Fjárlög 1992

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 14:40:00 (2401)

     Egill Jónsson (andsvar) :
     Herra forseti. Um þetta hef ég einungis það að segja að ekki hefur farið fram umræða í mínum þingflokki um neinar ákvarðanir hér að lútandi. Almennt get ég sagt það sem mína skoðun að við hljótum að öðru jöfnu að leggja skýrari áherslur á sérstöðu en flestar aðrar þjóðir, m.a. vegna þeirra breytinga sem við höfum verið að gera í íslenskum landbúnaði, draga úr kostnaði og leggja af útflutning. Þess vegna hljóta okkar mál að skipast með þeim þjóðum sem leggja grundvallaráherslu á að vernda sinn landbúnað og treysta hann og þannig er afstaða mín, ef það er einhvers virði fyrir þingmanninn að vita um hana.
    En um einstaka þætti samningsgerðarinnar sem slíkrar get ég af augljósum ástæðum ekki fjallað vegna þess að sú umræða hefur ekki enn átt sér stað þar sem ég hef haft möguleika á því að fá þær upplýsingar sem haldbestar eru.