Fjárlög 1992

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 16:17:00 (2412)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. sem ég flyt ásamt öðrum þingmönnum Alþb. við frv. til fjárlaga fyrir árið 1992. Ég mæli fyrst fyrir þeim brtt. sem eru á þskj. 324.
    Fyrsta brtt. á því þskj. er um að framlag til Rannsóknasjóðs hækki úr 110 millj. kr. í 130 millj. kr. Rökin fyrir þessari brtt. eru einkum þau að í tíð síðustu ríkisstjórnar var gerð samþykkt um að tvöfalda framlög til rannsókna og vísindastarfsemi á 10 ára tímabili. Þáverandi ríkisstjórn steig myndarlegt skref í þeim efnum með þeim hætti að framlög til rannsókna og vísinda voru á þessu ári hækkuð um 25% að raungildi frá árinu 1990 til ársins 1991. Um þessa stefnumótun ríkisstjórnarinnar var mjög góð samstaða. Þegar ég greindi frá þessari niðurstöðu og stefnu ríkisstjórnarinnar á fundi í sameinuðu þingi á sínum tíma, eftir hinum gömlu þingsköpum og stjórnarskrá landsins, hlaut þessi tillaga undirtektir þingmanna úr öllum flokkum. Eftir þeim orðum að dæma hefði mátt ætla að Sjálfstfl. t.d. væri hlynntur því að stuðla myndarlega að þróun rannsókna og vísindastarfsemi í landinu en því miður sér þess ekki stað í fjárlagafrv. sjálfu. Ég er þeirrar skoðunar að á tímum eins og við lifum núna, þegar um er að ræða samdrátt og krepputeikn á lofti sums staðar þó að auðvitað margt sé með þeim hætti að ekki sé ástæða til almennrar svartsýni í þessu landi, þá er það engu að síður svo að á slíkum tímum á einmitt að auka rannsókna- og þróunarstarfsemi. Ég held satt að segja að ef við skoðum þá þróunarmöguleika sem íslenskt atvinnulíf hefur á efnahagslíf á komandi árum þá felist þróunarmöguleikarnir fyrst og fremst í rannsóknum, vísindum, þróunarstarfsemi og hugviti. Því miður hefur ekki tekist að halda utan um þessi mál með þeim hætti sem í raun er skyldugt. Það er þannig að öll menntunr, menntastarfsemi af hvaða tagi sem er, er undirstaða almennilegra lífskjara í framtíðinni. Allar svokallaðar menningarþjóðir leggja á það áherslu að undirstaða batnandi lífskjara á komandi árum og áratugum felist í rannsóknum, þróun, vísindastarfsemi og góðum skólum. Af þeim ástæðum flytjum við þessa till. á þskj. 324 um hækkun á framlagi í Rannsóknasjóð.
    Í öðru lagi eru á þessu þskj. tvær litlar till. um breytingar á fjárlögunum að því er varðar grunnskólann. Í fyrsta lagi gert ráð fyrir að hækka liðinn Þróunarstarf í leikskólum um 4 millj. kr. Lög um leikskóla voru sett hér sl. vor og þar var gert ráð fyrir að hefja framkvæmd þeirra mála strax á árinu 1992 með því að ráða svokallaðar umdæmafóstrur

sem hefðu starfsmiðstöð á fræðsluskrifstofunum í viðkomandi umdæmum. Í fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar fyrir árið 1992 er ekki að finna neitt ákvæði um þetta en það er hins vegar gert ráð fyrir að varið verði rúmlega einni millj. kr. í þróunarstarf í leikskólum án þess að það sé tilgreint nánar með hvaða hætti það á að fara fram. Ég tel víst að það sé ætlunin að hér sé um að ræða þróunarstarf sem unnið sé í góðu samstarfi við Fósturfélag Íslands og aðra þá aðila sem um starf í leikskólum eiga að véla. Og til að undirstrika þá afstöðu Alþb. að við teljum mikilvægt að málefnum leikskólanna sé sinnt þá flyt ég þessa till. á þskj. 324 um þróunarstarf í leikskólum.
    Þá flyt ég litla brtt. um námsráðgjöf. Námsráðgjöf er einn mikilvægasti þáttur í nútíma skólastarfi. Námsráðgjöf er í raun og veru óhjákvæmilegur hluti af sveigjanlegum framhaldsskóla þar sem leiðir opnast fyrir unga fólkið til að ljúka námi á mismunandi brautum, á mismunandi löngum tíma. Og af þeim ástæðum flyt ég tillögu um að hækka framlög til námsráðgjafar í grunnskólum úr 6,6 millj., eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., í 12 millj. kr. Þar með er í raun og veru gert ráð fyrir því að halda áfram því átaki í námsráðgjöf sem hafið var fyrir nokkrum missirum og birtist m.a. í ráðningu námsráðgjafa í nokkrum grunnskólum, ég held fjórum eða fimm, og auk þess í ákvörðun um að stofna formlega braut fyrir námsráðgjafa í félagsvísindadeild Háskólans. Aðsóknin að þessari námsbraut hefur verið geysilega mikil. Ég held satt að segja að ef menn vilja sjá skólann þróast hvort sem það er grunnskóli, framhaldsskóli eða háskóli þá verði menn að gera sér grein fyrir því að námsráðgjöf verður gildari og gildari liður í starfi þessarar stofnunar á komandi árum.
    Í þriðja lagi flyt ég hér tillögu um Þjóðminjasafn Íslands, um að nokkrum fjármunum verði varið til endurbóta á Þjóðminjasafninu. Það verður að segja alveg eins og er að það er þyngra en tárum taki hvernig Þjóðminjasafnið er á sig komið. Og þeim mun dapurlegra er það nú sem Alþingi samþykkti fyrir tveimur eða þremur árum ný lög um þjóðminjavernd á Íslandi þar sem sett eru myndarleg markmið af ýmsu tagi. En á sama tíma og löggjafinn er að taka ákvarðanir eins og þessar þá fást menn ekki til að leggja fjármuni í endurbætur á Þjóðminjasafnshúsinu. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé nauðsynlegt forgangsefni. Ég er þeirrar skoðunar að við hlið Þjóðarbókhlöðunnar og endurbóta á Þjóðleikhúsinu þá eigi að sinna Þjóðminjasafninu sérstaklega. Reyndar tel ég að miðað við stöðuna í dag sé Þjóðminjasafnið komið mjög framarlega í forgangsröðinni. Ég held og ég veit það reyndar að þjóðminjarnar eru í hættu. Aftur og aftur þegar gerir veður hvort sem það er regn eða rok þá birtast fréttir um að Þjóðminjasafnið haldi hvorki vatni eða vindum og þess vegna er nauðsynlegt að halda áfram þeim endurbótum sem hafnar eru á Þjóðminjasafninu og hófust á þessu ári.
    Í fjórða lagi flyt ég hér litla tillögu um 500 þús. kr. hækkun á liðnum Kvennasögusafn. Í fjárlögum ársins 1991 er gert ráð fyrir 1,5 millj. kr. í Kvennasögusafnið. Þessi liður er lækkaður í fjárlagafrv. og ég sé satt að segja engin rök fyrir því af hverju einmitt þetta safn skuli vera lækkað og flyt því tillögu um að Kvennasögusafnið fái einfaldlega sömu upphæð á árinu 1992 og það fær á árinu 1991.
    Þá flyt ég hér í fimmta lagi tillögu um Menningarsjóð. Menningarsjóður hefur átt við mikla erfiðleika að stríða. Ástæðan er fyrst og fremst sú að mínu mati að Menningarsjóður var látinn yfirtaka gríðarlega mikið verk sem skrifað var um þjóðhátíð nokkra fyrir ekki löngu síðan og liggur með lager, gríðarlega þungan og rándýran lager af þessum bókum hjá sér og þetta setti allan fjárhag Menningarsjóðs úr skorðum. Ég sé mér til ánægju að í brtt. fjárln. er gert ráð fyrir því að fara í fjármál Menningarsjóðs. Ég fagna því. Ég held að það sé í raun og veru mjög nauðsynlegt að framkvæma þar uppgjör. Ég reikna fastlega með því að hæstv. menntmrh. eigi aðild að því máli og ég þakka honum

fyrir það. Það er nauðsynlegt að gera upp eignir og skuldir Menningarsjóðs og taka um leið ákvörðun um það hvaða stofnun og aðili það er sem á að sjá um þessa útgáfustarfsemi eða skylda útgáfustarfsemi á komandi árum. Þá er það náttúrlega ljóst að bókaútgáfa á við mikla erfiðleika að stríða. Það eru alls konar bókaforlög sem eru núna afar illa stödd eins og alþjóð veit. En í gangi eru margs konar menningarleg útgáfuverkefni sem ríkið er að hafa afskipti af. Eitt af því t.d., fyrir utan Menningarsjóð, er Iðnsaga Íslendinga, í þriðja lagi er það Íslensk þjóðmenning sem er glæsilegt fyrirtæki sem hefur verið í gangi núna undanfarin ár, glæsileg útgáfa. Í fjórða lagi er það útgáfa á vegum Árnastofnunar. Í fimmta lagi er það útgáfa á vegum Þjóðminjasafnsins. Ég tel í raun og veru að það væri að mörgu leyti eðlilegt að öll þessi opinbera útgáfustarfsemi væri flutt á einn stað, hugsanlega í tengslum við eitthvert starfandi bókaforlag úti í bæ en alla vega sé ekki verið að hengja pinkla á þessar stofnanir hverja fyrir sig þar sem bersýnilegt er að þær ráða ekki við það fjárhagslega og hafa heldur ekki þá markaðsþekkingu sem þarf til þess að koma þessum vörum frá sér, þessum dýrmætu bókum sem þessar ríkisstofnanir eru að gefa út. Þess vegna fagna ég því að það eigi að taka á málefnum Menningarsjóðs og ég vona að það verði vel gert en flyt hér tillögu um að rétta nokkuð fjárhag Menningarsjóðs við frá því sem gert er í fjárlagafrv.
    Þá flyt ég hér tvær tillögur um breytingu á liðnum Listir, framlög. Það er í fyrsta lagi liðurinn Ýmis menningarmál. Það er í raun og veru alveg ótilgreint í fjárlagafrv. hvað þetta er. Það eru 9 millj. kr. í fjárlagafrv. en 20 millj. kr. í þessari tillögu sem ég er með. Og af hverju er ég að flytja þessa tillögu? Ég get játað að það er af þeirri reynslu að til menntmrh. leita ævinlega þúsundir aðila, alls konar hópar og félagasamtök sem eiga meiri og minni rétt á að fá einhvern lítils háttar stuðning eða viðurkenningu. Það er útilokað að fjárln. Alþingis sé að afgreiða svoleiðis hluti eins og hún var reyndar oft að gera. Ég veit ekki hvernig það er núna, en í minni tíð í menntmrn. var nefndin iðulega að skipta smáliðum niður á þennan kór hér og þennan glímuflokk þar og guð veit hvað og það var satt að segja alveg ótrúlegt hvað menn gengu langt í smámunasemi í þeim efnum. Ég er hér að leggja til að þessi fjárlagaliður, sem er í raun og veru á úthlutunarvaldi menntmrh. eins, verði rýmkaður verulega til að unnt sé að koma til móts við þessa hópa. Mönnum kann að finnast það skrítið að stjórnarandstæðingur flytji slíka tillögu um breytingar á fjárlögum en ég geri það engu að síður vegna þessarar reynslu sem ég hef. Og ég tel að það sé eitt það allra dapurlegasta sem menn þurfa að standa í í því ráðuneyti að þurfa að láta myndarleg menningarfyrirtæki aftur og aftur fara bónleið til búðar vegna þess að það er ekki til, ja, einu sinni fáeinir aurar til að rétta að þessu fólki sérstaklega þegar snillingar í fjárln. taka nú um það ákvörðun að eyða af liðnum Ýmis menningarmál í Reiðhöllina eða Landssamband hestamanna eða önnur álíka menningarmál í þessu landi sem eru þó alls góðs makleg. Eftir situr menntmrh. með ekki neitt til að ráðstafa í liðinn Ýmis menningarmál.
    Þá flyt ég hér í öðru lagi litla tillögu um M-hátíð, að til hennar verði varið 2,1 millj. kr. í staðinn fyrir 1,1 millj. kr. Þetta geri ég vegna þess að ég vil undirstrika nauðsyn þess að M-hátíðirnar haldi áfram. Þær eru mikilvægur menningarviðburður. Þær styrkja menningarlífið í viðkomandi byggðarlögum. Ég hygg að Sunnlendingar, sem þekkja til M-hátíðarinnar á Suðurlandi sl. sumar, viti að M-hátíðin þar skilur eftir sig verulegan árangur víða sem lifir áfram til komandi ára. Og ég held að það sé mjög nauðsynlegt að áfram verði haldið með þetta verk og þess vegna flyt ég þessa litlu tillögu um M-hátíð.
    Þá flyt ég hér tillögu um lítils háttar stuðning við Hið Íslenska fornleifafélag og loks um lítils háttar stuðning upp á nokkur hundruð þús. kr. við Þjóðræknifélag Íslendinga. Ástæðan til að ég flyt þessa tillögu um Þjóðræknisfélag Íslendinga er fyrst og fremst sú

að Þjóðræknisfélagið hefur verið að skipuleggja tengsl við Íslendinga erlendis um heim allan. Hagstofan hefur unnið skrá yfir Íslendinga sem búa erlendis. Hér er um að ræða mörg mörg þúsund manns. Og ég held að það sé mjög brýnt verkefni og skynsamlegt að tengja þetta fólk við Ísland áfram þó ekki sé nema til að tryggja að það komi hingað og beri hróður landsins sem víðast og hygg ég að ekki sé völ á mikið ódýrari landkynningu en ummælum þessa fólks um land og þjóð hvar sem það er statt í heiminum.
    Þá flyt ég hér á þskj. 325 ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og Hjörleifi Guttormssyni tillögu um breytingar á Lánasjóði ísl. námsmanna. Þar er gert ráð fyrir að hækka nokkuð framlag til lánasjóðsins til að undirstrika að við teljum það mikilvægt úrslitaatriði, mikilvægt atriði í jöfnun lífskjara í landinu að Lánasjóður ísl. námsmanna sé varinn. Hann hefur átt undir högg að sækja. Ríkisstjórnin hefur skorið grunnlánin niður um 17% og horfur eru á að enn frekari niðurskurður verði á næsta ári. Það er ólíkt dapurlegra fyrir ungt fólk að hefja nám t.d. næsta haust 1992 miðað við áform ríkisstjórnarinnar heldur en t.d. var í fyrra eða hittifyrra eða fyrir fjórum eða fimm árum. Til þess að undirstrika þá stefnu Alþb. að Lánasjóður ísl. námsmanna á að lifa og hann er félagslegt verkefni þá flytjum við þessir þrír þingmenn Alþb. þessa tillögu um eflingu Lánasjóðs ísl. námsmanna.
    Náskyld þessari tillögu er till. á þskj. 326 sem er breyting á liðnum Jöfnun á námskostnaði. En þar í er svokallaður dreifbýlisstyrkur sem greiddur er nemendum í framhaldsskólum. Nemendum í framhaldsskólum hefur fjölgað stórkostlega á undanförnum árum. Í tíð síðustu ríkisstjórnar hækkaði þessi fjárlagaliður jafnt og þétt og ég ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds og Jóhanni Ársælssyni flytjum hér tillögur um að halda þeirri stefnu áfram þannig að unnt verði að veita því unga fóli sem er við nám í framhaldskólum einhvern stuðning þó í litlu sé því hér er ekki um stórar upphæðir að ræða á hvern nemanda.
    Þá flytjum við, ég ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds og Guðrúnu Helgadóttur, tillögur á þskj. 327. Það eru þrjár tillögur sem snerta menningarmál og það er fyrst varðandi Listasafn Sigurjóns Ólafssonar. Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir 2,5 millj. kr. í þessu skyni. Það kom auðvitað strax í ljós að það var fjarri öllu lagi og við 2. umr. fjárlaga breytti ríkisstjórnin tillögu sinni í 4,5 millj. kr. Í fjárlögum þessa árs minnir mig að framlagið til Listasafns Sigurjóns Ólafssonar sé um 5,5 millj. kr. Hér er því um að ræða lækkun frá þessu ári í beinni krónutölu. Ég verð að segja alveg eins og er að miðað við þau verðmæti sem eru í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, miðað við það dýrmæta frumkvæði sem Birgitta Spur hefur haft við að byggja upp þetta safn þá finnst mér það næstum að segja, með leyfi forseta, dálítið nánasarlegt að vera að lækka framlagið til þessa safns um hálfa eða heila milljón. Satt að segja held ég að Listasafn Sigurjóns Ólafssonar sé eitt það safn sem við getum verið stoltust af hér á landi. Og þó við eigum prýðilegt Listasafn Íslands og menn hafi víða staðið sig vel við uppbygginu listasafna og myndlistarsala hér þá er Listasafn Sigurjóns Ólafssonar mjög sérstætt listasafn og það þekkja t.d. þeir sem hafa orðið að leiða hér um land erlenda gesti. Það er ævinlega farið með þá í Listasafn Sigurjóns Ólafssonar vegna þess að þar er í raun og veru um að ræða verðmæti sem vekja athygli útlendinga. Ég gleymi seint þeim þakkarbréfum sem ég hef fengið frá hópi erlendra ráðherra m.a. sem hafa séð þetta listasafn og eru þakklátir fyrir að hafa skoðað það.
    Ég er reyndar alveg sannfærður um að ef þeir útlendingar, sem hafa skoðað Listasafn Sigurjóns Ólafssonar, vissu af því að það væri í nauðum mundu þeir hlaupa til og reyna að tryggja einhverja fjármuni handa listasafninu þannig að það legðist ekki af. En ég held að það væri okkur Íslendingum til minnkunar ef við þyrftum að sækja til útlendra aðila, þó gjafir þeirra geti verið góðar, til að halda uppi þessari mikilvægu stofnun, Listasafni Sigurjóns Ólafssonar.

    Þá flyt ég hér ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds og Guðrúnu Helgadóttur tillögu um Þjóðleikhúsið sem gerir ráð fyrir því að treysta rekstur þess á næsta ári. Ég hef miklar áhyggjur af rekstri Þjóðleikhússins á næsta ári eins og fjárlagafrv. lítur út. Ég sé ekki betur en Þjóðleikhúsið sé eiginlega eina stofnunin sem á að skera niður í raunfjárlögum frá árinu 1988. Ég sé ekki að það séu margar ríkisstofnanir sem á að skera niður með sama hætti. Ég held að það sé bara engin. Við höfum ekkert efni á því að láta Þjóðleikhúsið skera niður með þessum hætti.
    Þá flyt ég hér ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds og Guðrúnu Helgadóttur tillögu um kynningu á íslenskri list erlendis. Þau mál hafa mikið verið til umræðu hér að undanförnu, ekki hér á Alþingi heldur meðal þjóðarinnar þar sem menn hafa talið að tiltekinn búksláttur sé umdeilanlegt fyrirbæri í menningarþróun Íslands. Ég skal ekkert um að segja, ég hef ekki það vit á menningarsögu að ég geti kveðið upp stóra dóma í þeim efnum, get þó sagt að ég hef grun um að þetta hafi ekki verið algengt til forna án þess að ég fari nú nokkuð nánar út í það. En kynning á íslenskri list erlendis á að vera stjórnvöldum metnaðarmál. Staðreyndin er sú að þegar Íslendingar eru að kynna eitthvað í útlöndum þá eru þeir nokkuð seigir við að kynna fisk og þeim finnst líka gott að hafa með í för fegurðardrottningar og kraftajötna. Hámarki nær þetta samt ef menn geta fengið t.d. bæði fegurðardrottningu og kraftajötun til að kynna rækju. En þessir snillingar, sem t.d. stjórna Útflutningsráði Íslands og kynningu á Íslandi í útlöndum, gleyma því yfirleitt að það sem menn muna af Íslandi er menning. Það er nú einu sinni staðreynd að þótt hvort tveggja sé undirstaða, fiskurinn og menningin, þá er það þannig að fiskinn borðum við en menninguna munum við. Og það á ekki aðeins við um Íslendinga heldur einnig aðra. Og þess vegna held ég að sá sljóleiki sem birst hefur í kynningu á íslenskri menningu erlendis geti orðið okkur dýr vegna þess að ég held að hérna sé um verðmæti að ræða sem geti skilað fjármunum í þjóðarbúið þegar fram í sækir og þess vegna flytjum við hér litla tillögu um að efla kynningu á íslenskri list erlendis.
    Þá flyt ég hér á þskj. 329 ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds, Kristni H. Gunnarssyni, Jóhanni Ársælssyni og Hjörleifi Guttormssyni tvær tillögur. Það er í fyrsta lagi tillaga um starfsemi áhugaleikhópa þar sem við gerum ráð fyrir að hækka framlög til þeirra um 4 millj. kr. Í öðru lagi gerum við tillögu um að framlag til Bandalags ísl. leikfélaga hækki úr 2,5 upp í 5 millj. kr. Ég held að það sé mjög brýnt, virðulegi forseti, að Alþingi sýni þessum aðilum rausnarskap. Okkur tókst að hækka framlög til þeirra í tíð síðustu ríkisstjórnar talsvert mikið. Nú er snúið af þeirri braut því miður og framlögin eru beinlínis lækkuð. Í fjárlagafrv. er m.a. gert ráð fyrir að strika út framlag til Alþýðuleikhússins sem er satt að segja alveg ótrúlegt. En það er út af fyrir sig ekki það sem við erum með hér á dagskrá heldur eru það áhugaleikhóparnir og Bandalag ísl. leikfélaga. Mér er kunnugt um að hvergi á byggðu bóli er önnur eins leikstarfsemi í gangi á vegum áhugaleikfélaga eins og á Íslandi, hvergi nokkurs staðar. Það er talað um að sett séu upp hér á Íslandi á vegum áhugaleikfélaga á milli 70 og 90 leikverk á ári. Og allt það fólk sem tekur þátt í starfsemi áhugaleikfélaga allt í kringum landið eru mörg hundruð manns. Ég hygg að fátt sé meira gefandi fyrir þetta fólk og þar með þjóðina í heild en þessi þátttaka í starfsemi áhugaleikfélaga og þess vegna er þessi tillaga flutt.
    Ég vil aðeins í leiðinni geta þess, virðulegur forseti, þótt ekki sé nein tillaga flutt um það hér af okkur að ég er ekki sáttur við breytinguna á fjárlagastefnunni varðandi Leikfélag Reykjavíkur. Þar er gert ráð fyrir því, ef ég man rétt, að fella framlag til þess svo að segja niður, það verði bara 1 millj. kr. eftir eða eitthvað því um líkt úr 15 millj. kr., en í staðinn fari þetta til Íslensku óperunnar. Ég verð að segja að mér finnst það leggjast lítið fyrir íslenska ríkið að strika út elsta leikfélag landsins. Mér finnst að Leikfélag

Reykjavíkur og Borgarleikhúsið séu ekki bara verkefni Reykjavíkur sem sveitarfélags. Leikfélag Reykjavíkur er elsta samfellt starfandi áhugaleikfélag á Íslandi þannig að það jafngildir því að leggja almenna rækt við hina íslensku þjóðmenningu að sinna Leikfélagi Reykjavíkur og veita því viðurkenningu. Ég kann ekki að meta þá fjárlagapólitík að lækka framlag til Leikfélags Reykjavíkur úr 15 millj. kr. í 1 millj. kr. Mér finnst að ríkið eigi að sýna Leikfélagi Reykjavíkur þakklætisvott með því að halda þessum aurum inni til Leikfélagsins sem hafa verið inni á því í mörg ár en eru núna skornir niður í 1 millj. kr. út af Íslensku óperunni.
    Loks vil ég geta þess, virðulegi forseti, að ég flyt brtt. ásamt hv. 5. þm. Vestf., Kristni H. Gunnarssyni, um framlög til íþróttamála. Það er liðurinn Ýmis framlög til íþróttamála og það helgast af því sama og ég greindi frá áðan varðandi menningarmál að það eru hundruð íþróttafélaga í landinu með alls konar smærri og stærri metnaðarfull verkefni í gangi. Íþróttastarfsemin er og á að vera þáttur í menningarstarfsemi og menningarlífi þjóðarinnar. Íþróttastarfsemin er ekki aðeins uppeldisatriði fyrir þá sem taka þátt í íþróttastarfseminni heldur einnig fyrir þjóðina í heild. Ég hygg satt að segja að ekki sé hægt að hugsa sér betra forvarnastarf gagnvart ungu fólki og unglingum en virka íþróttastarfsemi og hundruð fulltrúa íþróttafélaganna allt kringum landið leita til menntmrh. á hverju einasta ári eftir stuðningi vegna ýmissa áforma sem eru á vegum þessara félaga og ég tel að menntmrn., íþróttamálaráðuneytið, eigi að geta tekið vel á móti þessu fólki, og þurfi ekki að láta menn fara bónleiða til búðar eins og nauðleitarmenn þó um minni háttar verkefni sé að ræða. Ég er að hugsa um alls konar íþróttir, ég er auðvitað að hugsa um flokkaíþróttir en ég er einnig að hugsa um einstaklingsíþróttir. Ég er að hugsa um íþróttir fyrir almenning, íþróttir fyrir konur, íþróttaátak af ýmsu tagi og Íþróttamiðstöð Íslands sem var stofnuð á síðasta kjörtímabili á Laugarvatni og fleira. Þótt menn hafi komist að því að íþróttir ættu að vera alveg sérstakt verkefni sveitarfélaganna og ríkið ætti ekki að koma þar nálægt kann ég ekki að meta þá reglustikustefnu vegna þess að ég held að ríkið eigi að vera með í íþróttastarfseminni. Þátttaka í íþróttafélögum á Íslandi er gífurlega mikil og hún er meiri en nokkurs staðar annars staðar. Framlög til íþróttamála frá einstaklingum með beinum hætti og óbeinum hætti í sjálfsboðavinnu eru geysilega mikil. Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að til þess að leggja rækt við þennan garð þurfi menntmrn. að hafa nokkurt svigrúm. Þess vegna flytjum við þessa litlu tillögu um ýmsa íþróttastarfsemi og við flytjum hana ekki til þess að fjárln. fari að skipta henni á milli alls konar félaga úti um allt land heldur til þess að það sé hægt á faglegum grundvelli í íþrótta- og æskulýðsmáladeild ráðuneytisins að meta hvaða áherslur á að hafa í þessum efnum. Ég tel að það sé mikilvægt, þetta sé svið sem hefur verið vanrækt bæði af okkur og sveitarfélögunum og við þurfum að taka á því.
    Virðulegi forseti, ég hef kannski ekki tekið eftir öllum brtt. en ég sé hvergi þetta íþróttahús þarna suður í Kópavogi. Ég held það sé hvergi í þessum pappírum. Það er ekki nógu gott því að íþróttahúsið í Kópavogi átti ekki bara að vera íþróttahús fyrir einn leik sem ætti svo að rífa daginn eftir, eins og hæstv. forsrh. heldur. Það er ekki hugsað þannig, heldur áttu að verða margir leikir og mikil starfsemi í þessu húsi og íþróttahús eru satt að segja einhver allra merkilegustu menningarhús á Íslandi. Í íþróttahúsum er ævinlega lifandi félagsstarf frá því í rauða býtið á morgnana og langt fram á nætur. Ég er sannfærður um að þetta íþróttahús sem átti að byggja í Kópavogi hefði ekkert skorið sig úr í þeim efnum og þetta er góð fjárfesting, hún skilar arði í þjóðarbúið og það þurfa þeir miklu reglustiku- og talnafræðimenn að skilja sem virðast ráða öllu í pólitík í seinni tíð. Það er auðvitað ofboðslegt að bregðast þannig ungu fólki og öldruðu auðvitað líka með því að slátra þessu íþróttahúsi. Ég vona að svo verði ekki heldur að þetta sé eitthvert millbilsástand í þeim efnum. Ég sé að menn eru í einhverjum vandræðum þarna, sjálfsagt eins og venjulega með borgarstjórnaríhaldið í Reykjavík. Það er alltaf til vandræða og Reykjavíkurborg er reyndar að verða til skammar í íþróttamálum. Þannig er að ekki verður hægt að halda alþjóðlega leiki í fótbolta eftir fáein ár vegna þess að Laugardalsvöllurinn uppfyllir ekki skilyrði í sambandi við öryggi á áhorfendasvæðum. Þetta á að heita höfuðborg landsins og það er bersýnilega nauðsynlegt ef íþróttastarfsemin á að lifa í landinu að miðstöðvar hennar og þungamiðja verði flutt út úr þessu plássi hér vegna þess að borgarstjórnaríhaldið í Reykjavík hefur engan skilning eða metnað fyrir hönd íþróttastarfs í landinu. Það er kostulegt að besti frjálsíþróttavöllur á Íslandi er ekki í Reykjavík. Nei, hann er í kjördæmi hæstv. menntmrh. og hæstv. forseta og reyndar í hennar eigin sveit. Mosfellssveit hefur gert Reykjavík skömm til á þessu sviði og ég held að það sé alveg nauðsynlegt að sem allra flest sveitarfélög taki sig til og geri eitthvað í íþróttamálum, Mosfellssveit, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður, því að ef menn ætla að hafa þetta í höndunum á Reykjavík þá koðnar þetta allt niður og verður aldrei neinn myndarbragur á íþróttastarfsemi á Íslandi. ( Gripið fram í: Getur þetta ekki breyst hérna?) Í Reykjavík? Það er að vísu meiningin að breyta þessu strax vorið 1994 en það er of seint að byrja þá á því að fara í þetta með íþróttahöllina. Ég vil leggja á það alveg sérstaka áherslu að þessi litla tillaga um það að sýna menntmrh. það traust að hann geti tekið vel á móti íþróttafélögum er þess vegna flutt og ég tel hana mikilvæga tillögu og ekkert ómerkilegri en margar aðrar tillögur sem menn eru hér með.
    Þá hef ég mælt fyrir fáeinum brtt. um mennta- og menningarmál og íþróttir, virðulegi forseti, og hef lokið máli mínu.