Fjárlög 1992

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 17:28:00 (2414)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til fjárlaga fyrir næstkomandi ár. Eins og gefur að skilja spannar það frv. og hefur áhrif á flest svið þjóðlífsins og tekur á flestu því sem uppi er í þjóðlífinu. Af eðlilegum ástæðum eru álitaefnin og ágreiningsefnin því mörg sem eru á milli manna og flokka um þetta mál.
    Ég hef, virðulegur forseti, ekki fram til þessa tekið til máls í umræðum um þetta frv. eða um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum árið 1992 sem er í raun og veru viðtengi fjárlagafrv. Ég hef aðeins sagt nokkur orð um frv. um tekjuskatt og eignarskatt. Ég vil því gera grein fyrir afstöðu minni til helstu mála sem varða þær ákvarðanir sem menn eru að taka fyrir næstkomandi ár í hinum ýmsu málaflokkum.
    Ég vík fyrst að sjávarútveginum. Það er öllum kunnugt hvílíkir erfiðleikar eru í sjávarútvegi og því kemur verulega á óvart að í þessu frv. til fjárlaga og reyndar öðrum frv. skuli vera ýmsar nýjar álögur á þessa atvinnugrein á sama tíma og stjórnvöld eru að reiða það fram sem helstu rök fyrir ýmsum hörðum aðgerðum af þeirra hálfu að hér sé aflasamdráttur sem menn verði að bregðast við með ákveðnum hætti. Slíkur samdráttur bitnar auðvitað fyrst og fremst á sjávarútveginum þar sem um er að ræða verulegan samdrátt í afla á yfirstandandi fiskveiðiári frá því sem verið hefur á síðasta ári og reyndar undanförnum árum.
    Eins og fram hefur komið fyrr í haust hér á hinu háa Alþingi er þessi atvinnugrein ákaflega illa í stakk búin til að taka á sig þær auknu álögur sem ráð er fyrir gert. Einnig hefur það verið upplýst að skuldir sjávarútvegsins námu um síðustu áramót, fyrir tæpu einu ári, um 84 milljörðum kr. þannig að það er ljóst að skuldþol atvinnugreinarinnar í heild er ekki meira, ef það er þá ekki þegar komið yfir þau mörk sem menn geta staðið undir. Mönnum er það líka ljóst að burðarásar í mörgum byggðarlögum landsins, sjávarútvegsfyrirtækin, standa nú um þessar mundir á barmi --- ja, gjaldþrots getum við jafnvel sagt í mörgum tilvikum þar sem skuldir eru orðnar gífurlega miklar. Þegar veiðiheimildir eru skertar eins og raun ber vitni er torvelt að finna út úr því hvernig hægt verði að standa undir skuldbindingunum. Sú staða sem blasir við í fjöldamörgum sveitarfélögum á landsbyggðinni hefur orðið til þess að sveitarstjórnir eru í æ ríkari mæli að koma inn í þennan rekstur til að tryggja áframhald þeirra fyrirtækja eða að stofna önnur fyrirtæki sem taka við af þeim sem gefast upp. Með þessu móti eru sveitarfélögin að taka á sig gífurlegar byrðar til þess eins að tryggja þann grundvöll sem menn standa á í þessum byggðarlögum og lífsafkomu fólks. Því vekur það einnig undrun að stjórnvöld skuli áforma að leggja nokkuð miklar byrðar á sveitarfélögin við þessar kringumstæður.
    Þá er það fram undan, samkvæmt þeim spám sem fram hafa komið frá virtum stofnunum eins og Þjóðhagsstofnuna, að atvinnuleysi muni aukast á næsta ári í einkum og sér

í lagi í kjölfar þessa aflasamdráttar. Auðvitað mun það atvinnuleysi fyrst og fremst bitna á verkafólki í sjávarútvegi og því kemur það eins og högg framan í launafólk að áform skuli vera um að skerða verulega þau réttindi sem það á til launagreiðslna í atvinnuleysi. Stjórnvöld hafa á undanförnu hausti líka lagt ríka áherslu á að menn þyrftu að hagræða ekki aðeins í sjávarútvegi heldur þyrftu sveitarfélög að sameinast og fyrir því hefur verið farin nokkuð mikil áróðursherferð. Það er dálítið á skjön við þá áherslu að ætla sér svo að draga úr framlögum til vegamála eins og ráð er fyrir gert í fjárlagafrv. Því eins og mönnum er væntanlega ljóst eru samgöngubætur það sem einna helst dugar fólki á landsbyggðinni til að snúa bökum saman, auka afl sitt til að geta staðið á móti þeirri þróun sem verið hefur í byggðamálum. Ég tel því að samdráttur og niðurskurður í vegaframkvæmdum sé ákaflega óskynsamlegur, ekki bara út frá mínu sjónarmiði heldur einnig út frá pólitískum áherslum stjórnvalda.
    Þá er þess að geta í sambandi við áherslur í vegamálum, sem fram hafa komið, að einkum munu stjórnarliðar beina sjónum sínum að Vestfjarðagöngum. Áform er um og tillögur komnar fram um að hægja á því verki um sem svarar einu ári frá upphaflegri áætlun. Ég vil mótmæla harðlega öllum hugmyndum í þá veru að hreyfa við þessu verkefni, hvort heldur það er með því að hægja á framkvæmdum eða að sleppa tilteknum hluta þeirra og fresta þeim um eitt ár. Ég tel að hér séu í raun og veru ekki um boðlegar tillögur að ræða sem lagðar hafa verið fram og ég tel að áform af þessu tagi séu síst til þess fallin að auðvelda okkur að ná saman um skynsamlega stefnu í byggðamálum eins og nauðsynlegt er eins og horfurnar eru í hinum ýmsu byggðarlögum um land allt um þessar mundir.
    Ég vil því, virðulegur forseti, þessu næst aðeins minnast á launamálin. Gert er ráð fyrir í þessu fjárlagafrv. að laun muni ekki hækka á næsta ári heldur í raun verði kaupmáttarrýrnun. Það eru heldur engar væntingar að sjá út úr þeim tillögum, sem er að finna í fjárlagafrv. og skyldum frv., um að áform séu til tekjujöfnunar í samfélaginu. Þvert á móti eru ýmsar tillögur sem fram eru komnar, eins og skerða sjómannafslátt, einungis til þess fallnar að auka mismun á milli hópa. Ég minni á að sjómannaafslátturinn er krónutöluafsláttur sem nýtist lágtekjusjómönnum betur en hátekjusjómönnum og ætli menn að skerða þann afslátt verður það þyngra högg fyrir lágtekjusjómenn en hina betur settu og eykur því hlutfallslega þann mun sem er á milli þessara hópa.
    Ég vil einnig lýsa furðu minni á þeirri afstöðu sem fram kemur af hálfu ríkisvaldsins í þeim viðræðum við launþegasamtökin sem fram hafa farið á undanförnum vikum þar sem fram hefur komið afstaða ríkisstjórnarinnar í launamálum og til tekjujöfnunar í þjóðfélaginu. Ég er hér einmitt með undir höndum dreifibréf sem samninganefnd ríkisins sendi sínum viðsemjendum nú fyrir skömmu þar sem fram koma viðhorf ríkisstjórnarinnar og ríkisvaldsins til kjaramála á næstkomandi missirum. Þar er ýmislegt sem verður manni til undrunar og rökstyður þá skoðun sem ríkt hefur verið að enginn vilji sé til þess af hálfu núv. stjórnvalda að stuðla að því að jafna lífskjör í þjóðfélaginu.
    Ég bendi hér á sem dæmi um þetta að í þessu bréfi sem ég er að vitna til, atriði nr. 21, segir hér, með leyfi forseta: ,,Að samninganefnd ríkisins bendir á varðandi umræðu um breytta tekjuskiptingu milli launþegahópa að hér er fyrst og fremst um að ræða innra vandamál stéttarfélaganna.`` Þetta er mjög athyglisvert sjónarmið að líta svo á að hér sé ekki um að ræða vandamál sem aðrir en stéttarfélögin sjálf eiga að taka á. Með þessu er ríkisvaldið að segja að það ætli ekki að skipta sér af þessu og í raun og veru komi því þetta ekkert við og vilji ekki gera neitt til þess að draga úr tekjumismun á milli einstakra þjóðfélagshópa.
    Síðar segir enn fremur, sem mér hefur orðið nokkurt undrunarefni, í þessum sama

lið, 21, með leyfi forseta: ,,Að samninganefnd ríkisins getur ekki við núverandi aðstæður bent á þá hópa launþega sem ættu hlutfallslega að lækka í launum til hagsbóta lægra launuðum starfsmönnum ríkisins.``
    Ja, hér er mikið ráðaleysi á ferð ef samninganefndin getur ekki fundið neina tekjuhópa í þjóðfélaginu sem mætti láta borga meira en þeir gera í dag og ekki aðeins til ríkissjóðs heldur til þess að dreifa tekjum frá hinum hærri til hinna lægri, þ.e. tekjujöfnun. Ég get satt að segja ekki með nokkru móti skilið þessa hugsun sem fram kemur af hálfu samninganefndar ríkisins í þessu atriði. Það er ýmislegt fleira í þessu plaggi sem skýrir afstöðu ríkisvaldsins til kjaramála og starfsmanna ríkisins. Það er margt sem verður ekki sagt að lýsi neinum vilja til að halda uppi góðum samskiptum við launþega í landinu ellegar að semja við þá um kaup og kjör með það að leiðarljósi að tekjujöfnun sé markmið.
    Ég vil víkja frá þessu plaggi að sinni sem lýsir afstöðu ríkisvaldsins í kjaramálum og kem e.t.v. að því síðar í ræðu minni því ég tel að á ferðinni sé mjög athyglisvert plagg sem á fullt erindi til þingheims til að skýra afstöðu ríkisstjórnarinnar í þessum málum sem auðvitað eru ævinlega hornsteinn og grundvöllur að allri áætlanagerð í sambandi við fjárlög og stefnumótun ríkisstjórnarinnar í hinum ýmsu málum sem snerta fólk í þjóðfélaginu. Ég vil líka aðeins víkja að breytingum sem áformaðar eru um að leggja byrðar á sveitarfélög í landinu umfram það sem áður var um samið. Ég tel hér um að ræða alveg forkastanleg vinnubrögð af hálfu stjórnvalda, að hafa nú tæpum tveimur árum eftir að ríkisvaldið og sveitarfélögin sömdu um verkaskiptingu og tekjuskiptingu sín í milli einhliða lagt fram tillögur til að breyta þessu og það á þann veg að færa aukinn kostnað af ríkissjóði og yfir á sveitarfélögin. Þetta er náttúrlega með slíkum fádæmum að ég er hræddur um að Sjálfstfl. sem nú situr í ríkisstjórn hefði eitthvað látið í sér heyra hér á Alþingi ef hann hefði verið í stjórnarandstöðu og slíkar tillögur hefðu komið fram.
    Ég minni á að auðvitað er það meginskylda stjórnvalda að ræða við og semja við þá aðila sem helst koma að þeim málum sem ríkisstjórn á hverjum tíma hefur uppi áform um að breyta. Það var ekki gert í þessu tilviki nema að mjög óverulegu leyti og satt að segja finnst mér það ekki vera mjög heiðarlegt að ræða við sveitarfélögin um ákveðna hluti sem fram komu, að þau tækju á sig eins og 3,5% af kosntaðarverði íbúðarhúsnæðis sem byggt er í félagslega kerfinu, hækkunina á gjaldskrá Fasteignamats ríkisins, sem í raun og veru er að mestu leyti greidd af sveitarfélögum. Á sama eru menn með hugmyndir til viðbótar án þess að greina sveitarstjórnum frá því í þeim viðræðum sem þó fóru fram um hin atriðin. Þetta finnst mér með slíkum endemum að ég minnist þess ekki að hafa heyrt þess getið fyrr að svona samskipti ættu sér stað milli ríkisvalds og sveitarfélaganna.
    Ég vil minna á það sem lá raunverulega til grundvallar þeim samningum sem gerðir voru fyrir þremur árum, ef ég man rétt, um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Þar voru ákveðin viðhorf að baki, ákveðnar röksemdir sem menn gengu út frá þegar var komist var að niðurstöðu í þessum málum. Í fyrsta lagi var gengið út frá því sem staðreynd að þessi breyting yrði að færa sveitarfélögum, sér í lagi fámennum kaupstöðum, auknar tekjur. Á þeim tíma lá fyrir að af tæplega 30 kaupstöðum á landinu voru níu kaupstaðir sem höfðu ekki tekjur fyrir rekstrarútgjöldum. Og auðvitað er ekki hægt að búa þannig að sveitarfélögum, sem eru í raun og veru ákveðinn hornsteinn í þessu þjóðfélagi, að þau sé ekki hægt að reka með sómasamlegum hætti ef þau reyna að uppfylla þær skyldur sem löggjafarvaldið hefur sett á þau gagnvart íbúum sveitarfélagsins.
    Í öðru lagi var sú hugmyndafræði að skipta verkefnum á milli aðila með hreinum hætti, ef svo má segja, þ.e. að það væri sami aðili sem tæki ákvörðun um útgjöld og rekstur og bæri ábyrgð á málinu einnig. Mönnum þótti það ekki hafa gefist vel að annar aðilinn sæi um þjónustuna og rekstur á henni, tæki ákvarðanir sem leiddu til útgjalda, en hinn

aðilinn, ríkisvaldið, borgaði. Því var sú hugmyndafræði höfð að leiðarljósi, að greina þetta vel og rækilega í sundur þannig að saman færi ákvörðun um útgjöld og ábyrgð teknamegin. Þannig var t.d. heilsugæslan flutt af hendi sveitarfélaga yfir til ríkisvaldsins svo að heilbrigðisþjónustan væri þá öll ríkismegin í þessum málaflokki og sveitarfélögin tóku að sér að reka grunnskólakerfið, tóku það allt á sig að undanskildum launum kennara. Fleiri dæmi má nefna sem einmitt voru afleiðing af þessari hugmyndafræði um verkaskiptingu þessara tveggja stjórnsýsluðaila.
    Það sem verið er að gera hér er að ganga gegn þessum hugmyndum nánast fullkomlega, þ.e. annar aðilinn, ríkisvaldið, ákveður einhliða að láta hinn aðilann borga hluta af þeim kostnaði sem ríkisvaldið tók að sér að greiða. Ég vil því fá rökstuðning frá hæstv. ríkisstjórn, sér í lagi hæstv. félmrh., fyrir þessari grundvallarbreytingu af hálfu ríkisstjórnarinnar í samskiptum milli ríkis og sveitarfélaga. Ég tel að hæstv. ráðherra verði að færa rökstuðning fyrir þeirri skoðun sinni að þetta sé ákjósanleg leið eða a.m.k. hvers vegna þetta er sú tillaga sem stjórnvöld leggja fram. Það er ekki nægjanlegt að hafa það sem rökstuðning að ríkissjóð vanti tekjur, menn þurfa líka að geta rökstutt það með sæmilegum hætti hvers vegna nákvæmlega þessi leið var lög til. Og ég óska eftir því, virðulegi forseti, af því að svo háttar til að nú situr sami félmrh. og var þegar samið var við sveitarfélögin um breytta verkaskiptingu að hæstv. félmrh. geri rökstudda grein fyrir þessari afstöðu. Hvers vegna nákvæmlega þessi leið er valin því að ég tel að út frá öllum þeim rökstuðningi, sem menn höfðu og komu sér niður á, báðir aðilar, ríki og sveitarfélög, um hina hreina verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga, þá verði ríkisvaldið að koma með rökstuðning fyrir því að sú leið hafi þá ekki gengið upp fyrst að hér er lagt til að breyta út af. Því tel ég nauðsynlegt að ræða einmitt þetta atriði því með þessum sama rökstuðningi sem væntanlega liggur hér að baki þá verðum við að rífa upp öll önnur samskiptamál milli ríkis og sveitarfélaga og þar með talin öll þau verkefni sem menn áður höfðu komist að niðurstöðu um að annar aðilinn ætti að hafa að öllu leyti og hinn ekki.
    Og því spyr ég: Getur það þá gerst að komist verði að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt sé að ríkisvaldið taki þátt í að greiða útgjöld vegna skólakerfisins, svo eitthvað sé nefnt, ef það er skynsamlegt af hálfu ríkisstjórnarinnar að sveitarfélögin taki þátt í að greiða útgjöld vegna löggæslu? Getur það verið skynsamlegt, með sömu rökum, að ríkisvaldið taki þátt í því að greiða kostnað vegna reksturs leikskóla og dagvistarheimila sem eru á hendi sveitarfélaga?
    Ég spyr, virðulegur forseti, er hæstv. ráðherra í húsinu? ( Forseti: Samkvæmt viðveruskrá virðist hæstv. ráðherra vera í húsinu en eins og hv. þm. veit standa yfir fundir stjórmálamanna þannig að ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra getur komið hér en það skal kannað.) Já, það væri ágætt ef forseti gæti kannað það. Ég held þá bara áfram og geymi aðeins um sinn að ræða samskipti ríkis og sveitarfélaga sem ég tel nauðsynlegt að menn færi frekari rök fyrir af hálfu stjórnvalda því það getur leitt af sér verulega uppstokkun í þeim málaflokkum frá því sem menn komu sér niður á fyrir tveimur árum. ( Forseti: Forseti vill upplýsa hv. ræðumann um það að félmrh. er því miður upptekinn á flokksfundi hér í húsinu og getur ekki komið að þessu sinni.) Ég þakka forseta fyrir upplýsingarnar. Ég mun þá geyma þennan málaflokk um stund og vík að öðrum málum.
    Ég vil aðeins koma aftur að því sem ég gat um í inngangi, þ.e. að sjávarútvegi. Það hefur komið fram í máli hæstv. forsrh. um þá atvinnugrein að það þurfi duglega að taka til hendinni þar og að þar standi menn misjafnlega vel að verki, eða misjafnlega illa, ef maður leggur út af orðum hæstv. forsrh. og um sé að ræða gífurlega offjárfestingu í atvinnugreininni sem meira og minna sé að sliga þetta þjóðfélag og áhrif þeirrar fjárfestingar skili sér inn í ríkisbúskapinn og torveldi mönnum að sækja þær samfélagslegu tekjur sem að öðrum kosti væri unnt að skila inn í ríkissjóð.
    Ég vil, til þess að það komist rækilega á framfæri, andmæla þessari ofuráherslu á offjárfestingu í sjávarútvegi. Ég tel að hún sé ekki með neinum slíkum hætti að það standi undir fullyrðingum eins og þarna hafa verið settar fram, m.a. í framsöguræðu hæstv. forsrh. um frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum árið 1992 sem óhjákvæmilega tengist umræðu um fjárlög. En þar sagði hæstv. forsrh. að um væri að ræða mikla fjárfestingu í sjávarútvegi sem væri aðalástæðan fyrir erfiðleikum þar, svo að ég dragi saman í örfá orð sem þar kom fram. Ég vil láta það koma skýrt fram að til eru opinber gögn um fjárfestingu í einstökum atvinnugreinum og þau bera það ekki með sér að unnt sé að rökstyðja þessa fullyrðingu. Auðvitað tek ég að sumu leyti undir það og vil taka það fram að það má vissulega finna dæmi þess að hægt væri að komast af með minni fjárfestingu og menn gætu sameinast um rekstur á einhverjum stöðum og lagt af sér tiltekna fastafjármuni. En það er ekki í það ríkum mæli að það hafi þau afgerandi áhrif sem af er látið. Og ef menn ætla að ganga til hins ýtrasta á þeirri brautinni eru menn farnir að tala um að umbylta búsetumynstrinu í landinu og ég er hræddur um að þá yrðu háar upphæðirnar sem þjóðarbúið yrði að afskrifa í fjárfestingum, í íbúðarhúsnæði og öðru slíku sem tilheyrir búsetu manna. Þannig að ég held að menn megi ekki fjalla um offjárfestingu með því hugarfari að búseta, eins og hún hefur þróast, hafi ekki nein áhrif þar á og skipti ekki neinu máli.
    Ég vil nefna varðandi heildarfjárfestingu í sjávarútvegi að fram kemur í bók, sem dreift var til alþingismanna fyrir nokkrum vikum og heitir Fjárfesting 1945--1989, frá Þjóðhagsstofnun, gefin út í júní á þessu ári, í töflu 7.11 á bls. 129 að á síðasta ári, sem upplýsingar eru um, árinu 1989, hafi heildarfjárfestingin í þjóðarbúinu verið um 850 milljarðar kr. Þar af er fjárfesting í fiskveiðum ekki nema 49 milljarðar og í fiskiðnaði ekki nema 24 milljarðar. Þó að þetta tvennt sé lagt saman þá gerir það ekki nema 73 milljarða kr. eða vel innan við 10% af heildarfjárfestingu landsmanna. Ég get ekki fallist á það, virðulegi forseti, að atvinnugrein, sem skilar svo gífurlega miklum verðmætum inn í þjóðarbúið eins og sjávarútvegurinn hefur gert á undanförnum mörgum áratugum, og er með innan við 10% fjárfestingu landsmanna, sé sá baggi á þjóðfélaginu að menn hrópi: offjárfesting, nánast í öðru hverju orði þegar menn taka sjávarútveg til umræðu.
    Það er ýmislegt fleira sem menn hafa lagt peningana í sem hefur ekki endilega skilað þeim arði sem æskilegt væri. Ég nefni sem dæmi og til samanburðar að fjárfesting í verslunar-, skrifstofu- og gistihúsnæði er um 66 milljarðar kr., eða örlítið minni en í sjávarútvegi. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði er um 256 milljarðar kr. Það er alveg fráleitt að halda því fram að hér sé um að ræða einhverja þá offjárfestingu sem valdi mönnum verulegum erfiðleikum í þjóðfélaginu. Þvert á móti er ég þeirrar skoðunar að arðurinn af þessari atvinnugrein undanfarin 40, 50 ár hafi verið það mikill að hann hafi dugað til þess að byggja upp nútímasamfélag á þessum stutta tíma og nánast úr engu. Það er meira en ég hygg að menn geti fundið dæmi um í erlendum þjóðfélögum, að ein atvinnugrein geti verið slíkur aflgjafi á svo skömmum tíma.
    Þegar atvinnugrein sem er orðin svo skuldseig sem raun bert vitni, m.a. vegna óskynsamlegrar stefnu stjórnvalda fyrir nokkrum árum í gengismálum og vaxtamálum, sem hlaðið hefur upp skuldum umfram allar verðmælingar og vísitöluviðmiðanir sem menn geta náð í, finnst mér ómaklegt af stjórnvöldum að ráðast sérstaklega á þessa atvinnugrein til þess að ná í skatta inn í ríkissjóðinn. Ég hygg að það væri ákaflega fróðlegt að láta reikna út, og það væri mikið þjóðþrifaverkefni að láta einhverja virðulega stofnun reikna það út hver áhrif Sjálfstfl. hafi verið á skuldasöfnun í sjávarútvegi. Ég hygg að það væri forvitnileg niðurstaða sem kæmi úr því ef menn reiknuðu út hvað Sjálfstfl. ber mikla ábyrgð á skuldsetningu sjávarútvegsins, t.d. á árunum 1987--1988, með gengisstefnunni sem þá var

rekin. Ekki verður það minna ef maður bætir við áhrifum af þeim háu vöxtum sem Sjálfstfl. keyrði af stað á árinu 1985, ef ég man rétt. Ég held að það væri mjög verðugt verkefni fyrir Alþingi og þjóðina að láta reikna þetta út svo að menn geti gert sér grein fyrir því hve Sjálfstfl. hefur verið sjávarútveginum og þar með landsbyggðinni dýr.
    Ekkert bólar á hæstv. félmrh., virðulegur forseti. Ég ætlaði sérstaklega að fara yfir þau mál sem lúta að samskiptum ríkis og sveitarfélaga og þá skattlagningu sem stjórnvöld hafa í hyggju á sveitarfélögin. Ég hafði hugsað einnig mér að fara ítarlega yfir áform stjórnvalda í samgöngumálum og þann samdrátt sem menn hafa ákveðið í vegamálum og sérstaklega við gerð jarðganga á Vestfjörðum. Ég mun að sinni ekki fara frekar yfir þessi mál en ég hef gert fram til þessa. Ég hef tækifæri til þess að taka aftur til máls síðar í þessari umræðu og get þá farið ítarlegar yfir einstaka þætti og málaflokka en ég geri hér sem er meira almenn yfirferð yfir þessi mál.
    Ég vil þó láta það koma fram að ég mótmæli harðlega áformum ríkisstjórnarinnar varðandi ríkisábyrgð launa. Ég tel að hér sé ekki um siðlega framkomu að ræða, hvorki í pólitískum skilningi né öðrum. Það er ekki boðlegt að leggja fram hugmyndir af þessu tagi, hvorki fyrir Alþingi né samtök launafólks því hér er um að ræða slíka grundvallarbreytingu að fáir hefðu trúað því að ríkisstjórn með Alþýðuflokkinn, Jafnaðarmannaflokk Íslands, innan borðs mundi leggja fram slíka hryggðarmynd sem sviptir launafólk grundvallarréttindum í þessu þjóðfélagi.
    Ég vil, virðulegi forseti, af því að hér bólar ekkert á hæstv. félmrh., sem ég hefði helst viljað ræða við um þá málaflokka sem lúta að honum í fjárlagafrv., fara að draga saman mitt mál. Ég vænti þess að ráðherrann verði viðstaddur og til áheyrnar í síðari ræðu minni í þessari umfjöllun um fjárlagafrv. ríkisins fyrir árið 1992. Lýk ég þá máli mínu að sinni, virðulegi forseti.