Fjárlög 1992

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 18:55:00 (2417)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Ég mun hér með afhenda hv. 6. þm. Reykn. minnisblað sem ég hef í höndunum, sem ég fékk með eftirgangsmunum hjá landbrn. og þar eru upp talin slík kaup sem fram hafa farið á sl. árum. Ég vona að það verði til . . . ( Gripið fram í: Má ég biðja þig um að lesa það.) Það er óskað eftir að ég lesi það og það skal gert, með leyfi hæstv. forseta: ,,Landbúnaðarráðuneyti 20. desember 1991`` --- þ.e. í dag. ,,Minnisblað til landbrh. frá Jóni Höskuldssyni deildarstjóra. Vegna fyrirspurnar Guðrúnar Helgadóttur alþingismanns til mín í morgun, símleiðis, hef ég tekið saman neðangreint yfirlit yfir kaup (innlausn) á mannvirkjum ábúenda ríkisjarða án ábúðarloka viðkomandi ábúenda, önnur tilvik en Kirkjuferja, Kirkjuferjuhjáleiga. Kaup þessi hafa verið gerð til að forða frekari útgjöldum ríkissjóðs vegna yfirvofandi ábúðarloka viðkomandi aðila eða jarðeignadeild hefur gripið inn í vegna yfirvofandi nauðungarsölu jarðar og þannig verið komið í veg fyrir að ríkissjóður tapaði jörð við sölu á nauðungaruppboði. Ég vil ekki fortaka að til séu eldri tilvik en frá árinu 1986 þar sem naumur tími hefur gefist til að leita sem skyldi.``
    Síðan kemur þessi upptalning frá árunum 1986--1990. Þar eru:
    ,,Stóraheiði í Vestur-Skaftafellssýslu, fjárhús, hlaða.
    Aðalból, Suður-Þingeyjarsýslu, íbúðarhús, hesthús.
    Hraunsmúli, Snæfellsnessýslu, fjárhús, hlaða, vélageymsla, íbúðarhús.
    Neðriþverá, Vestur-Húnavatnssýslu, hlaða.
    Setberg, Snæfellsnessýslu, flatgryfja.
    Kálfholt, Rangárvallasýslu, loðdýrahús o.fl.
    Norðurhlíð, Suður-Þingeyjarsýslu, íbúðarhús, loðdýrahús, fjós, haughús, hlaða, fjárhús, ræktun.``
    Þessu hefur þá hér með verið komið á framfæri. Ég harma að þetta skuli hafa þurft að lesast upp hér á hinu háa Alþingi. Það hafði ég ekki hugsað mér að gera þar sem hér er e.t.v. um viðkvæma hluti að ræða fyrir þá sem áttu í örðugleikum en það verður auðvitað ekki þolað að hv. form. fjárln. Alþingis beri einum fyrrv. ráðherra á brýn að hafa haft lögbrot í frammi í ráðherratíð sinni.