Fjárlög 1992

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 18:52:00 (2416)

     Frsm. meiri hluta fjárln. (Karl Steinar Guðnason) :
     Hæstv. forseti. Ég vil aðeins í nokkrum orðum segja það í framhaldi af ásökunum síðasta ræðumanns að ég hef vísað í minnisblað ríkislögmanns um það hvað hann telur vera rétt í sambandi við kaup á jörðinni Kirkjuferju og Kirkjuferjuhjáleigu en þar kemur fram

að þessi gjörningur er talinn algjörlega ólöglegur. Ég hef einnig sagt að það skiptir ekki máli hver fordæmin eru ef menn gera rangt. Ef menn gera rangt þá hlýtur það að vera rangt, ef það er ólöglegt þá er það ólöglegt og þá á að taka á því sem slíku. Það að gera oft rangt skapar ekki hefðir og gerir ekki hlutinn réttan og á því byggi ég mína skoðun. Þess vegna hefði verið eðlilegast að þetta mál færi fyrir dómstólana, það væri eðlilegast, og að ráðherrar fari ekki að taka sér vald til fjárveitinga þegar engar heimildir liggja fyrir. Eitt er víst að mér er tjáð að lausafé jarða eða húsa hefur ekki áður verið keypt með þessum hætti.