Tekjuskattur og eignarskattur

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 21:07:00 (2434)

     Steingrímur J. Sigfússon :     
    Já, herra forseti, ég ætlaði þá aðeins að bæta við umfjöllun um þessa skattlagningu fyrirtækjanna sem hæstv. fjmrh. er hér að baksa við að verja. Staðreyndin er auðvitað sú, hvort við myljum það með okkur lengur eða skemur, að flestum ber saman um að kák hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum sé þegar búið að baka heilmikil vandræði og skapa hér óvissu að óþörfu, fullkomlega óþörfu og tilefnislausu. Við hefðum fagnað því held ég hér á hv. Alþingi og enginn meira en ræðumaður ef hæstv. ríkisstjórn hefði lagt hér inn myndarlegan tillöguflutning um heildarsamræmingu skattreglna um fjármagnstekjur og um arð af hlutabréfum. En því miður er engu slíku fyrir að fara. Og þeir sem til þekkja á þessum óburðuga íslenska hlutabréfamarkaði, ef svo má að orði komast, sem er hér að sögn að slíta barnsskónum og ræðumaður er nú ekkert sérlega vel að sér um, segja ósköp einfaldlega a.m.k. hálfur skaði sé þegar skeður með þeirri auglýsingu hæstv. ríkisstjórnar út í þjóðfélagið að til hafi staðið að gera skattalega meðferð arðgreiðslna óhagstæðari heldur en aðrar tekjur af fjármagni. Og þess vegna breytir kannski ekki svo mjög miklu úr þessu með hvaða hætti hæstv. ríkisstjórn klúðrar þessu hér saman að lokum. Ég er ekki viss um að það breyti svo mjög miklu úr því sem komið er. En það hafa farið út í þjóðfélagið til þeirra sem eru eitthvað að velta fyrir sér hvernig þeir ráðstafa sínum sparnaði, skilaboð sem eru vægast sagt ekki mjög hvetjandi til þess að menn leggi frekar fé í hlutabréf heldur en t.d. í skuldabréf, ríkisskuldabréf eða leggi slíka peninga inn á bók. Hættan er sú að við lendum í svipaðri stöðu og Bandaríkjamenn t.d. á síðasta áratug en þá var skattaleg meðferð þannig að fjármagnið leitaði ekki í hlutabréf eða aukningu á eigin fé fyrirtækjanna heldur var það beinlínis hagstæðara fyrirtækjunum að sækja sér fjármagn með skuldabréfaútgáfu. Og afleiðingin varð sú að fyrirtækin veiktust, urðu skuldsettari og skuldsettari og menn vöknuðu upp við mjög vondan draum eins og allir þekkja.
    Herra forseti. Hæstv. fjmrh. verður auðvitað að vera hreinskilinn við okkur eins og við öll hin og viðurkenna það að þetta er eitt allsherjar klúður hjá hæstv. ríkisstjórn, alveg hreint dapurlegt. Og lang, lang gáfulegasta leiðin út úr ógöngunum er að fresta öllum þessum áformum og þá meina ég með því að fella þessa mislukkuðu bráðabirgðaákvæðistillögu en síðan á hæstv. fjmrh. að drífa sig í gang og koma með myndarlegan pakka hérna inn í þingið t.d. í febrúar og við skulum vinna alveg linnulaust með honum hérna í efh.- og viðskn. til að koma á á Íslandi fyrir vorið myndarlegri og heildstæðri skattalöggjöf þar sem tekið er með farsælum hætti á þessum málum, þessu stóra gati í okkar skattkerfi sem lýtur að eðlilegri og sanngjarnri skattalegri meðferð arðs af fé og hlutabréfum. Ég er þeirrar skoðunar að það sé réttlætanlegt að hafa skattlagningarþakið eða þrepið gagnvart arði af hlutabréfum eftir atvikum ívið hagstæðara heldur en af öðrum fjármagnstekjum. Ég tel margt mæla með því. Ég væri t.d. tilbúin til þess að slíkar reglur gagnvart eiginlegum almenningshlutafélögum væru þannig að þær væru eftir atvikum hvetjandi til þess. Við Íslendingar þurfum auðvitað á því að halda að það verði uppbygging í okkar atvinnulífi og einnig á þessu sviði.
    Að lokum er svo eitt, herra forseti, sem ræðumaður getur ekki neitað sér um að nefna úr því að hann er aldrei þessu vant kominn í þennan ræðustól. Og ræskir nú forseti sig af einhverjum ástæðum. Það er auðvitað hin kostulega þverstæða í málflutningi hæstv. ríkisstjórnar sem flaggar hér einkavæðingu og ætlar að fara að selja ríkisfyrirtæki og sum á hálfvirði samanber morgunrutlsákvörðun eða tilkynningu hæstv. fjmrh. þegar hann var illa vaknaður hérna einn morguninn og missti það út úr sér að hann ætlaði að selja Búnaðarbankann á hálfvirði. Hvernig heldur hæstv. fjmrh. að það fari saman að boða það að skattaleg meðferð arðs af hlutabréfum verði gerð stórlega óhagstæðari, auglýsa það alveg sérstaklega út í þjóðfélagið en á sama tíma að vera að tala um í fjármagnssoltnu þjóðfélagi eins og Ísland er í dag að ætla að fara að dæla út hlutabréfum í ríkisfyrirtækjum. Allt eins þó þau verði seld á undirboðsverði. Það er eins og hæstv. fjmrh., sem ég hélt að ætti að þekkja til á þessum markaði, viti bara alls ekki hvar hann er staddur, hafi lent í einhverri reginþoku og sé bara þar að sveima. Veit t.d. hæstv. fjmrh. ekki að allmörg stórfyrirtæki í landinu liggja með ákvarðanir aðalfunda sinna um hlutafjárútboð óvirk? Hvers vegna? Vegna þess að íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur verið að þorna upp og lokast praktíst talað síðustu mánuðina. Það vill t.d. svo til að sá sem hér talar nauðaþekkir málefni fyrirtækisins Flugleiða hf., af því að það var hans embætti um tíma að vita hvað var að gerast í samgöngumálum í landinu. Það var þannig að á aðalfundi Flugleiða hinum síðasta var flutt m.a. söguleg fjallskilaræða þar sem þáv. stjórnarformaður fyrirtækisins gerði upp við kolkrabbann. Þá var tekin ákvörðun um að bjóða út geysimikið hlutafé í þessu mikla fyrirtæki Flugleiðum. Ég hef ekki orðið var við að þau væru seld. Vita menn hvers vegna? Vegna þess að verð á bréfum Flugleiða hefur farið lækkandi og það er alveg augljóst mál að ef Flugleiðir dældu eitt þúsund milljón króna verðmæti af hlutafé hér út á markaðinn þá mundu þau enn lækka. Staðan er auðvitað þannig í dag á þessum litla hlutabréfamarkaði sem manni er sagt að sé til hér einhvers staðar svona í skúffum að þetta

verkar sem --- ég verð að taka undir það með framkvæmdastjóra VSÍ --- sem lélegur brandari allt sem hæstv. ríkisstjórn er hér að gera. Og ég held að það ætti nú að minnsta kosti að draga einkavæðingarfána ríkisstjórnarinnar í hálfa stöng núna í tilefni af því ef þessi vitleysa verður samþykkt sem hér liggur fyrir í brtt.