Fjárlög 1992

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 16:48:00 (2413)


     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Mér þætti vænt um ef hæstv. forseti léti boða formann og varaformann fjárln. á þennan fund því að sú umræða sem hér fer fram hlýtur að skoðast nokkuð í ljósi þeirrar vinnu sem þeir hv. þm. hafa stýrt í fjárlaganefnd.
    Einnig þætti mér vænt um ef hæstv. fjmrh. yrði til kallaður því að ég leyfi mér að flytja tvær brtt. við það frv. sem er til umræðu.
    Með leyfi forseta vil ég fyrst kynna þá brtt. sem fjallar um ferðamál á Íslandi. Eins og menn vita er gert ráð fyrir því að viss hluti af tekjum þeim sem koma úr Fríhöfninni renni til ferðamála. Mikill misbrestur hefur orðið á því að svo hafi verið eins og gert er ráð fyrir, en hitt er þó staðreynd að íslenska þjóðin hafði um 11 milljarða kr. í gjaldeyristekjur af ferðamálum á seinasta ári. Það er eina greinin sem allir gera ráð fyrir að muni veita okkur meira í gjaldeyristekjur ár eftir ár til aldamóta ef við stöndum rétt að verki. Þá er það spurning: Er virkilega sparnaður að skera niður það fé sem ætlað er til að byggja upp þá þjónustustarfsemi sem nauðsynleg er svo hægt sé að láta greinina vaxa?
    Fyrsta atriðið sem verður að vera í lagi svo hægt sé að beina fjölmennum hópum til ákveðinna staða, hvort sem það er Gullfoss, Látrabjarg eða einhverjir slíkir staðir, er að sjálfsögðu að þar sé einhver salernisþjónusta. Í tengslum við þann mikla ferðamannastraum þarf að koma upp einhverri veitingaþjónustu og einhverri almennri upplýsingaþjónustu. Ég vil geta þess til fróðleiks að þeir sem hafa lagt það á sig að fara vestur á Látrabjarg og skoða það eru mjög sælir yfir því að hafa gert það, en bregðist það að þeir geti fengið staðfest skírteini um að þeir hafi komist á vestasta odda Evrópu finnst þeim að þeir hafi verið snuðaðir. Það er aldraður maður á Patreksfirði sem kom því kerfi upp að veita slík skírteini. Stundum er misbrestur á því og þá skilja þeir ekki hvað hefur gerst, þeim finnst að það sé verið að taka frá þeim rétt þeirra á því að það sé staðfest að þeir hafi komið

á þennan stað. Við getum haft ómældar fjárhæðir af slíkum náttúruperlum, sem þessi staður er, í framtíðinni hjá þeim sem eiga eftir að ferðast um þetta land og koma á þessa staði. En það gerist ekki nema menn setji fjármuni til að byggja upp lágmarksþjónustu.
    Ég verð að segja eins og er að þegar sumir tala um að of mikil örtröð sé komin á vissum svæðum á Íslandi og ekki sé hægt að beina fleiri mönnum inn á þessi svæði get ég vissulega tekið undir það undir sumum kringumstæðum. En hvers vegna ekki að fjölga stöðunum? Við eigum svo marga staði sem við getum vísað á. Er þá rökrétt að gera ráð fyrir því að við verjum 68 millj. kr. samtals til landkynningar og þessarar uppbyggingar þegar ættu að fara 184 millj. kr. samkvæmt þeim lögum sem Alþingi hefur samþykkt? Erum við í reynd að auka tekjur ríkisins með því að standa svona að þessu?
    Ég hef ávallt reynt að berjast fyrir því að skerðingin ætti sér ekki stað og alltaf talið að það hlyti að koma að því einhvern tímann að menn hefðu það sem ég mundi kalla það ,,bissnessvit``, að þeir sæju að þeir væru að skaða ríkissjóð með því að skerða þessi framlög. Ég er sannfærður um það að það sem aðrar þjóðir eru að gera, eins og t.d. Bretar, er það sem gert verður í framtíðinni hér á landi. Þeir hafa komið sér upp sérstöku víkingasvæði þar sem þeir fóru í uppgröft í York og þar hafa þeir leikara allt sumarið. Mikið af þessu er bara venjulegt fólk sem er sett í víkingaföt, látið vinna störfin sem víkingar unnu í sínum þorpum og staðurinn mokar inn peningum þannig að aðrir staðir á Humber-svæðinu öfunda mjög þennan stað af þeirri hugkvæmni að hafa farið út í þetta. Þangað streyma ferðamenn til að skoða þetta mannlíf.
    Þeir eru að glíma við það núna í Grimsby að byggja heilt hús sem á að vera minjahús um togaraútgerð þeirra við Ísland þar sem þeir vilja hafa vélarhljóðið af togurunum, það eru svalir sem rugga. Fiskilyktin og lyktin um borð í skipinu á að vera þarna einnig. Allt er þetta hugsað til þess að draga að fólk frá öðrum stöðum í Bretlandi til þess að reyna að selja sögu fiskveiðanna við Ísland og þeir trúa því að þetta verði arðbært.
    Ég spyr sjálfan mig: Hvers vegna látum við t.d. ekki þá sem sinna þjónustustörfunum á Þingvöllum og eiga að gæta þar að því að vissar reglur séu virtar vera ríðandi á hestum og notum okkur það að það er ekki bara uppi á punt sem t.d. Bretar hafa sinn lífvörð og láta hann vakka upp í þessum furðulega skrúða? Þeir vita að það er fjöldi ferðamanna sem mætir, tekur myndir, og lífvörðurinn hann er stórgróðafyrirbrigði. Hann er sýningaratriði í reynd. Það eru ekki bara Bretar sem gera þetta. ( GÁ: Hver á að ríða fyrir liðinu?) Ég játa það að mér verður nú hugsað til þingmanna Sunnlendinga þegar slíkt kemur upp. ( Gripið fram í: Eða Þingvallanefnd.) En ég veit að þetta verkar þannig á flesta Íslendinga að þeir telja að sá sem talar fyrir slíkum hugmyndum hljóti að vera orðinn eitthvað meira en lítið skrítinn.
    En ég spyr sjálfan mig: Af hverju er ekki sögusýning á Þingvöllum? Af hverju er ekki sögusýning höfð á þessum stað til þess að draga þar að ferðamenn? Hvers vegna teljum við það svo sjálfsagt að það sé nóg að benda á holtið, hálffallnar rústir þar sem lítið sést annað en móta fyrir hring og segja: Þarna var iðandi mannlíf, þarna var þessi starfsemi, og láta menn predika yfir útlendingum í hálftíma eða klukkutíma. Þetta er einfaldlega það sem framtíðin mun ekki gera. Hún mun reyna að glæða þetta í lífrænt form. Það gerist ekki nema með því móti að við áttum okkur á því að það er ekki sparnaður fyrir ríkið að skera niður þá upphæð sem ætluð er til ferðamála. Við erum að tapa peningum í virðisaukaskatt og mörgum öðrum sköttum með þessu tiltæki.
    Ég vil bæta því við að Sameinuðu þjóðirnar gera áætlanir um atvinnustarfsemi í heiminum til aldamóta. Hvaða atvinnustarfsemi er það sem þeir telja að muni taka við mestum mannafla til aldamóta? Það er ferðamannaiðnaðurinn. Það er ekkert sem þeir telja að taki við jafnmiklum mannafla. Við Íslendingar erum í sérstaklega góðri stöðu til þess

að gera þar stóra hluti. Það hefði þótt skop ef menn hefðu sagt það um aldamótin að við færum að selja vatn til útlanda. Við trúðum varla norska skáldinu sem sagði frá því að á erlendri krá hefði hann fyrst og fremst verið að hugsa um norska vatnið, vatn sem rennur, eins og hann sagði. Við trúðum því ekki að þetta yrði söluvara. Ég hefði ekki trúað því fyrir 10 árum að sjálfsalar seldu mönnum andrúmsloft í Tókíó og menn þyrftu að borga peninga til að fá þar hreint loft þegar svækjan væri að drepa þá. Allt þetta eru sölumöguleikar þjóðarinnar til atvinnusóknar. Í staðinn fyrir að menn setji á meiri ferð í þeim efnum þá hafa menn sameinast um það að hafa hér jarðarför, hafa hér minningarathöfn í öllum skjölum um álver sem ekki reis. Auðvitað eru það okkur vonbrigði að ekki skyldi takast að ná viðunandi samningum um álver og að sú vinna sem í það hafði verið lögð kemur ekki að gagni, í það minnsta ekki strax. Við verðum bara að taka því og ekkert þýðir að ætla að mynda einhvern grátkór sem eigi að messa yfir þjóðinni alla virka daga og segja: Af því það var ekki álver, af því það var ekki álver, af því það var ekki álver og láta svo alla hagfræðinga landsins reikna út hvað það þýði af því það var ekki álver. Þetta gengur bara ekki upp. Þjóð sem á slíka möguleika eins og við verður að gera sér grein fyrir því að það eru ekki þjóðirnar þar sem álverksmiðjurnar standa sem hafa hæstar meðaltekjur á mann. Sviss hefur löngum verið á toppnum. Hvað hefur Sviss? Er þetta náttúruauðugasta land Evrópu? Er þetta frjósamasta land Evrópu? Það er nú öðru nær. Þeir hafa treyst á mannvitið og ósnortna náttúru landsins. Þetta tvennt hefur fært þjóðinni meiri meiri fjármunalega farsæld en nokkrum öðrum. Vissulega hafa þeir komið upp bankakerfi og staðið sig vel á því sviði og ég get alveg tekið undir hugmyndir íslenskra fjármálamanna um að hér eigi að koma á slíkri þjónustu. Það er mjög jákvætt að þær hugmyndir skuli vera komnar fram. En það breytir ekki því að það er kolvitlaus stefna þegar kreppa og atvinnuleysi blasir við að ætla þá að fara að ráðast á þau litlu framlög sem við erum með til að efla ferðamál í landinu. Það dýpkar kreppuna. Sá ferðamannastraumur sem nú er um landið má með sanni segja að séu þær síldveiðar sem við stundum í dag miðað við þær síldveiðar sem voru á Norðurlandi á sínum tíma. Þótt við veiðum vissulega enn Suðurlandssíld þá er það lítið miðað við það sem þetta var í hlutfalli við okkar tekjur á sínum tíma.
    Ég hef þess vegna leyft mér að flytja þessa brtt. á þskj. 265 og ætla ekki að hafa lengra mál um hana, en hún gerir ráð fyrir því að fyrir 68 millj. kr. komi 184 millj. kr. Ég hef flutt hliðstæða tillögu í kaflanum sem fjallar um skerðingu sjóðanna í öðru lagafrv. þar um.
    Þá ætla ég að víkja að því máli sem tengist kannski að hluta til því starfi sem ég hef sinnt mest alla ævi og það snýr að nemendum í landinu. Það er nú einu sinni svo að við setjum lög um hátterni manna og ætlumst til þess að eftir þeim sé farið, en þetta gengur misjafnlega. Og ég hygg að það hafi orðið fleirum en mér orðið bylt við þegar ein af þingkonum Kvennalistans kom með þá fyrirspurn hversu margir nemendur á grunnskólaaldri flosnuðu upp úr skóla. Svarið var: Milli 200 og 300. En jafnframt að talan var óljósari fyrir þeim í menntmrn. en Skagfirðingum á sinni hrossaeign. Varð ég nú nokkuð hissa að það skyldi vera látið rokka jafnsvakalega. Það var einu sinni gert það grín að tölfræði ákveðins Íslendings vegna þess að hann lét velta á fimm og níu og taldi ekki skynsamlegt að vera með nákvæmara orðalag. En þetta hefur ekki verið reynt. Þrátt fyrir skylduna eru þessir nemendur að flosna upp úr skóla. Í þeim fjárlögum sem hér liggja fyrir erum við með framlög til stofnana sem eru kannski bein afleiðing af þessu. Við erum með framlög Vernd barna og ungmenna, við erum með framlög til barnaverndaráðs, til Meðferðarheimilisins að Tindum og Unglingaheimilis ríkisins. Unglingaheimili ríkisins tekur í rekstur, bæði frá sveitarfélögum og ríki, samtals 77 millj. kr. og þar af er ríkið með um

42 millj. kr. Meðferðarheimilið að Tindum sem er rétt risið tekur um 50 millj. kr. og þá er það spurning: Er það ekki einhvers virði að reyna að skilgreina þetta vandamál fyrr og reyna að bregðast við því? Hvers vegna flosna nemendur upp úr skóla? Eru þetta allt óknyttaunglingar sem engu tauti er komandi við eða er eitthvað annað sem getur komið til? Því miður er það staðreynd að verulegur fjöldi unglinga verður fyrir einelti í skóla. Hópurinn leggst á þessa unglinga alveg eins og hrafnar leggjast á hvítan hrafn. Stór hluti harkar af sér og sigrar en samt er talið að 30--40 nemendur minnst flosni upp úr skóla af þessari ástæðu. Það þýðir ekkert að hafa það í grunnskólalögum að þetta vandamál skuli leyst á staðnum. Það er setið fyrir þessum nemendum á leiðinni í skólann, það er setið fyrir þeim á leiðinni úr skólanum og þau eru tekin fyrir og hædd og hrakin einnig innan veggja skólans. Þau hafa gefist upp og þeim er það martröð að ætla að mæta á þessum vinnustað.
    Ég tel að á þessu verði ekki tekið nema nemendur eigi kost á því að sækja skólavist í heimavistarskólum þar sem mjög mikið eftirlit er haft með því hvort þeir fá óáreittir að stunda nám sitt. Ég tel að íslenskt samfélag geti ekki komið sér undan því að horfa á þetta. Alþingi samþykkti þáltill. vegna þess að það var sama sinnis og með leyfi forseta vil ég lesa upp þá þáltill. sem var samþykkt 12. mars 1991. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að koma á fót samstarfshópi á vegum ráðuneyta og sveitarfélaga til að gera tillögur um samræmdar aðgerðir sem miði að því að aðstoða ungmenni sem flosnað hafa upp úr skóla. Samstarfshópurinn fjalli einnig um sameiginlegar forvarnir gegn þessum vanda.
    Samstarfshópurinn verður skipaður fulltrúum tilnefndum af dómsmála-, félagsmála-, menntamála- og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, stærstu sveitarfélögunum og Sambandi ísl. sveitarfélaga.
    Samstarfshópurinn skili niðurstöðum fyrir árslok 1991.``
    Sem sagt tillögurnar áttu að liggja fyrir núna. Það var vilji Alþingis. Það var líka vilji Alþingis í beinu framhaldi af því að inn í þessi fjárlög yrðu einhverjir peningar settir til þess að takast á við þetta vandamál.
    Ég tel að sú tillaga sem ég flyt hér á þskj. 346 um að sett verði inn á heimildargrein að verja allt að 20 millj. kr. til að tryggja skólagöngu þeirra ungmenna á grunnskólastigi sem flosnað hafa upp úr skóla sé í beinu framhaldi við það sem hér er rætt um. Meðflutningsmenn að þessari brtt. eru hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir. Þetta er heimildargrein.
    Þeir atburðir gerðust vestur á fjörðum í sumar að skóli sem í erfiðri aðstöðu hafði sinnt þessum verkefnum að einhverju leyti varð fyrir barðinu á þeim sem reiknuðu út hvað það kostaði að hafa nemanda í skóla og hann kom út sem mjög dýr stofnun. Það er vissulega rétt. Hann kom aftur á móti sem ódýr stofnun ef við bárum þetta saman við Unglingaheimilið eða við berum þetta saman við Tinda. En engu að síður vaknar sú spurning hvort hægt sé með skipulögðum hætti að nota þann skóla og ég vil þakka hæstv. formanni fjárln. fyrir þau orð sem hann hefur látið falla í sinni ræðu um það að það mál verði skoðað. Það verður að sjálfsögðu að koma í ljós hvort hann hentar undir þessa starfsemi eða ekki, en þar er aftur á móti húsakostur til staðar til að hægt sé að sinna þessu. Sú nefnd sem ætlunin er að hæstv. menntmrh. skipi og ég veit að hann mun skipa og tryggja það að hún skili nál. sínu, er ætlað að skila áliti sínu í maí. Mér finnst þess vegna að það sé rökrétt að gera ráð fyrir því að inn í fjárlögin komi heimild sem geri það að verkum að ef það nál. sem átti að vera komið núna og það nál. sem kemur í maí falla á einhvern hátt saman þá séu til peningar til að takast á við þennan vanda.

    Ég hef, herra forseti, gert grein fyrir þessum tveimur brtt.
    Þá vil ég víkja að því máli sem var það stærsta mál sem ég barðist fyrir í breytingum á málum í fjárveitinganefnd meðan ég átti þar sæti. Það var spurningin um það að ríkisreikningur væri með sömu upphæðum og fjárlög plús fjáraukalög hvers árs. Þarna kæmi sama upphæð, þetta mundi stemma. Ég veit að það var verið að þrengja að ráðherrum, þeir vildu hafa frelsi til þess að veita aukafjárveitingar út og suður. Blöðin hafa verið að gera grein fyrir þessu hvert þetta hefur farið hjá sumum stofnunum. Mér skilst að komið hafi fram í meiri hlutanum að ákveðinn ráðherra, að þeirra mati, hafi farið út fyrir sínar heimildir. Ég vil vekja samt á því athygli að varaformaður fjárln., sem landbrh. á sínum tíma, leysti til sín eignir á ákveðinni jörð, sem mér er kunnugt um, og ábúandinn sat áfram. Ég tel að allar hugmyndir um að nú sé nóg að finna einn sem mönnum finnst að hafi ekki farið rétt að og hengja hann, sé að sigla fram hjá aðalatriði málsins. Það kom fram hjá hv. formanni fjárln. að hann taldi nokkurs virði þá mótspyrnu sem Ásbjörn nokkur Jóakimsson hafði sýnt er honum hafði verið ætlað að flytja mann yfir Skerjafjörð og gerði raunverulega Íslandsklukkuna að bók fjárlagaumræðunnar. Nú hefur hv. formaður fjárln. flutt til þingsins tillögur sínar og gerst flutningsmaður fyrir valdhafana inn í Alþingi Íslendinga eitt og annað. Spurningin er bara þessi: Láta þeir sér nægja það sem hann hefur flutt viljugur hingað inn, eða stendur hæstv. formaður fjárln. frammi fyrir því um næstu jól að þeir hafa ekkert mark tekið á þeim heimildum sem hann var að veita og mokað út peningum svo skiptir hundruðum milljóna? Menn hafa mokað út milljörðum í aukafjárveitingum. Og hvað er þá til ráða?
    Með leyfi forseta vil ég minna á ákveðinn kafla í Íslandsklukkunni þegar Jón Hreggviðsson er búinn að ná því langþráða marki að geta borið upp mál sitt við Arnas Arnæus og fær það svar sem honum þótti skrítnast á lífsleiðinni þegar bókasafnarinn mikli brosir við og segir, með leyfi forseta:
    ,,Í þínu máli má einu gilda um Jón Hreggviðsson sagði Arnas Arnæus og brosti.
    Ha, sagði Jón Hreggviðsson.
    Þitt mál kemur þér sjálfum lítið við Jón Hreggviðsson. Það er miklu stærra mál. Hverjum er að borgnara þó höfuð eins betlara sé leyst? Ein þjóð lifir ekki af náð.
    Sá er eldurinn heitastur sem á sjálfum brennur, sagði Jón Hreggviðsson. Ég veit það þótti ekki skörulegt í fornöld að biðjast griða, en hvaða afl hefur einmana betlari til að berjast um líf sitt við gervallan heiminn?
    Arnas Arnæus virti enn vandlega fyrir sér þennan mann sem hafði verið strýktur á Kjalardal, járnaður á Bessastöðum, dæmdur við Öxará, barinn á þjóðvegum Hollands, sendur í gálga af þýðverskum, settur í spænska treyu útí Lukkstað, og sat nú hér gestur hans við hliðina á stígvélinu sínu, stígvéli kóngsins, og vildi lifa.
    Hafi þínu máli verið rángturnað, sagði Arnas Arnæus, þá er einlægast þú gángir sjálfur fyrir konúng og berir munnlega fram við hann þína súpplíkk um nýa stefnu og aðra upptöku málsins. Konúngur kann því ekki illa að sjá í andlit þegna sinna og leysir fúslega og með góðsemi þeirra erindi ef honum virðist þar grundvöllur til. En blandið mér ekki í þessi mál. Því það er aungu bjargað þó ég bjargi þér. Og öllum til ils að ég biðji um smátt í þeim stað.``
    Nú vil ég mælast til þess við hv. formann fjárln. að hann falli ekki í þá gryfju og biðji um smátt varðandi afgreiðslu fjárlaga og þau mál, heldur að hann beini kröftum sínum að því að endurflytja frv. til laga um greiðslur úr ríkissjóði. Þetta var flutt á sínum tíma eftir mikla baráttu í fjárveitinganefnd þar sem menn börðust fyrir því að fjárlögin yrðu virt. Og þeir sem þá sátu í neðri deild Alþingis fluttu frv. undir forustu síns formanns. Þeir sem voru í efri deild voru stuðningsmenn þess þó þeir gætu að sjálfsögðu ekki verið flutningsmenn. En hér stendur í 1. gr. sama og stendur í stjórnarskránni, með leyfi forseta:
    ,,Greiðslu úr ríkissjóði má ekki inna af hendi nema heimildar til hennar sé aflað fyrir fram í fjárlögum eða fjáraukalögum fyrir hvert reikningsár, sbr. þó 8. gr.``
    Þetta þýðir í reynd að það sem er ekki sækjanlegt á hendur ráðherrum nema fyrir landsdómi er sækjanlegt á hendur þeim með venjulegri málsókn eftir þetta og hver og einn getur tekið það upp. En til þess að sækja mál á hendur þeim í gegnum landsdóm þarf meiri hluti alþingismanna að fallast á slíkt. Meiri hlutinn ver þá ríkisstjórn sem situr, hver sem hún er og samþykkir ekki að ráðherrar hennar séu sóttir. Landsdómur gengur því í reynd ekki upp í framkvæmd nema þá að skipt hafi verið um ríkisstjórn, helst í tengslum við kosningar.
    Seinasta atriði þessarar greinar þar sem sagt er sbr. þó 8. gr., er að sjálfsögðu ekki í stjórnarskránni. Það er engin undanþága til í stjórnarskránni fyrir þessu ákvæði. Og þing sem taka störf sín alvarlega eins og bandaríska þingið stendur fast á þessu ákvæði. Þeim dytti aldrei í hug að afgreiða fjárlög eins og við erum að gera hér án þess að líka væri tekið fram hverjar væru heimildir ríkissjóðs til yfirdráttar í bandaríska seðlabankanum. Þar er sett hámark. Forseti Bandaríkjanna hefur ekki heimild til að tékka út eins og honum sýnist. Ef hann sér ekki um að ná inn peningunum samkvæmt því sem ákveðið hefur verið þá verður hann að stöðva greiðslur hvort heldur það eru laun eða annað. Og það er harka í þessu. Harkan er slík að embættismenn forsetans, sem sáu fram á það að forsetinn gat ekki komið fram vilja sínum við að aðstoða kontraskæruliða, féllu í þá freistni að selja hergögn til að fá peninga og láta kontraskæruliðana hafa og þeir voru dæmdir. Og forsetinn slapp hálf --- ja, slapp og slapp ekki, bar við minnisleysi og að hann hefði ekki vitað um þetta. Má vera að það sé satt. Ég ætla ekki að dæma um það. En ef hann hefði sagt: Ég lét framkvæma þetta, þá hefði hann verið dæmdur sem sakamaður af hæstarétti Bandaríkjanna. Haldið þið að við Íslendingar hefðum þurft að standa í svona löguðu hefðum við haft hernaðarráðuneyti? Nei, hér hefðu menn bara látið fara út aukafjárveitingu. Og það er þetta mál sem er svo stórt að öll önnur eru smámunir. Ef Alþingi Íslendinga nær ekki þeim aga gagnvart framkvæmdarvaldinu að hægt sé að stöðva það að menn borgi miskunarlaust út í heimildaleysi. Ef það er ekki hægt að stöðva það þá er öll vinna hjá hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni einskis virði, hann hefði eins getað sofið heima í sínu rúmi í Keflavík allan þennan tíma sem hann hefur verið að puða í fjárln. Þá hefði hann bara þurft að láta samþykkja greiðsluheimild til ríkisstjórnarinnar og látið svo gá að því yfir jól hvað þeir væru búnir að eyða miklu. Þannig stendur nú málið. Og nú er það spurning hvort hann skilur það sem Jón Hreggviðsson skildi aldrei, að hans mál væri eitthvert aukaatriði í þessu sambandi. Jóni fannst það nokkuð hart, ég viðurkenni það, að bókasafnarinn teldi það engu skipta hvort höfuð eins betlara yrði látið fjúka. Og framkvæmdarvaldið telur að það skipti ekki miklu máli þó höfuð eins formanns fjárln. sé látið fjúka og hans verk troðið niður í svaðið sem einskis vert afrek. En ef Alþingi Íslendinga samþykkir þetta frv. er komin upp sú staða að hver og einn þingmaður getur krafist þess af Ríkisendurskoðun að hún greini frá því í skýrum texta: Það var óheimilt að greiða þessa greiðslu. Þessi greiðsla var ekki greidd samkvæmt heimildum fjárlaga eða fjáraukalaga og þá hefur þingið komist í sömu aðstöðu og bandaríska þingið að það getur haldið ráðherrunum við þær staðreyndir sem Alþingi Íslendinga hefur samþykkt. Ég tel að þar sem hv. þm. Pálmi Jónsson gerðist flm. að þessu máli á sínum tíma, frv. til laga um greiðslur úr ríkissjóði, geti núv. hv. formaður fjárln. treyst því að hann hafi hans stuðning. Og að sjálfsögðu mun hann hafa stuðning þeirra óbreyttu sem á sínum tíma báru þetta mál upp. Og þetta er þá stóra málið sem ekki má láta liggja.
    Ég gæti haft hér langt mál um margt sem ég er ósáttur við í þessum fjárlögum. En

það er nú einu sinni svo að starfandi meiri hluti hlýtur að stilla upp fjárlögunum eins og hann telur skynsamlegast á hverjum tíma. Og starfandi meiri hluti hefur allan rétt til að hafa rangt fyrir sér í þeim efnum, allan rétt til þess. En minni hlutinn á aftur á móti skýlaust þann rétt að farið sé eftir fjárlögunum. Þau séu ekki bara einskisvert pappírsgagn. Meiri hlutinn sömuleiðis. Alþingi Íslendinga þarf að sameinast, hvort sem menn eru stjórnarsinnar eða í stjórnarandstöðu, til að ná þessu fram. Þótt margt sé skemmtilegt til aflestrar í Íslandsklukkunni ætla ég að láta hjá líða að vitna frekar í hana. Einnig að láta hjá líða að lengja þetta mál, en vona að mönnum sé ljóst að það sem ég hef verið að segja hér um þessi mál er annars vegar í tengslum við það sem hefur lengi verið mitt áhugamál að fá niðurstöðu varðandi reglur í þessum efnum og hins vegar að tala fyrir þeim tveim brtt. sem ég hef flutt við þetta frv.