Fjárlög 1992

57. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 05:17:00 (2387)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Herra forseti. Ég sé í sjálfu sér ekki miklar ástæður til að eiga frekari orðastað við hv. formann fjárln. Það er þá misskilningur hjá honum ef hann hefur tekið það svo að ég væri að gagnrýna það að upplýsingar væru reiddar fram í þessu máli. Ég var eingöngu að átelja að ekki skyldi þá aflað allra og gagnstæðra sjónarmiða í málinu. Og það að hv. formaður fjárln. ber það hér fram að hann hafi haldið að til væri lögfræðileg álitsgerð í landbrn. en síðan ekki fundið hana og þess vegna sé henni ekki dreift er ósköp einfaldlega yfirlýsing um að formaður fjárln. hafi ekki haft forustu um að afla allra þeirra gagna sem nauðsynleg væru í málinu til að kynna sér þar allar hliðar. Ekki voru málsaðilar aðrir þá en ríkislögmaður í gervi þessa minnisblaðs kvaddir til af fjárln.
    Hv. formaður fjárln. upplýsti réttilega að ég á ekki, átti ekki og hef aldrei átt neinna persónulegra hagsmuna að gæta í þessu máli. Þekki ekki það fólk sem þarna býr, er því ekki venslaður og get held ég ekki með nokkru móti komið auga á að ég geti haft ábata af því að standa að þeim gjörningi sem ég gerði. En með því að segja eins og hv. formaður fjárln. gerði að hann vissi þetta viðurkenndi hann í raun að hann hefði haldið annað áður. Það er nefnilega rétt. Hv. formaður fjárln. trúði lygisögum og rógi sem út var borinn um hið gagnstæða, en það virðist vera svo, því miður. Ég verð að segja það, herra forseti, að hafi einhvers staðar orðið siðferðisbrestur í þessu máli er það ekki í minni ákvörðun og ekki í mínum athöfnum að þessu leyti. Þær voru gerðar samkvæmt bestu vitund og með góðri samvisku, en það kynni þá að vera að einhvers staðar hefði orðið pínulítill siðferðisbrestur í misleiðandi upplýsingum sem glöptu hv. formann fjárln.