Fjárlög 1992

57. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 02:14:00 (2382)

     Steingrímur Hermannsson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Ég vil spyrja hvort unnt er að fá forseta þingsins í forsetastól. Þó að ég treysti herra forseta fullkomlega þá er mér ljóst að hann fer ekki í skó forseta þingsins. Ég tel mig hafa þá ósk fram að færa hér sem forseti þingsins þarf að hlusta á. Einnig vil ég óska eftir því að ráðherrarnir, sem eru í húsinu, mæti hér allir. ( Forseti: Já, forseti telur ástæðu til að verða við ósk hv. þm. og mun gera ráðstafanir til þess.) --- [Fundarhlé.]
    Virðulegur forseti. Ég hef ekki lagt í vana minn að biðja um orðið um gæslu þingskapa. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem ég geri það. Ég tek yfirleitt ekki þátt í þeim umræðum ef ég get forðast það. En svo lengi má brýna deigt járn að bíti og mér þykir nú svo komið að ég hlýt að ræða um gæslu þingskapa og lýsa þá sérstaklega vonbrigðum mínum með að sú tilraun, sem ég hygg að þingheimur allur þekki, til sátta um þinglok nú fyrir hátíðarnar hefur mistekist. Ég held að það sé óvenjulegt, ég man ekki eftir því, að stjórnarandstaðan hafi gert formlegt tilboð um samkomulag og það varla verið tekið til umræðu. Ég er ekki að segja að ekki hafi komið gagntilboð, það var vissulega svo, og ég vil meta það sem hefur komið fram. En það er mjög fjarri því sem stjórnarandstaðan getur sætt sig við. Raunar hefur stjórnarandstaðan farið fram á það eitt að dregið verði úr nokkrum mjög alvarlegum atriðum í fjáröflunarhugmyndum ríkisstjórnarinnar sem ekki bara stjórnarandstaðan telur varhugaverðar hugmyndir heldur hygg ég að stór hluti þjóðarinnar sætti sig illa við. Þetta hefur, eins og ég sagði, mistekist og ég kveð mér því hljóðs og ræði gæslu þingskapa.
    Ég vil vekja athygli virðulegs forseta á því að þetta mun vera fimmta kvöldið sem fundir eru haldnir á hinu háa Alþingi og fjórða kvöldið sem næturfundir eru haldnir. Það verður alls ekki sagt að stjórnarandstaðan hafi tafið þingstörfin. T.d. verður alls ekki sagt að stjórnarandstaðan hafi staðið í vegi fyrir því að mál væru tekin út úr nefndum. Ég hygg að öllum sé ljóst að fyrst og fremst hefur óeining innan stjórnarflokkanna valdið því að tafir hafa þar á orðið. Reyndar hefur stjórnarandstaðan látið það yfir sig ganga að mál hafa verið tekin út úr nefndum á mjög óvenjulegan máta svo vægt sé til orða tekið. Stjórnarandstaðan hefur látið það yfir sig ganga að halda fjórar nætur fundi hér á hinu háa Alþingi.
    Ég hef nokkra reynslu af að eiga við þessi mál og ég minnist þess aldrei í þeirri tíð sem ég leiddi ríkisstjórn að slíkt væri þolað af stjórnarandstöðu. Varla tvær nætur í röð hvað þá þrjár í röð og fjórar í þessari viku. Ég hlýt því að standa hér upp og óska eftir því, þar sem þessi tilraun hefur nú mistekist, að þessum fundi verði lokið. Reyndar hygg ég að það megi fremur takast að afgreiða einhver mikilvæg mál ríkisstjórnarinnar fyrir jólahátíð ef við slítum nú fundi og leyfum þingmönnum að fá nokkra hvíld áður en fundur hefst eins og gert er ráð fyrir á morgun. Það er mín eindregin ósk til virðulegs forseta að þingfundi verði nú slitið.