Tekjuskattur og eignarskattur

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 19:19:00 (2423)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) :
     Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er fjallað um um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum, er að okkar dómi í minni hluta efh.- og viðskn. illa undirbúið. Það hefur komið í ljós að ekkert samráð hefur verið haft við aðila vinnumarkaðarins um málið. Í reynd hygg ég að hæstv. fjmrh. geti staðfest að þetta mál er með þeim hætti að það er nánast ekki umfjöllunarhæft á Alþingi.
    Það er ámælisvert í svo mikilvægu máli eins og frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt að menn skuli vera að huga að breytingum á frv. alveg fram á síðustu mínútu.
    Við 1. umr. þessa máls héldum við, sem skipum minni hluta nefndarinnar, því fram að þetta frv. væri meingallað. Við notuðum ekki mjög sterk orð þegar við lýstum því yfir en það kom hins vegar í ljós þegar kallað var á hina ýmsu aðila þjóðfélagins að þeir notuðu miklu sterkari orð en við til að tjá skoðanir sínar. Það segir sína sögu. Við höfum orðið vör við það hér á Alþingi að það hefur lítið verið hlustað á minni hluta Alþingis a.m.k. fram að þessu. Við hljótum því að gera okkar besta til að kalla fram viðbrögð við vanhugsuðum ráðstöfunum. Það höfum við gert í þessu máli og gert okkar besta til þess. Það hefur orðið til þess að meiri hluti Alþingis hefur tekið rökum í nokkrum atriðum en þó alls ekki öllum.
    Ég vil taka það fram að meiri hluti nefndarinnar hefur gert ýmsar breytingar á frv. sem eru til bóta. Og ég vil jafnframt taka það fram að meiri hluti nefndarinnar hefur ekki verið öfundsverður af því hlutskipti að fá þetta frv. í sínar hendur. Ég ætla ekki að saka meiri hluta nefndarinnar um það en sá ráðherra sem ábyrgð ber á málinu, og ég vildi nú gjarnan að hlustaði á mál mitt þó mér sé það ljóst að hann þarf að nýta tímann til að laga það sem hægt er að laga á þeim tiltölulega stutta tíma sem eftir er þings, hlýtur að bera

á því ábyrgð. Það er afar merkilegt í reynd að fulltrúar atvinnulífs á Íslandi skuli þurfa að láta sér detta það í hug að það sé nánast verið að lögfesta í einu tilteknu atriði fjandskap við atvinnulífið. Ég segi fyrir mig að ég vil ekki trúa því að hv. þm. stjórnarflokkanna beri slíkan hug í brjósti. En svo virðist vera að einhverjir innan þeirra raða hafi það afl að þeir geti knúið fram slíka hluti án nokkurs tilgangs. Það er það sem er alvarlegast. Og ef það þarf til til að halda saman ríkisstjórn að lögfesta lagaákvæði sem engu máli skiptir, tilefnislaus ákvæði, þá getur slíkt ríkisstjórnarsamstarf ekki verið mikils virði. Það er e.t.v. það merkilega við það ákvæði sem ég hef hér í huga að það stendur til að lögfesta það í nótt og ég lít svo á að þar með sé verið að lögfesta að ríkisstjórnarsamstarfið standi ekki á mjög heilbrigðum grundvelli.
    Í þessu frv. er fjallað um ýmis atriði. Við í minni hlutanum gerum grein fyrir atriðunum í nál. á þskj. 352 og ég skal reyna að hafa ekki um það mjög langt mál.
    Ég vil í fyrsta lagi nefna eftirstöðvar rekstrartapa. Sú krafa er sett upp að ekki megi yfirfæra rekstrartap í lengri tíma en fimm ár. Þar er um skerðingu að ræða, þar er um afturvirkni að ræða. Við teljum að þetta mál sé alls ekki nægilega undirbúið og það þarfnist betri lögfræðilegs undirbúnings sérstaklega vegna afturvirkni. Hæstv. fjmrh. tjáði mér það fyrir stundu að hann hygðist beita sér fyrir því að brtt. yrði flutt vegna þessa ákvæðis sem mér finnst sjálfsagt að hæstv. fjmrh. geri eða meiri hluti nefndarinnar, þar sem lagt er til að fyrirtækin fái val í fyrningu, ef ég ef skilið hæstv. fjmrh. rétt. Það má segja að sú tillaga mildi þetta mál þótt ég telji að mun betra sé að fella niður þetta fimm ára ákvæði. Val í afskriftum er ekki góð reikningsskilaregla og það hefur verið tilhneiging til þess að nota ávallt skattalegar reglur í reikningsskilum hér á landi. Í sjálfu sér er ekkert sem segir það og því skal það viðurkennt að þessi brtt. hæstv. fjmrh. er til bóta.
    Í þriðja lagi gerum við grein fyrir afstöðu okkar til sjómannaafsláttar. Ég gerði ítarlega grein fyrir skoðunum mínum um ákvæði frv. við 1. umr. málsins. Þar komu fram í grg. furðuleg sjónarmið og hugur til þessara ákvæða sem eiga sér langa sögu í íslenskri skattalöggjöf. Meiri hluti nefndarinnar leggur fram breytingu á þessu ákvæði sem virðist vera samin að mestu leyti í bakherbergjum hér á Alþingi en nefndin, a.m.k. nefndin í heild sinni, kom lítið að því verki en kallaði að sjálfsögðu fyrir sig fulltrúa sjómanna út af þessu máli. Minni hluti nefndarinnar er andvígur því að rýra kjör sjómannastéttarinnar sérstaklega við þessar aðstæður. Ég tel mig ekki þurfa að rökstyðja það. Afli hefur dregist mikið saman og því munu kjör þessarar stéttar rýrna umfram aðrar. Og það er ekkert tilefni til þess að rýra kjör sjómanna sérstaklega með þessum hætti og því mun minni hlutinn greiða atkvæði gegn brtt. meiri hlutans.
    Hæstv. fjmrh. hefur tjáð mér að það standi til að flytja enn eina brtt. í þessu sambandi. Það er vissulega til bóta ef það er til lagfæringar á því sem fyrir er. En ég treysti mér ekki til að greiða atkvæði með þeirri breytingu því það er engin leið að gera sér grein fyrir hvað felst í því og svo virðist vera að enn ein brtt. hafi verið samin í bakherbergjum hér á Alþingi.
    Svona á að sjálfsögðu ekki að vinna að málum. Og það er lágmark að þessi mál séu rædd við viðkomandi stéttir áður en frv. eru lögð hér fram á Alþingi og þau vinnubrögð sem þarna hafa viðgengist eru þeim sem að því hafa staðið til skammar svo ekki sé meira sagt.
    Í fjórða lagi gerum við grein fyrir almennri hækkun tekjuskatts og barnabótum. Það liggur alveg ljóst fyrir að Alþýðusamband Íslands telur að hér sé um skattahækkanir að ræða sem nema 1.200 millj. Fjmrh. hefur ekki sama skilning á því máli, en það liggur alveg ljóst fyrir að þetta atriði málsins mun koma til umfjöllunar í komandi kjarasamningum. Jafnframt er gert ráð fyrir að skerða barnabætur sérstaklega um rúmar 500 millj. kr.

en minni hlutinn er andvígur því að skerða ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna sérstaklega. Við teljum það ekki vera rétta leið við þessar aðstæður að þeir, sem hafa miðlungstekjur og hærri, séu skertir í hlutfalli við barnafjölda. Það var ákveðið af nefndinni að fella niður ákvæði um ríkisskattanefnd. Minni hluti nefndarinnar er sammála því og hefur fallist á að vinna að breytingum á því máli á næsta ári.
    Að síðustu vil ég gera grein fyrir skattalegri meðferð á arði. Ég vildi nú gjarnan, því um það ætla ég ekki að hafa mjög langt mál, biðja hæstv. fjmrh. að hlýða á mál mitt í því sambandi. Það hafa komið fram afarsterk viðbrögð í þessu máli. Viðbrögð sem ekki er hægt að ganga fram hjá. Viðbrögð frá fjármagnsmarkaðnum sem eru svo alvarleg að fjármálaráðherra í hvaða landi sem er hlýtur að taka á sig mikla ábyrgð ef hann hlustar ekki á slíkar viðvaranir. Þessar viðvaranir ganga út á það að menn telja að verið sé að eyðileggja uppbyggingarstarf. Ég ætla ekki að hafa uppi neinar fullyrðingar um það vegna þess að ég þekki ekki nægilega vel til á þessum markaði. En hæstv. fjmrh. verður að svara þessu alvarlega máli. Fjmrh. sem þarf að gangast fyrir sölu á skuldabréfum á þessum sama markaði verður að koma með einhverjar yfirlýsingar sem a.m.k. geta komið meiri ró á markaðinn. Það liggur alveg ljóst fyrir, hæstv. fjmrh., að lífeyrissjóðir landsmanna munu draga mjög úr hlutabréfakaupum í atvinnulífi okkar Íslendinga og telja æskilegra að lána viðkomandi fyrirtækjum. Þessi þróun hefur svo sem verið víðar. Það hefur komið í ljós að þetta hefur gerst í Bandaríkjunum, í því mikla landi kapítalistmans, með þeim afleiðingum að lánsfé hefur farið mjög vaxandi í bandarískum fyrirtækjum með hörmulegum afleiðingum.
    Svona er ekki hægt að standa að málum, hæstv. fjmrh., og ég skil ekki hvaða þráhyggja er hér á ferðinni. Það vita allir að lögfesting á þessu ákvæði og síðan ákvæði til bráðabirgða er eingöngu fallið til að skapa óvissu, ekki til að fá tekjur í ríkissjóð, þá hefði maður nú skilið málið, nei, bara til að skapa óvissu. Það getur ekki verið markmið út af fyrir sig. Ég trúi því ekki á hæstv. fjmrh. að hann hafi nein slík markmið í huga og veit það reyndar. Hann er ekki þeirrar gerðar enda hefur hann verið manna fremstur í flokki í þessu máli hér á Alþingi áður fyrr og beitt sér fyrir mörgu í því máli. Það vildi svo til að á síðasta Alþingi var hann hér í minni hluta og þá var sú tíð, hæstv. fjmrh., að það var stundum hlustað á minni hlutann. Og það var stundum tekið til greina ef hann hafði eitthvað skynsamlegt fram að færa. Nú virðist sem sú tíð sé liðin, hæstv. fjmrh. Ég býst við því að hæstv. fjmrh. geti fallist á að það sé skynsamlegt að falla frá þessu. Og ég veit að hann er þeirrar skoðunar. En það verður að gefa þjóðfélaginu einhverjar skýringar á því hvers vegna þarf að lögfesta óljósan samning milli stjórnarflokkanna. Er það til þess að ríkisstjórnin hangi saman fram yfir áramót? Er þá ekki betra að lofa henni að springa? Og ef ríkisstjórn springur út af svona litlu máli þá er hún vart þess virði að hún hangi saman. Ég trúi því vart að hv. stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar telji það einhverja áhættu að fella þessa vitleysu. Því ef einhverjir aðilar vilja rjúfa stjórnarsamstarf út af svona máli þá væri það heimsmet og með ólíkindum ef einhverjir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands ætla að standa upp úr ríkisstjórninni vegna þess að þessi vitleysa hefði verið felld.
    Framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins sagði að svo virtist vera að það ætti að lögfesta brandara. ( Gripið fram í: Lélegan brandara.) Já, meira að segja lélegan brandara. En þetta er enginn brandari, hæstv. fjmrh. Þetta eru alvarleg mál. Og það þýðir ekki að láta eitthvert skilningslaust fólk, sem botnar ekki upp né niður í þessu, ráða því hvernig með þetta er farið. Og ef menn ættu nú einhvern tímann að fara að samvisku sinni í atkvæðagreiðslu þá væri það í svona máli sem liggur beint við að er rökrétt að fella. Ég teldi það vera mikilvægt að hæstv. fjmrh. sýndi að hann gæti tekið rökum í þessu máli eins og ýmsum öðrum og léti bara á þetta reyna og stæði hér upp og lýsti því yfir að hann ætlaði ekki að samþykkja þessar brtt. því mér skilst að hæstv. fjmrh. ætli hvort eð er að kynna nýjar brtt. hér á eftir. Ég held að það væri þá rétt af hæstv. fjmrh. að bæta þarna einni við. Ég skal meira að segja hjálpa honum að semja hana. Það mun taka mjög litla stund. Þó að hæstv. fjmrh. hafi ekki leitað til þess sem hér stendur við að semja þær brtt. sem hann er nú með þá treysti ég mér vel til að hjálpa honum við þessa. ( Fjmrh.: Ég á það bara inni.) Það er nefnilega ekki nægilegt, hæstv. fjmrh., að eiga þetta inni því þá er það orðið of seint.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta mikið lengra mál. Það er alveg ljóst að samþykkt þessa frv. mun ekki greiða fyrir lausn kjarasamninga. Það eru mörg ákvæði þess efnis að helstu launþegasamtök landsins geta ekki stutt málið. Það varðar barnabótamálið sem er að mínu mati mjög alvarlegt, það varðar persónuafsláttinn og það varðar jafnframt vinnuveitendur sem hafa lýst andstöðu við mikilvægar breytingar. Það veit ekki á gott að samþykkja slíkt frv. í miðjum samningum. En ríkisstjórnin hefur kosið að gera það en ég spái að svo geti farið að ríkisstjórnin muni koma með nýjar brtt. á nýju ári. Ekki verði bara fluttar brtt. á síðustu mínútum. Menn þurfi líka að koma með brtt. í næsta mánuði og má vera að einhverjir taki rökum þá eftir að hafa sofið yfir jólin. Vel má vera að vandamálið í þessu öllu saman sé svefnleysi ríkisstjórnarinnar. Ég vil trúa því að eitthvað skynsamlegt muni koma frá hæstv. fjmrh. eftir að hann hefur fengið meiri svefn. Ég veit að mikið hefur mætt á honum undanfarið og það er ekki vel gert svona rétt fyrir jólin að lesa þetta yfir honum en það verður ekki komist hjá því og ég veit að hæstv. fjmrh. hefur á því fullan skilning.
    Í nál. okkar kemur fram að lokum að við teljum rétt að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar og ég vil lesa upp lokaorðin sem eru þessi, með leyfi hæstv. forseta: Umfjöllun í máli þessu er staðfesting á því að ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar taka ekki rökum. Þetta er nú e.t.v. einum of mikið sagt því það hefur komið fyrir að ríkisstjórnin hefur tekið rökum. ( Fjmrh.: Léstu prenta þingskjalið upp?) Ég tel nóg að veikja þetta aðeins í framsögu, hæstv. fjmrh. Ég vil taka það fram að ég hafði ekki leyfi annarra nefndarmanna til að veikja þessa setningu með þessum hætti en ég veit að mér verður það fyrirgefið. ,,Öll umfjöllun er staðfesting á þeim málflutningi stjórnarandstöðunnar á þessu hausti að ríkisstjórnin hafi engan vilja til að taka tillit til minni hlutans og rökstuddra skoðana sem fram koma af hálfu aðila vinnumarkaðarins.`` Þetta eru stór orð en við teljum okkur hafa fulla ástæðu til að setja þau fram, hæstv. fjmrh.
    ,,Þótt minni hluti nefndarinnar hafi að vísu takmarkað traust á því að ríkisstjórnin muni undirbúa þetta mál betur vill hann samt gera henni kleift að bæta ráð sitt. Í þeirri von að frv. verði lagt fram að nýju á næsta ári í umfjöllunarhæfu formi leggur minni hluti nefndarinnar til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.`` Ég vænti þess að þetta verði a.m.k. til þess að hæstv. fjmrh. komi með einhverja skynsamlegar brtt. á næsta ári.