Vatnsveitur sveitarfélaga

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 13:20:00 (2390)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (frh.) :
     Frú forseti. Ég var rétt að hefja ræðu mína um vatnsveitur sveitarfélaga og óskaði eftir nærveru hæstv. félmrh. í því máli og þar sem hún var ekki í húsinu gerði ég hlé á máli mínu. En nú er félmrh. staddur hér þannig að ég get þá varpað fram þeim spurningum sem vöknuðu hjá mér við lestur þessa frv. Skemmst er frá því að segja að félmn. Alþingis hefur sent frá sér nál. og mælt með því að þetta frv. verði samþykkt. Að því nál. stendur m.a. sú sem hér er og gerði það án fyrirvara. Það kann að vera reynsluleysi mínu að kenna að ég áttaði mig ekki á því fyrr en eftir á að ég hefði í rauninni átt að setja fyrirvara á þetta nál. vegna þeirra spurninga sem ég hef um þetta mál og sem mér finnst ástæða til að vekja athygli á hér á þingi.
    Um þetta mál er það að segja að það er í sjálfu sér mjög þarft. Verið er að endurskoða gildandi lög um vatnsveitur og var sérstakri nefnd falið að endurskoða gildandi lagaákvæði um vatnsveitur og holræsi og er þetta fyrsti hluti þeirrar vinnu, þ.e. nú er komið frv. til laga um vatnsveitur. Nefndin virðist hafa fyrirhugað að endurskoða líka lög um holræsi enda mun ekki af veita því gildandi ákvæði vatnalaga ná yfir það og þau eru frá 1923. Nefndin telur hins vegar að þessi endurskoðun krefjist víðtæks samráðs við önnur ráðuneyti svo sem umhvrn. og iðnrn.
    Skemmst er frá því að segja að í gildi eru mjög margar reglugerðar um vatnsveitur sveitarfélaga og mjög mismunandi sem allar hafa þurft að hljóta staðfestingu félmrh. Þar að auki eru mismunandi gjaldskrár í gildi í sveitarfélögunum.
    Það sem er verið að gera er að setja ný lög og það á að setja eina reglugerð um vatnsveitur fyrir landið allt. Ákvæði frv. einfalda allar framkvæmdir til mikilla muna, bæði hjá sveitarstjórnum og félmrn. og þar að auki er sjálfsforræði sveitarstjórna um gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana aukið og er ekkert nema gott um það að segja.
    Það sem vakti spurningar hjá mér er ekki síst að finna í 4. gr. þessara laga svo og 14. gr. 4. gr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Sveitarstjórn er eigandi vatnsveitu sveitarfélags og sér um lagningu allra vatnsæða hennar, þ.e. aðalæða, götuæða og heimæða. Sveitarstjórn annast og kostar viðhald vatnsæðanna.``
    Um 4. gr. segir í athugasemdum: ,,Með þessari grein er lagt til að sveitarstjórn verði eigandi allra vatnsæða veitukerfisins, þar með taldra svokallaðra heimæða er liggja frá götuæð og inn í fasteign. Eins og málum er háttað í dag er það húseigandi, sem skal sjá um og greiða kostnað við lagningu slíkrar vatnsæðar og jafnframt annast viðhald hennar, sbr. hér ákvæði 23. greinar vatnalaga. Rétt þykir að leggja hér til þá breytingu að lagning og viðhald heimæðar verði alfarið í höndum sveitarstjórnar sem ætti að hafa í för með sér hagræðingu fyrri báða aðila, þ.e. húseigandann og sveitarstjórn. Sambærilegt ákvæði er að finna í ýmsum reglugerðum fyrir hitaveitur og eðlilegt að sama fyrirkomulag gildi fyrir allar vatnsæðar hvort sem um þær rennur heitt eða kalt vatn. Varðandi þær heimæðar sem þegar hafa verið lagðar vísast til gildistökuákvæðisins í 14. grein.``
    Fyrir þá sem ekki þekkja þetta er kannski rétt að upplýsa að þetta getur verið mikið hagsmunamál, bæði fyrir húseigendur og sveitarfélag. Ef við tökum dæmi hér í Reykjavík þá hefur málum verið þannig háttað að ef kaldavatnsæð heim að húsi gefur sig þá þarf húseigandi að greiða viðgerð þessarar heimæðar allt út í miðja götu, hann þarf að greiða fyrir þann kostnað sem af hlýst bæði vegna þess að það þarf að rífa upp gangstétt og hann þarf að greiða þann kostnað sem af hlýst vegna þess að það þarf að brjóta upp malbik. Þetta er umtalsverður kostnaður fyrir húseigendur. Nú á sem sagt að bæta úr þessu og sveitarfélagið á að eignast allar þessar heimæðar og halda þeim við. Þetta er hagsmunamál líka fyrir sveitarfélagið vegna þess að ef við tökum dæmi hér í Reykjavík þá eru víða mjög gamlar lagnir. Reykjavíkurborg hefur verið að taka upp hitaveitulagnir og raflagnir í götum en hefur á sama tíma ekki getað endurnýjað kaldavatnslagnirnar vegna þess að húseigendur hafa ekki viljað leggja sjálfir í þann kostnað að láta endurnýja þá æð þannig

að hún hefur þá bara verið áfram léleg og svo þarf að grafa allt upp aftur ef hún bilar. Þetta getur því líka verið mikið hagsmunamál fyrir sveitarfélagið. Í sjálfu sér er frv. hið besta mál, eins og maður segir, nema hvað í 14. segir:
    ,,Lög þessi skulu taka gildi 1. janúar 1992. Við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um aðstoð til vatnsveitna nr. 93/1947 svo og 20., 21., 23. og 28. gr. vatnalaga nr. 15/1923.
    Þær heimæðar, sem fasteignaeigendur eiga við gildistöku laga þessara, sbr. ákvæði vatnalaga nr. 15/1923, skulu vera eign þeirra áfram nema samkomulag verði um að sveitarstjórn yfirtaki þær. Að liðnum 10 árum frá gildistöku þessar laga ber sveitarstjórn að yfirtaka framangreindar heimæðar sé þess óskað af fasteignareiganda.``
    Með öðrum orðum: Þó að lögin kveði á um það að sveitarfélag skuli eignast allar heimæðar frá því að lögin taka gildi --- og þá á það náttúrlega við um öll ný hús --- þá á það ekki við um hús sem þegar eru byggð og sveitarstjórn mun ekki yfirtaka þær heimæðar nema samkomulag náist milli húseigenda og sveitarstjórnarinnar fyrr en eftir 10 ár. Þá ber sveitastjórninni skylda til þess að yfirtaka heimæðina fari fasteignareigandi fram á það.
    Nú hlýtur að vakna sú spurning hvernig á að standa að þessu á þessu 10 ára tímabili. Hvernig fá íbúðareigendur um land allt að vita að þeir geta farið fram á það við sína sveitarstjórn að hún yfirtaki heimæðina og hvernig á að standa að þessum málum af hendi sveitarfélaganna?
    Þetta býður að vissu leyti upp á dálitla mismunun því að nú gæti verið, ef við tökum dæmi af Reykjavíkurborg, að hún mundi ákveða að eignast einhverjar heimæðar í gamla Vesturbænum, hún mundi skrifa húseigendum þar bréf þess efnis að hún sé tilbúin að yfirtaka heimæðarnar og síðan mundi hún gera það. Síðan bilaði heimæð þremur götum frá þar sem hún hefði ekki hugsað sér að yfirtaka og þá yrði sá húseigandi væntanlega að gjöra svo vel og greiða þann kostnað sem af biluninni hlytist. Þetta gæti a.m.k. vel gerst og mér finnst skipta máli að menn geri sér einhverja grein fyrir því hvernig þetta á að fara fram. Þarna er um hagsmunamál að ræða og þarna er um talsvert peningalegt hagsmunamál að ræða líka.
    Þess má geta að ef vatnsveitur í sumum sveitarfélögum nýta sér þá heimild sem er í lögunum um álagningu vatnsgjalds getur orðið um talsverða tekjuaukningu að ræða hjá ákveðnum sveitarfélögum. Eftir breytinguna má vatnsgjaldið nema allt að 0,3% af álagningarstofni og þá er þar um að ræða fasteignamat. En ekki nóg með það heldur geta sveitarfélögin miðað við fasteignamat í Reykjavík, þ.e. eins og segir hér: Til að jafna heimildina og gera hana samanburðarhæfa milli vatnsveitna sveitarfélaga er gert ráð fyrir að áður en til álagningar kemur verði stofninn margfaldaður með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík og síðan má leggja 0,3% af álagningarstofninum í vatnsgjald.
    Búast má við því að þetta geti skapað einhverjar tekjur hjá ákveðnum sveitarfélögum og þess vegna gert þau betur í stakk búin til þess að yfirtaka allar þessar heimæðar. Mér finnst vanta einhverja tengingu þarna á milli, þ.e. hvernig á þetta að gerast og hver eru réttindi og skyldur sveitarfélaganna og hins almenna húseiganda.
    Það eru þessar spurningar sem ég vildi að svo stöddu fá svör við hjá hæstv. félmrh.