingar. Hann var greinilega í vandræðum, var mjög svo kurteis, eins og honum bar, og lofaði að athuga þetta mjög gaumgæfilega. En það var ósköp auðfundið hvað var að. Ráðherrann meinaði manninum að gefa mér þessar upplýsingar. Það er auðvitað stóralvarlegt mál. En þannig er nú afstaða þessarar hæstv. ríkisstjórnar til alþingismanna.
    Annað er að slíkar heimildir eru auðvitað ekki nærri alltaf sýnilegar og nægir að nefna þau dæmalausu jarðakaup sem áttu sér stað á jörðinni Flekkuvík, sem átti að fara undir álverksmiðju. Fasteignamat jarðarinnar var 285 þús. kr., ef vel var leitað, því einhver hluti jarðarinnar hafði ekki einu sinni verið metinn til fasteigna yfirleitt. Einhver holt og móar og ill yfirferðar. Þessi eign er keypt í tilefni af nýju álveri fyrir 106 millj. kr. og verður að segja að þetta dómadags örreytiskot sem Flekkuvíkin hefur alltaf verið, því ég er allkunnug þarna á Ströndinni, varð skyndilega verðmætt. Dæmalausast af öllu er þó að sjá að fasteignamat eignanna var 10 millj. Nú vill svo til að ég veit nákvæmlega hvaða eignir eru þarna. Það er ein brunarúst af sumarbústað og stendur ekkert uppi nema gamall arinleggur. Það er ekkert eftir af bústaðnum, hann brann til grunna. Það er hús sem allt hefur verið rifið innan úr og ofan af og hlaðið múrsteinum til viðbótar og átti þar með að stækka húsið. Hvorki er hægt að búa þar eða vera að sjálfsögðu og þykir mér það nokkuð mikið verðmæti að þetta skuli geta kostað 10 millj. Það segi ég satt að aldrei hefði ég trúað því að ég óskaði mér að ég hefði átt Flekkuvíkina því þar hefur satt að segja ekkert nokkurn tímann þrifist. Þetta þótti afar ill jörð til búskapar og útræði var þarna ekkert sérstaklega gott, eins og það er nú víða gott á Ströndinni og engan einasta mann hefði órað fyrir því að þessi jörð yrði nokkurn tímann verðmæt. En nú liggur ljóst fyrir að ríkið kemur til með að borga Njarðvíkurbæ, sem gerði þessi kaup, 108 millj. vegna þess að í kaupsamningnum er einfaldlega ákvæði um það. (Gripið fram í.) --- 106 millj. voru það, það er rétt. (Gripið fram í.) Já, Vatnsleysustrandahreppur keypti þetta, Vogarnir þar með. ( Gripið fram í: Hvað á að gera við jörðina?) Ríkið verður ósköp einfaldlega að borga

þessa jörð sem nú þarf ekki að nota. Og legg ég nú til að hv. þm. geri sér ferð einhvern fallegan sunnudag og skoði Flekkuvík.
    Ég spurði að sjálfsögðu: Af hverju þarf ekki að leita heimilda til þessa? Nei, það er nefnilega til sjóður í iðnrn. upp á hálfan milljarð, nógir peningar í honum, og hann er notaður til þess að bæta svona áföll, var mér sagt. En hann er alveg ótilgreindur og ég veit ekkert hvað annað en Flekkuvíkin verður greidd af því fé. Þess vegna þykir mér dæmalaust mikið haft við Kirkjuferju og Kirkjuferjuhjáleigu að heilt þingskjal þurfi til og meira segja með greinargerð.
    En á þessu vildi ég vekja athygli vegna þess að ég er alveg sammála fyrrv. hæstv. fjmrh., sem talaði um þetta mál í gær eða fyrradag, eða hvort það var í fyrrinótt, maður er alveg hættur að greina daga og nætur. Annaðhvort er að hafa þennan sið eða hafa hann ekki. Auðvitað er fráleitt að menn leiki hér einhvern pólitískan leik af því það kemur einhverjum hv. þm. kannski illa, þeir eru alla vega að vona það, að koma með svona tillögur á meðan menn hirða ekkert um önnur slík kaup sem auðvitað hafa farið fram. Einn hv. fjárlaganefndarþingmaður upplýsti að hann gæti nefnt mér dæmi. Hann liti bara svo á að það væri trúnaðarmál og ég var ekkert að pína sannheilagan manninn til þess að bregðast trúnaði. En sá hv. þm. er eini guðsmaðurinn hér á hinu háa Alþingi og til slíkra verður að gera sérstakar kröfur.
    Það stendur heldur hvergi að á þessum erfiðu tímum í menningarmálum og lista var af miklum myndarskap keypt hús Sláturfélags Suðurlands á síðasta ári til þess að koma listaskólum landsins undir eitt þak. Glæsilegt hús og þetta var myndarlega gert. Nú liggur fyrir að það fær að standa þar sem það er, ónotað og hálf innréttað. Á meðan er t.d. Handíða- og myndlistarskólinn í Stórholti 1, Skipholti 25, í tveimur húsum eða jafnvel fleirum. Ég hef nú komið þarna og skoðað þarna árlega sýningu. Þetta eru hús sem hefur verið heldur illa haldið við, þetta eru að vísu 3.000 m 2 sem gefið er upp að skólinn leigi af einstaklingi hér í bæ, en það liggur ljóst fyrir og ég hef orð skólastjórans fyrir því að stór hluti þess er undir súð og óhæfur nema sem geymslur. Og ég bar þetta undir einn fyrrverandi nemanda skólans, hv. 9. þm. Reykn., Önnu Ólafsdóttur Björnsson, sem var þarna árum saman og staðfesti hún að það væri einungis lítill hluti af skólahúsnæðinu nothæfur. Hvað heldur hæstv. forseti að greitt sé fyrir þetta í mánaðarleigu? Og það skal tekið fram að skólinn hefur sjálfur, eða ríkið, haldið húsinu við. Það eru hvorki meira né minna en 1.687 þús. kr. á mánuði og mun þetta vera dýrasta húsaleiga alla vega hér á landi og ef ekki bara í heimskristninni.
    Þeir sem hafa komið þarna sjá að þetta hús er ekki æskilegt til slíks en þó vildi skólastjóri taka það fram, ef ég færi að hafa orð á þessu hér sem ég sagði honum að ég mundi gera, einfaldlega vegna þess að ég sagði að það væri nær að nota þessa peninga til að innrétta SS-húsið fyrir skólann, að eigandi hússins sem lést á síðasta ári, þannig að þarna hafa orðið eigendaskipti, hafi ævinlega verið liðlegur og þægilegur við skólann og ég skal koma því hér með til skila. En auðvitað viðurkenndi skólastjóri að þessi húsaleiga væri út úr öllu korti. Við þetta hafa aldrei verið gerðar nokkrar athugasemdir, það veit þetta enginn, það er bara ausið fé í vasa manns í bænum og á meðan þetta glæsilega hús Sláturfélags Suðurlands stendur autt og ónotað þá er áætlað að húsaleiga þessara hjalla þarna uppi í Skipholti verði 28 millj. á árinu 1992.
    Hæstv. forseti. Þetta nær ekki nokkurri átt. Það er ekkert vit í þessu og maður fer að spyrja sjálfan sig þegar maður kemst fyrir einhverja tilviljun í svona vitleysu: Er þetta víða svona? Er þetta allt svona? Er ekkert vit í því sem verið er að gera? Það var alveg fullkomin tilviljun að ég fór að hugsa um þetta --- vegna þess að ég fór að hafa orð á þessu Sláturfélagshúsi að mér varð hugsað þarna upp í Skipholt. Ég hugsaði: Hvað skyldi nú annars vera borgað fyrir þetta? og bað um að fjmrn. segði mér það og ég fékk þetta faxað, þessa húsaleigusamninga. Þeir gætu verið í haugum álíka, ef ekki verri, ég skal ekki fullyrða neitt um það. En þetta er ekki rétt og góð meðferð á peningum, svo mikið veit ég.

    Hæstv. forseti. Ég skal nú fara að stytta mál mitt þó af nógu sé að taka og vænti ég að hv. þm. sem eftir eiga að tala fylli upp í mjög svo kannski slitróttan málflutning minn en það var búið að fara vandlega yfir þetta frv. í heild. Þingmenn Alþb. munu síðan mæla fyrir tillögum. En ég vil að lokum taka fram að af þeirri litlu reynslu þann stutta tíma sem ég hef átt sæti í fjárln. hefur það verið næstum undantekningarlítið, hafi maður reynt að fara að setja sig inn í einhver mál, komast að einhverju sem maður taldi að betur gæti farið, þá var það alveg ljóst að það gat betur farið. Ég held, satt best að segja að það þyrfti að gera hreinsun, stórhreingerningu í ríkisfjármálum landsins. Það er eitthvert kæruleysi sem skelfir mann í þessum málum.
    Hv. 5. þm. Vestf., Kristinn H. Gunnarsson fór að kanna húsaleigu af embættismannabústöðum. Auðvitað kom í ljós að ekkert vit var í því. Allt í skötulíki. Og af hverju? Það er bara af því að einhvern tímann var það þannig og það hefur ekki nokkrum lifandi manni dottið í hug að laga það eða bara skipta sér af því almennt og yfirleitt. Ég hef orðið fyrir alveg sömu reynslu að hvenær sem maður fer að hugsa um af hverju eitthvað er ekki svolítið betur rekið, þá kemur í ljós að það er enn þá verr rekið en mann óraði fyrir.
    Ég vona að eftir þessa skelfilegu reynslu sem við höfum átt og þessa heldur dapurlegu sambúð sem við höfum átt í fjárln. hingað til, hún er ekki löng og getur batnað, að þá eigum við eftir að bera gæfu til að taka svolítið á þessum málum vegna þess að nú hefur það breyst í starfsemi fjárln. að við eigum að starfa allt árið. Þessi lota er bara byrjunin. Þegar fjárlög hafa verið afgreidd þá höfum við góðan tíma til þess að fara ofan í ríkisfjármálin og fara að vinna rétt eins og manneskjur og ég vona svo sannarlega að við munum gera það.
    Ég sé að hv. formaður nefndarinnar er löngu orðinn leiður á mér, hann hefur verið það lengi, þannig að ég lýk máli mínu hæstv. forseti. (Gripið fram í.) --- Nei, hann sýnist ekki vera mjög leiður. --- En ég tek undir það með hv. 2. þm. Austurl. að þetta frv. er ekki grínmál þó það sé hlaupinn í mann galsi hér á þriðja næturfundi í röð, heldur eru þessi fjárlög hættuleg og þau eru hættuleg fyrir fólkið í þessu landi. Fjárlög eru nefnilega ekki bara tölur á blaði og einhverjir dálkar sem eiga að ganga upp, þau fjalla um lífið í þessu landi.