Fjárlög 1992

57. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 01:45:00 (2378)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
     Virðulegi forseti. Það finnst ekki tónn af þjóðarsátt í þessu fjárlagafrv. sem nú er til 3. umr. Þetta frv. er ögrun. Þetta er ögrun við allan almenning í landinu. Hér er verið að segja upp lögbundnum samningum við bændur, hér er verið að segja upp lögbundnum samningum við sjómenn. Það er verið að segja upp samningum við sjómenn einmitt á þeim tíma þegar afli minnkar. Þetta er ögrun við barnafjölskyldur í landinu og ég vil í því sambandi lesa bréf sem við þingmenn fengum sent fyrir fáeinum dögum frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Þar eru þeir að lýsa því að meðaltekjufólk, sem er með þrjú börn, skaðast um 4.000 kr. á mánuði við þessa miklu breytingu. Þetta er ögrun við atvinnulífið í landinu.
    Við höfum hér fyrir framan okkur bréf frá Vinnuveitendasambandinu þar sem það lýsir því nákvæmlega hvað hér er að gerast. Það er stórkostlega verið að auka skatta og skyldur á fyrirtæki og síðast en ekki síst er verið að leggja skatta á sjúklinga og það er verið að leggja skatta á skólafólk. En þetta dugar ekki til. Það þarf meira til. Og nú er verið að þverbrjóta verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Það er verið að þverbrjóta hana. Ég veit ekki, hæstv. forseti, hvort félmrh. er hér í húsinu en ég vil gjarnan ræða við hæstv. félmrh. og rifja upp það sem hún sagði við 2. umr. fjárlaga 12. des. sl. Þá taldi hæstv. félmrh. að nauðsynlegt væri að ná samkomulagi við sveitarfélögin í landinu og það yrði ekkert gert nema með samkomulagi. Við erum með bréf hér upp á það að ekkert samkomulag er um það sem er verið að gera núna. Ofan á þær 300 millj. sem var búið að ákveða að leggja á sveitarfélögin er verið að leggja nýjar 700 millj. Um þetta vildi ég gjarnan eiga orðastað við hæstv. félmrh. því að við teljum nauðsynlegt að haft sé samráð.
    Einhvers staðar stendur að við séum sköpuð til samstarfs eins og fæturnir, hendurnar og augnalokin. Ég tala nú ekki um efri og neðri tanngarður. En þegar við tölum um ríki og sveitarfélög má tala um það eins og efri og neðri tanngarð því svo nauðsynlegt er að þessir aðilar séu með samstarf. Það er gagnstætt eðli náttúrunnar að vinna hvert gegn öðru og leiðir til rauna og ófarsælda. En það er einmitt það sem er að gerast á hinu háa Alþingi, það er ekki samkomulag um eitt eða neitt. Það leiðir auðvitað til ófarsældar ef menn ná ekki saman. Ekki er skrýtið þó að menn nái ekki saman ef valdamiklir aðilar í þjóðfélaginu halda að það sé hægt að valta yfir hv. þm. bara eins og einhverjar hrúkur úti í horni. Ég verð að segja að mér finnst það nokkuð merkilegt, eins og sveitarstjórnarmenn eru margir á hinu háa Alþingi, að þeir ætli að láta bjóða sér það að rústa fjárhag sveitarfélaga eins og mér sýnist ætla að gerast. --- Virðulegi forseti. Er félmrh. á leiðinni eða eru einhverjir fréttir af félmrh.? ( Forseti: Forseti getur upplýst ræðumann um að verið er að kanna hvort félmrh. getur komið til fundarins. Ég held að ráðherrann sé á öðrum fundum í húsinu en það er verið að athuga málið.) Ég vona að hún fái fréttir af því að hér er verið að rifja upp það sem hæstv. félmrh. sagði á fundi 12. des. sl. þegar fjárlög voru til 2. umr. Þá var verið að tala um að að leggja á sveitarfélögin að taka að sér algerlega

málefni fatlaðra, sem varð nú ekki sem betur fer, kannski vegna andstöðu stjórnarandstöðunnar. Þá sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:
    ,,Ég vek einnig athygli á því að 700 millj. kr. áformuð þátttaka sveitarfélaga til að tryggja stöðugleika og atvinnuöryggi og ná niður fjármagnskostnaði atvinnulífs, einstaklinga og sveitarfélaga er heldur ekki inni nú við 2. umr. fjárlaga. Af hverju ekki? Vegna þess að ríkisstjórnin vildi fá tækifæri til að ræða við sveitarfélögin og heyra hvernig sveitarfélögin teldu að þau best gætu staðið að og lagt sitt af mörkum til að tryggja hér stöðugleika og áframhaldandi þjóðarsátt. Það er hagur sveitarfélaganna ekki síður en annarra í þjóðfélaginu að skapaðar séu forsendur fyrir áframhaldandi þjóðarsátt.`` --- Nú gengur hæstv. félmrh. í salinn og ég var einmitt að rifja upp ræðu ráðherra við 2. umr. fjárlaga þar sem ráðherra taldi mjög mikilvægt að eiga samkomulag við sveitarfélögin í landinu og taldi að ekki kæmi til greina að gera neitt nema í samkomulagi við þau. (Gripið fram í.) Ég var að lesa nákvæmlega upp ræðu ráðherrans. Þetta er í beinu framhaldi af því þegar málefni fatlaðra áttu að fara yfir á sveitarfélögin. Þá sagði hæstv. ráðherra:
    ,,Ég vek einnig athygli á því að 700 millj. kr. áformuð þátttaka sveitarfélaga til að tryggja stöðugleika og atvinnuöryggi og ná niður fjármagnskostnaði atvinnulífs einstaklinga og sveitarfélaga er heldur ekki inni nú við 2. umr. fjárlaga. Af hverju ekki? Vegna þess að ríkisstjórnin vildi fá tækifæri til að ræða við sveitarfélögin og heyra hvernig sveitarfélögin teldu að þau best gætu staðið að og lagt sitt af mörkum til að tryggja hér stöðugleika og áframhaldandi þjóðarsátt.``
    Ég tel að með þessum orðum hafi hæstv. ráðherra ætlað að komast að samkomulagi við sveitarfélögin. (Gripið fram í.) Út frá þessum orðum tel ég að flestir hv. alþm. hafi hugsað sem svo: Þarna hefur ráðherra talað mjög óskýrt og hefur kannski verið að meina að hún hafi alls ekki ætlað að ná neinu samkomulagi við sveitarfélögin. Það finnst mér merkilegast af öllu ef hæstv. ráðherra trúir því virkilega að það að leggja á sveitarfélögin svo stóran pinkil, sem hér er verið að gera án samráðs og samvinnu við þau og leggja fjárhag þeirra margra algerlega í rúst, geti bjargað atvinnuvegunum í landinu. Það getur ekki bjargað atvinnuvegunum í landinu vegna þess að einmitt þessi landsbyggðarsveitarfélög hafa þurft að taka á sig mjög aukna ábyrgð í atvinnulífinu almennt og síðan kemur þetta ofan á. Ég vil gjarnan í beinu framhaldi af þessu lesa upp bréf sem mér hefur borist frá bæjarstjórn Akraness, sem er bara smámynd af því hvað er að gerast í sveitarfélögum ef þetta nær fram að ganga. Ég treysti því, hæstv. félmrh., að þetta komi ekki til greina. Ég veit að hún hefur staðið vörð um sveitarfélögin í landinu og ég trúi því ekki að hún ætli að bregðast þeim núna. En bréf bæjarstjórnar Akraness er svohljóðandi frá 19. des.:
    ,,Bæjarstjórn Akraness ítrekar fyrri mótmæli gegn fyrirhugaðri skattlagningu ríkisins á sveitarfélög. Bæjarráð bendir á að fyrirsjáanlegur samdráttur í atvinnulífi þjóðarinnar hefur sömu áhrif á tekjustofna sveitarfélagsins og ríkisins.``
    Auðvitað er þetta mál samofið. Þetta er náttúrlega ekkert einkamál ríkisins, þessir erfiðleikar í þjóðfélaginu. Við viljum axla þessa ábyrgð saman en með einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar er ekki hægt að taka svona skref eins og áætlað er að gera. Um það verður aldrei sátt.
    Svo ég haldi áfram, með leyfi forseta, að lesa upp úr þessu bréfi frá bæjarstjórninni á Akranesi:
    ,,Fyrirhugaður nefskattur ríkisins nemur 3,5% af áætluðum tekjum bæjarsjóðs.``
    Þetta er myndin almennt af þessum sveitarfélögum á Vesturlandi. Bæjarstjórn Akraness hefur fullnýtt tekjustofna sína og getur því ekki aukið álögur eins og sveitarfélög á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Eins og hv. alþm. er kunnugt eru sveitarfélög á Reykjavíkursvæðinu sem ekki hafa fullnýtt sinn útsvarsstofn og eru núna að leggja á 7,5%. Þar með komast þau inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem náttúrlega eyðileggur Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem slíkan. Þarna kemur ofan á að sveitarfélögin muni ekki fá að óbreyttu úr Jöfnunarsjóði það sem þau fengu á sl. ári. Svo að ég haldi áfram með bréfið, þá segir hér:

    ,,Við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs stendur bæjarstjórn frammi fyrir eftirfarandi vanda: Minnkandi tekjur um 2--3%, skattlagningu ríkisins um 3,5%, skerðingu Jöfnunarsjóðs því sveitarfélög á Stór-Reykjavíkursvæðinu taka mest til sín, hærri framlög til atvinnurekstrar. Þegar allt er talið gæti hér verið um að ræða 14% skerðingu á ráðstöfunarfé bæjarsjóðs Akraness. Augljóst er að þessi vandi er margfaldur miðað við vanda ríkissjóðs og fyrirhuguð skattheimta því gersamlega óraunhæf.`` --- Ég veit að sá forseti sem nú var að setjast í stólinn þekkir þennan vanda sem sveitarstjóri í bæjarfélagi fyrir vestan, Stykkishólmi. Ég trúi því ekki að hann eða aðrir alþingismenn sem koma beint úr sveitarstjórnargeiranum ætli að verða þær tuskur að samþykkja þetta og eyðileggja þar með fjárhagslegan grunn sveitarfélaga. Ég trúi því ekki og ég trúi ekki öðru en það sé hægt að komast að samkomulagi.
    Hæstv. ráðherra veit að það hafa verið viðraðar ýmsar hugmyndir til þess að komast hjá þessum skatti. Ef hæstv. ráðherra veit ekki um það held ég að það sé kominn tími til að menn setjist niður og tali saman. Það sýnir kannski best sambandsleysi á milli stjórnar og stjórnarandstöðu ef það hefur ekki náð eyrum hæstv. ráðherra.
    Ég segi bara enn og aftur að ég vona að alþingismenn beri gæfu til þess að leggja þennan skatt ekki á sveitarfélögin því að sveitarfélögin eru auðvitað grunnurinn að velferð þjóðarinnar. Við verðum að axla þessa ábyrgð saman en það verður aldrei gert nema með samkomulagi og samvinnu, nákvæmlega eins og efri og neðri tanngarður verða að vinna saman. Ég heiti því á hæstv. ráðherra að hún hefjist strax handa, enda er hæstv. ráðherra gengin úr salnum. Nú er ég viss um að hún mun ræsa stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og semja við þá. Ég treysti henni til þess. Þar með ætla ég ekki að halda lengri ræðu en ég treysti ráðherra til að ganga í þetta mál ekki síðar en núna.