Tekjuskattur og eignarskattur

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 20:57:00 (2429)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svarið. Að því er varðar sjómannafrádráttinn þá vil ég minna á að nú er búið að leggja fram brtt. tvisvar og alltaf er útkoman sú sama í tekjuútreikningum fjmrn. Við spurðum um það í nefndinni hvort það væri hægt að treysta á útreikningana og báðum um að fá að fara frekar ofan í þá. Okkur var sagt að það væri

að sjálfsögðu engin vissa fyrir því en það væri allt sem benti til þess að þessir 260 dagar mundu skila þessum tekjum. Nú er okkur sagt að það sé allt sem bendi til þess að 245 dagar skili þessum tekjum. Ef þeir skila ekki þessum tekjum, segir í tillögunni mun reglum verða breytt. Þá mun því verða náð inn aftur. Þetta eru ekki góð vinnubrögð, hæstv. fjmrh.
    Ég vil minna hæstv. fjmrh. á að þótt uppi kunni að vera það sjónarmið að fyrirtækin verði að leggja eitthvað af mörkum, sem ég get tekið undir, þá er það staðreynd við þessar aðstæður þegar atvinnulífið er nánast að fara á hliðina að mikilvægast er að fyrirtækin gangi þannig að það sé full atvinna í landinu og það er skammsýni þegar því er haldið fram að það eigi að leggja á þessi fyrirtæki nánast til þess að þau fari á hliðina. Það sem hæstv. fjmrh. sagði er ekki nægilegt til að eyða óvissu að mínu mati. Það eru fullnægjandi svör en óvissan stendur áfram. Hann segir að það eigi að koma með frv. á vorþingi. Gott og vel, en það er svo tilgangslaust að leggja þetta til, hæstv. fjmrh., það skapar aðeins óvissu, það hefur skapað óvissu og það hefur spillt þessum markaði. Ég á ekki von á því að það hafi verið hugmyndin en niðurstaðan er sú og yfirlýsingar hæstv. fjmrh. breyta því miður ekki þeirri staðreynd.